Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getum við verið jákvæð í þjónustu Jehóva?

Hvernig getum við verið jákvæð í þjónustu Jehóva?

„Lifi maðurinn mörg ár, þá á hann að vera glaður öll þau ár.“ – PRÉD. 11:8.

1. Hvað fáum við frá Jehóva sem gleður okkur?

 JEHÓVA vill að við séum glöð og gefur okkur margt til að við getum verið hamingjusöm. Hann gaf okkur lífið og sannleikann. Við getum því varið lífi okkar í að lofa Jehóva. (Sálm. 144:15; Jóh. 6:44) Hann fullvissar okkur um að hann elski okkur og hann styður okkur svo að við gefumst ekki upp. (Jer. 31:3; 2. Kor. 4:16) Við erum í andlegri paradís þar sem við fáum ríkulega andlega fæðu og njótum samvista við trúsystkini. Og við eigum dýrmæta framtíðarvon.

2. Hvað þurfa sumir trúfastir þjónar Guðs að berjast við?

2 Þó að við höfum allar þessar ástæður til að vera glöð eiga sumir trúfastir þjónar Guðs í baráttu við neikvæðar tilfinningar. Þeim finnst þeir kannski ekki vera mikils virði í augum Jehóva og að hann kunni ekki að meta þjónustu þeirra. Þeim sem líður þannig að staðaldri finnst kannski fjarstæðukennt að geta verið glaðir í „mörg ár“. Fyrir þeim er lífið trúlega eins og langt svartnætti. – Préd. 11:8.

3. Hvað getur valdið neikvæðum tilfinningum?

3 Bræður og systur sem glíma við slíkar tilfinningar hafa kannski orðið fyrir vonbrigðum, eiga við veikindi að stríða eða finna fyrir áhrifum ellinnar. (Sálm. 71:9; Orðskv. 13:12; Préd. 7:7) Þar að auki þurfum við öll að gera okkur grein fyrir því að hjartað er svikult og dæmir okkur stundum hart þó að Guð sé ánægður með okkur. (Jer. 17:9; 1. Jóh. 3:20) Satan lýgur sökum upp á þjóna Guðs. Þeir sem hugsa eins og hann reyna kannski að fá okkur til að trúa því sem Elífas sagði – að við séum einskis virði í augum Guðs. Það var lygi á dögum Jobs og það er jafnmikil lygi núna. – Job. 4:18, 19.

4. Hvað ætlum við að skoða í þessari grein?

4 Jehóva segir skýrt í Biblíunni að hann sé með þeim sem fara „um dimman dal“. (Sálm. 23:4) Hann styður okkur meðal annars með orði sínu. Biblían hefur að geyma „máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi“, þar á meðal ranghugmyndir og neikvæðar hugsanir. (2. Kor. 10:4, 5) Skoðum nú hvernig við getum notað Biblíuna til að byggja upp jákvætt viðhorf og halda gleði okkar. Þú getur haft gagn af því og notað það sem þú lærir til að uppörva aðra.

NOTAÐU BIBLÍUNA TIL AÐ BYGGJA UPP JÁKVÆTT VIÐHORF

5. Hvernig rannsókn getur hjálpað okkur að vera jákvæð?

5 Páll postuli nefndi nokkuð sem getur hjálpað okkur að vera jákvæð. Hann hvatti trúsystkini sín í Korintu: „Rannsakið hvort trú ykkar kemur fram í breytni ykkar.“ (2. Kor. 13:5) Trú okkar byggist á kenningum Biblíunnar. Ef orð okkar og verk eru í samræmi við þær komum við vel út úr rannsókninni. En við megum að sjálfsögðu ekki velja sumar af kenningum Biblíunnar og hafna öðrum. Við verðum að fylgja þeim öllum. – Jak. 2:10, 11.

6. Hvers vegna ættum við að rannsaka hvort trúin kemur fram í breytni okkar? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

6 Þú veigrar þér kannski við að leggjast í slíka rannsókn, sérstaklega ef þú óttast að koma illa út úr henni. En álit Jehóva á okkur skiptir meira máli en okkar eigið mat og hans hugsanir eru miklu hærri okkar hugsunum. (Jes. 55:8, 9) Hann rannsakar þjóna sína, ekki til að dæma þá heldur til að finna það góða í þeim og til að hjálpa þeim. Þegar þú notar Biblíuna til að rannsaka hvort trúin kemur fram í breytni þinni ferðu að skilja hvernig Jehóva lítur á þig. Það getur losað okkur allar efasemdir um að við séum einhvers virði og fullvissað okkur um að Jehóva þyki vænt um okkur. Það er eins og að draga frá gluggatjöldin í dimmu herbergi til að hleypa birtunni inn.

