Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kenndu Jehóva aldrei um erfiðleika þína

Kenndu Jehóva aldrei um erfiðleika þína

„Flónska mannsins eyðir efnum hans en hjarta hans kennir Drottni um.“ – ORÐSKV. 19:3.

1, 2. Af hverju ættum við ekki að kenna Jehóva um erfiðleikana hér á jörð? Lýstu með dæmi.

 SEGJUM að þú hafir búið í hamingjuríku hjónabandi í mörg ár. Einn daginn þegar þú kemur heim uppgötvarðu að heimilið er í rúst. Húsgögnin eru brotin, leirtauið í molum og gólfteppið gerónýtt. Heimilið, sem þér þykir svo vænt um, er eins og hamfarasvæði. Myndirðu hreyta út úr þér: „Af hverju gerði konan mín þetta?“ Eða myndirðu frekar spyrja: „Hver gerði þetta?“ Vafalaust er það síðari spurningin sem kæmi upp í hugann. Hvers vegna? Vegna þess að þú veist að konan þín myndi aldrei vinna tilefnislaust skemmdarverk af þessu tagi.

2 Heimili mannkyns er stórskemmt af völdum mengunar, ofbeldis og siðleysis. Við sem höfum kynnt okkur Biblíuna vitum að þetta ömurlega ástand getur ekki verið Jehóva að kenna. Hann skapaði jörðina til að hún yrði unaðsleg paradís. (1. Mós. 2:8, 15) Jehóva er Guð kærleikans. (1. Jóh. 4:8) Í Biblíunni kemur fram hver sé orsök margra af erfiðleikunum sem við er að glíma. Það er enginn annar en Satan djöfullinn, „höfðingi heimsins“. – Jóh. 14:30; 2. Kor. 4:4.

3. Hvernig gæti hugsun okkar brenglast?

3 Við getum þó ekki kennt Satan um allt sem miður fer í lífi okkar. Hvers vegna? Vegna þess að sum af vandamálum okkar eru sjálfum okkur að kenna. (Lestu 5. Mósebók 32:4-6.) Við viðurkennum það kannski. En ófullkomleikinn getur brenglað hugsun okkar og leitt okkur út á braut sem endar með ósköpum. (Orðskv. 14:12) Hvernig þá? Við gætum farið að kenna Jehóva um erfiðleika okkar þó að þeir séu eiginlega sjálfum okkur eða Satan að kenna. Við gætum jafnvel reiðst Jehóva. – Orðskv. 19:3.

4, 5. Í hvaða skilningi gæti þjónn Jehóva reiðst honum?

4 Er hugsanlegt að við getum reiðst Jehóva? Það er ósköp lítið vit í því. (Jes. 41:11) Hvað myndum við hafa upp úr því? Ljóðskáld sagði einu sinni: „Of stutt er þín hönd til að slást við Guð.“ Við göngum kannski ekki svo langt að kvarta upphátt yfir Jehóva. Í Orðskviðunum 19:3 segir hins vegar: „Flónska mannsins eyðir efnum hans en hjarta hans kennir Drottni um.“ Það er hugsanlegt að við reiðumst Guði í hjarta okkar. Við getum smátt og smátt orðið bitur gagnvart honum. Þetta getur birst með óbeinum hætti þannig að við fjarlægjumst söfnuðinn eða tökum minni þátt í starfsemi hans en áður.

5 Hvað gæti orðið þess valdandi að við kenndum Jehóva um það sem miður fer? Hvað getum við gert til að falla ekki í þá gildru? Það er mikilvægt að vita svörin við þessum spurningum því að samband okkar við Jehóva Guð er í húfi.

HVAÐ GÆTI VALDIÐ ÞVÍ AÐ VIÐ KENNDUM JEHÓVA UM ÞAÐ SEM MIÐUR FER?

6, 7. Hvers vegna kvörtuðu Ísraelsmenn á dögum Móse undan Jehóva?

6 Hvað gæti orðið til þess að trúr þjónn Jehóva færi að kvarta undan honum innra með sér? Við skulum líta á fimm atriði og skoða dæmi í Biblíunni sem sýna hvernig sumir hafa fallið í þessa gildru. – 1. Kor. 10:11, 12.

