Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þessi dagur skal verða ykkur minningardagur“

„Þessi dagur skal verða ykkur minningardagur“

„Þessi dagur skal verða ykkur minningardagur. Þið skuluð halda hann sem hátíð fyrir Drottin.“ – 2. MÓS. 12:14.

1, 2. Hvaða merkisdagur er sérlega áhugaverður fyrir alla kristna menn og hvers vegna?

 HVAÐ kemur fyrst upp í hugann þegar talað er um merkisdaga? Sumir hugsa kannski um brúðkaupsafmælið sitt. Öðrum dettur fyrst í hug mikilvægur dagur í sögu landsins, til dæmis sjálfstæðisdagur þjóðarinnar. En vissir þú að til er merkisdagur sem minnst hefur verið árlega í meira en 3.500 ár?

2 Þessi merkisdagur er páskahátíðin. Hún var haldin til að minnast þess að Ísraelsmenn voru frelsaðir úr þrælkun í Egyptalandi. Þú ættir að hafa áhuga á þessum atburði vegna þess að hann hefur mikil áhrif á líf þitt. En þú bendir kannski á að þú sért nú ekki gyðingatrúar. Hvers vegna ættirðu þá að hafa áhuga á páskahátíð Gyðinga? Svarið er að finna í þessum þýðingarmiklu orðum: „Páskalambi okkar er slátrað sem er Kristur.“ (1. Kor. 5:7) Hvað merkir þetta? Til að átta okkur á því þurfum við að þekkja til páskahátíðar Gyðinga og skoða hana með hliðsjón af fyrirmælum sem allir kristnir menn hafa fengið.

HVERS VEGNA HÉLDU ÍSRAELSMENN PÁSKA?

3, 4. Hver var undanfari fyrstu páskanna?

3 Hundruð milljóna manna víða um heim, sem eru ekki Gyðingar, þekkja eitthvað til þeirra atburða sem kalla mætti fyrstu páskana. Þeir hafa ef til vill lesið um þá í 2. Mósebók í Biblíunni, heyrt einhvern segja söguna eða séð kvikmynd sem byggð er á þessum atburðum.

4 Þegar Ísraelsmenn höfðu verið þrælar í Egyptalandi um árabil sendi Jehóva Móse og Aron, bróður hans, til faraós til að biðja hann að veita þjóðinni frelsi. Hrokafullur valdhafi Egyptalands var ekki á því að leyfa Ísraelsmönnum að fara, þannig að Jehóva lét miklar plágur ganga yfir landið. Í tíundu plágunni dóu allir frumburðir Egypta og þá lét faraó loks undan og leyfði þeim að fara. – 2. Mós. 1:11; 3:9, 10; 5:1, 2; 11:1, 5.

5. Hvað áttu Ísraelsmenn að gera áður en þeim yrði veitt frelsi? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

5 En hvað áttu Ísraelsmenn að gera áður en þeir fengju frelsi? Þetta var nálægt vorjafndægrum árið 1513 f.Kr., í mánuðinum sem Hebrear kölluðu abíb en var síðar nefndur nísan. * Guð sagði að 10. nísan ættu þeir að byrja að undirbúa viðburð að kvöldi þess 14. Hjá Hebreum hófst dagurinn við sólsetur og stóð fram að næsta sólsetri. Hinn 14. nísan átti hver fjölskylda að slátra hrút (eða geithafri) og bera hluta af blóðinu á dyrastafi og dyratré húsa sinna. (2. Mós. 12:3-7, 22, 23) Fjölskyldan átti að steikja lambið og borða það með ósýrðu brauði og beiskum jurtum. Engill Guðs fór síðan um landið og deyddi frumburði Egypta en hlífði Ísraelsmönnum sem hlýddu fyrirmælunum. Síðan var þeim veitt fararleyfi. – 2. Mós. 12:8-13, 29-32.

6. Hvers vegna átti þjóð Guðs að halda páska um ókomin ár?

6 Ísraelsmenn áttu að hafa þessa frelsun í minnum um ókomin ár. Guð sagði við þá: „Þessi dagur skal verða ykkur minningardagur. Þið skuluð halda hann sem hátíð fyrir Drottin. Kynslóð eftir kynslóð sé það ævarandi regla að þið haldið þessa hátíð.“ Eftir að hafa haldið páska 14. nísan átti að halda sjö daga hátíð. Þótt sjálfur páskadagurinn hafi verið 14. nísan var heitið páskar stundum notað um alla átta hátíðisdagana. (2. Mós. 12:14-17; Lúk. 22:1; Jóh. 18:28; 19:14) Páskarnir voru ein af þeim hátíðum sem Hebrear áttu að halda árlega. – 2. Kron. 8:13.

