Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fylgjum gullnu reglunni í boðunarstarfinu

Fylgjum gullnu reglunni í boðunarstarfinu

„Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ – MATT. 7:12.

1. Skiptir máli hvernig við komum fram við fólk sem við hittum í boðunarstarfinu? Nefndu dæmi. (Sjá mynd í upphafi greinar.)

 FYRIR nokkrum árum voru hjón á Fídjieyjum í boðunarstarfinu að bjóða fólki á minningarhátíðina. Á meðan þau stóðu fyrir utan dyrnar hjá konu nokkurri fór að rigna. Bróðirinn rétti konunni regnhlíf, sem þau voru með, og þau hjónin notuðu aðra saman. Þeim til mikillar ánægju mætti konan á minningarhátíðina. Hún sagðist ekki muna mikið af því sem þau sögðu þegar þau heimsóttu hana en hún hreifst svo af framkomu þeirra að hún varð að mæta. Hjónin höfðu fylgt gullnu reglunni, eins og hún er oft kölluð, og það hafði svona góð áhrif.

2. Hver er gullna reglan og hvernig getum við fylgt henni?

2 Hver er gullna reglan? Hún er boð frá Jesú en hann sagði: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ (Matt. 7:12) Hvernig getum við fylgt þessari reglu? Með því að gera tvennt. Til að byrja með ættum við að spyrja okkur: „Hvernig myndi ég vilja að komið væri fram við mig ef ég væri í sporum þess sem ég er að tala við?“ Síðan ættum við að gera okkar besta til að koma þannig fram við aðra. – 1. Kor. 10:24.

3, 4. (a) Útskýrðu hvers vegna gullna reglan á ekki aðeins við um samskipti okkar við trúsystkini. (b) Hvað ætlum við að skoða í þessari námsgrein?

3 Við fylgjum oft gullnu reglunni í samskiptum okkar við trúsystkini. En Jesús átti ekki við að við ættum aðeins að sýna trúsystkinum slíka nærgætni. Þegar hann kynnti gullnu regluna var hann í rauninni að ræða um hvernig við ættum að koma fram við fólk almennt, jafnvel óvini okkar. (Lestu Lúkas 6:27, 28, 31, 35.) Það er því mjög mikilvægt að við fylgjum gullnu reglunni í boðunarstarfinu því margir sem við tölum við eiga kannski eftir að taka við sannleikanum og fá ,eilíft líf‘. – Post. 13:48.

4 Núna ætlum við að skoða fjórar spurningar sem gott er að hafa í huga í boðunarstarfinu. Þær eru: Hverja er ég að tala við? Hvar er ég að tala við þá? Hvenær er best að ná tali af þeim? Hvernig ætti ég að nálgast þá? Eins og við eigum eftir að sjá geta þessar spurningar hjálpað okkur að setja okkur í spor þeirra sem við hittum í boðunarstarfinu. Þá getum við lagað okkur að þörfum hvers og eins. – 1. Kor. 9:19-23.

HVERJA TÖKUM VIÐ TALI?

5. Hvaða spurninga gætum við spurt okkur?

5 Allir sem við hittum í boðunarstarfinu eiga sinn bakgrunn og glíma við sín vandamál. (2. Kron. 6:29) Þegar þú segir einhverjum frá fagnaðarerindinu skaltu spyrja þig: „Hvernig myndi ég vilja að hann kæmi fram við mig ef við skiptum um hlutverk? Myndi ég vilja að hann gerði sér ákveðnar hugmyndir um mig án þess að kynnast mér fyrst?“ Við eigum auðveldara með að sýna fólki persónulegan áhuga þegar við spyrjum okkur slíkra spurninga.

6, 7. Hvað ættum við að gera ef okkur finnst húsráðandi reiður eða dónalegur?

6 Enginn vill fá á sig neikvæðan stimpil. Tökum dæmi: Við sem erum fylgjendur Krists gerum okkar besta til að fara eftir boði Biblíunnar um að láta ,mál okkar ætíð vera ljúflegt‘. (Kól. 4:6) En við erum ófullkomin. Stundum segjum við eitthvað þegar við erum illa fyrirkölluð, sem við sjáum síðan eftir. (Jak. 3:2) Þegar það gerist vonumst við til að aðrir sýni okkur skilning. Við viljum ekki að aðrir telji okkur tillitslaus. Ef við hugsum um það eigum við auðveldara með að sjá í gegnum fingur við ókurteist fólk, vitandi að það sér kannski eftir því hvernig það hegðaði sér.