Það getur haft slæm áhrif á okkur að hlusta á neikvætt tal annarra. (Sjá 7. grein.)

7 Neikvætt tal annarra getur haft áhrif á okkur. (Lestu 5. Mósebók 1:26-28.) Jehóva var nýbúinn að frelsa Ísraelsmenn úr þrælkun í Egyptalandi. Hann hafði sent tíu plágur yfir kúgarana og síðan eytt faraó og herliði hans í Rauðahafinu. (2. Mós. 12:29-32, 51; 14:29-31; Sálm. 136:15) Þjóð Guðs var tilbúin til að ganga inn í fyrirheitna landið. En þá fóru Ísraelsmenn að kvarta undan Jehóva. Hvers vegna brást trú þeirra? Þeir misstu kjarkinn vegna þess að sumir af mönnunum, sem voru sendir til að kanna landið, voru neikvæðir þegar þeir komu til baka. (4. Mós. 14:1-4) Það varð til þess að heil kynslóð fékk ekki að ganga inn í „landið góða“. (5. Mós. 1:34, 35) Hlustum við stundum á neikvætt tal? Það gæti veikt trú okkar og orðið til þess að við færum að kvarta undan handleiðslu Jehóva.

8. Hvað olli því að þjóð Guðs á dögum Jesaja kenndi Guði um erfiðleika sína?

8 Áföll og erfiðleikar geta dregið úr okkur kjark. (Lestu Jesaja 8:21, 22.) Júdamenn lentu í miklum nauðum á dögum Jesaja. Óvinir umkringdu þá. Matur var af skornum skammti og margir voru hungraðir. Verra var þó að andlegt hungur ríkti í landinu. (Amos 8:11) En í stað þess að leita hjálpar Jehóva í þessum erfiðleikum formælti þjóðin konungi sínum og Guði. Menn kenndu Jehóva um erfiðleikana. Ef við verðum fyrir áföllum og erfiðleikum er þá hugsanlegt að við segjum líka í hjarta okkar: Hvar var Jehóva þegar mig vantaði hjálp?

9. Hvers vegna sáu Ísraelsmenn á dögum Esekíels ekki hlutina í réttu ljósi?

9 Við þekkjum ekki alla málavexti. Ísraelsmenn á dögum Esekíels sáu ekki heildarmyndina og fannst Jehóva ,ekki breyta rétt‘. (Esek. 18:29) Þeir létu eins og þeir gætu leyft sér að dæma Guð. Þeir settu sér sín eigin viðmið og dæmdu Guð samkvæmt þeim þó að þeir hefðu takmarkaðan skilning á málum. Gæti okkur orðið það á að gera sömu mistök? Finnst okkur kannski innst inni að Jehóva sé ósanngjarn eða ,breyti ekki rétt‘ ef við skiljum ekki einhverja frásögu Biblíunnar eða eitthvað sem gerist í lífi okkar? – Job. 35:2.

10. Hvernig gæti það hent okkur að feta í fótspor Adams?

10 Við kennum öðrum um syndir okkar og mistök. Fyrsti maðurinn Adam kenndi Guði um sína eigin synd. (1. Mós. 3:12) Hann skellti skuldinni á Jehóva þótt hann hefði brotið lög hans að yfirlögðu ráði og vitað um afleiðingarnar. Hann sagði óbeint að Jehóva hefði gefið honum slæma konu. Margir hafa fetað í fótspor Adams og kennt Guði um sín eigin mistök. Það er ágætt að spyrja sig hvort manni finnist Jehóva gera of strangar kröfur bara af því að maður er vonsvikinn og svekktur út í sjálfan sig.

11. Hvaða lærdóm má draga af Jónasi?

11 Við verðum sjálfhverf. Jónas spámaður var ósáttur við Jehóva þegar hann miskunnaði Nínívebúum. (Jónas 4:1-3) Hvers vegna? Hann virðist hafa óttast að falla í áliti þegar borginni var ekki eytt eins og hann hafði boðað. Jónas hafði svo miklar áhyggjur af mannorði sínu að umhyggjan fyrir iðrandi borgarbúum sat á hakanum. Gætum við orðið svo sjálfhverf að við reiðumst Jehóva fyrir að vera ekki búinn að binda enda á illskuna í heiminum? Við höfum kannski boðað áratugum saman að dagur Jehóva sé nærri. Gætum við orðið óþolinmóð við Jehóva þegar við erum gagnrýnd fyrir að boða það sem Biblían segir? – 2. Pét. 3:3, 4, 9.