7. Til hvaða viðburðar stofnaði Jesús þegar hann hélt páska í síðasta sinn?

7 Jesús og postular hans voru Gyðingar og héldu Móselögin. Þeir héldu því páskahátíðina. (Matt. 26:17-19) Í síðasta sinn, sem þeir gerðu það, stofnaði Jesús til nýs viðburðar sem er kallaður kvöldmáltíð Drottins. Hann sagði fylgjendum sínum að minnast sín með þeim hætti ár hvert. En hvaða dag áttu þeir að gera það?

HVAÐA DAG VAR STOFNAÐ TIL KVÖLDMÁLTÍÐAR DROTTINS?

8. Hvaða spurning vaknar varðandi páska og kvöldmáltíð Drottins?

8 Jesús gaf fyrirmælin um kvöldmáltíð Drottins strax eftir að hafa neytt páskamáltíðarinnar, þannig að þennan nýja viðburð ber upp á sama dag. En þú hefur kannski tekið eftir að páska Gyðinga ber ekki alltaf upp á sama dag og við minnumst dauða Krists. Það getur munað einum eða fleiri dögum. Hvers vegna? Svarið er að hluta til fólgið í fyrirmælum Guðs til Ísraelsmanna. Móse sagði að „samkoma alls Ísraelssafnaðar“ skyldi slátra lambinu 14. nísan og tók síðan fram hvenær dagsins það skyldi gert. – Lestu 2. Mósebók 12:5, 6.

9. Hvenær átti að slátra páskalambinu samkvæmt 2. Mósebók 12:6? (Sjá einnig rammagreinina  „Hvenær dagsins?“)

9 Í bókinni The Pentateuch and Haftorahs kemur fram að samkvæmt 2. Mósebók 12:6 hafi átt að slátra lambinu „milli kvöldanna tveggja“. Það orðalag er notað í sumum biblíuþýðingum. Í Tanakh-þýðingu Gyðinga er það þýtt „í ljósaskiptunum“. Í öðrum er það þýtt „í rökkrinu“, „í kvöldrökkrinu“ eða „um sólsetur“. Það átti því að slátra lambinu eftir að sól var sest en fyrir myrkur, það er að setja í byrjun dags 14. nísan.

10. Hvenær var páskalambinu slátrað að sögn sumra en hvaða spurningu vekur það?

10 Síðar á tímum töldu sumir Gyðingar að það hafi tekið margar klukkustundir að slátra öllum lömbunum sem komið var með til musterisins. Því var talið að í 2. Mósebók 12:6 væri átt við síðari hluta 14. nísan, það er að segja tímann frá því að sól tók að lækka á lofti (eftir hádegi) þar til deginum lauk við sólsetur. En hvenær var þá páskamáltíðin borðuð ef það er rétt? Prófessor Jonathan Klawans er sérfróður um gyðingdóm fortíðar. Hann segir: „Nýr dagur hefst við sólsetur þannig að fórnin er færð hinn 14. en páskarnir hefjast raunverulega hinn 15. og þá er máltíðin borðuð, þó að sú dagsetningaröð sé ekki nefnd í 2. Mósebók.“ Hann tekur einnig fram að í ritum rabbína sé ekki rætt hvernig páskar hafi verið haldnir áður en musterinu var eytt árið 70 e.Kr.

11. (a) Hvað gekk Jesús í gegnum á páskadag árið 33? (b) Hvers vegna var „mikil helgi“ hvíldardagsins 15. nísan árið 33? (Sjá neðanmálsgrein.)

11 Hvenær neyttu Gyðingar þá páskamáltíðar árið 33? Hinn 13. nísan, þegar „sá dagur ... kom er slátra skyldi páskalambinu“, sagði Jesús þeim Pétri og Jóhannesi: „Farið og búið til páskamáltíðar fyrir okkur.“ (Lúk. 22:7, 8) Eftir sólsetur fimmtudagskvöldið 14. nísan neytti Jesús páskamáltíðarinnar með postulunum. Síðan stofnaði hann til kvöldmáltíðar Drottins. (Lúk. 22:14, 15) Um nóttina var hann handtekinn og réttað yfir honum. Hann var staurfestur um hádegisbil 14. nísan og dó síðdegis sama dag. (Jóh. 19:14) Jesús, sem er páskalamb okkar, fórnaði því lífi sínu sama dag og páskalambinu var slátrað. (Matt. 26:2; 1. Kor. 5:7; 11:23) Jesús var lagður í gröf þegar degi tók að halla – áður en 15. nísan hófst samkvæmt almanaki Gyðinga. * – 3. Mós. 23:5-7; Lúk. 23:54.

