Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Fús til að þjóna Jehóva hvar sem er

Fús til að þjóna Jehóva hvar sem er

Ég hafði aldrei áður boðað trúna einn. Ég var svo taugaóstyrkur að ég skalf á fótunum í hvert sinn sem ég fór út í starfið. Til að bæta gráu ofan á svart var fólk algerlega áhugalaust. Sumir voru hreinlega herskáir og hótuðu að berja mig. Ég dreifði aðeins einum bæklingi fyrsta mánuðinn sem ég var brautryðjandi. – Markus.

ÞETTA var árið 1949, fyrir meira en 60 árum, en saga mín hefst löngu fyrr. Hendrik, faðir minn, vann sem skósmiður og garðyrkjumaður í Donderen sem er lítið þorp í norðurhluta Drenthe í Hollandi. Ég fæddist þar árið 1927, sá fjórði í röðinni af sjö börnum. Húsið okkar stóð við malarveg úti í sveit. Flestir af nágrönnum okkar voru bændur og mér leið vel í sveitinni. Ég kynntist sannleikanum árið 1947 af Theunis Been sem var nágranni okkar. Ég var þá 19 ára. Ég man að mér var ekkert um Theunis gefið í fyrstu, en skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina gerðist hann vottur Jehóva og ég tók þá eftir að hann var miklu vingjarnlegri en áður. Þessi breyting vakti forvitni mína þannig að ég hlustaði þegar hann sagði mér að Guð lofaði okkur paradís á jörð. Ég tók fljótt við sannleikanum og við urðum lífstíðarvinir. *

Ég byrjaði að boða trúna í maí 1948 og lét skírast á móti í Utrecht í mánuðinum á eftir, hinn 20. júní. Ég gerðist brautryðjandi 1. janúar 1949 og var falið að starfa í Borculo í austurhluta Hollands en þar var lítill söfnuður. Ég ákvað að hjóla þangað, um 130 kílómetra leið, og hélt að það myndi taka um 6 tíma. En það var úrhellisrigning og hvass mótvindur og ferðalagið tók 12 klukkustundir. Þó hafði ég ferðast með lest síðustu 90 kílómetrana. Seint um kvöldið komst ég loks á leiðarenda. Ég var til húsa hjá fjölskyldu í söfnuðinum meðan ég var brautryðjandi á svæðinu.

Fólk átti ekki mikið á fyrstu árunum eftir stríðið. Það eina sem ég átti voru ein jakkaföt og buxur. Jakkafötin voru of stór og buxurnar of stuttar. Eins og ég sagði í byrjun voru fyrstu mánuðirnir í Borculo fremur erfiðir en Jehóva blessaði starf mitt og ég gat haldið nokkur biblíunámskeið. Eftir að ég hafði verið þar í níu mánuði var ég sendur til Amsterdam.

ÚR SVEIT Í BORG

Ég hafði alist upp í sveit þannig að það voru mikil viðbrigði að búa allt í einu í Amsterdam, stærstu borg Hollands. Boðunin gekk mjög vel. Fyrsta mánuðinn dreifði ég fleiri ritum en ég hafði dreift samanlagt síðustu níu mánuðina á undan. Áður en langt um leið var ég með átta biblíunámskeið í gangi. Eftir að ég var útnefndur safnaðarþjónn (nú kallað umsjónarmaður öldungaráðsins) fékk ég það verkefni að flytja opinberan fyrirlestur í fyrsta sinn. Mér hraus vægast sagt hugur við því þannig að mér létti stórum þegar ég var sendur til annars safnaðar rétt áður en ég átti að flytja ræðuna. Ekki óraði mig fyrir að ég ætti eftir að flytja meira en 5.000 fyrirlestra á langri ævi.

Markus (lengst til hægri) boðar trúna á götu í grennd við Amsterdam árið 1950.