HVAÐ GETUM VIÐ GERT TIL AÐ KENNA EKKI JEHÓVA UM ÞAÐ SEM MIÐUR FER?

12, 13. Hvað þurfum við að gera ef við förum að tortryggja ákvarðanir Jehóva?

12 Hvað getum við gert ef við förum að tortryggja ákvarðanir Jehóva? Munum að það er óviturlegt að hugsa þannig. Í Orðskviðunum 19:3 erum við minnt á að það sé flónska að kenna Jehóva um það sem miður fer í lífi okkar. Við skulum nú líta á fimm atriði sem geta hjálpað okkur að láta ekki vonbrigði lífsins verða til þess að við ásökum Jehóva.

13 Hlúðu að sambandinu við Jehóva. Ef við varðveitum náið samband við Jehóva er lítil hætta á að við reiðumst honum. (Lestu Orðskviðina 3:5, 6.) Við þurfum að treysta á hann. Við þurfum líka að gæta þess að vera ekki sjálfhverf eða þykjast um of vitur. (Orðskv. 3:7; Préd. 7:16) Þá eru minni líkur á að við kennum Jehóva um þegar eitthvað miður gott gerist.

14, 15. Hvað getum við gert til að láta ekki neikvætt tal annarra hafa áhrif á okkur?

14 Láttu ekki neikvætt tal annarra hafa áhrif á þig. Ísraelsmenn á dögum Móse höfðu fulla ástæðu til að treysta að Jehóva myndi leiða þá inn í fyrirheitna landið. (Sálm. 78:43-53) En þeir „minntust ekki handar hans“ þegar þeir heyrðu neikvæða umsögn njósnaranna tíu. (Sálm. 78:42) Við styrkjum sambandið við Jehóva ef við hugleiðum verk hans og minnum okkur á allt það góða sem hann hefur gert fyrir okkur. Þá látum við ekki neikvæðni annarra reka fleyg milli okkar og Jehóva. – Sálm. 77:12, 13.

15 Ef við erum neikvæð í garð trúsystkina getur það hins vegar haft áhrif á samband okkar við Jehóva. (1. Jóh. 4:20) Þegar Ísraelsmenn fundu að því að Aron var skipaður æðsti prestur leit Jehóva svo á að þeir væru að mögla gegn sér. (4. Mós. 17:10) Ef við mögluðum yfir þeim sem Jehóva velur til að hugsa um söfnuð sinn á jörð gætum við óbeint verið að mögla gegn honum. – Hebr. 13:7, 17.

16, 17. Hvað þurfum við að hafa hugfast þegar við eigum við erfiðleika að glíma?

16 Höfum hugfast að Jehóva veldur ekki erfiðleikum okkar. Jehóva vildi hjálpa Ísraelsmönnum á dögum Jesaja þó að þeir hefðu snúið baki við honum. (Jes. 1:16-19) Það er hughreystandi til þess að vita að Jehóva er annt um okkur og vill hjálpa okkur óháð því hvaða erfiðleika við eigum við að glíma. (1. Pét. 5:7) Hann lofar meira að segja að gefa okkur kraft til að halda út og vera honum trú. – 1. Kor. 10:13.

17 Ef við erum órétti beitt þurfum við að minna okkur á að það er ekki Jehóva sem veldur ranglætinu. Hann hefur mætur á réttlæti en hatar ranglæti. (Sálm. 33:5) Job mátti þola mikið ranglæti en Elíhú, vinur hans, sagði: „Fjarri fer því að Guð breyti ranglega og Hinn almáttki aðhafist illt.“ (Job. 34:10) Jehóva veldur okkur ekki erfiðleikum heldur gefur okkur góðar gjafir. „Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa“ er frá honum komin. – Jak. 1:13, 17.

18, 19. Af hverju ættum við aldrei að vantreysta Jehóva? Lýstu með dæmi.

