Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líkjum eftir trú Móse

Líkjum eftir trú Móse

„Fyrir trú hafnaði Móse því er hann var orðinn fulltíða maður að vera talinn dóttursonur faraós.“ – HEBR. 11:24.

1, 2. (a) Hvaða ákvörðun tók Móse þegar hann var fertugur? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvers vegna kaus Móse að þola illt með þjóð Guðs?

 MÓSE vissi hvað Egyptaland hafði upp á að bjóða. Hann sá rúmgóð glæsihýsi ríka fólksins. Hann tilheyrði konungsfjölskyldunni. Hann var „fræddur í allri speki Egypta“. (Post. 7:22) Sennilegt er að þar á meðal hafi verið stjörnufræði, stærðfræði og önnur vísindi. Innan seilingar voru auður, völd og forréttindi sem venjulegur Egypti gat ekki látið sig dreyma um.

2 Þegar Móse var fertugur tók hann hins vegar ákvörðun sem hlýtur að hafa verið óskiljanleg fyrir konungsfjölskylduna sem hafði ættleitt hann. Hann valdi ekki einu sinni að lifa sem „venjulegur“ Egypti heldur búa meðal þræla. Hvers vegna? Vegna þess að hann hafði trú. (Lestu Hebreabréfið 11:24-26.) Með augum trúarinnar sá Móse miklu meira en efnisheiminn í kringum sig. Hann var andlegur maður og trúði á Jehóva, „hinn ósýnilega“, og treysti að hann myndi uppfylla loforð sín. – Hebr. 11:27.

3. Hvaða þrem spurningum er svarað í þessari grein?

3 Við þurfum líka að sjá meira en hið efnislega. Við þurfum að hafa trú. (Hebr. 10:38, 39) Til að styrkja trúna skulum við skoða það sem sagt er um Móse í Hebreabréfinu 11:24-26. Þegar við gerum það skulum við leita svara við eftirfarandi spurningum: Hvernig varð trú Móse til þess að hann hafnaði holdlegum löngunum? Hvernig hjálpaði trúin honum að hafa mætur á verkefni sínu þegar hann mátti þola háðung? Og hvers vegna ,horfði Móse fram til launanna‘?

HANN HAFNAÐI HOLDLEGUM LÖNGUNUM

4. Hvað vissi Móse um ,unað syndarinnar‘?

4 Móse sá með augum trúarinnar að ,unaður syndarinnar‘ entist ekki lengi. Aðrir hefðu getað hugsað sem svo að Egyptaland væri nú orðið heimsveldi þó að það væri gegnsýrt skurðgoðadýrkun og dulspeki en þjónar Jehóva væru undirokaðir þrælar. Móse vissi hins vegar að Jehóva gat snúið taflinu við. Þeir sem lifðu munaðarlífi virtust dafna en Móse trúði að hinir óguðlegu ættu eftir að hljóta dapurleg örlög. Þar af leiðandi lét hann ekki tælast til að „njóta skammvinns unaðar af syndinni“.

5. Hvað hjálpar okkur að standast þá freistingu að „njóta skammvinns unaðar af syndinni“?

5 Hvernig geturðu staðist þá freistingu að „njóta skammvinns unaðar af syndinni“? Gleymdu aldrei að unaður syndarinnar endist stutt. Sjáðu með augum trúarinnar að „heimurinn fyrirferst og fýsn hans“. (1. Jóh. 2:15-17) Veltu fyrir þér framtíð þeirra sem syndga en iðrast ekki. Þeir eru á hálum ís og „hljóta skelfilegan dauðdaga“. (Sálm. 73:18, 19) Þegar reynt er að freista þín til að gera eitthvað rangt skaltu spyrja þig hvernig framtíð þú viljir eiga.

6. (a) Hvers vegna vildi Móse ekki „vera talinn dóttursonur faraós“? (b) Hvers vegna finnst þér að Móse hafi tekið rétta ákvörðun?

6 Móse valdi sér líka ævistarf í samræmi við trú sína. „Fyrir trú hafnaði Móse því er hann var orðinn fulltíða maður að vera talinn dóttursonur faraós.“ (Hebr. 11:24) Móse hugsaði ekki sem svo að hann gæti þjónað Guði sem einn af konungsfjölskyldunni og notað síðan auð sinn og forréttindastöðu til að hjálpa bræðrum sínum, Ísraelsmönnum. Nei, hann var ákveðinn í að elska Jehóva af öllu hjarta, sálu og mætti. (5. Mós. 6:5) Ákvörðun Móse hlífði honum við alls konar hugarangri. Mörgum af fjársjóðum Egyptalands, sem hann afsalaði sér, var síðar rænt – og það voru Ísraelsmenn sem gerðu það. (2. Mós. 12:35, 36) Faraó var auðmýktur og tekinn af lífi. (Sálm. 136:15) Móse var hins vegar þyrmt og Guð fékk honum það verkefni að leiða þjóðina í öruggt skjól. Líf hans hafði greinilega tilgang.