7. Hvaða gagn geturðu haft af því að skoða dæmi úr Biblíunni um trúa einstaklinga?

7 Að hugleiða fordæmi trúfastra einstaklinga, sem sagt er frá í Biblíunni, er góð leið til að rannsaka trú okkar. Berðu aðstæður þeirra og tilfinningar saman við þínar eigin og veltu fyrir þér hvað þú hefðir gert í þeirra sporum. Skoðum þrjú dæmi úr Biblíunni. Þau sýna hvernig þú getur notað hana til sjá hvernig trúin kemur fram í breytni þinni. Þannig geturðu byggt upp jákvætt viðhorf og haldið gleði þinni.

FÁTÆKA EKKJAN

8, 9. (a) Við hvaða aðstæður bjó fátæka ekkjan? (b) Hvað gæti ekkjan hafa hugsað?

8 Jesús fylgdist með fátækri ekkju í musterinu í Jerúsalem. Fordæmi hennar getur hvatt okkur til að vera jákvæð þó að við getum ekki gert allt sem við vildum. (Lestu Lúkas 21:1-4.) Sjáðu fyrir þér aðstæður ekkjunnar: Fyrir utan það að hafa misst manninn sinn bjó hún við trúarlegt umhverfi þar sem leiðtogar drottnuðu yfir fólkinu og vildu heldur „mergsjúga ekkjur og hafa af þeim heimili þeirra“ en að liðsinna fólki í hennar stöðu. (Lúk. 20:47) Hún var svo fátæk að hún gat ekki gefið meira til musterisins en verkamaður gat unnið sér inn á nokkrum mínútum.

9 Reyndu að ímynda þér hvernig ekkjunni hefur liðið þegar hún kom inn í forgarð musterisins með smápeningana sína tvo. Heldurðu að hún hafi hugsað um hvað hún væri að gefa lítið miðað við það sem hún gat gefið á meðan maðurinn hennar var á lífi? Heldurðu að hún hafi farið hjá sér þegar hún sá rausnarleg framlög þeirra sem voru á undan henni í röðinni? Velti hún kannski fyrir sér hvort framlag hennar skipti nokkru máli? Hvort sem hún hugsaði þannig eða ekki gerði hún það sem hún gat til að styðja sanna tilbeiðslu.

10. Hvernig benti Jesús á að Jehóva kynni að meta fátæku ekkjuna?

10 Jesús benti á að Jehóva þætti vænt um ekkjuna og kynni að meta framlag hennar. Hann sagði: „Þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir.“ Framlag hennar átti eftir að blandast saman við það sem hinir ríku gáfu en Jesús tók samt sérstaklega eftir henni og hrósaði henni. Þeir sem sáu um fjárhirslur musterisins, og áttu eftir að rekast á þessa tvo smápeninga, höfðu líklega enga hugmynd um hve verðmætir smápeningarnir og ekkjan voru í augum Jehóva. Það skipti í rauninni engu máli hvað aðrir hugsuðu og jafnvel ekki hvað henni fannst sjálfri. Mestu máli skipti hvernig Jehóva hugsaði. Geturðu notað þessa frásögu til að rannsaka trú þína?

Hvað lærum við af fátæku ekkjunni? (Sjá greinar 8-10)