18 Vantreystu aldrei Jehóva. Guð er fullkominn og hugsanir hans eru hærri en hugsanir okkar. (Jes. 55:8, 9) Við ættum að vera nógu auðmjúk og hógvær til að viðurkenna að við vitum ekki allt. (Rómv. 9:20) Við þekkjum sjaldan alla málavexti til hlítar. Þú hefur vafalaust áttað þig á sannleiksgildi orðskviðarins sem segir: „Sá er fyrst flytur mál sitt virðist hafa á réttu að standa uns andstæðingurinn vefengir rök hans.“ – Orðskv. 18:17.

19 Segjum að þú eigir náinn vin og hann geri eitthvað sem er óvenjulegt eða þér finnst skrýtið. Yrðu fyrstu viðbrögð þín þau að saka hann um óhæfu? Eða myndirðu frekar láta vin þinn njóta vafans, ekki síst ef þú hefðir þekkt hann árum saman? Ef við sýnum ófullkomnum vini slíka tillitssemi ættum við ekki síður að treysta föðurnum á himnum því að vegir hans og hugsanir eru miklu hærri en okkar.

20, 21. Hvers vegna ættum við aldrei að kenna Jehóva um erfiðleika okkar?

20 Gleymdu ekki hver á sökina í raun og veru. Hvers vegna er það mikilvægt? Erfiðleikar okkar eru stundum sjálfum okkur að kenna. Ef svo er þurfum við að horfast í augu við það. (Gal. 6:7) Reynum ekki að kenna Jehóva um það sem miður fer. Það væri ekki sanngjarnt. Hugsum okkur að þú eigir kraftmikinn bíl. Þú ferð langt yfir ráðlagðan hámarkshraða í krappri beygju og veltir bílnum. Ber framleiðandi bílsins sök á slysinu? Auðvitað ekki. Jehóva gaf okkur frjálsan vilja en hann hefur líka gefið okkur leiðbeiningar til að við getum tekið skynsamlegar ákvarðanir. Varla er rétt að kenna skaparanum um okkar eigin mistök.

21 Auðvitað er ekki alltaf hægt að rekja erfiðleika okkar til þess að við höfum gert eitthvað rangt eða okkur hafi orðið á. Stundum er það hreinlega „tími og tilviljun“ sem veldur. (Préd. 9:11) En missum aldrei sjónar á því að Satan djöfullinn er undirrót illskunnar í heiminum. (1. Jóh. 5:19; Opinb. 12:9) Það er ekki Jehóva heldur Satan sem er óvinur okkar. – 1. Pét. 5:8.

VARÐVEITTU DÝRMÆTT SAMBAND ÞITT VIÐ JEHÓVA

Jósúa og Kaleb treystu á Jehóva og hlutu blessun fyrir. (Sjá 22. grein.)

22, 23. Hvað ættum við að hafa hugfast ef við erum niðurdregin vegna erfiðleika sem við er að glíma?

22 Mundu eftir Jósúa og Kaleb þegar þú átt við erfiðleika að glíma. Þessir trúu þjónar Guðs gáfu jákvæða umsögn um fyrirheitna landið, ólíkt hinum njósnurunum tíu. (4. Mós. 14:6-9) Þeir trúðu á Jehóva. Þrátt fyrir það þurftu þeir að reika um eyðimörkina í 40 ár ásamt öðrum Ísraelsmönnum. Fannst Jósúa og Kaleb það ósanngjarnt og urðu þeir bitrir? Nei. Þeir treystu á Jehóva og hlutu blessun fyrir. Heil kynslóð manna dó í eyðimörkinni en þeir Jósúa og Kaleb fengu að lokum að ganga inn í fyrirheitna landið. (4. Mós. 14:30) Við hljótum líka blessun Jehóva „ef við gefumst ekki upp“ á að gera vilja hans. – Gal. 6:9; Hebr. 6:10.

23 Hvað ættirðu að gera ef þú ert niðurdreginn vegna erfiðleika sem þú átt við að glíma, eða vegna eigin ófullkomleika eða annarra? Þá skaltu minna þig á að Jehóva er óviðjafnanlegur Guð. Sjáðu fyrir þér þá framtíð sem hann hefur lofað. Spyrðu þig hvernig þú værir á vegi staddur án Jehóva. Varðveittu alltaf náið samband við hann og kenndu honum aldrei um þegar erfiðleikar verða á vegi þínum.