Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva faldi þau í skugga fjallanna

Jehóva faldi þau í skugga fjallanna

KONAN opnar dyrnar og gengur út fyrir. Þetta er snemma morguns. Á dyraþrepinu liggur pakki. Konan tekur hann upp og horfir í kringum sig. Gatan er mannlaus. Einhver óþekktur gestur hlýtur að hafa skilið pakkann eftir í skjóli nætur. Hún hálfopnar hann, flýtir sér síðan inn fyrir og lokar dyrunum. Það er skiljanlegt því að í honum eru biblíutengd rit sem yfirvöld hafa bannað. Hún þrýstir að sér pakkanum og þakkar Jehóva í hljóðri bæn fyrir þessa dýrmætu andlegu fæðu.

Atvik af þessu tagi áttu sér oft stað í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar. Eftir að nasistar komust til valda árið 1933 var starf votta Jehóva bannað víðast hvar í landinu. „Við vorum sannfærð um að tilskipun manna gæti ekki komið í veg fyrir að við boðuðum Jehóva og nafn hans,“ segir Richard Rudolph sem er nú kominn yfir tírætt. * „Biblíuritin voru mikilvæg hjálpargögn við biblíunám okkar og boðun. En þau voru af skornum skammti vegna bannsins. Við veltum fyrir okkur hvernig starfið gæti haldið áfram.“ Richard uppgötvaði fljótlega að hann gat orðið þar að liði á frekar óvenjulegan hátt. Hann myndi gera það í skugga fjallanna. – Dóm. 9:36.

Í FÓTSPOR SMYGLARA

Ef Saxelfi er fylgt frá ósum hennar er að lokum komið að Krkonoše-fjöllum (Risafjöllum) þar sem nú eru landamæri Tékklands og Póllands. Þótt þau séu ekki nema 1.600 metra há hafa þau verið kölluð íshafseyjan í miðri Evrópu. Helming ársins liggur allt að þriggja metra djúpur snjór á fjallshryggjunum. Veðrið er óstöðugt og þeir sem gæta ekki að sér eiga á hættu að lenda í svartaþoku sem getur skollið skyndilega á.

Öldum saman hefur fjallgarðurinn myndað náttúrleg landamæri milli ríkja og héraða. Erfitt var að vakta þetta hrjóstruga svæði þannig að áður fyrr var algengt að menn færu þar um með smyglvarning. Á fjórða áratugnum, þegar landamæri Tékkóslóvakíu og Þýskalands lágu um Risafjöll, tóku einbeittir vottar að feta hinar fornu slóðir smyglaranna. Til hvers? Til að flytja dýrmæt biblíunámsrit til Þýskalands frá stöðum þar sem auðveldara var að nálgast þau. Richard var einn þessara votta.

Bræður og systur klædd göngufatnaði fluttu rit til Þýskalands yfir Risafjöll.

HÆTTULEGAR „GÖNGUFERÐIR“

„Um helgar héldum við til fjalla klæddir göngufatnaði, svona sjö ungir bræður saman,“ segir Richard. „Við vorum um þrjá tíma að ganga rúmlega 15 kílómetra leið frá Þýskalandi yfir til ferðamannastaðarins Špindlerův Mlýn í Tékkóslóvakíu. Margir Þjóðverjar bjuggu þar um slóðir á þeim tíma. Einn þeirra var bóndi sem féllst á að aðstoða bræðurna. Hann átti hestvagn sem hann notaði yfirleitt til að flytja ferðamenn. Ritin höfðu verið send með járnbraut frá Prag til nálægs bæjar, og bóndinn notaði vagninn til að sækja kassana. Hann flutti þá heim á býlið og faldi þá uppi á hlöðulofti þar sem þeir biðu eftir að „göngumennirnir“ kæmu og flyttu ritin yfir til Þýskalands.

Richard heldur áfram: „Þegar við komum á býlið röðuðum við í bakpokana sem voru sérsniðnir til að bera mikinn þunga. Við bárum um 50 kíló hver.“ Svo að ekki sæist til þeirra héldu þeir af stað um sólsetur, gengu í náttmyrkrinu og voru komnir heim fyrir sólarupprás. Ernst Wiesner var farandhirðir í Þýskalandi á þeim tíma. Hann lýsir varúðarráðstöfunum sem þeir gerðu: „Tveir bræður fóru á undan og gáfu merki með vasaljósi ef þeir mættu einhverjum. Bræðurnir með þunga bakpokana voru um 100 metra á eftir þeim, og þegar þeir sáu merkið földu þeir sig í runnunum með fram götunni. Þeir biðu þar uns undanfararnir tveir komu og gáfu upp ákveðið leyniorð en því var breytt vikulega.“ Þeim stafaði þó ekki aðeins hætta af þýskum lögregluþjónum í bláum búningum.

