Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Áminningar Jehóva eru áreiðanlegar

Áminningar Jehóva eru áreiðanlegar

„Vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gerir hinn fávísa vitran.“ – SÁLM. 19:8.

1. Hvaða mál eru oft til umræðu meðal þjóna Guðs og hvernig er það okkur til góðs?

 HEFURÐU einhvern tíma verið að búa þig undir Varðturnsnámið og hugsað með þér: Hefur ekki verið rætt um þetta efni áður? Ef þú hefur sótt samkomur um árabil hefurðu líklega uppgötvað að það hefur verið fjallað oftar en einu sinni um sama efni. Umræða um ríki Guðs, lausnargjaldið, boðun og kennslu og eiginleika eins og kærleika og trú eru fastir liðir á andlega matseðlinum. Að fara oftar en einu sinni yfir efni af þessu tagi hjálpar okkur að vera heilbrigð í trúnni og vera „gerendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess“. – Jak. 1:22.

2. (a) Hvað felst í orðinu sem er þýtt „vitnisburður“ eða „áminning“? (b) Að hvaða leyti eru áminningar Guðs ólíkar lögum og reglum manna?

2 Hebreska nafnorðið, sem er þýtt „vitnisburður“, er oft notað um lög, fyrirmæli og reglur sem Guð gefur þjónum sínum. Í sumum biblíum er það einnig þýtt „áminning“. Lög og reglur Jehóva eru alltaf áreiðanleg, ólíkt lögum manna sem oft þarf að breyta eða endurskoða. Þó að sum þeirra tilheyri ákveðnum tíma eða aðstæðum eru þau aldrei gölluð eða ófullkomin. Sálmaskáldið sagði: „Fyrirmæli þín eru rétt um eilífð.“ – Sálm. 119:144.

3, 4. (a) Hvað er oft fólgið í áminningum Jehóva? (b) Hvernig yrði það Ísraelsmönnum til góðs að fara eftir áminningum Guðs?

3 Þú hefur ef til vill veitt því athygli að sumar áminningar Jehóva eru jafnframt viðvaranir. Spámenn Guðs fluttu Ísraelsmönnum margar viðvaranir. Til dæmis sagði Móse við þjóðina skömmu áður en hún átti að ganga inn í fyrirheitna landið: „Gætið þess að láta ekki ginna ykkur til að víkja af leið og þjóna öðrum guðum og sýna þeim lotningu. Þá mun reiði Drottins blossa upp gegn ykkur.“ (5. Mós. 11:16, 17) Af Biblíunni má sjá að Ísraelsmenn fengu fjöldann allan af gagnlegum áminningum frá Guði.

4 Jehóva minnti Ísraelsmenn margsinnis á að þeir ættu að óttast hann, hlýða boðum hans og helga nafn hans. (5. Mós. 4:29-31; 5:28, 29) Ef þeir færu eftir þessum áminningum myndi hann blessa þá á marga vegu. – 3. Mós. 26:3-6; 5. Mós. 28:1-4.

HVERNIG TÓKU ÍSRAELSMENN ÁMINNINGUM GUÐS?

5. Hvers vegna barðist Jehóva fyrir Hiskía?

5 Saga Ísraels var harla róstusöm en Guð stóð við orð sín. Þegar Sanheríb Assýríukonungur réðst inn í Júda og hótaði Hiskía konungi að leggja undir sig ríkið sendi Jehóva engil til að skakka leikinn. Á aðeins einni nóttu deyddi engill Guðs „alla hermenn“ í her Assýringa þannig að Sanheríb neyddist til að snúa auðmýktur heim. (2. Kron. 32:21; 2. Kon. 19:35) Af hverju barðist Guð fyrir Hiskía? Af því að „hann var Drottni handgenginn og vék ekki frá honum. Hann hlýddi boðum þeim sem Drottinn hafði lagt fyrir Móse.“ – 2. Kon. 18:1, 5, 6.

Áminningar Jehóva voru Jósía hvatning til að standa vörð um sanna tilbeiðslu. (Sjá 6. grein.)

