Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ætlar þú að færa fórnir fyrir ríki Guðs?

Ætlar þú að færa fórnir fyrir ríki Guðs?

„Guð elskar glaðan gjafara.“ – 2. KOR. 9:7.

1. Hvers konar fórnir færa margir og hvers vegna?

 FÓLK færir fúslega fórnir fyrir ýmislegt sem er því mikilvægt. Foreldrar gefa tíma sinn, krafta og peninga í þágu barnanna. Ungir íþróttamenn, sem langar til að keppa fyrir land sitt á Ólympíuleikum, nota nokkrar klukkustundir á dag í strangar æfingar og þjálfun meðan jafnaldrarnir skemmta sér. Jesús færði líka fórnir fyrir það sem var honum mikilvægt. Hann sóttist ekki eftir munaði og eignaðist ekki börn. Hann kaus öllu heldur að einbeita sér að því að boða ríki Guðs. (Matt. 4:17; Lúk. 9:58) Fylgjendur hans töldu líka afar mikilvægt að styðja ríki Guðs og lögðu mikið í sölurnar til þess. Þeir færðu fórnir til að geta átt sem mestan þátt í að starfa fyrir ríki hans. (Matt. 4:18-22; 19:27) Við getum því spurt okkur: Hvað finnst mér mikilvægt í lífinu?

2. (a) Hvaða fórnir verða allir sannkristnir menn að færa? (b) Hvaða fórnir geta sumir fært að auki?

2 Allir sannkristnir menn verða að færa vissar fórnir og þær eru nauðsynlegar til að eignast gott samband við Jehóva og viðhalda því. Þetta eru fórnir eins og þær að nota tíma og krafta til að biðja, lesa í Biblíunni, sækja samkomur, boða fagnaðarerindið og eiga stund með fjölskyldunni til biblíunáms. * (Jós. 1:8; Matt. 28:19, 20; Hebr. 10:24, 25) Jehóva blessar það sem við leggjum af mörkum þannig að boðunin eflist og fólk streymir á „fjallið, sem hús Drottins stendur á“. (Jes. 2:2) Margir færa fórnir til að geta starfað á Betel, aðstoðað við að byggja ríkissali og mótshallir, skipuleggja mót eða taka þátt í hjálparstarfi eftir náttúruhamfarir. Þess er ekki krafist að við vinnum störf af þessu tagi til að hljóta eilíft líf en þau eru mikilvægur þáttur í að styðja ríki Guðs.

3. (a) Hvernig er það okkur til góðs að færa fórnir í þágu Guðsríkis? (b) Hvaða spurningum ættum við að velta fyrir okkur?

3 Það hefur aldrei verið meiri þörf en nú að starfa fyrir ríki Guðs. Það er ánægjulegt að sjá hve margir eru fúsir til að færa Jehóva fórnir. (Lestu Sálm 54:8.) Það veitir okkur mikla gleði að vera örlát meðan við bíðum þess að ríki Guðs komi. (5. Mós. 16:15; Post. 20:35) Það er samt hollt fyrir okkur öll að líta í eigin barm. Getum við fært meiri eða fleiri fórnir í þágu Guðsríkis? Hvernig notum við tíma okkar, fjármuni, krafta og hæfileika? Hvað þurfum við að varast? Við skulum líta á hliðstæðu úr fortíðinni sem við getum líkt eftir þegar við færum sjálfviljafórnir. Þannig getum við verið enn glaðari í þjónustu Jehóva.

FÓRNIR Í ÍSRAEL TIL FORNA

4. Hvernig var það Ísraelsmönnum til góðs að færa fórnir?

4 Í Forn-Ísrael þurfti fólk að færa fórnir til að fá syndir sínar fyrirgefnar. Þær voru nauðsynlegar til að hljóta velþóknun Jehóva. Sumar fórnir var skylt að færa en aðrar voru sjálfviljafórnir sem fólk færði Jehóva að gjöf. (3. Mós. 23:37, 38) Fólk gat fært Jehóva brennifórnir að vild sinni. Þegar musterið var vígt á dögum Salómons voru Jehóva færðar miklar fórnir. – 2. Kron. 7:4-6.

