Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sérðu „hinn ósýnilega“?

Sérðu „hinn ósýnilega“?

„Hann ... var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ – HEBR. 11:27.

1, 2. (a) Hvers vegna virtist Móse vera í hættu staddur? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Af hverju óttaðist Móse ekki reiði konungsins?

 FARAÓ var ógnvekjandi valdhafi og Egyptar litu á hann sem guð. Í augum þeirra var hann „vitrari og voldugri en allar aðrar verur á jörð,“ að því er segir í bókinni When Egypt Ruled the East. Til að vekja ótta í brjóstum þegna sinna bar hann kórónu með eftirmynd af kóbraslöngu sem var tilbúin til að höggva – áminning um að konungurinn yrði fljótur að útrýma óvinum sínum. Þú getur eflaust ímyndað þér hvernig Móse hefur verið innanbrjósts þegar Jehóva sagði við hann: „Ég sendi þig til faraós. Leiddu þjóð mína, Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi.“ – 2. Mós. 3:10.

2 Móse fór til Egyptalands, flutti boðskap Guðs og kallaði yfir sig reiði faraós. Eftir að níu plágur höfðu gengið yfir landið sagði faraó við Móse: „Varast að koma mér oftar fyrir augu því að á þeim degi, sem þú kemur aftur fyrir augu mín, skaltu deyja.“ (2. Mós. 10:28) Áður en Móse hélt á brott flutti hann faraó þau boð að elsti sonur hans skyldi deyja. (2. Mós. 11:4-8) Síðan sagði Móse öllum fjölskyldum Ísraelsmanna að slátra geithafri eða hrút og bera blóðið á dyrastafi sína, en hrúturinn var helgaður egypska guðinum Ra. (2. Mós. 12:5-7) Hvernig myndi faraó nú bregðast við? Móse var óhræddur. Hvers vegna? Í trú hlýddi hann Jehóva „og óttaðist ekki reiði konungsins en var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ – Lestu Hebreabréfið 11:27, 28.

3. Hvaða spurningar varðandi trú Móse á „hinn ósýnilega“ ætlum við að skoða?

3 Hefurðu svo sterka trú að það er eins og þú ,sjáir Guð‘? (Matt. 5:8) Við skulum ræða nánar um Móse til að hjálpa okkur að skerpa andlegu sjónina og sjá „hinn ósýnilega“. Hvernig hjálpaði trúin á Jehóva honum að óttast ekki menn? Hvernig sýndi hann trú sína á loforð Guðs? Og hvernig styrkti það Móse að hann skyldi geta séð „hinn ósýnilega“ þegar hann og þjóð hans voru í háska stödd?

HANN „ÓTTAÐIST EKKI REIÐI KONUNGSINS“

4. Hver var staða Móse gagnvart faraó frá mannlegum sjónarhóli séð?

4 Frá mannlegum sjónarhóli séð var Móse máttlítill gegn faraó. Líf hans, velferð og framtíð virtist vera í höndum faraós. Móse hafði einu sinni spurt Jehóva: „Hver er ég, að ég fari til faraós og leiði Ísraelsmenn út úr Egyptalandi?“ (2. Mós. 3:11) Um 40 árum áður hafði hann flúið frá Egyptalandi. Hann velti ef til vill fyrir sér hvort það væri skynsamlegt að snúa þangað aftur og eiga á hættu að reita konunginn til reiði.

5, 6. Hvað hjálpaði Móse að óttast Jehóva en ekki faraó?

5 Áður en Móse sneri aftur til Egyptalands kenndi Jehóva honum mikilvæga meginreglu sem Móse skráði síðar í Jobsbók: „Það er speki að óttast Drottin.“ (Job. 28:28) Jehóva hjálpaði Móse að tileinka sér guðsótta og breyta viturlega. Hann benti honum á muninn á mönnunum og sjálfum sér, alvöldum Guði, og spurði: „Hver gefur manninum munn, hver gerir hann mállausan eða heyrnarlausan, sjáandi eða blindan? Er það ekki ég, Drottinn?“ – 2. Mós. 4:11.