6. Hvernig sýndi Jósía að hann treysti á Jehóva?

6 Jósía er annað dæmi um konung sem hlýddi boðum Jehóva. Hann var ekki nema átta ára þegar hann varð konungur en hann „gerði það sem rétt var í augum Drottins ... og vék hvorki til hægri né vinstri“ frá boðum hans. (2. Kron. 34:1, 2) Jósía sýndi að hann treysti á Jehóva með því að uppræta skurðgoð úr landinu og endurvekja sanna tilbeiðslu. Það var ekki aðeins sjálfum honum til góðs heldur allri þjóðinni. – Lestu 2. Kroníkubók 34:31-33.

7. Hvernig fór fyrir Ísraelsmönnum þegar þeir sinntu ekki áminningum Jehóva?

7 Því miður treysti þjóð Guðs ekki alltaf áminningum hans. Í aldanna rás var hún stundum hlýðin og stundum óhlýðin. Þegar Ísraelsmenn veiktust í trúnni áttu þeir til að „hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi“, svo notuð séu orð Páls postula. (Ef. 4:13, 14) Og eins og þeir voru varaðir við fór illa fyrir þeim þegar þeir treystu ekki áminningum Guðs. – 3. Mós. 26:23-25; Jer. 5:23-25.

8. Hvaða lærdóm getum við dregið af sögu Ísraelsmanna?

8 Hvaða lærdóm getum við dregið af sögu Ísraelsmanna? Þjónar Guðs á okkar tímum fá leiðbeiningar og ögun rétt eins og þeir. (2. Pét. 1:12) Við getum fundið áminningar í innblásnu orði Guðs í hvert sinn sem við lesum það. Við höfum frelsi til að velja hvort við hlýðum leiðbeiningum Jehóva eða gerum það sem okkur sjálfum sýnist best. (Orðskv. 14:12) Við skulum nú ræða um nokkrar ástæður fyrir því að við getum treyst áminningum Jehóva og skoða hvernig það er okkur til góðs að fara eftir þeim.

FYLGJUM LEIÐSÖGN GUÐS OG LIFUM

9. Hvernig fullvissaði Jehóva Ísraelsmenn um að hann væri með þeim í eyðimörkinni?

9 Þegar Ísraelsmenn hófu göngu sína um hina „skelfilegu eyðimörk“ sagði Jehóva þeim ekki fyrir fram hvernig hann myndi leiða þá, vernda og annast. Hann sýndi þeim þó margsinnis fram á að þeir gætu treyst honum og leiðbeiningum hans á þeim 40 árum sem þeir voru þar. Með skýstólpa að degi og eldstólpa að nóttu minnti hann þá á að hann væri með þeim og leiddi þá um hrjóstruga eyðimörkina. (5. Mós. 1:19; 2. Mós. 40:36-38) Hann sá líka fyrir frumþörfum þeirra. „Klæði þeirra slitnuðu ekki og fætur þeirra þrútnuðu ekki.“ Hann sá til þess að „þá skorti ekkert“. – Neh. 9:19-21.

10. Hvernig leiðbeinir Jehóva þjónum sínum nú á tímum?

10 Þjónar Guðs standa nú á þröskuldi nýs heims þar sem réttlæti ríkir. Treystum við Guði til að láta okkur í té það sem við þurfum til að komast lifandi gegnum ,þrenginguna miklu‘? (Matt. 24:21, 22; Sálm. 119:40, 41) Jehóva hefur hvorki sett skýstólpa né eldstólpa til að vísa okkur veginn inn í nýja heiminn. Hann notar hins vegar söfnuð sinn til að hjálpa okkur að vera vökul. Til dæmis hefur verið lögð aukin áhersla á að við lesum í Biblíunni, að fjölskyldur og einstaklingar noti eitt kvöld í viku til biblíunáms og að við sækjum samkomur og boðum fagnaðarerindið reglulega. Þannig styrkjum við sambandið við hann. Fylgjum við leiðbeiningum hans á þessum sviðum? Það stuðlar að því að við höfum þá trú sem þarf til að komast inn í nýja heiminn.

Áminningar Jehóva eru okkur hvatning til að hugsa um aðgengi og öryggi í ríkissalnum. (Sjá 11. grein.)