7. (a) Hvers vegna ættum við að hugsa til langs tíma samkvæmt Matteusi 6:19-21? (b) Segðu frásögu sem lýsir muninum á efnislegum fjársjóðum og andlegum.

7 Ertu ungur þjónn Jehóva? Hvernig getur trúin þá hjálpað þér að velja þér ævistarf? Það er skynsamlegt að gera áætlanir til framtíðar. En treystirðu loforðum Guðs nægilega vel til að safna þér fjársjóðum til eilífrar framtíðar en ekki aðeins til skamms tíma? (Lestu Matteus 6:19-21.) Sophie var efnilegur ballettdansari og þurfti að taka ákvörðun um framtíð sína. Henni voru boðnir styrkir til náms og eftirsóttar stöður hjá ballettflokkum út um öll Bandaríkin. „Það var frábært að vera dáð og dýrkuð. Mér fannst ég vera fremri jafnöldrum mínum,“ segir hún. „En ég var óhamingjusöm.“ Þá horfði Sophie á myndbandið Young People Ask – What Will I Do With My Life? „Það rann upp fyrir mér að heimurinn hafði gefið mér frama og aðdáun en ég var hætt að tilbiðja Jehóva af öllu hjarta,“ segir hún. „Ég bað innilega til hans. Síðan lagði ég ballettskóna á hilluna.“ Hvað finnst henni um þessa ákvörðun? „Ég sakna ekki gömlu daganna. Ég er 100 prósent hamingjusöm núna. Við hjónin erum brautryðjendur. Við erum ekki fræg og eigum ekki mikið. En við höfum Jehóva, biblíunemendur og markmið í þjónustu Jehóva. Ég sé ekki eftir neinu.“

8. Hvaða ráðlegging Biblíunnar getur hjálpað ungu fólki að velja sér lífsstefnu?

8 Jehóva veit hvað er þér fyrir bestu. Móse sagði: „Hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel?“ (5. Mós. 10:12, 13) Meðan þú ert ungur skaltu velja þér þannig lífsstefnu að þú getir elskað Jehóva og þjónað honum „af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni“. Þú mátt treysta að þér ,vegnar vel‘ ef þú velur þér slíka lífsstefnu.

HANN VAR ÞAKKLÁTUR FYRIR AÐ MEGA ÞJÓNA GUÐI

9. Hvers vegna getur Móse hafa þótt erfitt að taka að sér verkefnið sem Jehóva fól honum?

9 Móse „taldi háðung vegna Krists meiri auð en fjársjóðu Egyptalands“. (Hebr. 11:26) Jehóva valdi Móse til að leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi og það var í þeim skilningi sem hann var ,Kristur‘ eða ,hinn smurði‘. Móse vissi að þetta yrði erfitt verkefni og því fylgdi jafnvel „háðung“. Ísraelsmaður hafði áður hreytt í hann: „Hver setti þig höfðingja og dómara yfir okkur?“ (2. Mós. 2:13, 14) Síðar spurði Móse Jehóva: „Hvers vegna ætti faraó að hlusta á mig?“ (2. Mós. 6:12) Móse sagði Jehóva frá ótta sínum og áhyggjum og bjó sig þannig undir háðungina. Hvernig hjálpaði Jehóva honum að takast á við þetta erfiða verkefni?

10. Hvernig gerði Jehóva Móse kleift að leysa verkefni sitt af hendi?

10 Fyrst sagði Jehóva við Móse: „Ég mun vera með þér.“ (2. Mós. 3:12) Í öðru lagi jók hann honum traust með því að skýra einn merkingarþátt nafns síns: „Ég verð sá sem ég kýs að verða.“ * (2. Mós. 3:14, NW) Í þriðja lagi veitti hann Móse undraverðan mátt sem sannaði að Guð hefði sannarlega sent hann. (2. Mós. 4:2-5) Í fjórða lagi fékk Jehóva Móse félaga og talsmann til að hjálpa honum að gera verkefni sínu skil. (2. Mós. 4:14-16) Móse var fullviss um að Guð geri þjónum sínum kleift að leysa af hendi hvaða verkefni sem hann felur þeim. Skömmu áður en dó sagði hann með sannfæringu við Jósúa, eftirmann sinn: „Drottinn fer sjálfur fyrir þér, hann verður með þér. Hann mun hvorki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast.“ – 5. Mós. 31:8.

