Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum ekki „fljót til að komast í uppnám“

Verum ekki „fljót til að komast í uppnám“

„Bið ég ykkur, bræður og systur, að vera ekki fljót til að komast í uppnám.“ – 2. ÞESS. 2:1, 2.

1, 2. Hvers vegna er mikið um blekkingar nú á dögum og hvernig birtast þær gjarnan? (Sjá myndina að ofan.)

 SVIK og blekkingar eru allt of algeng í þeim heimi sem nú er. Það er engin furða. Í Biblíunni kemur fram að Satan djöfullinn er mikill blekkingameistari og hann stjórnar heiminum. (1. Tím. 2:14; 1. Jóh. 5:19) Hann verður því reiðari sem nær dregur endalokunum vegna þess að hann veit að hann hefur „nauman tíma“ til umráða. (Opinb. 12:12) Þess vegna er við því að búast að þeir sem eru undir áhrifavaldi Satans verði æ svikulli, ekki síst gagnvart þeim sem styðja sanna guðsdýrkun.

2 Stundum koma fram í fjölmiðlum villandi staðhæfingar og hreinar lygar um þjóna Jehóva og trú þeirra. Ósannindum er haldið á lofti í fyrirsögnum dagblaða, heimildarmyndum í sjónvarpi og á vefsíðum. Sumir eru nógu auðtrúa til að leggja trúnað á lygarnar og láta þær koma sér úr jafnvægi.

3. Hvað getum við gert til að láta ekki blekkjast?

3 Við erum þakklát fyrir Biblíuna sem er „nytsöm til ... leiðréttingar“. (2. Tím. 3:16) Hún hjálpar okkur að sporna gegn siðspillandi kænskubrögðum óvinarins. Af skrifum Páls postula má sjá að sumir hinna kristnu í Þessaloníku á fyrstu öld lögðu trúnað á ýmis ósannindi og létu leiða sig afvega. Hann hvatti þá til að ,vera ekki fljótir til að komast í uppnám‘ og missa þannig fótfestuna í sannleikanum. (2. Þess. 2:1, 2) Hvað getum við lært af hlýlegum áminningum Páls og hvernig getum við heimfært þær upp á okkar eigin aðstæður?

TÍMABÆRAR VIÐVARANIR

4. Hvernig voru kristnir menn í Þessaloníku minntir á að dagur Jehóva væri nálægur og hvernig erum við minnt á það?

4 Í fyrra bréfinu til safnaðarins í Þessaloníku vakti Páll athygli á að dagur Jehóva væri nálægur. Hann vildi ekki að bræður sínir og systur væru óundirbúin né í myrkri. Hann kallaði þau „börn ljóssins“ og hvatti þau til að ,vaka og vera allsgáð‘. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:1-6.) Við bíðum þess núna að Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða, verði eytt. Hinn mikli dagur Jehóva hefst með þeim atburði. Við höfum sem betur fer góðan skilning á því hvernig vilji Jehóva nær fram að ganga. Við fáum líka tímabærar og endurteknar áminningar fyrir milligöngu safnaðarins sem hjálpa okkur að halda vöku okkar. Við verðum enn ákveðnari í að veita Guði heilaga þjónustu ef við gefum gaum að þessum áminningum. – Rómv. 12:1.

Í bréfum Páls er að finna tímabærar viðvaranir til kristinna manna. (Sjá 4. og 5. grein.)

5, 6. (a) Um hvað ræddi Páll í 2. Þessaloníkubréfi? (b) Hvað gerir Guð bráðlega fyrir atbeina Jesú og hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

5 Páll sendi söfnuðinum í Þessaloníku annað bréf skömmu eftir að hann skrifaði hið fyrra. Þar vekur hann athygli á þrengingunni fram undan þegar Drottinn Jesús fullnægir dómi yfir „þeim sem þekkja ekki Guð og þeim sem hlýða ekki fagnaðarerindinu“. (2. Þess. 1:6-8) Í öðrum kafla bréfsins kemur fram að sumir í söfnuðinum voru svo spenntir fyrir degi Jehóva að þeir héldu að hann væri alveg að renna upp. (Lestu 2. Þessaloníkubréf 2:1, 2.) Kristnir menn í Þessaloníku höfðu aðeins takmarkaðan skilning á því hvernig vilji Jehóva næði fram að ganga, rétt eins og Páll viðurkenndi síðar varðandi spádóma: „Þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum. En þegar hið fullkomna kemur líður það undir lok sem er í molum.“ (1. Kor. 13:9, 10) En innblásnar viðvaranir Páls, Péturs postula og annarra andasmurðra bræðra á þeim tíma gátu hjálpað frumkristnum mönnum að viðhalda trúnni.