MINNINGARDAGUR SEM HEFUR ÞÝÐINGU FYRIR OKKUR

12, 13. Hvaða þýðingu hafði páskahátíðin fyrir börn Gyðinga?

12 Hverfum nú aftur til fyrstu páskanna í Egyptalandi. Móse sagði að þjóð Guðs ætti að halda páska þaðan í frá og talaði um það sem „ævarandi reglu“. Börnin myndu spyrja foreldrana hvaða merkingu þessi árlega hátíð hefði. (Lestu 2. Mósebók 12:24-27; 5. Mós. 6:20-23) Páskarnir yrðu því „minningardagur“, jafnvel fyrir börnin. – 2. Mós. 12:14.

13 Með hverri nýrri kynslóð lærðu börn mikilvæg sannindi varðandi páskana af foreldrum sínum. Meðal annars sáu þau að Jehóva gat verndað dýrkendur sína. Börnin lærðu að hann er ekki fjarlægur og torskilinn guðdómur heldur lifandi Guð sem er annt um fólk sitt og verndar það. Hann sýndi það og sannaði þegar hann „laust Egypta“ en verndaði frumburði Ísraelsmanna og lét þá halda lífi.

14. Hvernig geta kristnir foreldrar notað frásöguna af fyrstu páskunum til að fræða börnin?

14 Það er ekki venja meðal kristinna foreldra að rifja upp söguna af fyrstu páskunum með börnum sínum ár hvert. En kennirðu börnunum hvað læra má af páskunum, það er að segja að Jehóva verndar þjóna sína? Finna þau að þú ert algerlega sannfærður um að Jehóva verndar líka þjóna sína nú á dögum? (Sálm. 27:11; Jes. 12:2) Og kennirðu þeim með því að eiga ánægjulegar samræður við þau í stað þess að lesa yfir þeim? Með því að læra þetta styrkir fjölskyldan sambandið við Jehóva.

Hvað viltu að börnin þín læri þegar þið ræðið um páskamáltíðina? (Sjá 14. grein.)

15, 16. Hvað má læra um Jehóva af páskunum og frásögunni af brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi?

15 Annað sem má læra af páskunum er að Jehóva er ekki aðeins fær um að vernda þjóna sína heldur einnig að bjarga þeim. Hugsaðu þér hvernig Ísraelsmönnum hefur verið innanbrjósts þegar hann leiddi þá „út úr Egyptalandi“. Hann vísaði þeim veginn með skýstólpa og eldstólpa. Þeir gengu eftir botni Rauðahafs meðan sjórinn stóð eins og himinháir veggir til beggja handa. Þegar þeir voru komnir yfir hafið sáu þeir það steypast yfir her Egypta. Ísraelsmenn sungu Jehóva lof fyrir frelsunina: „Ég vil lofsyngja Drottni ... Hestum og riddurum steypti hann í hafið. Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, hann kom mér til hjálpar.“ – 2. Mós. 13:14, 21, 22; 15:1, 2; Sálm. 136:11-15.

16 Ef þú átt börn hjálparðu þeim þá að treysta að Jehóva sé máttugur Guð og frelsari þjóna sinna? Sjá þau þá sannfæringu birtast í orðum þínum og ákvörðunum? Það væri kjörið að ræða um 12.-15. kafla 2. Mósebókar í biblíunámi fjölskyldunnar og draga fram hvernig Jehóva frelsaði þjóð sína. Það væri líka hægt að nota Postulasöguna 7:30-36 og Daníel 3:16-18, 26-28 til að sýna fram á þetta. Bæði börn og fullorðnir ættu að treysta að Jehóva frelsi þjóna sína í framtíðinni, rétt eins og hann frelsaði þjóð sína á dögum Móse. – Lestu 1. Þessaloníkubréf 1:9, 10.

ÞAÐ SEM VIÐ SKULUM MUNA

17, 18. Hvað ætti blóð páskalambsins í Egyptalandi að minna okkur á?

17 Sannkristnir menn halda ekki páska að hætti Gyðinga. Ákvæðin um páskahald voru hluti af Móselögunum og við erum ekki bundin af þeim. (Rómv. 10:4; Kól. 2:13-16) Hins vegar er okkur mikils virði að geta minnst dauða sonar Guðs á hverju ári. Ýmsir þættir páskanna, sem stofnað var til í Egyptalandi, hafa þó gildi fyrir okkur.

