Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu áminningar Jehóva gleðja hjarta þitt

Láttu áminningar Jehóva gleðja hjarta þitt

„Fyrirmæli þín eru hlutskipti mitt um aldur.“ – SÁLM. 119:111.

1. (a) Hvernig bregst fólk við leiðbeiningum og af hverju? (b) Hvernig getum við brugðist við leiðbeiningum ef við erum stolt?

 MENN taka leiðbeiningum á ýmsa vegu. Við þiggjum kannski með þökkum að fá áminningu frá yfirboðara en höfnum umsvifalaust leiðbeiningum frá jafningja okkar eða undirmanni. Viðbrögð okkar við ögun og áminningu geta líka verið harla breytileg. Þau geta spannað allan skalann frá hryggð og skömm yfir í að vera jákvæður og tilbúinn til að bæta sig. Hvað veldur? Stolt getur átt sinn þátt í því hvernig við bregðumst við. Hroki getur brenglað dómgreindina með þeim afleiðingum að maður tekur ekki við leiðbeiningum og fer á mis við verðmæta tilsögn. – Orðskv. 16:18.

2. Hvers vegna eru sannkristnir menn þakklátir fyrir leiðbeiningar Biblíunnar?

2 Sannkristnir menn kunna hins vegar að meta góð ráð, ekki síst ef þau eru byggð á orði Jehóva. Áminningar hans hjálpa okkur að koma auga á hætturnar og varast þær. Við getum þar af leiðandi forðast syndir eins og efnishyggju, kynferðislegt siðleysi, fíkniefnaneyslu og misnotkun áfengis. (Orðskv. 20:1; 2. Kor. 7:1; 1. Þess. 4:3-5; 1. Tím. 6:6-11) Og við búum yfir „glöðu hjarta“ sem hlýst af því að fylgja áminningum Guðs. – Jes. 65:14.

3. Hvernig hugsaði sálmaskáldið og hvers vegna ættum við að tileinka okkur sama hugarfar?

3 Til að varðveita hið dýrmæta samband sem við eigum við föður okkar á himnum þurfum við að fylgja viturlegum ráðum hans. Það er gott að hugsa eins og sálmaskáldið sem orti: „Fyrirmæli þín eru hlutskipti mitt um aldur því að þau gleðja hjarta mitt.“ (Sálm. 119:111) Erum við ánægð með fyrirmæli Jehóva líkt og sálmaskáldið eða finnst okkur þau stundum íþyngjandi? Við þurfum ekki að örvænta þó að okkur sárni stundum leiðbeiningar sem við fáum. Við getum lært að treysta að það sé okkur alltaf fyrir bestu að fylgja viturlegum boðum Jehóva. Við skulum líta á þrennt sem við getum gert til þess.

STYRKJUM TRAUSTIÐ MEÐ ÞVÍ AÐ BIÐJA

4. Hvað hélst óbreytt í lífi Davíðs?

4 Það gekk á ýmsu í lífi Davíðs konungs en eitt breyttist ekki: hann treysti skilyrðislaust á skapara sinn. Hann sagði: „Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég.“ (Sálm. 25:1, 2) Hvernig lærði Davíð að treysta föðurnum á himnum í hvívetna?

5, 6. Hvað segja bænir Davíðs um samband hans við Jehóva?

5 Margir biðja aðeins til Guðs þegar í nauðirnar rekur. Hvað fyndist þér um það ef þú ættir vin sem þú heyrðir aldrei í nema hann vantaði peninga eða einhvern greiða? Með tímanum færirðu kannski að efast um að vininum þætti í raun og veru vænt um þig. En Davíð var ekki þannig. Alla ævi vitnuðu bænir hans um að hann elskaði Jehóva og treysti honum óhikað – bæði í blíðu og stríðu. – Sálm. 40:9.

6 Taktu eftir hvernig Davíð lofar Jehóva og þakkar honum: „Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina. Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.“ (Sálm. 8:2) Skynjarðu hve innilegt samband Davíð átti við föður sinn á himnum? Hann var svo djúpt snortinn af dýrð og hátign Jehóva að hann lofaði hann „liðlangan daginn“. – Sálm. 35:28.