11. Hvað getum við lært af frásögunni um fátæku ekkjuna?

11 Aðstæður þínar geta ráðið miklu um hvað þú getur gert í þjónustunni við Jehóva. Sumir geta ekki varið miklum tíma í að boða fagnaðarerindið vegna þess að elli eða slæm heilsa setur þeim skorður. Skiptir þá engu máli hvort þeir skila skýrslu um starf sitt? Og þó að aðstæður þínar séu ekki svo slæmar gæti þér fundist framlag þitt aðeins lítið brot af öllum tímanum sem þjónar Guðs verja á ári hverju í að styðja sanna tilbeiðslu. En eins og við lærum af frásögunni af fátæku ekkjunni tekur Jehóva eftir öllu sem við gerum fyrir hann og kann að meta það, ekki síst þegar við eigum erfitt með það. Rifjaðu upp það sem þú gerðir í þjónustu Jehóva síðastliðið ár. Manstu eftir að hafa fórnað sérstaklega miklu fyrir einhverja klukkustundina sem þú notaðir í starfinu? Þá máttu vera viss um að Jehóva metur mikils það sem þú lagðir á þig. Þegar þú þjónar Jehóva eins vel og þú getur, eins og fátæka ekkjan gerði, hefurðu góða ástæðu til að ætla að þú sért að sýna trú þína í verki.

,TAKTU LÍF MITT‘

12-14. (a) Hvaða áhrif höfðu neikvæðar hugsanir á Elía? (b) Hvers vegna leið Elía svona illa?

12 Elía spámaður var dyggur þjónn Jehóva með sterka trú. Samt leið honum einu sinni svo illa að hann bað Jehóva um að leyfa sér að deyja. Hann sagði: „Mál er nú, Drottinn, að þú takir líf mitt.“ (1. Kon. 19:4) Þeir sem þekkja ekki slíka örvæntingu af eigin raun gætu dregið þá ályktun að Elía hafi „mælt í gáleysi“. (Job. 6:3) En honum leið í raun og veru svona. Taktu eftir að Jehóva hjálpaði Elía í stað þess að ávíta hann fyrir að langa til að deyja.

13 Af hverju leið Elía svona illa? Hann var nýbúinn að gera kraftaverk sem sannaði að Jehóva væri hinn sanni Guð. Það leiddi til þess að 450 Baalsspámenn voru teknir af lífi. (1. Kon. 18:37-40) Eflaust hafði Elía vonast til að þjóð Guðs myndi nú taka aftur upp hreina tilbeiðslu, en það gerðist ekki. Hin illa drottning Jesebel sendi Elía þau skilaboð að hún ætlaði að láta drepa hann. Elía varð hræddur og flúði frá Ísrael, suður yfir Júdeu og langt inn í eyðimörkina. – 1. Kon. 19:2-4.

14 Meðan Elía sat einn með hugsunum sínum rifjaði hann upp spámannsferil sinn, sem virtist ekki hafa verið til neins. Hann sagði við Jehóva: „Ég er engu betri en feður mínir.“ Honum fannst hann jafn gagnslaus og löngu grafin bein forfeðra sinna. Hann hafði metið sjálfan sig eftir eigin mælikvarða og fannst hann misheppnaður og einskis virði í augum Jehóva og annarra.

15. Hvað gerði Jehóva til að fullvissa Elía um að honum þætti enn vænt um hann?

15 En skaparinn leit Elía öðrum augum. Honum þótti enn jafn vænt um Elía og sýndi honum það. Jehóva sendi engil sinn til að styrkja Elía. Hann gaf honum líka að borða og drekka svo að hann hefði kraft í 40 daga göngu suður til Hórebfjalls. Þar að auki leiðrétti Jehóva mildilega þann misskilning Elía að hann væri sá eini af allri Ísraelsþjóðinni sem væri trúfastur. Og ekki má gleyma því að Jehóva gaf honum ný verkefni sem hann þáði. Elía nýtti sér hjálp Jehóva og sneri tvíefldur til starfa sinna sem spámaður. – 1. Kon. 19:5-8, 15-19.

16. Hvernig hefur Jehóva styrkt þig?

16 Þú getur notað frásöguna af Elía til að rannsaka trú þína og byggja upp jákvætt viðhorf. Til að byrja með skaltu velta fyrir þér hvernig Jehóva hefur stutt þig. Hefur kannski öldungur eða annar reyndur bróðir eða systir aðstoðað þig þegar þú þurftir sérstaklega á því að halda? (Gal. 6:2) Hefur eitthvað í Biblíunni, á samkomum eða í ritunum fullvissað þig um að Jehóva er annt um þig? Næst þegar þú færð slíka hjálp skaltu íhuga hvaðan hjálpin kemur í raun og veru og muna að þakka Jehóva í bæn. – Sálm. 121:1, 2.