11. Hvers vegna mat Móse það mikils að fá sérstakt verkefni frá Guði?

11 Verkefnið, sem Móse hafði fengið, var yfirþyrmandi en Jehóva studdi hann. Móse mat það sem „meiri auð en fjársjóðu Egyptalands“ að fá að þjóna Jehóva með þessum hætti. Hvers virði var að þjóna faraó í samanburði við að þjóna alvöldum Guði? Hvers virði var að vera prins í Egyptalandi í samanburði við að vera ,Kristur‘, það er að segja smurður þjónn Jehóva? Móse var þakklátur og honum var launað fyrir það. Hann átti sérstaklega náið samband við Jehóva, og Jehóva gerði honum kleift að vinna „ógnvekjandi verk“ þegar hann leiddi Ísraelsmenn í átt til fyrirheitna landsins. – 5. Mós. 34:10-12.

12. Hvaða verkefni höfum við fengið frá Jehóva sem við megum vera þakklát fyrir?

12 Við höfum líka fengið verk að vinna. Fyrir milligöngu sonar síns hefur Jehóva falið okkur þjónustu eins og hann fól Páli postula og fleirum. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 1:12-14.) Við höfum öll þann heiður að mega boða fagnaðarerindið. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Sumir gera það í fullu starfi. Þroskaðir skírðir bræður þjóna öðrum í söfnuðinum sem safnaðarþjónar og öldungar. En ættingjum, sem eru ekki í trúnni, og fleirum þykja þetta kannski ekki merkileg störf og hæðast jafnvel að þér fyrir fórnfýsina. (Matt. 10:34-37) Ef þeim tekst að gera þig niðurdreginn ferðu ef til vill að efast um að það sé þess virði að færa þessar fórnir eða að þú sért fær um að gera verkefni þínu skil. Ef það gerist hvernig getur trúin þá hjálpað þér að halda ótrauður áfram?

13. Hvernig gerir Jehóva okkur kleift að vinna þau verk sem hann felur okkur?

13 Biddu Jehóva að styðja þig og gerðu það í trú. Segðu honum frá ótta þínum og áhyggjum. Það er Jehóva sem fól þér þessi verkefni og hann hjálpar þér að skila þeim vel af hendi. Hvernig þá? Á sama hátt og hann hjálpaði Móse. Í fyrsta lagi gefur Jehóva þér eftirfarandi loforð: „Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni.“ (Jes. 41:10) Í öðru lagi minnir hann þig á að loforðum hans sé treystandi: „Það sem ég hef sagt læt ég fram koma, það sem ég hef ákveðið geri ég.“ (Jes. 46:11) Í þriðja lagi gefur Jehóva þér ,kraftinn mikla‘ til að þú getir gert þjónustu þinni skil. (2. Kor. 4:7) Í fjórða lagi hjálpar hann þér að leysa verkefni þitt af hendi með því að gefa þér trúsystkini – alþjóðlegt bræðralag sem ,hvetur þig og uppbyggir‘. (1. Þess. 5:11) Trú þín á Jehóva styrkist þegar hann hjálpar þér að gera verkefni þínu skil, og þú metur það meiri auð en nokkra jarðneska fjársjóði að mega þjóna honum með þessum hætti.

„HANN HORFÐI FRAM TIL LAUNANNA“

14. Hvers vegna var Móse öruggur um að Guð myndi launa honum?

14 Móse „horfði fram til launanna“. (Hebr. 11:26) Hann lét afstöðu sína mótast af því sem hann vissi um framtíðina, þó að sú þekking væri takmörkuð á þeim tíma. Hann treysti, rétt eins og Abraham, forfaðir hans, að Jehóva gæti reist fólk upp frá dauðum. (Lúk. 20:37, 38; Hebr. 11:17-19) Móse horfði á blessunina sem var í vændum. Honum fannst hann ekki hafa sóað lífi sínu þó að hann hefði verið landflótta í 40 ár og síðan önnur 40 ár í eyðimörkinni. Hann sá ósýnileg launin með augum trúarinnar þó að hann vissi ekki nema að hluta til hvernig Guð myndi uppfylla loforð sín.

15, 16. (a) Af hverju þurfum við að horfa fram til launanna? (b) Hvað hlakkar þú til að sjá og gera í nýja heiminum?