6 Til að leiðrétta misskilning Þessaloníkumanna var Páli innblásið að benda á að mikið fráhvarf yrði og „maður lögleysisins“ kæmi fram áður en dagur Jehóva rynni upp. * Þegar þar að kæmi myndi Drottinn Jesús síðan ,gera að engu‘ alla sem hefðu látið blekkjast. Postulinn tiltók hvers vegna þeir fengju þennan dóm en það var vegna þess að þeir „vildu ekki þiggja kærleikann til sannleikans“. (2. Þess. 2:3, 8-10) Við ættum að spyrja okkur: Hve vænt þykir mér um sannleikann? Er ég vel heima í nýjustu skýringum sem gefnar eru í þessu blaði og öðrum biblíutengdum ritum sem söfnuður þjóna Guðs um heim allan fær í hendur?

VANDAÐU VALIÐ Á VINUM

7, 8. (a) Hvaða hættu þurftu frumkristnir menn að varast? (b) Hvaða hættu þurfa sannkristnir menn nú á dögum sérstaklega að varast?

7 Kristnum mönnum myndi auðvitað stafa hætta af ýmsu öðru en fráhvarfsmönnum og kenningum þeirra. Páll sagði í bréfi til Tímóteusar að fégirnd væri „rót alls ills“. Hann benti á að við þá fíkn hefðu „nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum“. (1. Tím. 6:10) Þeim myndi einnig stafa sífelld hætta af ,holdsins verkum‘. – Gal. 5:19-21.

8 Þú áttar þig samt á hvers vegna Páll varaði Þessaloníkumenn sterklega við hættunni af falspostulum, eins og hann kallaði þá í öðru af bréfum sínum. Meðal þeirra voru menn sem fluttu „rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér“. (2. Kor. 11:4, 13; Post. 20:30) Jesús hrósaði síðar söfnuðinum í Efesus því að hann gat ekki sætt sig við „vonda menn“. Efesusmenn ,reyndu‘ þá sem voru í rauninni falspostular og lygarar. (Opinb. 2:2) Athygli vekur að Páll sagði í 2. Þessaloníkubréfi: „Ég býð ykkur, systkin, í nafni Drottins vors Jesú Krists að þið sneiðið hjá hverjum þeim í söfnuðinum sem er iðjulaus“. Síðan minnist hann sérstaklega á safnaðarmenn sem ,vildu ekki vinna‘. (2. Þess. 3:6, 10) Ef það var ástæða til að vara við þeim sem voru iðjulausir og vildu ekki vinna hlýtur að hafa verið enn ríkari ástæða til að varast þá sem stefndu út í fráhvarf. Það var hættulegt að umgangast slíka einstaklinga á þeim tíma og það bar að forðast þá – og hið sama á við nú á tímum. – Orðskv. 13:20.

9. Af hverju ættum við að vera vel á verði ef einhver er gagnrýninn eða er með eigin getgátur?

9 Nú er þess skammt að bíða að þrengingin mikla bresti á og þessi illi heimur líði undir lok. Þessar innblásnu viðvaranir frá fyrstu öld eiga því meira erindi til þjóna Guðs en nokkru sinni fyrr. Við viljum alls ekki ,láta náð Guðs verða til einskis‘ og missa af tækifærinu til að hljóta eilíft líf, hvort heldur á himni eða jörð. (2. Kor. 6:1) Við ættum að vera vel á verði ef einhver sem sækir safnaðarsamkomur er gagnrýninn eða reynir að draga okkur inn í samræður um eigin getgátur. – 2. Þess. 3:13-15.