11. Nefndu dæmi sem sýna fram á að Jehóva ber umhyggju fyrir okkur.

11 Auk þess að fá hvatningu til að halda vöku okkar höfum við fengið leiðbeiningar sem varða daglegt líf. Dæmi um það er sú hvatning að sjá efnislega hluti í réttu ljósi og draga úr áhyggjum með því að varðveita heilt auga. Við höfum líka fengið góðar leiðbeiningar um klæðnað og útlit, um að velja okkur heilnæma afþreyingu og um hæfilega menntun. Og ekki má gleyma ábendingum sem við höfum fengið um öryggismál í ríkissalnum, á heimili okkar og í umferðinni, auk þess að vera viðbúin náttúruhamförum og öðru neyðarástandi. Leiðbeiningar sem þessar sýna að Jehóva er annt um velferð okkar.

ÁMINNINGAR HJÁLPUÐU FRUMKRISTNUM MÖNNUM AÐ VERA GUÐI TRÚIR

12. (a) Hvað minntist Jesús oft á við lærisveina sína? (b) Hvað gerði Jesús sem hafði sterk áhrif á Pétur og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?

12 Þjónar Guðs á fyrstu öld fengu tíðar áminningar. Jesús minntist oft á það við lærisveinana að þeir þyrftu að temja sér auðmýkt. En hann lét ekki nægja að segja þeim hvað það þýddi að vera auðmjúkur heldur sýndi þeim það í verki. Síðasta daginn, sem hann var maður á jörð, borðaði hann páskamáltíðina með postulum sínum. Meðan postularnir mötuðust stóð hann upp og þvoði fætur þeirra en það var að jafnaði verkefni þjóna. (Jóh. 13:1-17) Auðmýkt hans hafði varanleg áhrif á þá. Um 30 árum síðar hvatti Pétur postuli trúsystkini sín til að vera auðmjúk en hann hafði verið viðstaddur páskamáltíðina. (1. Pét. 5:5) Fordæmi Jesú ætti að vera okkur öllum hvatning til að vera auðmjúk í samskiptum hvert við annað. – Fil. 2:5-8.

13. Hvaða eiginleika minnti Jesús lærisveinana á að þeir þyrftu að hafa?

13 Jesús ræddi líka oft við lærisveinana um að þeir þyrftu að hafa sterka trú. Einu sinni hafði þeim mistekist að reka illan anda út af andsetnum dreng og þeir spurðu Jesú: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“ Jesús svaraði: „Vegna þess að ykkur skortir trú,“ og bætti við að þeim yrði ekkert um megn ef þeir hefðu „trú eins og mustarðskorn“. (Matt. 17:14-20) Frá því að Jesús hóf þjónustu sína lagði hann ríka áherslu á að lærsveinar hans þyrftu að hafa trú. (Lestu Matteus 21:18-22.) Nýtum við okkur uppbyggilega fræðslu á mótum og samkomum til að styrkja trúna? Þetta eru ekki aðeins ánægjulegar samverustundir heldur gefa þær okkur tækifæri til að sýna að við treystum Jehóva.

14. Hvers vegna er mikilvægt að líkja eftir Jesú og elska náungann?

14 Í Grísku ritningunum erum við minnt á það aftur og aftur að elska hvert annað. Jesús sagði að næstæðsta boðorð lögmálsins væri: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matt. 22:39) Jakob, hálfbróðir Jesú, kallaði kærleikann „hið konunglega boðorð“. (Jak. 2:8) Jóhannes postuli skrifaði: „Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi.“ (1. Jóh. 2:7, 8) Hvað átti Jóhannes við þegar hann talaði um „gamalt boðorð“? Hann átti við kærleiksboðorðið. Það var gamalt í þeim skilningi að Jesús hafði gefið það í „upphafi“, áratugum áður. En það var líka nýtt í þeim skilningi að það útheimti fórnfýsi sem lærisveinarnir gátu þurft að sýna við breyttar aðstæður. Erum við ekki þakklát fyrir að fá viðvaranir sem sporna gegn því að við verðum eigingjörn eins og er svo áberandi í þessum heimi? Við sem erum lærisveinar Krists viljum ekki að náungakærleikurinn kólni hjá okkur.

15. Í hvaða tilgangi var Jesús fyrst og fremst sendur til jarðar?