7. Hvernig er það til góðs fyrir okkur að biðja oft til Jehóva?

7 Líkt og Davíð þurfum við að eiga tíð samskipti við Jehóva til að styrkja traust okkar til hans. Í Biblíunni segir: „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ (Jak. 4:8) Við styrkjum tengslin við Jehóva með því að biðja til hans og það er líka mikilvægt til að fá heilagan anda. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:22.

8. Hvers vegna ættum við ekki að fara alltaf með sömu orðin þegar við biðjum?

8 Hefurðu tilhneigingu til að nota sömu orðin aftur og aftur þegar þú biður til Jehóva? Ef svo er ættirðu að nota smástund áður en þú biður til að hugleiða hvað þú ætlar að segja. Ætli vini eða ættingja myndi líka það vel ef þú segðir alltaf það sama þegar þú talaðir við hann? Það má vel vera að hann hætti að hlusta á þig. Jehóva daufheyrist auðvitað ekki við einlægum bænum dyggra þjóna sinna. Við ættum samt að passa okkur á því að fara ekki alltaf með sömu þuluna þegar við biðjum til hans.

9, 10. (a) Hvað er viðeigandi að gera að bænarefni? (b) Hvað getur hjálpað okkur að fara með innilegar bænir?

9 Bænir okkar mega auðvitað ekki vera yfirborðslegar ef við viljum styrkja tengslin við Jehóva. Því meira sem við segjum honum frá hugsunum okkar og tilfinningum því nánara verður sambandið og traustið sterkara. En um hvað ættum við að tala í bænum okkar? Í Biblíunni segir: „Gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ (Fil. 4:6) Sannleikurinn er sá að það er viðeigandi að nefna hvaðeina í bænum okkar sem snertir líf okkar eða samband við Jehóva.

10 Það má læra margt af bænum karla og kvenna sem þjónuðu Guði forðum daga og sagt er frá í Biblíunni. (1. Sam. 1:10, 11; Post. 4:24-31) Í Sálmunum er safn innilegra bæna og lofsöngva til Jehóva. Þar má finna dæmi um allt litróf mannlegra tilfinninga, allt frá dýpstu sálarkvöl til óblandinnar gleði. Ef við lesum og hugleiðum bænarorð þessara dyggu þjóna Guðs getur það hjálpað okkur að fara með innihaldsríkar bænir.

HUGLEIÐUM ÁMINNINGAR GUÐS

11. Hvers vegna þurfum við að hugleiða áminningar Guðs?

11 Davíð sagði: „Vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gerir hinn fávísa vitran.“ (Sálm. 19:8) Jafnvel þó að við séum óreynd getum við orðið vitur ef við fylgjum fyrirmælum Jehóva. En sum af ráðum Biblíunnar eru þess eðlis að við þurfum að hugleiða þau vel til að hafa fullt gagn af þeim. Það getur til dæmis átt við þegar reynir á ráðvendni okkar í skóla eða á vinnustað. Það getur hjálpað okkur að halda ákvæði Guðs um notkun blóðs, um kristið hlutleysi og um að klæða okkur í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Með því að hugleiða sjónarmið Jehóva varðandi þessi mál getum við verið viðbúin aðstæðum sem upp kunna að koma og ákveðin í hvað við ætlum að gera. Þannig getum við umflúið alls konar erfiðleika. – Orðskv. 15:28.

12. Hvað getur hjálpað okkur að halda fyrirmæli Guðs?

12 Sýnum við að við höldum vöku okkar meðan við bíðum þess að loforð Guðs rætist? Trúum við í alvöru að Babýlon hinni miklu verði eytt innan skamms? Er framtíðarvonin jafn raunveruleg núna eins og þegar við kynntumst henni í upphafi, svo sem vonin um eilíft líf í paradís á jörð? Erum við jafn áhugasöm og áður um að boða fagnaðarerindið eða erum við farin að taka eigin hugðarefni fram yfir? Hvað um upprisuvonina, það að nafn Jehóva helgist og að sannað verði að hann sé réttmætur Drottinn alheims? Skiptir þetta enn miklu máli fyrir okkur? Ef við veltum slíkum spurningum fyrir okkur getur það hjálpað okkur að hugsa eins og sálmaskáldið sem sagði: „Fyrirmæli þín eru hlutskipti mitt um aldur.“ – Sálm. 119:111.

