Foreldrar – kennið börnunum frá unga aldri
„SYNIR eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurlífsins er umbun,“ segir í Biblíunni. (Sálm. 127:3) Það er eðlilega mikið fagnaðarefni fyrir kristna foreldra þegar barn fæðist.
En gleðinni fylgir líka alvarleg ábyrgð. Barnið þarf að fá næringarríka fæðu reglulega til að verða hraust og heilbrigt þegar það nær fullorðinsaldri. Barnið þarf líka að fá andlega næringu. Foreldrarnir þurfa að kenna barninu meginreglur Jehóva svo að það eignist sterkt samband við hann. (Orðskv. 1:8) Hvenær ætti kennslan að byrja og hvað ætti að felast í henni?
FORELDRAR ÞURFA LEIÐBEININGAR
Í Biblíunni segir frá manni sem hét Manóa. Hann var af ætt Dans og bjó í bænum Sorea í Ísrael forðum daga. Engill Jehóva sagði eiginkonu hans að hún myndi fæða son en hún hafði ekki getað eignast barn fram að því. (Dóm. 13:2, 3) Þau hjónin voru eflaust yfir sig glöð að eiga þetta í vændum. En þau höfðu líka vissar áhyggjur. Manóa bað því til Guðs: „Æ, herra, láttu guðsmanninn, sem þú sendir, koma til okkar aftur svo að hann geti kennt okkur hvernig við eigum að fara með sveininn sem á að fæðast.“ (Dóm. 13:8) Manóa og eiginkona hans veltu fyrir sér hvernig þau ættu að ala drenginn upp. Þau hafa ábyggilega kennt syni sínum lög Guðs og það virðist hafa skilað góðum árangri. „Andi Drottins tók að hreyfa við honum,“ segir í Biblíunni. Samson varð einn af dómurum Ísraels og vann mörg máttarverk. – Dóm. 13:25; 14:5, 6; 15:14, 15.
Hvenær ættu foreldrar að hefja kennsluna? Í Biblíunni segir að Tímóteus hafi „frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar“ en það voru Evnike, móðir hans, og Lóis, amma hans, sem kenndu honum. (2. Tím. 1:5; 3:15) Já, þær notuðu orð Guðs til að kenna Tímóteusi frá unga aldri.
Það er viturlegt af kristnum foreldrum að biðja Jehóva um leiðsögn og leggja drög að því að kenna barninu frá unga aldri. „Áform hins iðjusama færa arð,“ segir í Orðskviðunum 21:5. Foreldrarnir búa sig áreiðanlega undir að barnið komi í heiminn og skrifa jafnvel lista yfir það sem þarf að vera tiltækt þegar það fæðist. Það er einnig mikilvægt að þau búi sig undir að fræða barnið um Jehóva. Það ætti að vera markmið þeirra að hefja kennsluna sem allra fyrst.
Í bók um barnauppeldi segir: „Heilinn þroskast hratt á fyrstu mánuðunum eftir fæðingu. Taugamótum fjölgar tuttugufalt á þessu tímabili en þau gera barninu kleift að læra.“ (Early Childhood Counts – A Programming Guide on Early Childhood Care for Development) Það er skynsamlegt af foreldrum að notfæra sér þann vitsmunaþroska sem á sér stað á þessu stutta tímabili og byrja að uppfræða barnið um Jehóva og leiðbeiningar hans.
Móðir, sem er brautryðjandi, segir um unga dóttur sína: „Ég hef tekið hana með mér í boðunarstarfið síðan hún var mánaðargömul. Þó að hún skildi ekki hvað við vorum að gera held ég að það hafi haft góð áhrif á hana að kynnast boðuninni svona snemma. Tveggja ára var hún ófeimin að bjóða smárit í boðunarstarfinu.“
Það skilar góðum árangri að byrja snemma að kenna börnunum. En foreldrar vita líka að það er ekki alltaf auðvelt að fræða börnin um andlegu málin.
NOTIÐ HVERJA STUND
Það getur verið þrautin þyngri fyrir foreldrana að kenna börnunum því að þau eru oft eirðarlaus og einbeitingin endist stutt. Ung börn láta truflast auðveldlega. Þau eru forvitin að eðlisfari og eru að reyna að kanna umheiminn. Hvað geta foreldrar gert til að hjálpa barninu að einbeita sér að því sem þeir eru að reyna að kenna?
Móse hafði sitthvað um það að segja. Í 5. Mósebók 6:6, 7 stendur: „Þessi orð, sem ég boða þér í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum. Þú skalt hafa þau yfir þegar þú situr heima og þegar þú ert á faraldsfæti, þegar þú leggst til svefns og þegar þú ferð á fætur.“ Orðasambandið „brýna fyrir“ merkir að kenna með tíðum endurtekningum. Lítið barn er eins og ungt tré sem þarf að vökva reglulega. Úr því að endurtekning hjálpar fullorðnum að muna mikilvæga hluti hlýtur hún að hjálpa ungum börnum líka.
Foreldrar þurfa að vera með börnunum til að kenna þeim sannleikann frá Guði. Í þeim hraða, sem einkennir nútímann, er hægara sagt en gert að finna stundir til þess. Páll postuli mælti með að kristnir menn ,notuðu hverja stund‘ til að sinna biblíulegum skyldum sínum. (Ef. 5:15, 16) Hvernig er það hægt? Þetta var ekki auðvelt fyrir föður sem er öldungur í söfnuðinum en eiginkonan er brautryðjandi. Hvernig gat hann fundið rétta jafnvægið milli þess að ala upp dótturina, sinna störfum sínum í söfnuðinum og vinna fyrir fjölskyldunni? Hvernig gátu þau tekið sér tíma til að kenna dóttur sinni? Faðirinn segir: „Á hverjum morgni áður en ég fer í vinnuna lesum við hjónin fyrir hana í Biblíusögubókinni minni eða bæklingnum Rannsökum daglega ritningarnar.“ Við lesum fyrir hana á kvöldin fyrir háttinn og við tökum hana með þegar við boðum trúna. Við viljum ekki láta fyrstu æviár hennar fara fram hjá okkur.“
,SYNIR ERU EINS OG ÖRVAR‘
Við viljum auðvitað að börnin okkar verði ábyrgir einstaklingar þegar þau vaxa úr grasi. Umfram allt viljum við þó kenna þeim að elska Guð af öllu hjarta. – Mark. 12:28-30.
Í Sálmi 127:4 segir: „Eins og örvar í hendi kappans eru synir getnir í æsku.“ Börnum er hér líkt við örvar sem þarf að miða af nákvæmni svo að þær hæfi í mark. Bogmaður getur ekki afturkallað örina eftir að hún er flogin af stað. Foreldrarnir hafa „örvarnar“, það er að segja börnin, aðeins í fremur stuttan tíma. Þeir þurfa að nota þennan tíma vel til að hjálpa börnunum að tileinka sér meginreglur Guðs.
Jóhannes postuli skrifaði eftirfarandi um andleg börn sín: „Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra að börnin mín hlýði sannleikanum.“ (3. Jóh. 4) Kristnum foreldrum er eins innanbrjósts þegar þeir sjá börnin sín ,hlýða sannleikanum‘.