5. Hvaða ráðstafanir gerði Jehóva fyrir fátæka?

5 Jehóva vissi að það gátu ekki allir gefið jafn mikið, og hann ætlaðist ekki til meira en hver og einn gat látið af hendi rakna. Í lögmálinu var ákvæði þess efnis að fórna þyrfti dýri og úthella blóði þess. Það var ,skuggi hins góða sem var í vændum‘, það er að segja fórnarinnar sem Jesús færði. (Hebr. 10:1-4) En Jehóva beitti þessu lagaákvæði á sanngjarnan og kærleiksríkan hátt. Sá sem hafði ekki efni á að færa stóra skepnu að fórn, svo sem hrút eða hafur, mátti fórna turtildúfum. Þannig gátu fátækir einnig notið þeirrar ánægju að færa Jehóva fórn. (3. Mós. 1:3, 10, 14; 5:7) Þótt Jehóva tæki við fórnardýrum af ólíku tagi þurftu þeir sem færðu sjálfviljafórnir að uppfylla tvö skilyrði.

6. Hvaða skilyrði þurftu þeir sem færðu fórnir að uppfylla og hve mikilvægt var það?

6 Í fyrsta lagi þurfti sá sem færði fórnina að gefa sitt besta. Jehóva sagði þjóð sinni að fórnardýrið þyrfti að vera heilbrigt til að menn gætu ,hlotið velþóknun‘. (3. Mós. 22:18-20) Ef dýrið var veikt eða vanskapað var það ekki boðleg fórn í augum Jehóva. Í öðru lagi þurfti sá sem færði fórnina að vera hreinn og óflekkaður. Ef maður vildi færa sjálfviljafórn en var óhreinn í augum Jehóva þurfti hann fyrst að færa syndafórn eða sektarfórn til að hljóta velþóknun hans. (3. Mós. 5:5, 6, 15) Þetta var alvarlegt mál. Í lögmáli Jehóva var tekið fram að ef óhrein manneskja neytti kjöts af heillafórn, en sjálfviljafórnir voru hluti þeirra, ætti að taka hana af lífi. (3. Mós. 7:20, 21) Ef sá sem færði fórnina var hreinn í augum Jehóva og fórnin var lýtalaus gat hann hins vegar glaðst og haft góða samvisku. – Lestu 1. Kroníkubók 29:9.

FÓRNIR NÚ Á TÍMUM

7, 8. (a) Hvaða ánægju hafa margir af því að færa fórnir í þágu Guðsríkis? (b) Hvað höfum við til umráða sem við getum fært Jehóva að fórn?

7 Það gleður líka Jehóva hve margir eru fúsir til að leggja sig alla fram í þjónustu hans nú á dögum. Það er gefandi að vinna í þágu trúsystkina sinna. Bróðir nokkur, sem tekur þátt í að byggja ríkissali og aðstoða eftir náttúruhamfarir, segist eiga erfitt með að lýsa þeirri ánægju sem hann hafi af starfi sínu. Hann segir: „Það er sannarlega erfiðisins virði þegar maður sér hve bræður og systur á staðnum eru ánægð að vera komin í nýjan ríkissal eða að hafa fengið aðstoð eftir náttúruhamfarir.“

Margar fórnir voru sjálfviljafórnir, ekki ósvipað þeim fórnum sem við færum núna. (Sjá 7.-13. grein.)

8 Söfnuður Jehóva hefur alltaf verið vakandi fyrir því að styðja það starf sem Jehóva vill láta vinna. Bróðir Charles Taze Russell skrifaði árið 1904: „Hver og einn á að líta svo á að Drottinn hafi skipað hann ráðsmann yfir tíma sínum, áhrifum, peningum o.s.frv., og hver og einn á að nota þessar talentur sem best hann getur til dýrðar húsbóndanum.“ Það kostar okkur eitthvað að færa Jehóva fórnir en við hljótum líka mikla blessun fyrir. (2. Sam. 24:21-24) Getum við notað betur það sem við höfum úr að spila?

Betelstarfsmenn í Ástralíu.