Í maí 1950 var ég sendur til Haarlem til að starfa þar. Eftir það var mér boðið að gerast farandhirðir. Mér kom varla dúr á auga í þrjá sólarhringa. Ég sagði Robert Winkler, sem starfaði á deildarskrifstofunni, að mér fyndist ég ekki hæfur til þessa starfs en hann svaraði: „Fylltu bara út pappírana, þú lærir.“ Ég fékk þjálfun um mánaðar skeið og tók síðan að starfa sem farandhirðir. Í einum af söfnuðunum, sem ég heimsótti, hitti ég Janny Taatgen. Hún var glaðlyndur brautryðjandi, fórnfús og elskaði Jehóva innilega. Við giftum okkur árið 1955. En áður en ég held sögunni áfram ætlar Janny að segja frá hvernig það bar til að hún gerðist brautryðjandi og hvernig við kynntumst.

VIÐ ÞJÓNUM JEHÓVA SAMAN

Janny: Mamma gerðist vottur árið 1945 en ég var þá 11 ára. Hún gerði sér strax grein fyrir að hún þyrfti að kenna okkur systkinunum þrem. Pabbi var andvígur sannleikanum þannig að hún notaði tækifærið til að kenna okkur þegar hann var að heiman.

Fyrsta samkoman, sem ég sótti, var mót í Haag. Það var árið 1950. Viku seinna sótti ég samkomu í fyrsta sinn í ríkissalnum heima í Assen (Drenthe). Pabbi var ævareiður og rak mig á dyr. „Þú veist hvert þú getur farið,“ sagði mamma og ég vissi að hún átti við trúsystkini mín. Fyrst fékk ég inni hjá fjölskyldu í söfnuðinum sem bjó í grenndinni. Pabbi gerði mér þó erfitt fyrir þannig að ég flutti til safnaðarins í Deventer (Overijssel) en þangað voru um 95 kílómetrar. Yfirvöldin höfðu afskipti af pabba þar sem hann hafði rekið mig að heiman þó að ég væri undir lögaldri. Pabbi sagði mér þá að ég mætti koma heim aftur og leyfði mér með tímanum að sækja allar samkomur og boða trúna. Hann tók þó aldrei við sannleikanum.

Janny (lengst til hægri) sem frítímabrautryðjandi árið 1952.

Mamma veiktist alvarlega skömmu eftir að ég kom heim aftur og ég þurfti að annast heimilið. Þrátt fyrir það hélt ég áfram að styrkja tengslin við Jehóva. Ég lét skírast árið 1951, þá 17 ára. Árið 1952, eftir að mamma var búin að ná sér, starfaði ég í tvo mánuði sem frítíma- eða aðstoðarbrautryðjandi ásamt þrem brautryðjandasystrum. Við bjuggum í húsbáti og boðuðum trúna í tveim bæjum í Drenthe. Ég gerðist brautryðjandi árið 1953. Ári síðar heimsótti ungur farandhirðir söfnuðinn. Það var Markus. Við giftumst í maí 1955 því að okkur fannst við geta þjónað Jehóva betur sem hjón. – Préd. 4:9-12.

Á brúðkaupsdeginum árið 1955.

Markus: Fyrst eftir að við giftumst störfuðum við sem brautryðjendur í Veendam (Groningen). Við bjuggum í pínulitlu herbergi. Það var ekki nema tveir sinnum þrír metrar að stærð en Janny tókst samt að gera það hlýlegt og notalegt. Á hverju kvöldi þurftum við að færa borðið ásamt tveim litlum stólum til að búa til pláss fyrir fellirúmið.

Eftir hálft ár vorum við beðin að taka að okkur farandstarf í Belgíu. Árið 1955 voru ekki nema 4.000 boðberar í landinu. Núna eru þeir orðnir sexfalt fleiri. Í Flæmingjalandi í norðurhluta Belgíu er töluð hollenska. En mállýskan er harla ólík og það tók sinn tíma að venjast henni.