17. Hvað kann Jehóva að meta hjá þjónum sínum?

17 Mundu líka að neikvætt hugarfar getur blekkt þig. Það sem máli skiptir er hvernig Jehóva lítur á okkur. (Lestu Rómverjabréfið 14:4.) Jehóva metur okkur eftir hollustu okkar og trúfesti, ekki eftir því sem við afrekum. Vel má vera að þú hafir áorkað meiru fyrir Jehóva en þú gerir þér grein fyrir, rétt eins og Elía. Líklega hefurðu haft jákvæð áhrif á einhverja í söfnuðinum án þess að vita af því. Og hver veit nema einhverjir á svæðinu hafi fengið að heyra sannleikann vegna þess sem þú lagðir á þig.

18. Hvað sannar það að Jehóva skuli hafa falið þér verkefni?

18 Að lokum skaltu líta á hvert verkefni, sem Jehóva gefur þér, sem sönnun fyrir því að hann sé með þér. (Jer. 20:11) Þú gætir orðið niðurdreginn vegna þess að þú sérð ekki árangur af starfi þínu, eins og gerðist hjá Elía, eða þú sérð ekki fram á að ná markmiðum þínum. Þú nýtur samt mesta heiðurs sem hægt er að hugsa sér, að boða fagnaðarerindið og bera nafn Jehóva. Haltu áfram að þjóna Jehóva trúfastlega. Þá geturðu þegið boð Jesú: „Gakk inn í fögnuð herra þíns.“ – Matt. 25:23.

„BÆN HRJÁÐS MANNS“

19. Hvernig leið sálmaritaranum?

19 Ritari 102. sálmsins var aðframkominn. Hann var ,hrjáður‘ og þjáðist á líkama og sál. Hann var ,örmagna‘ og gat ekki tekist á við vandamál sín. (Sálm. 102:1) Við getum séð af orðum hans að hann var heltekinn af kvöl sinni, einmanaleika og vanlíðan. (Sálm. 102:4, 5, 7, 12) Hann hélt að Jehóva vildi losna við sig. – Sálm. 102:11.

20. Hvernig getur bænin hjálpað þeim sem er að berjast við neikvæðar hugsanir?

20 Samt gat sálmaritarinn lofað Jehóva. (Lestu Sálm 102:20-22.) Eins og við sjáum af Sálmi 102 getur það hent trúa þjóna Jehóva að líða illa og eiga erfitt með að hugsa um nokkuð annað. Eins og „einmana fugli á þaki“ fannst sálmaritaranum hann vera einn og yfirgefinn með vandamál sín. (Sálm. 102:8) Ef þér líður einhvern tíma þannig skaltu úthella hjarta þínu fyrir Jehóva eins og sálmaritarinn gerði. Bænir þínar geta hjálpað þér að berjast gegn neikvæðum hugsunum. Jehóva „gefur gaum að bæn hinna allslausu og hafnar ekki bæn þeirra“. (Sálm. 102:18) Jehóva lofar þessu og þú getur treyst honum.

21. Hvernig er hægt að byggja upp jákvætt viðhorf þegar neikvæðar hugsanir sækja á okkur?

21 Af Sálmi 102 má einnig sjá hvernig við getum byggt upp jákvætt viðhorf. Sálmaritaranum tókst það með því að beina huganum að sambandi sínu við Jehóva. (Sálm. 102:13, 28) Hann fann huggun í því að vita að Jehóva myndi alltaf vera til staðar til að hjálpa fólki sínu í nauðum. Ef neikvæðar tilfinningar sækja á þig um tíma og þú getur ekki gert eins vel og þú vildir í þjónustunni við Jehóva skaltu gera það að bænarefni. Biddu Jehóva að bænheyra þig, ekki eingöngu til að lina þjáningar þínar heldur líka til að nafn hans verði kunngert. – Sálm. 102:21, 22.

22. Hvernig getum við öll verið Jehóva þóknanleg?

22 Við getum notað Biblíuna til að rannsaka hvort trúin kemur fram í breytni okkar og til að sjá að Jehóva þykir vænt um okkur. Við getum ekki reiknað með að losna við allar neikvæðar tilfinningar eða vonbrigði á meðan þetta heimskerfi stendur. En við getum samt öll verið Jehóva þóknanleg og fengið eilíft líf ef við gefumst ekki upp á að þjóna honum trúfastlega. – Matt. 24:13.