13. Hvers vegna áttu frumkristnir menn erfitt með að skilja sumt? Nefndu dæmi.

13 Í Biblíunni er ýmislegt sem við skiljum ekki að fullu núna vegna þess að Jehóva hefur kosið að varpa ekki ljósi á það enn sem komið er. Jesús sagði postulum sínum hvað eftir annað að hann þyrfti að þjást og deyja. (Lestu Matteus 12:40; 16:21.) En postularnir skildu ekki hvað hann átti við. Þeir áttuðu sig fyrst á því eftir að hann var dáinn og upprisinn, þegar hann holdgaðist, birtist lærisveinunum og ,lauk upp huga þeirra að þeir skildu ritningarnar‘. (Lúk. 24:44-46; Post. 1:3) Fylgjendur Krists skildu ekki heldur að ríki Guðs ætti að stjórna af himnum ofan fyrr en heilögum anda var úthellt yfir þá á hvítasunnu árið 33. – Post. 1:6-8.

14. Hvað getum við lært af trúsystkinum okkar sem voru uppi snemma á 20. öld?

14 Svipað var uppi á teningnum í byrjun 20. aldar. Sannkristnir menn á þeim tíma gerðu sér ýmsar rangar hugmyndir um hina síðustu daga. (2. Tím. 3:1) Árið 1914 héldu til dæmis sumir að þeir yrðu teknir upp til himna þá og þegar en það gerðist ekki. Þeir héldu áfram að rannsaka Biblíuna og uppgötvuðu að mikið boðunarátak væri enn fram undan. (Mark. 13:10) Árið 1922 var haldið alþjóðamót í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum. Bróðir J. F. Rutherford fór með forystu fyrir boðuninni á þeim tíma og sagði mótsgestum: „Sjáið, konungurinn ríkir! Þið eruð kynningarfulltrúar hans. Þið skuluð því kunngera, kunngera, kunngera konunginn og ríki hans.“ Þaðan í frá hefur það verið aðalsmerki þjóna Jehóva að boða „fagnaðarerindið um ríkið“. – Matt. 4:23; 24:14.

15. Hvers vegna er gott að íhuga það sem Jehóva hefur gert fyrir þjóna sína?

15 Það er gott að hugleiða hve frábærlega Jehóva hefur annast þjóna sína, bæði fyrr og nú. Það minnir okkur á að við getum treyst að hann láti vilja sinn ná fram að ganga í framtíðinni. Áminningar Jehóva hjálpa okkur að hafa spádóma hans ljóslifandi í hugum okkar og hjörtum, og treysta að hann efni loforð sín.

STYRKJUM TRAUSTIÐ MEÐ TRÚARVERKUM

16. Hvaða blessun fylgir því að vera duglegur í þjónustu Guðs?

16 Jehóva er máttugur Guð. Hann lætur verkin tala. „Hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn,“ sagði sálmaskáldið og bætti við: „Hönd þín [er] sterk, hægri hönd þín hátt upp hafin.“ (Sálm. 89:9, 14) Þar af leiðandi kann Jehóva vel að meta að við leggjum okkur fram í þjónustu hans og blessar það sem við gerum. Hann sér að þjónar hans, karlar og konur, ungir og aldnir, slá ekki slöku við og eta ekki „letinnar brauð“. (Orðskv. 31:27) Við líkjum eftir skaparanum þegar við erum önnum kafin í þjónustu hans. Það er mjög gefandi fyrir okkur að þjóna honum af heilum hug og hann blessar starf okkar með ánægju. – Lestu Sálm 62:13.

17, 18. Hvernig styrkjum við traustið til Jehóva með því að vinna verk sem vitna um trú? Nefndu dæmi.