,HALTU FAST VIÐ KENNINGARNAR‘

10. Hvaða kenningum áttu kristnir menn í Þessaloníku að fylgja?

10 Páll hvatti trúsystkini sín í Þessaloníku til að ,standa stöðug‘ og halda fast við það sem þau höfðu lært. (Lestu 2. Þessaloníkubréf 2:15.) Hvaða „kenningar“ höfðu þau lært? Ekki voru það kenningar falstrúarbragða sem haldið var á lofti til jafns við þær sem var að finna í Ritningunni. Páll á hér við þá kennslu sem hann og aðrir höfðu fengið frá Jesú og það sem Guð hafði falið postulanum að flytja, en stór hluti þess var síðan tekinn inn í hina innblásnu Biblíu. Páll hrósaði trúsystkinum sínum í söfnuðinum í Korintu og sagði: „Ég hrósa ykkur fyrir það að þið í öllu minnist mín og haldið fast við kenningarnar eins og ég flutti ykkur þær.“ (1. Kor. 11:2) Þessar kenningar áttu sér áreiðanlegan uppruna og hægt var að treysta þeim.

11. Á hvaða tvo vegu gætu blekkingar haft áhrif á okkur?

11 Í Hebreabréfinu vekur Páll athygli á að kristinn maður gæti orðið óstöðugur í trúnni og misst hana með tvennum hætti. (Lestu Hebreabréfið 2:1; 3:12.) Hann talaði um að ,berast afleiðis‘ og ,bægja sér frá Guði‘. Bát getur borið frá landi án þess að maður taki eftir því í fyrstu. Hann fjarlægist smátt og smátt. Sá sem ýtir bát sínum frá landi gerir það hins vegar að eigin frumkvæði. Báðar líkingarnar lýsa vel hvað gerist stundum hjá þeim sem láta blekkjast og fara að efast um sannleikann.

12. Hvers konar hugðarefni geta spillt sambandi okkar við Jehóva?

12 Þetta kann að hafa gerst hjá sumum í Þessaloníku. Og hvað um nútímann? Það er meira en nóg af tímafrekri afþreyingu í boði. Hugsaðu þér hve mörgum klukkustundum fólk eyðir í að halda tengslum við fólk á samskiptasíðum, lesa rafræn skilaboð og svara þeim, sinna áhugamálum eða fylgjast með öllu sem er að gerast í heimi íþróttanna. Allt getur þetta verið truflandi fyrir kristinn mann og dregið úr kostgæfni hans og áhuga á að þjóna Guði. Þetta getur komið niður á bænasambandi hans, biblíunámi, samkomusókn og boðun. Hvað getum við gert til að missa ekki fótfestuna í sannleikanum?

HVAÐ GETUM VIÐ GERT TIL AÐ MISSA EKKI FÓTFESTUNA?

13. Hvernig hugsa margir, eins og spáð var, og hvað getum við gert til að láta ekki fjara undan trúnni hjá okkur?

13 Eitt sem við verðum að gera er að muna á hvaða tímum við lifum. Við verðum að vera vakandi fyrir því hvaða áhrif það getur haft að umgangast þá sem vilja ekki viðurkenna að ,síðustu dagar‘ standi yfir. Pétur postuli sagði eftirfarandi um þetta tímabil: „Á síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum og segja með spotti: ,Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að síðan feðurnir sofnuðu stendur allt við hið sama eins og frá upphafi veraldar.‘“ (2. Pét. 3:3, 4) Að lesa daglega í Biblíunni og vera iðin við biblíunám hjálpar okkur að hafa skýrt í huga hvar við erum stödd í tímans rás. Það minnir okkur á að við lifum á „síðustu dögum“. Fráhvarfið, sem spáð var, hófst endur fyrir löngu og stendur enn. „Maður lögleysisins“ er enn þá uppi og beitir sér gegn þjónum Guðs. Við þurfum því alltaf að vera vakandi fyrir því hve dagur Jehóva er nálægur. – Sef. 1:7.

Það er góð leið til að missa ekki fótfestuna að vera vel undirbúin og dugleg að boða fagnaðarerindið. (Sjá 14. og 15. grein.)