18 Ísraelsmenn björguðu lífi frumburða sinna með því að bera lambsblóð á dyrastafi og dyratré húsa sinna. Við færum Guði ekki dýrafórnir, hvorki á páskum né öðrum árstímum. Hins vegar hefur verið færð betri fórn sem getur varðveitt líf okkar til frambúðar. Páll postuli talar um ,söfnuð frumgetinna sem á himnum eru skráðir‘. Hann bendir á að hinir andasmurðu geti hlotið eilíft líf á himnum vegna „blóðsins sem hreinsar“, það er að segja blóðs Jesú. (Hebr. 12:23, 24) Kristnir menn, sem vonast eftir eilífu lífi á jörð, eru sömuleiðis háðir blóði Jesú. Þeir ættu að minna sig oft á eftirfarandi loforð: „Í honum, fyrir hans blóð, eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra. Svo auðug er náð hans sem hann gaf oss ríkulega“ – Ef. 1:7, 8.

19. Hvers vegna getur meðferðin á Jesú styrkt trú okkar á spádóma Biblíunnar?

19 Þegar Ísraelsmenn slátruðu páskalambinu áttu þeir ekki að brjóta bein þess. (2. Mós. 12:46; 4. Mós. 9:11, 12) Hvað um Jesú, „Guðs lamb“, sem færði líf sitt að lausnarfórn? (Jóh. 1:29) Hann var staurfestur milli tveggja afbrotamanna. Gyðingar báðu Pílatus að láta brjóta fótleggi mannanna til að flýta fyrir dauða þeirra. Þá þyrftu þeir ekki að hanga á aftökustaurunum fram á 15. nísan en tvo hvíldardaga bar upp á þann dag. Hermenn fótbrutu afbrotamennina tvo en „þegar þeir komu að Jesú og sáu að hann var þegar dáinn brutu þeir ekki fótleggi hans“. (Jóh. 19:31-34) Það samsvaraði því hvernig páskalambið var meðhöndlað, þannig að lambið var í þeim skilningi ,skuggi‘ þess sem gerðist 14. nísan árið 33. (Hebr. 10:1) Það kom enn fremur heim og saman við það sem spáð var í Sálmi 34:21 og það ætti að styrkja trú okkar á spádóma Biblíunnar.

20. Hvaða eftirtektarverði munur er á páskahátíðinni og kvöldmáltíð Drottins?

20 Það er þó munur á páskahátíð Gyðinga og kvöldmáltíð Drottins. Þessi munur ber með sér að hátíð Gyðinga var ekki haldin til að fyrirmynda það sem Kristur sagði fylgjendum sínum að gera til minningar um dauða hans. Ísraelsmenn í Egyptalandi neyttu kjötsins af lambinu en ekki blóðsins. Það er ólíkt því sem Jesús sagði lærisveinum sínum að gera. Hann sagði að þeir sem myndu fara með völd „í Guðs ríki“ ættu að neyta bæði brauðsins og vínsins til tákns um hold hans og blóð. Við skoðum þetta nánar í greininni á eftir. – Mark. 14:22-25.

21. Hvers vegna höfum við gagn af því að þekkja til páskahátíðar Gyðinga?

21 Það leikur þó enginn vafi á að páskahátíðin var merkur viðburður í samskiptum Guðs við Ísraelsmenn og við getum lært ýmislegt af henni. Þó að páskarnir hafi ekki átt að vera „minningardagur“ fyrir kristna menn heldur Gyðinga ættum við að þekkja til hátíðarinnar og draga lærdóm af henni. „Sérhver ritning er innblásin af Guði“ og þar er sagt frá páskahátíðinni okkur til fræðslu. – 2. Tím. 3:16.

^ Samkvæmt almanaki Hebrea hét fyrsti mánuðurinn abíb en eftir útlegðina í Babýlon var hann nefndur nísan. Til einföldunar notum við heitið nísan í þessari grein.

^ Hinn 15. nísan hófst við sólsetur og þá var jafnframt vikulegur hvíldardagur (laugardagur). Þá hófst einnig hátíð ósýrðu brauðanna og fyrsti dagur hennar var alltaf hvíldardagur. Þar sem þessa tvo hvíldardaga bar upp á sama dag var sagt að „mikil [væri] helgi þess hvíldardags“. – Lestu Jóhannes 19:31, 42.