Janny: Það kallar á fórnfýsi að vera í farandstarfi. Við hjóluðum milli safnaða og gistum hjá bræðrum og systrum. Við áttum ekkert heimili til að vera á milli heimsókna þannig að við bjuggum hjá gestgjöfum okkar fram á þriðjudag og héldum þá til næsta safnaðar. En við litum alltaf á þjónustu okkar sem blessun frá Jehóva.

Markus: Í byrjun þekktum við engan í söfnuðunum sem við heimsóttum en bræður og systur voru samt einstaklega hlýleg og gestrisin. (Hebr. 13:2) Á árabili heimsóttum við alla hollenskumælandi söfnuði í Belgíu nokkrum sinnum. Það veitti okkur mikla gleði. Til dæmis kynntumst við næstum öllum bræðrum okkar og systrum á hollenskumælandi svæðinu og þau urðu okkur mjög kær. Við höfum séð hundruð barna vaxa úr grasi, eignast sterkt samband við Jehóva, vígjast honum og nota krafta sína í þjónustu hans. Það er gleðilegt að sjá mörg þeirra þjóna Jehóva dyggilega í fullu starfi. (3. Jóh. 4) Við höfum „uppörvast saman“ og fyrir vikið hefur okkur þótt auðvelt að þjóna Jehóva af heilu hjarta. – Rómv. 1:12.

MIKIL ÁSKORUN OG ÓSVIKIN BLESSUN

Markus: Okkur dreymdi um að sækja Gíleaðskólann allt frá því að við giftum okkur. Við notuðum að minnsta kosti klukkutíma á dag til að læra ensku. En það var enginn hægðarleikur að læra málið af bókum þannig að við ákváðum að eyða sumarfríi á Englandi og æfa okkur í enskunni þegar við boðuðum fagnaðarerindið þar. Árið 1963 barst okkur loksins umslag frá aðalstöðvunum í Brooklyn. Í því voru tvö bréf, annað til mín og hitt til Jannyar. Mér var boðið að sækja tíu mánaða námskeið við Gíleaðskólann. Námskeiðið var fyrst og fremst ætlað bræðrum og lögð yrði áhersla á umsjón með starfsemi safnaðanna. Hundrað nemendur sóttu námskeiðið, þar af 82 bræður.

Janny: Í bréfinu, sem ég fékk þennan dag, var ég beðin um að íhuga og ræða við Jehóva í bæn hvort ég væri fús til að vera áfram í Belgíu meðan Markus sækti Gíleaðskólann. Ég verð að viðurkenna að ég var vonsvikin í fyrstu. Það var engu líkara en að Jehóva hefði ekki blessað það sem ég hafði lagt á mig. En ég minnti mig á að markmiðið með starfsemi Gíleaðskólans væri að stuðla að því að fagnaðarerindið væri boðað um allan heim. Ég féllst því á að halda kyrru fyrir í Belgíu. Mér var falið að starfa sem sérbrautryðjandi í borginni Ghent ásamt tveim reyndum sérbrautryðjendum, þeim Önnu og Mariu Colpaert.

Markus: Ég þurfti að bæta enskukunnáttuna þannig að mér var boðið að koma til Brooklyn fimm mánuðum áður en skólinn átti að hefjast. Þar vann ég í flutningadeildinni og þjónustudeildinni. Ég fann betur fyrir því að ég tilheyrði alþjóðlegu bræðralagi með því að starfa við aðalstöðvarnar og taka til ritasendingar til Asíu, Evrópu og Suður-Ameríku. Ég man vel eftir bróður A. H. Macmillan en hann hafði verið pílagrímur (farandumsjónarmaður) á dögum bróður Russells. Hann var orðinn aldraður og heyrði mjög illa. Engu að síður sótti hann allar safnaðarsamkomur dyggilega. Það hafði sterk áhrif á mig og minnti mig á að maður ætti aldrei að líta á samkomurnar sem sjálfsagðan hlut. – Hebr. 10:24, 25.