7 Væri ekki gott að leyfa húsráðanda að njóta vafans ef okkur finnst hann reiður eða dónalegur? Getur verið að hann sé undir álagi í vinnunni eða skólanum? Er hann kannski að kljást við alvarleg veikindi? Mörg dæmi eru um að fólk, sem var ergilegt þegar vottar Jehóva bönkuðu upp á, hafi brugðist vel við þegar vottarnir komu fram við það af virðingu og töluðu mildilega. – Orðskv. 15:1; 1. Pét. 3:15, 16.

8. Hvers vegna ættum við ekki að hika við að boða alls konar fólki fagnaðarerindið?

8 Í boðunarstarfinu hittum við alls konar fólk. Á undanförnum árum hafa til dæmis birst í Varðturninum meira en 60 frásögur í greinaflokknum „Biblían breytir lífi fólks“. Sumir þeirra sem við kynnumst í þessum greinum voru áður þjófar, drykkjumenn, glæpamenn eða háðir eiturlyfjum. Aðrir voru stjórnmálamenn eða trúarleiðtogar. Sumir voru metorðagjarnir eða lifðu siðlausu lífi. En allir fengu þeir að heyra fagnaðarboðskapinn, þáðu biblíunámskeið, gerðu breytingar á lífi sínu og tóku við sannleikanum. Við ættum því aldrei að afskrifa fólk og hugsa sem svo að boðskapurinn um ríkið geti ekki náð til þess. (Lestu 1. Korintubréf 6:9-11.) Alls konar fólk getur tekið við fagnaðarboðskapnum. – 1. Kor. 9:22.

HVAR TÖKUM VIÐ FÓLK TALI?

9. Hvers vegna ættum við að sýna heimilum annarra virðingu?

9 Oft hittum við fólk heima hjá sér. (Matt. 10:11-13) Okkur er kært um heimili okkar og viljum að aðrir beri virðingu fyrir eigum okkar. Við viljum geta átt næði heima hjá okkur og fundið til öryggis. Við ættum að sýna nágrönnum okkar sömu virðingu og ganga vel um þegar við komum heim til þeirra í boðunarstarfinu. – Post. 5:42.

10. Hvernig forðumst við að stuða aðra þegar við erum í boðunarstarfinu?

10 Það er mikið um glæpi í þessum heimi og margir eru tortryggnir gagnvart ókunnugum. (2. Tím. 3:1-5) Við ættum ekki að auka á tortryggni fólks. Hugsum okkur til dæmis að við komum að húsi þar sem enginn kemur til dyra þegar við bönkum upp á. Það gæti verið freistandi að kíkja inn um glugga eða ganga í kringum húsið til að leita að húsráðendum. Myndi það stuða fólk á þínu svæði? Hvað myndu nágrannarnir halda? Við eigum auðvitað að reyna að finna sem flesta á svæðinu. (Post. 10:42) Við erum með jákvæðan boðskap og okkur langar í fullri einlægni að koma honum til fólks. (Rómv. 1:14, 15) En það væri óskynsamlegt af okkur að stuða fólk á starfssvæðinu að óþörfu. Páll postuli skrifaði: „Í engu vil ég gefa neinum tilefni til ásteytingar, ég vil ekki að þjónusta mín sæti lasti.“ (2. Kor. 6:3) Þegar við göngum vel um eignir annarra getur það laðað einhverja að sannleikanum. – Lestu 1. Pétursbréf 2:12.

Virðum eigur fólks og einkalíf. (Sjá 10. grein.)

HVENÆR TÖKUM VIÐ FÓLK TALI?

11. Hvers vegna kunnum við að meta það þegar aðrir virða tíma okkar?

11 Flest höfum við nóg að gera. Við þurfum að skipuleggja okkur vel og forgangsraða til að komast yfir allt sem við þurfum að gera. (Ef. 5:16; Fil. 1:10) Við getum orðið pirruð þegar eitthvað setur áætlanir okkar úr skorðum. Þess vegna kunnum við að meta það þegar aðrir virða tíma okkar og ætlast ekki til að við gefum þeim meira af honum en við ráðum við. Hvernig getum við beitt gullnu reglunni og sýnt að við virðum tíma þeirra sem við hittum í starfinu?