15 Jesús bar umhyggju fyrir fólki. Hún sýndi sig greinilega þegar hann læknaði sjúka og reisti upp dána. En Jesús var ekki sendur hingað fyrst og fremst til að lækna. Boðun hans og kennsla hafði miklu meiri áhrif á líf fólks til langs tíma litið. Hvernig þá? Við vitum að þeir sem Jesús læknaði og reisti upp frá dauðum á fyrstu öld urðu að lokum ellihrumir og dóu. Þeir sem tóku við boðskap hans áttu hins vegar eilíft líf í vændum. – Jóh. 11:25, 26.

16. Hve umfangsmikil er boðunin og kennslan nú á dögum?

16 Boðunin, sem Jesús hleypti af stokkunum, er margfalt umfangsmeiri nú en á fyrstu öld. Jesús sagði lærisveinum sínum: „Farið ... og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“ (Matt. 28:19) Þeir gerðu það sannarlega og það er óhætt að segja að við höfum gert það líka. Meira en sjö milljónir votta Jehóva boða ríki Guðs af kappi í meira en 230 löndum og kenna milljónum manna að staðaldri. Þessi boðun er eitt merki þess að við lifum á síðustu dögum.

TREYSTUM JEHÓVA

17. Hvað ráðlögðu Páll og Pétur trúsystkinum sínum?

17 Ljóst er að áminningar hjálpuðu frumkristnum mönnum að vera staðfastir í trúnni. Það hlýtur að hafa verið uppörvandi fyrir Tímóteus að fá eftirfarandi hvatningu frá Páli postula meðan hann var fangi í Róm: „Farðu eftir heilnæmu orðunum sem þú heyrðir mig flytja.“ (2. Tím. 1:13) Pétur postuli hvatti trúsystkini sín til að þroska með sér eiginleika eins og þolgæði, bróðurelsku og sjálfsaga og bætti svo við: „Þess vegna ætla ég mér ávallt að minna ykkur á þetta enda þótt þið vitið það og hvikið ekki frá sannleikanum.“ – 2. Pét. 1:5-8, 12.

18. Hvernig litu frumkristnir menn á áminningar?

18 Í bréfum Páls og Péturs er að finna ,orð sem heilagir spámenn höfðu áður talað‘. (2. Pét. 3:2) Gramdist trúsystkinum okkar á fyrstu öld að fá slíkar leiðbeiningar? Nei, þær voru til merkis um kærleika Guðs og hjálpuðu þeim að vaxa „í náð og þekkingu Drottins vors og frelsara Jesú Krists“. – 2. Pét. 3:18.

19, 20. Hvers vegna ættum við að treysta áminningum Jehóva og hvernig er það okkur til góðs?

19 Við höfum ærna ástæðu til að treysta áminningum Jehóva sem er að finna í óskeikulu orði hans, Biblíunni. (Lestu Jósúabók 23:14.) Þar er sagt frá samskiptum Guðs við ófullkomna menn um þúsundir ára. Þessar frásagnir voru skráðar okkur til gagns. (Rómv. 15:4; 1. Kor. 10:11) Við höfum líka séð spádóma Biblíunnar rætast. Það má að sumu leyti líkja þeim við áminningar sem eru gefnar fram í tímann. Milljónir manna hafa til dæmis streymt inn í söfnuð Jehóva til að tilbiðja hann, rétt eins og spáð var að myndi gerast „á hinum síðustu dögum“. (Jes. 2:2, 3, Biblían 1981) Versnandi ástand í heiminum er einnig uppfylling á spádómum Biblíunnar. Og eins og fram hefur komið spáði Jesús fyrir um þá umfangsmiklu boðun sem á sér stað út um allan heim nú á tímum. – Matt. 24:14.

20 Skapari okkar hefur látið í té safn frásagna og leiðbeininga sem við getum treyst. Nýtum við okkur það? Við verðum að treysta áminningum hans. Rosellen gerir það. Hún segir: „Þegar ég lærði að treysta Jehóva sá ég betur og betur hvernig hann studdi mig og styrkti.“ Við skulum líka njóta góðs af áminningum Jehóva með því að fara eftir þeim.