6 Hver var lærdómurinn? Móse hafði ekkert að óttast. Jehóva hafði sent hann og hann ætlaði að gefa Móse kraft til að flytja faraó boðskap sinn. Auk þess var faraó máttlítill gegn Guði. Þetta var svo sem ekki í fyrsta sinn sem þjónum Guðs hafði stafað hætta af Egyptum. Móse hefur hugsanlega velt fyrir sér hvernig Jehóva hafði verndað Abraham, Jósef og hann sjálfan í valdatíð ýmissa faraóa. (1. Mós. 12:17-19; 41:14, 39-41; 2. Mós. 1:22 – 2:10) Móse trúði á Jehóva, „hinn ósýnilega“, gekk hugrakkur fyrir faraó og flutti honum hvert einasta orð sem Jehóva hafði falið honum að flytja.

7. Hvernig var trúin á Jehóva systur nokkurri til verndar?

7 Trúin á Jehóva hjálpaði líka systur sem hét Ella þannig að hún bugaðist ekki undan ótta við menn. Sovéska leyniþjónustan (KGB) handtók hana í Eistlandi árið 1949. Hún var afklædd og ungir lögreglumenn góndu á hana nakta. „Mér fannst það niðurlægjandi,“ segir hún. „En eftir að ég bað til Jehóva kom yfir mig friður og innri ró.“ Ella var síðan sett í þriggja daga einangrun. Hún segir svo frá: „Lögreglumennirnir hrópuðu: ,Við ætlum að sjá til þess að enginn í Eistlandi muni lengur eftir nafninu Jehóva. Þú ferð í fangabúðir og hinir verða sendir til Síberíu.‘ Síðan spurðu þeir háðslega: ,Hvar er hann Jehóva þinn?‘“ Treysti Ella á Jehóva eða óttaðist hún menn? Hún var óhrædd þegar hún var yfirheyrð og sagði þeim sem hæddu hana: „Ég hef hugleitt þetta mál vel og ég vil heldur halda sambandinu við Guð og vera í fangelsi en vera frjáls og glata velþóknun hans.“ Jehóva var jafn raunverulegur í huga Ellu eins og mennirnir sem stóðu frammi fyrir henni. Hún var ráðvönd vegna trúar sinnar.

8, 9. (a) Hvert er mótefnið gegn því að óttast menn? (b) Hvern ættirðu að hafa skýrt í huga ef það virðist freistandi að láta undan óttanum við menn?

8 Trúin á Jehóva hjálpar þér að sigrast á óttanum. Ef yfirvöld reyna að takmarka frelsi þitt til að tilbiðja Guð lítur kannski út fyrir að líf þitt, velferð og framtíð sé í höndum manna. Þú spyrð þig ef til vill hvort það sé skynsamlegt að halda áfram að þjóna Jehóva og kalla yfir þig reiði yfirvalda. En mundu að trú á Guð er mótefnið gegn ótta við menn. (Lestu Orðskviðina 29:25.) Jehóva spyr: „Hver ert þú þá sem óttast dauðlega menn og mannanna börn sem falla sem grasið?“ – Jes. 51:12, 13.

9 Hafðu alvaldan föður þinn skýrt í huga. Hann sér þá sem eru órétti beittir. Hann finnur til með þeim og hjálpar þeim. (2. Mós. 3:7-10) Jafnvel þótt þú þurfir að verja trú þína frammi fyrir yfirvöldum skaltu ,ekki hafa áhyggjur af því hvernig eða hvað þú átt að tala‘. Þér „verður gefið á sömu stundu hvað segja skal“. (Matt. 10:18-20) Yfirvöldin eru máttlaus gagnvart Jehóva. Ef þú styrkir trúna núna sérðu að Jehóva er raunveruleg persóna og óðfús að hjálpa þér.

HANN TRÚÐI Á LOFORÐ GUÐS

10. (a) Hvaða fyrirmæli gaf Jehóva Ísraelsmönnum í mánuðinum nísan árið 1513 f.Kr.? (b) Hvers vegna gerði Móse eins og Jehóva bauð honum?

10 Í mánuðinum nísan árið 1513 f.Kr. sagði Jehóva þeim Móse og Aroni að flytja Ísraelsmönnum óvenjuleg fyrirmæli. Þeir áttu að velja heilbrigt hrútlamb eða hafurkið, slátra því og bera dálítið af blóðinu á dyrastafina. (2. Mós. 12:3-7) Hvernig brást Móse við? Páll postuli skrifaði síðar um hann: „Fyrir trú hélt hann páska og lét rjóða blóðinu á húsin til þess að eyðandinn snerti ekki frumburðina.“ (Hebr. 11:28) Móse vissi að Jehóva myndi standa við orð sín og að allir frumburðir Egypta myndu deyja eins og hann hafði sagt.

