Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Gyðingar á fyrstu öld biðu „fullir eftirvæntingar“ eftir Messíasi. Á hverju byggðu þeir væntingar sínar?

Á dögum Jóhannesar skírara voru Gyðingar „fullir eftirvæntingar og hugsuðu með sjálfum sér hvort Jóhannes kynni að vera Kristur“. (Lúk. 3:15) Hvers vegna ætli þeir hafi vænst þess að Messías kæmi fram á þeim tíma? Fyrir því eru nokkrar ástæður.

Eftir að Jesús var fæddur birtist engill Jehóva fjárhirðum sem gættu hjarðar sinnar úti í haga í grennd við Betlehem. Hann tilkynnti þeim: „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“ (Lúk. 2:8-11) Síðan birtist með englinum „fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: * Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.“ – Lúk. 2:13, 14.

Tilkynningin hafði sterk áhrif á þessa óbreyttu fjárhirða. Þeir lögðu strax af stað til Betlehem, og þegar þeir fundu Jósef og Maríu og Jesú nýfæddan „skýrðu þeir frá því er þeim hafði verið sagt um barn þetta. Og allir sem heyrðu undruðust það er hirðarnir sögðu þeim.“ (Lúk. 2:17, 18) Orðin „allir sem heyrðu“ bera með sér að fjárhirðarnir hafi talað við fleiri en Jósef og Maríu. Fjárhirðarnir sneru aftur heim á leið og „vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð en allt var það eins og þeim hafði verið sagt“. (Lúk. 2:20) Fjárhirðarnir þögðu sannarlega ekki yfir þeim gleðifréttum sem þeir höfðu fengið um Krist.

María fór með frumburð sinn til Jerúsalem til að færa hann Jehóva eins og kveðið var á um í lögmáli Móse. Önnu spákonu bar þá að og hún tók að lofa Guð. „Og hún talaði um barnið við alla sem væntu lausnar Jerúsalem.“ (Lúk. 2:36-38; 2. Mós. 13:12) Fréttirnar af fæðingu Messíasar breiddust því út.

Síðar komu „vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: ,Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.‘“ (Matt. 2:1, 2) „Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: ,Hvar á Kristur að fæðast?‘“ (Matt. 2:3, 4) Fjölda fólks barst því sú fregn að hinn tilvonandi Messías væri kominn. *

Lúkasarguðspjall 3:15, sem áður er vitnað í, gefur til kynna að einhverjir Gyðingar hafi haldið að Jóhannes skírari væri Kristur. En Jóhannes vísaði þeirri hugmynd á bug og sagði: „Sá sem kemur eftir mig er mér máttugri og er ég ekki verður að bera skó hans. Hann mun skíra ykkur með heilögum anda og eldi.“ (Matt. 3:11) Þessi hógværu orð Jóhannesar hafa vafalaust ýtt undir væntingar manna um að Messías væri að koma.

Getur verið að Gyðingar á fyrstu öld hafi notað spádóminn um vikurnar 70 í Daníelsbók 9:24-27 til að reikna út hvenær Messías ætti að koma? Það er ekki útilokað en það er ekki heldur hægt að slá því föstu. Margar ólíkar túlkanir á vikunum 70 voru í gangi á dögum Jesú en engin þeirra kemst nærri þeim skilningi sem við höfum núna á spádóminum. *

Essenar, sem margir telja hafa verið gyðinglega munkareglu, kenndu að tveir Messíasar myndu koma fram undir lok áranna 490. Ekki er þó víst að þeir hafi byggt útreikninga sína á spádómi Daníels. Jafnvel þótt svo hafi verið er erfitt að gera sér í hugarlund að Gyðingar almennt hafi orðið fyrir áhrifum af tímatalsreikningi svona einangraðs hóps.

Á annarri öld töldu sumir Gyðingar að vikurnar 70 hafi náð yfir tímann frá 607 f.Kr., þegar fyrra musterinu var eytt, fram til ársins 70 e.Kr. þegar síðara musterið var eyðilagt. Aðrir tengdu uppfyllingu spádómsins við Makkabeatímann á annarri öld f.Kr. Menn voru því alls ekki á eitt sáttir um hvernig ætti að telja vikurnar 70.

Ef menn hefðu skilið rétt á fyrstu öld þá tímasetningu sem fólst í spádóminum um vikurnar 70 má ætla að postularnir og aðrir kristnir menn á fyrstu öld hefðu vitnað í hann til að sanna að Messías hefði komið á tilætluðum tíma og væri Jesús Kristur. Ekkert bendir þó til þess að frumkristnir menn hafi gert það.

Rétt er að nefna eitt enn. Guðspjallaritararnir bentu oft á ákveðna spádóma í Hebresku ritningunum sem hefðu ræst á Jesú Kristi. (Matt. 1:22, 23; 2:13-15; 4:13-16) Enginn þeirra setur þó komu Jesú til jarðar í samband við vikurnar 70.

Drögum þetta saman: Við getum ekki staðfest að samtíðarmenn Jesú hafi haft réttan skilning á spádóminum um vikurnar 70. Í guðspjöllunum er hins vegar bent á aðrar gildar ástæður fyrir því að menn voru „fullir eftirvæntingar“ eftir Messíasi.

^ Biblían segir ekki að englarnir hafi „sungið“ við fæðingu Jesú.

^ Spyrja má hvernig vitringarnir hafi sett „stjörnu“ í Austurlöndum í samband við það að „konungur Gyðinga“ væri fæddur. Getur verið að þeir hafi frétt af fæðingu Jesú á ferð sinni um Ísrael?

^ Í 11. kafla bókarinnar Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar er útskýrt hvernig við skiljum spádóminn um vikurnar 70.