17 Hvernig getum við styrkt traustið til Jehóva með því að vinna verk sem vitna um trú? Lítum á hvað gerðist á leið Ísraelsmanna inn í fyrirheitna landið. Jehóva hafði sagt prestunum, sem báru sáttmálsörkina, að ganga rakleiðis út í Jórdan. Þegar fólkið nálgaðist ána blasti við að hún var bólgin sökum vorrigninga og flæddi yfir bakka sína. Hvað áttu Ísraelsmenn að taka til bragðs? Tjalda við ána og bíða vikum saman eftir að sjatnaði í henni? Nei, þeir treystu Jehóva og fylgdu fyrirmælum hans. Hvað gerðist þá? Í frásögunni segir: „Þegar ... prestarnir drápu fæti í fljótið stöðvaðist vatnið ... [þeir] stóðu föstum fótum á þurru, mitt í Jórdan, á meðan allur Ísrael fór yfir ána þurrum fótum, þar til öll þjóðin var komin yfir Jórdan.“ (Jós. 3:12-17) Hugsaðu þér hvernig það hefur verið fyrir Ísraelsmenn að sjá beljandi ána stöðvast. Trú þeirra styrktist vegna þess að þeir fylgdu fyrirmælum Jehóva.

Ætlar þú að sýna sama traust og þjóð Guðs á dögum Jósúa? (Sjá 17. og 18. grein.)

18 Jehóva vinnur vissulega ekki slík kraftaverk fyrir þjóna sína nú á dögum en hann blessar trúarverk þeirra. Hann hefur falið þeim að boða fagnaðarerindið út um allan heim og andi hans gefur þeim kraft til þess. Og mesti vottur Jehóva, Jesús Kristur, fullvissaði lærisveinana um að hann myndi styðja þá í þessu mikilvæga starfi. Hann sagði við þá eftir að hann var risinn upp: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum,“ og bætti við: „Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matt. 28:19, 20) Margir vottar, sem hafa verið feimnir og óframfærnir, geta vitnað um að heilagur andi Guðs hefur gefið þeim kjark til að tala við ókunnuga í boðunarstarfinu. – Lestu Sálm 119:46; 2. Korintubréf 4:7.

19. Hverju getum við treyst þrátt fyrir takmörk okkar?

19 Sökum heilsu eða aldurs geta sumir bræður og systur ekki gert nándar nærri eins mikið og þau vildu í þjónustu Guðs. Þau geta engu að síður treyst að „faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar“ skilur aðstæður þeirra hvers og eins. (2. Korintubréf 1:3) Hann kann að meta að við gerum allt sem við getum í þjónustu hans. Við þurfum öll að hafa hugfast að það er fyrst og fremst vegna trúar á lausnarfórn Krists sem við hljótum hjálpræði. – Hebr. 10:39.

20, 21. Nefndu dæmi um hvernig við getum sýnt að við treystum á Jehóva.

20 Það er þáttur í tilbeiðslu okkar að nota tíma okkar, krafta og fjármuni eins vel og við getum í þjónustu Guðs. Við þráum að ,gera verk fagnaðarboða‘. (2. Tím. 4:5) Við höfum ánægju af því vegna þess að þannig hjálpum við fólki að ,komast til þekkingar á sannleikanum‘. (1. Tím. 2:4) Það er augljóst að það er andlega auðgandi að heiðra og lofa Jehóva. (Orðskv. 10:22) Og það hjálpar okkur að treysta skaparanum skilyrðislaust hvað sem á dynur. – Rómv. 8:35-39.

21 Eins og við höfum rætt er ekki sjálfgefið að við treystum viturlegum leiðbeiningum Jehóva heldur þurfum við að leggja eitthvað á okkur til þess. Styrktu traustið fyrir alla muni með því að biðja til Guðs. Hugleiddu hvernig hann hefur látið vilja sinn ná fram að ganga hingað til og hvernig hann mun gera það í framtíðinni. Og haltu áfram að styrkja traustið til Jehóva með því að vinna verk sem vitna um trú. Áminningar Jehóva eru eilífar. Ef þú ferð eftir þeim geturðu lifað að eilífu.