Janny: Við Markus skrifuðumst á nokkrum sinnum í viku. Við söknuðum hvort annars sárlega. En Markus hafði ánægju af náminu í Gíleaðskólanum og boðunin veitti mér mikla gleði. Ég var með 17 biblíunámskeið í gangi þegar Markus kom heim frá Bandaríkjunum. Það var ekki auðvelt fyrir okkur að vera aðskilin í 15 mánuði en ég sá greinilega að Jehóva blessaði okkur fyrir fórnfýsina. Flugvélinni seinkaði um nokkrar klukkustundir daginn sem Markus kom heim, og þegar hann loksins kom féllumst við í faðma og grétum. Við höfum verið óaðskiljanleg síðan.

ÞAKKLÁT FYRIR ÖLL VERKEFNIN Í ÞJÓNUSTU JEHÓVA

Markus: Við störfuðum á Betel eftir að ég kom heim frá Gíleað í desember 1964. En það reyndist ekki vera til frambúðar þó að við vissum það ekki þá stundina. Það liðu ekki nema þrír mánuðir þangað til ég var beðinn um að starfa sem umdæmishirðir í Flæmingjalandi. Þegar Aalzen og Els Wiegersma voru send sem trúboðar til Belgíu tók hann við starfi umdæmishirðis og við snerum aftur á Betel þar sem ég starfaði á þjónustudeildinni. Á árabilinu 1968 til 1980 störfuðum við ýmist á Betel eða í farandstarfi. Ég var skipaður umdæmishirðir á ný árið 1980 og var það til 2005.

Þótt við værum oft færð til í starfi misstum við aldrei sjónar á því að við höfðum vígt okkur Jehóva af heilum hug. Við höfðum ánægju af öllum þeim verkefnum sem við fengum og þegar við vorum færð til í starfi treystum við að það væri alltaf gert í þágu fagnaðarerindisins.

Janny: Mér þótti mjög gaman að fá að fara með Markusi til Brooklyn árið 1977 og til Patterson árið 1997 þegar hann sótti námskeið þar vegna starfa í deildarnefndinni.

JEHÓVA VEIT HVERS VIÐ ÞÖRFNUMST

Markus: Janny gekkst undir skurðaðgerð árið 1982 og náði sér vel. Þrem árum síðar bauð söfnuðurinn í Louvain okkur að búa í íbúð fyrir ofan ríkissalinn. Við áttum okkur nú fastan samastað í fyrsta sinn í 30 ár. Þegar við lögðum af stað til að heimsækja söfnuð á þriðjudögum þurfti ég að fara nokkrum sinnum upp og niður 54 tröppur til að koma farangrinum okkar niður. Við vorum mjög ánægð að fá íbúð á jarðhæð árið 2002. Þegar ég var 78 ára vorum við útnefnd sérbrautryðjendur í bænum Lokeren. Við erum ákaflega þakklát fyrir að geta þjónað Jehóva með þessum hætti og vera enn þá fær um að fara út í starfið á hverjum degi.

„Við erum sannfærð um að það skipti ekki máli hvar við þjónum eða við hvað heldur hverjum við þjónum.“

Janny: Samanlagt erum við búin að þjóna Jehóva í fullu starfi í rúm 120 ár. Jehóva hefur svo sannarlega staðið við það loforð sitt að ,yfirgefa okkur ekki‘ og að okkur ,skorti ekki neitt‘ ef við þjónum honum dyggilega. – Hebr. 13:5; 5. Mós. 2:7.

Markus: Við vígðumst Jehóva ung að árum. Við höfum aldrei ætlað okkur stóra hluti. Við höfum verið fús til að taka að okkur hvaða verkefni sem við höfum verið beðin um vegna þess að við erum sannfærð um að það skipti ekki máli hvar við þjónum eða við hvað heldur hverjum við þjónum.

^ Foreldrar mínir, eldri systir og tveir bræður urðu líka vottar með tímanum.