15 ,Horfir þú fram til launanna?‘ Rétt eins og Móse vitum við ekki að öllu leyti hvernig loforð Guðs rætast. Við vitum til dæmis ekki hvenær þrengingin mikla skellur á. (Mark. 13:32, 33) Hins vegar vitum við miklu meira um paradís framtíðarinnar en Móse vissi. En þó að við vitum ekki allt eru loforð Guðs um lífið á jörð undir stjórn ríkis hans nógu mörg til að við getum ,horft fram til þeirra‘. Ef við höfum skýra mynd af nýja heiminum í huga okkar er það hvatning fyrir okkur til að leita ríkis hans fyrst. Hvernig þá? Skýrum það með dæmi: Myndirðu kaupa hús ef þú vissir ósköp lítið um það? Auðvitað ekki. Við verjum ekki heldur lífi okkar til að keppa eftir óljósri von. Við þurfum að sjá skýra og skarpa mynd af lífinu undir stjórn Guðsríkis með augum trúarinnar.

Það verður spennandi að tala við trúa þjóna Guðs á borð við Móse. (Sjá 16. grein.)

16 Til að skerpa myndina af ríki Guðs í huga þér skaltu reyna að sjá sjálfan þig fyrir þér í paradís. Notaðu ímyndunaraflið. Þegar þú lest um karla og konur biblíusögunnar fyrir daga Jesú gætirðu til dæmis velt fyrir þér hvað þig langar til að spyrja þau um þegar þau rísa upp. Hvað heldurðu að þau myndu spyrja þig um varðandi lífið á síðustu dögum? Sjáðu fyrir þér hve spennandi það verður að hitta forfeður þína frá liðnum öldum og segja þeim frá öllu sem Guð hefur gert fyrir þá. Hugsaðu þér hve skemmtilegt það verður að fræðast um fjölda villtra dýra í friðsælu umhverfi. Hugleiddu hve Jehóva verður nálægur þér þegar þú nálgast það að verða fullkominn.

17. Hvernig getur það að hafa skýra mynd af laununum hjálpað okkur?

17 Skýr mynd af laununum hjálpar okkur að halda okkar striki, vera glöð og taka ákvarðanir með hliðsjón af þeirri öruggu og eilífu framtíð sem bíður okkar. Páll skrifaði andasmurðum kristnum mönnum: „Ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði.“ (Rómv. 8:25) Þetta á í reynd við alla kristna menn sem vonast eftir eilífu lífi. Þó að við höfum ekki enn þá hlotið launin er trúin svo sterk að við bíðum þolinmóð eftir þeim. Líkt og Móse finnst okkur við ekki hafa sóað þeim árum sem við höfum þjónað Jehóva. Við erum öllu heldur sannfærð um að ,hið sýnilega sé stundlegt en hið ósýnilega eilíft‘. – Lestu 2. Korintubréf 4:16-18.

18, 19. (a) Hvers vegna kostar það baráttu að viðhalda trúnni? (b) Hvað könnum við í næstu grein?

18 Þar sem við trúum höfum við ,sannfæringu um þá hluti sem eigi er auðið að sjá‘. (Hebr. 11:1) Þeir sem hafa ekki trúna skilja ekki gildi þess að þjóna Jehóva. Þeim finnst andlegu fjársjóðirnir vera „heimska“. (1. Kor. 2:14) Við vonumst hins vegar eftir að hljóta eilíft líf og sjá upprisuna sem heimurinn getur ekki séð. Heimspekingar á fyrstu öld sögðu að Páll væri fáfróður „skraffinnur“. (Post. 17:18) Flestum finnst líka vonin, sem við boðum, vera tóm vitleysa.

19 Við búum í trúlausum heimi þannig að það kostar baráttu að viðhalda trúnni. Biddu Jehóva „að trú þín þrjóti ekki“. (Lúk. 22:32) Minntu þig á afleiðingar syndarinnar, gildi þess að þjóna Jehóva og vonina um eilíft líf. En trú Móse gerði honum kleift að sjá miklu fleira en þetta. Í næstu grein könnum við hvernig trúin gerði honum kleift að sjá „hinn ósýnilega“. – Hebr. 11:27.

^ Biblíufræðingur segir um orð Guðs í 2. Mósebók 3:14: „Ekkert getur hindrað hann í að hrinda vilja sínum í framkvæmd ... Þetta nafn [Jehóva] átti að vera vígi Ísraelsmanna, ótæmandi forðabúr vonar og hughreystingar.“