11. Hvers vegna varaði Móse meðbræður sína við hættunni?

11 Synir Móse munu hafa verið í Midían á þeim tíma, fjarri ,eyðandanum‘. * (2. Mós. 18:1-6) Móse fylgdi engu að síður fyrirmælum Jehóva og flutti ísraelskum fjölskyldum þau boð að frumburðir þeirra væru í lífshættu. Mannslíf voru í húfi og Móse elskaði meðbræður sína. Í Biblíunni segir: „Þá stefndi Móse öllum öldungum Ísraels saman og sagði við þá: ... ,Sækið fé fyrir ættbálka ykkar og slátrið síðan páskalambinu‘.“ – 2. Mós. 12:21.

12. Hvaða mikilvæga boðskap hefur Jehóva sagt okkur að flytja fólki?

12 Undir handleiðslu engla flytja þjónar Jehóva fólki mikilvægan boðskap: „Óttist Guð og gefið honum dýrðina. Stundin er komin er hann kveður upp dóm sinn. Tilbiðjið þann sem hefur gert himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.“ (Opinb. 14:7) Við eigum að boða þennan boðskap núna. Við verðum að hvetja fólk til að forða sér úr Babýlon hinni miklu til að það ,hreppi ekki plágur hennar‘. (Opinb. 18:4) ,Aðrir sauðir‘ starfa með hinum andasmurðu og biðja þá sem þekkja ekki Guð að ,sættast við hann‘. – Jóh. 10:16; 2. Kor. 5:20.

Trúin á loforð Jehóva er okkur hvöt til að boða fagnaðarerindið. (Sjá 13. grein.)

13. Hvernig geturðu styrkt löngunina til að boða fagnaðarerindið?

13 Við erum sannfærð um að stundin sé komin þegar Jehóva „kveður upp dóm sinn“. Við trúum líka að Jehóva sé ekki að ýkja þegar hann segir að það sé áríðandi að boða fagnaðarerindið og kenna fólki. Jóhannes postuli sá í sýn „fjóra engla er stóðu á fjórum skautum jarðarinnar. Þeir héldu fjórum vindum jarðarinnar“. (Opinb. 7:1) Sérð þú með augum trúarinnar að englarnir eru reiðubúnir að sleppa lausum þessum vindum eyðingarinnar svo að þrengingin mikla bresti á? Ef þú gerir það geturðu boðað fagnaðarerindið með djörfung.

14. Af hvaða hvötum ,vörum við hinn guðlausa við og áminnum hann um að láta af guðlausri breytni sinni‘?

14 Sannkristnir menn eiga nú þegar vináttusamband við Jehóva og von um eilíft líf. Við gerum okkur þó grein fyrir að það er skylda okkar að ,vara hinn guðlausa við og áminna hann um að láta af guðlausri breytni sinni svo að hann haldi lífi‘. (Lestu Esekíel 3:17-19.) En við boðum auðvitað ekki fagnaðarerindið aðeins til að verða ekki blóðsek. Við elskum Jehóva og náungann. Í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann sýndi Jesús fram á hvað sé raunverulega fólgið í kærleika og miskunn. Við getum spurt okkur hvort við séum eins og Samverjinn og vitnum fyrir fólki af því að við ,kennum í brjósti um það‘. Ekki viljum við vera eins og presturinn og Levítinn í dæmisögunni sem afsökuðu sig og ,sveigðu fram hjá‘. (Lúk. 10:25-37) Við trúum loforðum Guðs og elskum náungann, og það er okkur hvöt til að taka eins mikinn þátt og við getum í boðuninni meðan tími er til.