„Kvöld eitt þurfti ég að vinna fram eftir,“ segir Richard, „þannig að ég lagði seinna af stað yfir til Tékkóslóvakíu en bræður mínir. Það var þoka og orðið dimmt og ég skalf úr kulda þar sem ég gekk í ísköldu regninu. Ég villtist í dvergfuruskóginum og eigraði þar um í nokkrar klukkustundir. Margir göngumenn hafa dáið við þessar aðstæður. Ég hitti ekki bræður mína fyrr en þeir voru á heimleið snemma næsta morgun.“

Þessi litli hópur hugrakkra bræðra hélt til fjalla vikulega í um það bil þrjú ár. Að vetri til fluttu þeir dýrmætan varning sinn á skíðum eða sleðum. Stöku sinnum fóru allt að 20 bræður saman yfir landamærin að degi til eftir merktum gönguleiðum. Nokkrar systur voru með í för til að láta líta út sem þetta væri ósköp saklaus gönguhópur. Sumar af systrunum gengu á undan og köstuðu húfunum upp í loftið ef þær grunaði að hætta væri á ferðum.

Það var hættulegt að fara fótgangandi yfir snæviþakta tinda Risafjalla.

Eftir að bræðurnir komu til baka síðla nætur með byrðar sínar var séð til þess að ritunum yrði dreift án tafar. Þeim var pakkað þannig að þau litu út eins og sápupakkar og síðan var farið með þau á járnbrautarstöðina í Hirschberg. Þaðan voru þau send víða um Þýskaland þar sem bræður og systur dreifðu þeim með leynd til trúsystkina líkt og lýst var í upphafi greinarinnar. Svo samfléttað var þetta leynilega dreifingarnet að fyndu yfirvöld eitthvað gat það haft víðtækar afleiðingar. Og það gerðist einn góðan veðurdag með óvæntum hætti.

Árið 1936 fundu yfirvöld bókalager sem við vorum með í grennd við Berlín. Þar voru meðal annars þrír pakkar frá óþekktum sendanda í Hirschberg. Lögreglan notaði rithandargreiningu til að leita uppi einn af aðalmönnum smyglarahópsins og handtók hann. Skömmu síðar handtók lögreglan tvo til viðbótar sem grunaðir voru. Annar þeirra var Richard Rudolph. Þar sem bræðurnir tóku á sig alla sökina gátu aðrir haldið áfram að flytja rit yfir landamærin um tíma þótt það yrði sífellt hættulegra.

LÆRDÓMUR FYRIR OKKUR

Ritin, sem flutt voru í bakpokum yfir Risafjöll, voru umtalsverður hluti þeirra biblíufræðslurita sem þýskir vottar fengu í hendur. En leiðin um Risafjöll var ekki eina flutningaleiðin. Notaðar voru aðrar leiðir á landamærum Þýskalands og Tékkóslóvakíu uns Þjóðverjar hernámu hið síðarnefnda árið 1939. Svipað var uppi á teningnum í öðrum löndum sem lágu að Þýskalandi, svo sem Frakklandi, Hollandi og Sviss. Vottar beggja vegna landamæranna settu sig í mikla hættu til að sjá ofsóttum trúsystkinum sínum fyrir andlegri fæðu.

Flest okkar hafa ótakmarkaðan aðgang að biblíutengdum ritum í ýmiss konar formi. En hvort sem við náum okkur í ný rit í ríkissalnum eða á vefsvæðinu jw.org er ástæða til að íhuga hvaða vinna búi að baki gerð þeirra og dreifingu. Það þurfti líklega ekki að flytja þau yfir snæviþakta fjallatinda í skjóli nætur en það kostaði samt mikla vinnu af hálfu margra trúsystkina sem þjóna hagsmunum þínum á óeigingjarnan hátt.

^ Richard starfaði með Hirschberg-söfnuðinum í Schlesien. Bærinn Hirschberg heitir nú Jelenia Góra og er í suðvesturhluta Póllands.