Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horfum á „yndisleik“ Jehóva

Horfum á „yndisleik“ Jehóva

Þjakandi aðstæður geta verið mjög þungbærar fyrir okkur. Þær geta heltekið hugsanir okkar, dregið úr okkur allan kraft og haft mikil áhrif á viðhorf okkar til lífsins. Davíð, konungur Ísraels, glímdi við marga erfiðleika á lífsleiðinni. Hvernig tókst hann á við þá? Svarið má finna í hjartnæmum sálmi sem hann orti: „Ég hrópa hátt til Drottins, hef rödd mína til Drottins og bið um miskunn. Ég úthelli fyrir honum kvíða mínum, tjái honum neyð mína. Þegar kjarkurinn bregst mér þekkir þú götu mína.“ Já, Davíð bað Jehóva í auðmýkt um hjálp. – Sálm. 142:2-4.

Davíð bað Jehóva auðmjúklega um hjálp á erfiðum stundum.

Í öðrum sálmi söng Davíð: „Eins hef ég beðið Drottin, það eitt þrái ég, að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að horfa á yndisleik Drottins og leita svara í musteri hans.“ (Sálm. 27:4) Davíð var ekki Levíti en sjáðu hann fyrir þér þar sem hann stendur fyrir utan heilagan forgarðinn, nálægt miðstöð sannrar tilbeiðslu. Hjarta hans fyllist þakklæti. Hann langar til að vera þar það sem eftir er ævinnar og „horfa á yndisleik Drottins“ Jehóva.

Orðið „yndisleiki“ lýsir meðal annars dásemd, prýði og þokka. Davíð var alltaf þakklátur fyrir að mega virða fyrir sér hvernig Jehóva var tilbeðinn. Við gætum spurt okkur hvort við hugsum eins og Davíð.

VERUM ÞAKKLÁT FYRIR „MUSTERI“ GUÐS

Á okkar tímum er tilbeiðslan á Jehóva ekki háð ákveðinni byggingu. Þess í stað fer tilbeiðslan fram í andlegu musteri Guðs en þar er átt við það fyrirkomulag sem hann hefur á sannri tilbeiðslu. * Ef við sjáum þetta fyrirkomulag í réttu ljósi getum við líka ,horft á yndisleik Jehóva‘.

Tökum sem dæmi brennifórnaraltarið sem stóð fyrir framan innganginn að tjaldbúðinni. (2. Mós. 38:1, 2; 40:6) Þetta eiraltari táknaði að Guð væri fús til að taka við lífi Jesú sem fórn. (Hebr. 10:5-10) Hugsaðu þér hvað það þýðir fyrir okkur. Páll postuli skrifaði að Guð hefði ,tekið okkur í sátt með dauða sonar síns, þegar við vorum óvinir hans‘. (Rómv. 5:10) Með því að trúa á úthellt blóð Jesú getum við hlotið velþóknun hans og traust. Fyrir vikið getum við átt náið vináttusamband við Guð. – Sálm. 25:14.

Við upplifum „endurlífgunartíma“ frá Jehóva af því að hann ,afmáir syndir okkar‘. (Post. 3:19, 20) Við erum í svipaðri stöðu og fangi sem iðrast fyrri gerða og gerir gagngerar breytingar á lífi sínu meðan hann bíður aftöku. Góðviljaður dómari sér breytingarnar og náðar hann – afléttir dauðadómnum. Hvílíkur léttir og fögnuður sem fanginn upplifir! Jehóva sýnir iðrandi mönnum miskunn og afléttir dauðadómnum, rétt eins og dómarinn í dæminu á undan.

HÖFUM YNDI AF SANNRI TILBEIÐSLU

Davíð gat fylgst með ýmsum þáttum sannrar tilbeiðslu sem fram fóru í húsi Jehóva. Ísraelsmenn söfnuðust þar saman í stórum hópum, lögmálið var lesið og það útskýrt, reykelsi var brennt og prestar og Levítar gegndu heilagri þjónustu. (2. Mós. 30:34-38; 4. Mós. 3:5-8; 5. Mós. 31:9-12) Þessir þættir sannrar tilbeiðslu í Ísrael til forna eiga sér hliðstæðu nú á tímum.

Nú sem fyrr upplifum við „hversu fagurt og yndislegt það er þegar bræður búa saman“. (Sálm. 133:1) Gríðarleg fjölgun hefur orðið í ,samfélagi þeirra sem trúa‘. (1. Pét. 2:17) Lesið er upp úr orði Guðs og það útskýrt á samkomum okkar. Jehóva veitir okkur mikla og vandaða fræðslu á safnaðarsamkomum. Auk þess er gnægð andlegrar fæðu að finna á prenti sem við getum nýtt í sjálfsnámi okkar og fjölskyldunámi. Bróðir, sem situr í hinu stjórnandi ráði, sagði: „Með því að íhuga orð Jehóva, velta fyrir mér merkingu þess og leita að skilningi hef ég öðlast lífsfyllingu og fyllt allar mínar vökustundir af andlegum fjársjóðum.“ Já, ,þekkingin getur orðið sálu þinni til yndis‘. – Orðskv. 2:10.

Þóknanlegar bænir þjóna Guðs stíga daglega upp til hans. Bænirnar eru honum eins og sætur og þægilegur reykelsisilmur. (Sálm. 141:2) Er ekki gleðilegt að hugsa til þess að Jehóva Guð skuli hafa yndi af að hlusta á auðmjúkar bænir okkar?

Móse bað: „Gæska Drottins, Guðs vors, sé með oss, blessa þú verk handa vorra.“ (Sálm. 90:17) Jehóva blessar verk okkar þegar við leggjum okkur fram við að boða fagnaðarerindið. (Orðskv. 10:22) Kannski höfum við hjálpað einhverjum að kynnast sannleikanum. Við höfum ef til vill haldið ótrauð áfram í boðunarstarfinu árum saman þrátt fyrir heilsubrest, sorgir, ofsóknir eða áhugaleysi fólks. (1. Þess. 2:2) Höfum við ekki samt séð ,yndisleik Jehóva‘ og fundið fyrir því að himneskur faðir okkar er afar ánægður með það sem við leggjum af mörkum?

Davíð söng: „Drottinn, þú ert hlutskipti mitt og minn afmældi bikar, þú heldur uppi hlut mínum. Mér féllu að erfðahlut indælir staðir.“ (Sálm. 16:5, 6) Davíð var þakklátur fyrir „hlutskipti“ sitt, það er að segja að hafa velþóknun Jehóva og mega þjóna honum. Líkt og Davíð gætum við þurft að glíma við ýmsa erfiðleika á lífsleiðinni, en Jehóva hefur líka gefið okkur ótal góðar gjafir. Við skulum því alltaf hafa yndi af sannri tilbeiðslu og miklar mætur á andlegu musteri Jehóva.