,ÞEIR GENGU GEGNUM RAUÐAHAFIБ

15. Hvers vegna héldu Ísraelsmenn að þeir væru innikróaðir?

15 Ísraelsmenn voru í hættu staddir eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland en trú Móse á „hinn ósýnilega“ var honum til hjálpar. Biblían skýrir svo frá: „Þegar Ísraelsmenn komu auga á Egypta og sáu að þeir sóttu fram á eftir þeim urðu þeir mjög hræddir. Ísraelsmenn hrópuðu á hjálp til Drottins.“ (2. Mós. 14:10-12) Átti þessi staða að koma þeim á óvart? Nei, Jehóva hafði sagt hana fyrir: „Ég mun herða hjarta faraós svo að hann elti þá og ég mun birta dýrð mína á faraó og öllum her hans svo að Egyptar skilji að ég er Drottinn.“ (2. Mós. 14:4) En Ísraelsmenn sáu aðeins það sem blasti við augum. Rauðahafið var fram undan og lokaði leið þeirra, hraðskreiðir hervagnar faraós nálguðust óðfluga úr hinni áttinni og leiðtogi þjóðarinnar var áttræður fjárhirðir. Þeir sáu ekki annað en að þeir væru innikróaðir.

16. Hvernig varð trúin Móse til styrktar við Rauðahafið?

16 En Móse var óhræddur. Hvers vegna? Vegna þess að með augum trúarinnar sá hann það sem var miklu máttugra en hafið og herinn. Hann sá að Jehóva ætlaði að bjarga þjóðinni og vissi að hann myndi berjast fyrir hana. (Lestu 2. Mósebók 14:13, 14.) Trú hans var Ísraelsmönnum til styrktar. „Fyrir trú gengu þeir gegnum Rauðahafið sem um þurrt land og er Egyptar freistuðu þess drukknuðu þeir.“ (Hebr. 11:29) Þá „óttaðist þjóðin Drottin og trúði á Drottin og Móse, þjón hans“. – 2. Mós. 14:31.

17. Hvaða atburður á eftir að reyna á trú okkar?

17 Bráðlega kemur upp sú staða að líf okkar virðist í hættu. Þegar þrengingin mikla nær hámarki verða ríkisstjórnir þessa heims búnar að útrýma trúarstofnunum sem eru miklu stærri og fjölmennari en við. (Opinb. 17:16) Jehóva lýsir í spádómi hve varnarlítil við verðum. Hann talar um ,óvarið land‘ þar sem „allir búa ... án varnarmúra og hafa hvorki hlið né slagbranda“. (Esek. 38:10-12, 14-16) Frá mannlegum sjónarhóli séð lítur ekki út fyrir að við eigum nokkra möguleika á að bjargast. Hvernig heldurðu að þú bregðist við þá?

18. Hvers vegna getum við verið hugrökk í þrengingunni miklu?

18 Við getum verið óhrædd vegna þess að Jehóva er búinn að spá þessari árás á þjóna sína. Hann er líka búinn að segja fyrir hvernig hún fari. „Þann dag, daginn sem Góg heldur gegn landi Ísraels, mun heiftin ólga í mér segir Drottinn Guð. Ég [tala] í ákafa mínum, í brennandi heift minni.“ (Esek. 38:18-23) Hann eyðir þá öllum sem vilja gera þjónum hans mein. Ef þú trúir að Jehóva verndi þig á ,hinum mikla og ógurlega degi‘ geturðu verið hugrakkur og ráðvandur, og þú færð að sjá hvernig hann bjargar þjónum sínum. – Jóel 3:4, 5.

19. (a) Hve náin voru tengsl Jehóva og Móse? (b) Hvaða blessun hlýtur þú ef þú hefur Jehóva í huga „á öllum vegum þínum“?

19 Nú er rétti tíminn til að búa þig undir þessa afdrifaríku atburði með því að vera ,öruggur eins og þú sjáir hinn ósýnilega‘. Vertu iðinn við biblíunám og bænir til að styrkja vináttuna við Jehóva Guð. Móse átti svo náin vináttutengsl við Jehóva og Jehóva fól honum svo áhrifamikið hlutverk að sagt er í Biblíunni að hann hafi umgengist Móse „augliti til auglitis“. (5. Mós. 34:10) Móse var einstakur spámaður. En ef þú hefur sterka trú getur þú líka þekkt Jehóva svo náið að það er eins og þú sjáir hann. Ef þú hefur hann í huga „á öllum vegum þínum“, eins og Biblían hvetur til, gerir hann „leiðir þínar greiðar“. – Orðskv. 3:6.

^ Jehóva sendi engla til að fullnægja dómi yfir Egyptum. – Sálm. 78:49-51, NW.