14. Af hverju er það vernd fyrir okkur að vera önnum kafin í þjónustu Guðs?

14 Reynslan hefur sýnt að einhver besta leiðin til að halda vöku sinni og missa ekki fótfestuna er að boða fagnaðarerindið um ríkið á reglulegum grundvelli. Jesús Kristur, höfuð safnaðarins, sagði fylgjendum sínum að gera fólk af öllum þjóðum að lærisveinum og kenna þeim að halda það sem hann hafði kennt. (Matt. 28:19, 20) Hann vissi að það yrði fylgjendum hans til verndar. Til að fylgja fyrirmælum hans þurfum við að boða fagnaðarerindið af kappi. Geturðu ímyndað þér að bræður og systur í Þessaloníku hafi látið sér nægja að boða og kenna til málamynda, rétt eins og það væri bara einhver kvöð? Mundu hvað Páll sagði við þau: „Slökkvið ekki andann. Fyrirlítið ekki spádómsorð.“ (1. Þess. 5:19, 20) Það eru spennandi spádómar sem við rannsökum og segjum fólki frá!

15. Hvað getur verið gagnlegt að fara yfir í biblíunámi fjölskyldunnar?

15 Við viljum auðvitað stuðla að því að fjölskyldan verði færari í að boða fagnaðarerindið. Margir bræður og systur hafa komist að raun um að það er hjálplegt að nota hluta af biblíunámsstund fjölskyldunnar til að búa sig undir boðunarstarfið. Það gæti verið gott að ræða hvernig hægt sé að fylgja áhuganum eftir hjá fólki sem einhver í fjölskyldunni hefur hitt í boðunarstarfinu. Um hvað væri hægt að tala í næstu heimsókn? Hvaða efni er líklegast til að viðhalda áhuga þeirra sem verið er að heimsækja? Hvenær er best að heimsækja þá? Margir nota líka hluta af námsstundinni til að búa sig undir safnaðarsamkomur með því að skoða hvað verður á dagskrá. Getið þið búið ykkur betur undir að svara á samkomum? Það styrkir trúna og dregur úr líkunum á því að þið missið fótfestuna í sannleikanum. (Sálm. 35:18) Námsstund fjölskyldunnar verndar ykkur fyrir vafasömum getgátum og efasemdum.

16. Hvað er hinum andasmurðu hvatning til að standa styrkum fótum í sannleikanum?

16 Þegar við hugleiðum hvernig Jehóva hefur jafnt og þétt veitt þjónum sínum aukinn skilning á spádómum Biblíunnar áttum við okkur á hvílík blessun bíður okkar í framtíðinni. Hinir andasmurðu eiga fyrir sér að vera með Kristi á himnum. Það er þeim sterk hvatning til að standa styrkum fótum í sannleikanum. Við getum heimfært upp á þá það sem Páll skrifaði Þessaloníkumönnum: „Ætíð hlýt ég að þakka Guði fyrir ykkur, bræður og systur, sem Drottinn elskar. Guð útvaldi ykkur ... Guð lét andann helga ykkur og þið trúið á sannleikann.“ – 2. Þess. 2:13.

17. Hvaða hvatningu fáum við í 2. Þessaloníkubréfi 3:1-5?

17 Þeir sem hlakka til þess að hljóta eilíft líf á jörð ættu einnig að leggja sig fram um að standa styrkum fótum í sannleikanum. Ef þú vonast eftir að lifa á jörðinni skaltu gera eins og Páll hvatti hina andasmurðu í Þessaloníku til. (Lestu 2. Þessaloníkubréf 3:1-5.) Þessi hlýlegu orð ættu að vera okkur öllum mikils virði. Í bréfum Páls til Þessaloníkumanna er varað sterklega við vafasömum getgátum og hugmyndum. Þar sem endirinn er nærri eru þessar viðvaranir mikilvægar fyrir kristna menn nú á dögum.

^ Eins og lesa má í Postulasögunni 20:29, 30 nefndi Páll að innan kristna safnaðarins myndu koma fram menn sem færu með „rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér“. Sagan sýnir að söfnuðurinn skiptist með tímanum í klerka og leikmenn. Á þriðju öld var „maður lögleysisins“ kominn fram í mynd prestastéttar kirkjufélaganna. – Sjá Varðturninn, 1. september 1990, bls. 7-11.