9. Hvaða leiðbeiningar gaf Jesús í Lúkasi 10:2-4 og hvernig getum við nýtt okkur þær?

9 Tími okkar. Það kostar mikinn tíma og vinnu að þýða og prenta ritin okkar, byggja ríkissali og mótshallir, skipuleggja mót, veita neyðaraðstoð og vinna önnur nauðsynleg störf. Við höfum ekki nema ákveðinn fjölda klukkustunda til umráða á hverjum degi. Jesús benti á hvernig hægt væri að nota tímann sem best. Þegar hann sendi lærisveinana út til að boða fagnaðarerindið sagði hann þeim að ,heilsa engum á leiðinni‘. (Lúk. 10:2-4) Af hverju skyldi Jesús hafa sagt það? Biblíufræðingur segir: „Kveðjur meðal Austurlandabúa voru meira en örlítil hneiging eða handaband eins og við erum vön. Menn föðmuðust og hneigðu sig margsinnis og lögðust jafnvel flatir á jörðina. Þetta var býsna tímafrekt.“ Jesús var ekki að hvetja fylgjendur sína til að vera dónalegir. Hann var aðeins að benda þeim á að þeir hefðu takmarkaðan tíma til umráða og ættu að nota hann sem best til að sinna því sem mestu máli skipti. (Ef. 5:16) Getum við nýtt okkur þessar leiðbeiningar til að nota tímann betur í þágu Guðsríkis?

Boðberar í ríkissal í Kenía í Afríku.

10, 11. (a) Hvernig eru framlög okkar til alþjóðastarfsins meðal annars notuð? (b) Hvaða gagnlegu leiðbeiningar er að finna í 1. Korintubréfi 16:1, 2?

10 Peningar okkar. Það þarf töluvert fé til að standa undir alþjóðastarfi okkar. Ár hvert er varið milljörðum króna í að halda uppi farandumsjónarmönnum, sérbrautryðjendum og trúboðum. Síðan 1999 hafa verið reistir rúmlega 24.500 ríkissalir í löndum með takmörkuð fjárráð. Enn vantar þó næstum 6.400 ríkissali til að fullnægja þörfinni. Í hverjum mánuði eru prentaðar um 100 milljónir eintaka af tímaritunum Varðturninn og Vaknið! Allt er þetta kostað með frjálsum framlögum ykkar.

11 Páll postuli setti fram góðar leiðbeiningar varðandi framlög. (Lestu 1. Korintubréf 16:1, 2.) Honum var innblásið að hvetja trúsystkini sín í Korintu til að bíða ekki fram í vikulokin til að sjá hvað þau ættu aflögu heldur að leggja eitthvað fyrir í byrjun vikunnar eftir því sem þau hefðu efni á. Bræður og systur á okkar dögum sýna líka fyrirhyggju til að geta gefið örlátlega eftir aðstæðum sínum. (Lúk. 21:1-4; Post. 4:32-35) Jehóva kann að meta slíkt örlæti.

Sjálfboðaliði á vegum svæðisbyggingarnefndar í Tuxedo í New York í Bandaríkjunum.

12, 13. Hvers vegna gætu sumir hikað við að bjóða fram krafta sína og hæfileika en hvernig getur Jehóva hjálpað þeim?

12 Kraftar okkar og hæfileikar. Jehóva styður okkur þegar við notum krafta okkar og hæfileika í þágu ríkis hans. Hann lofar að hjálpa okkur þegar við þreytumst. (Jes. 40:29-31) Finnst okkur að við séum ekki hæf til að leggja hönd á plóginn? Hugsum við sem svo að aðrir séu færari en við? Munum að Jehóva getur aukið við hæfileika okkar eins og hann gerði fyrir þá Besalel og Oholíab. – 2. Mós. 31:1-6, sjá mynd í upphafi greinar.

13 Jehóva hvetur okkur til að halda ekki að okkur höndum heldur gera okkar besta. (Orðskv. 3:27) Þegar verið var að endurreisa musterið sagði hann Gyðingum í Jerúsalem að velta fyrir sér hvað þeir legðu af mörkum til verksins. (Hag. 1:2-5) Þeim var ekki lengur efst í huga að endurbyggja musterið. Það er gott fyrir okkur að hugleiða hvort við forgangsröðum eins og Jehóva hvetur okkur til. Væri ekki ráð að íhuga alvarlega hvernig við notum krafta okkar og kanna hvort við getum stutt ríki Guðs enn betur en við gerum núna á þessum síðustu dögum?

