Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÚR SÖGUSAFNINU

Konungur var stórhrifinn

Konungur var stórhrifinn

ÞETTA var í ágúst 1936. Þeir Robert og George Nisbet voru staddir með hátalarabíl í konungsþorpinu í Svasílandi og voru nýbúnir að leika hljóðritaða tónlist og ræður bróður J. F. Rutherfords. Sobhuza konungur annar var stórhrifinn. „En við lentum í þeirri vandræðalegu stöðu að hann vildi kaupa grammófóninn, plöturnar og hátalarann,“ segir George.

Robert sagði afsakandi að búnaðurinn væri ekki til sölu vegna þess að hann tilheyrði öðrum. Konungur vildi fá að vita hver það væri.

„Það er annar konungur sem á allt þetta,“ svaraði Robert. Sobhuza spurði þá hver sá konungur væri. „Það er Jesús Kristur, konungur Guðsríkis,“ svaraði Robert.

„Nújá, hann er mikill konungur,“ sagði Sobhuza og virðingin leyndi sér ekki. „Ekki vil ég taka neitt sem tilheyrir honum.“

,Yfirhöfðinginn, Sobhuza konungur, kom mér verulega á óvart með framkomu sinni,‘ skrifaði Robert. ,Hann talaði lýtalausa ensku án alls oflætis og var hreinn og beinn og afskaplega viðtalsgóður. Ég sat með honum á skrifstofu hans í um það bil þrjá stundarfjórðunga meðan George lék tónlist á grammófóninn fyrir utan.

Síðar um daginn heimsóttum við Þjóðarskóla Svasílands. Það var einkar athyglisverð heimsókn. Við vitnuðum fyrir skólastjóranum og hann hlustaði af athygli. Þegar við minntumst á grammófóninn og buðumst til að leyfa öllum skólanum að hlusta á upptökurnar, var hann harla glaður og kallaði saman næstum hundrað nemendur sem settust á grasið til að hlusta. Okkur var sagt að í þessum framhaldsskóla lærðu drengir landbúnað, garðyrkju, trésmíðar, húsagerð, ensku og reikning, og stúlkur lærðu hjúkrun, heimilishald og annað nytsamlegt.‘ Amma yfirhöfðingjans hafði stofnað skólann. *

Framhaldsskólanemar sem hlustuðu á ræðu í Svasílandi árið 1936.

Sobhuza konungur hlustaði með ánægju á brautryðjendur sem heimsóttu konungsþorpið árið 1933. Einu sinni hafði hann jafnvel kallað saman lífvarðarsveit sína, alls 100 hermenn, til að hlusta á boðskapinn um ríkið af hljómplötum. Hann þáði fúslega áskrift að blöðunum og ýmis önnur rit. Áður en langt um leið var konungur búinn að eignast nálega allar bækurnar sem við gáfum út. Og hann hélt bókasafninu þó að breska nýlendustjórnin hafi bannað bækur okkar í síðari heimsstyrjöldinni.

Sobhuza konungur annar tók alltaf vel á móti vottunum í konungsþorpinu í Lobamba. Hann lét jafnvel kalla á presta til að hlýða á biblíuræður þeirra. Vottur, sem hét Helvie Mashazi, var að ræða um 23. kafla Matteusarguðspjalls þegar hópur presta stökk á fætur og reyndi reiðilega að þvinga hann til að setjast. En konungur skarst í leikinn og bað bróður Mashazi að halda áfram. Auk þess sagði hann áheyrendum að skrifa hjá sér alla ritningarstaði sem nefndir voru í ræðunni.

Öðru sinni hafði brautryðjandi flutt ræðu og meðal áheyrenda voru fjórir prestar. Eftir ræðuna sneru þeir hvíta kraganum við og sögðu: „Við erum ekki lengur prestar heldur vottar Jehóva.“ Síðan spurðu þeir brautryðjandann hvort hann ætti nokkuð sams konar bækur handa þeim og yfirhöfðinginn hafði eignast.

Yfirhöfðinginn sýndi vottum Jehóva virðingu allt frá fjórða áratugnum til dauðadags árið 1982. Hann leyfði ekki að þeir væru ofsóttir fyrir að halda ekki svaslenska trúarsiði. Vottarnir höfðu því ástæðu til að vera honum þakklátir og söknuðu hans mjög þegar hann féll frá.

Í ársbyrjun 2013 voru meira en 3.000 boðberar fagnaðarerindisins í Svasílandi. Íbúatalan er rétt rúmlega milljón þannig að þar er 1 vottur á hverja 384 íbúa. Rösklega 260 brautryðjendur störfuðu þá í 90 söfnuðum og 7.496 sóttu minningarhátíðina árið 2012. Vaxtarmöguleikarnir eru því góðir. Þeir sem störfuðu í Svasílandi upp úr 1930 lögðu greinilega góðan grundvöll til að byggja á. – Úr sögusafninu í Suður-Afríku.

^ The Golden Age, 30. júní 1937, bls. 629.