FÆRUM FÓRNIR EFTIR ÞVÍ SEM AÐSTÆÐUR OKKAR LEYFA

14, 15. (a) Hvers vegna er hvetjandi fyrir okkur að lesa um örlæti bræðra og systra sem hafa lítið handa á milli? (b) Hvað ættum við að gera?

14 Margir búa á svæðum þar sem fátækt og erfiðleikar eru daglegt brauð. Söfnuður okkar reynir að bæta úr skorti bræðra og systra í þessum löndum. (2. Kor. 8:14) En jafnvel þeim sem hafa lítið handa á milli finnst það mikill heiður að mega gefa eitthvað og gera það fagnandi. Það gleður Jehóva að sjá þá gefa það sem þeir geta. – 2. Kor. 9:7.

15 Í mjög fátæku landi í Afríku hafa sumir bræður tekið frá smáskika í garðinum sínum og selja það sem þeir rækta þar til að styðja ríki Guðs. Í sama landi átti að reisa ríkissal og bræður og systur á svæðinu langaði til að taka þátt í verkinu. En þetta átti að gerast um háannatímann meðan þau voru að sá í akra sína. Þau létu það ekki aftra sér heldur unnu við að byggja ríkissalinn að degi til og unnu síðan á ökrunum á kvöldin til að ljúka sáningunni. Hvílík fórnfýsi! Þetta minnir á bræður og systur í Makedóníu á fyrstu öld. Þrátt fyrir „sára fátækt“ báðu þau Pál um að mega leggja eitthvað af mörkum til að styðja trúsystkini annars staðar. (2. Kor. 8:1-4) Við skulum öll gefa í samræmi við þá blessun sem Jehóva hefur veitt okkur. – Lestu 5. Mósebók 16:17.

16. Hvernig getum við tryggt að Jehóva hafi velþóknun á fórnum okkar?

16 Þegar við færum fórnir þurfum við að gæta þess að vanrækja ekki enn mikilvægari skyldur eins og gagnvart fjölskyldunni. Við þurfum að ganga úr skugga um að Jehóva hafi velþóknun á sjálfviljafórnum okkar, ekki ósvipað og Ísraelsmenn forðum daga. Mikilvægustu skyldur okkar snúa að fjölskyldunni og tilbeiðslu okkar á Jehóva. Við ættum ekki að gefa svo mikið af tíma okkar og kröftum í þágu annarra að við vanrækjum andlegar og líkamlegar þarfir fjölskyldunnar. Þá værum við í rauninni að gefa eitthvað sem við eigum ekki til. (Lestu 2. Korintubréf 8:12.) Við þurfum líka að rækta sambandið við Jehóva. (1. Kor. 9:26, 27) Ef við lifum í samræmi við meginreglur Biblíunnar getum við hins vegar treyst að Jehóva hafi velþóknun á fórnum okkar og sjálf höfum við mikla ánægju af því að færa honum þær.

FÓRNIR OKKAR ERU MIKILS VIRÐI

17, 18. Hvað finnst þér um alla þá sem færa fórnir í þágu Guðsríkis og hvað ættum við öll að hugleiða?

17 Fjöldi bræðra og systra gefur örlátlega af tíma sínum, kröftum og fjármunum til stuðnings ríki Guðs. (Fil. 2:17) Við metum þau mikils fyrir gjafmildi þeirra. Eiginkonur og börn bræðra, sem fara með forystu í þjónustunni við ríki Guðs, eiga líka hrós skilið fyrir örlæti sitt og fórnfýsi.

18 Það er þörf á mörgum fúsum höndum í þjónustunni við ríki Guðs. Við skulum öll hugleiða hvernig við getum átt sem mestan þátt í þessari þjónustu og ræða það við Jehóva í bænum okkar. Við megum treysta að við hljótum ríkulega umbun erfiðis okkar núna og enn meiri umbun í „hinum komanda heimi“. – Mark. 10:28-30.

^ Sjá greinina „Færum Jehóva fórnir af heilum huga“ í Varðturninum 15. janúar 2012, bls. 21-25.