12. Hvernig getum við komist að því á hvaða tíma er best að tala við fólk á svæðinu?

12 Hvenær er besti tíminn til að tala við fólk? Við getum spurt okkur hvenær fólk á svæðinu sé helst heima og mestar líkur séu á að það hafi tíma til að hlusta. Það er gott að við reynum að laga tíma okkar að tíma þess. Sums staðar í heiminum virkar best að fara hús úr húsi seinni part dags eða snemma kvölds. Gætirðu farið hús úr húsi á þeim tíma ef það á við á starfssvæðinu þínu? (Lestu 1. Korintubréf 10:24.) Við megum treysta því að Jehóva blessi þær fórnir sem við færum til að geta tekið þátt í boðunarstarfinu á þeim tíma sem hentar fólki á svæðinu best.

13. Hvernig getum við sýnt fólki virðingu?

13 Á hvaða fleiri vegu getum við sýnt fólki virðingu? Þegar við finnum einhvern sem sýnir áhuga ættum við að vitna vel fyrir honum án þess þó að stoppa of lengi. Húsráðandinn var ef til vill búinn að ákveða að gera eitthvað annað á þessum tíma sem hann telur mikilvægt. Ef hann segist vera upptekinn getum við lofað að stoppa stutt – og við ættum að standa við það. (Matt. 5:37) Þegar við ljúkum samtali er ágætt að spyrja hvenær myndi henta að við kæmum aftur. Sumum boðberum hefur reynst vel að segja: „Mér þætti gaman að hitta þig aftur. Myndirðu vilja að ég hringdi á undan mér eða sendi SMS?“ Þegar við lögum okkur að tíma fólks á svæðinu erum við að fylgja fordæmi Páls en hann ,hugði ekki að eigin hag heldur hag hinna mörgu, til þess að þeir yrðu hólpnir‘. – 1. Kor. 10:33.

HVERNIG ÆTTUM VIÐ AÐ TALA VIÐ FÓLK?

14-16. (a) Hvers vegna ættum við ekki að láta húsráðanda velkjast í vafa um af hverju við komum? Skýrðu svarið. (b) Hvaða kynning hefur reynst farandhirði nokkrum vel?

14 Ímyndaðu þér að það sé hringt í þig einn daginn. Ókunnug rödd spyr þig út í matarvenjur þínar. Þú veltir eflaust fyrir þér hver sé að hringja og hvers vegna. Þú talar kannski smá stund við hann, fyrir kurteisissakir, en síðan myndirðu líklega reyna að enda samtalið. Ef hann kynnir sig aftur á móti og segir þér kurteislega að hann sé næringarráðgjafi og geti gefið þér gagnleg ráð, værirðu líklega fúsari til að hlusta. Við kunnum að meta að fólk komi hreint fram við okkur og sé kurteist. Hvernig getum við komið þannig fram við þá sem við hittum í starfinu?

15 Á mörgum svæðum þurfum við að láta fólk vita skýrt og greinilega af hverju við komum. Þó að við séum með mikilvægar upplýsingar sem það hefur ekki gæti það komið flatt upp á fólk ef við kynnum okkur ekki heldur spyrjum eitthvað á þessa leið: „Hvaða vandamál heimsins vildirðu helst leysa ef þú hefðir vald til?“ Við vitum auðvitað að með spurningunni erum við að reyna að finna út hvað húsráðandinn er að hugsa svo að við getum beint athygli hans að Biblíunni. En hann gæti velt fyrir sér: „Hver er þetta eiginlega og hvers vegna er hann að spyrja mig að þessu?“ Við viljum ekki koma húsráðendum í opna skjöldu. (Fil. 2:3, 4) Hvað getum við þá gert til að eiga uppbyggilegar samræður við fólk?

16 Farandhirðir nokkur hefur góða reynslu af eftirfarandi kynningu: Hann kynnir sig og réttir húsráðandanum smáritið Viltu vita svörin? Síðan segir hann: „Við erum að gefa öllum í nágrenninu þetta rit. Það tekur fyrir sex spurningar sem margir velta fyrir sér. Gjörðu svo vel.“ Hann segir flesta afslappaðri þegar þeir vita hvers vegna hann bankaði upp á. Þá er oftast auðveldara að koma af stað samræðum. Síðan spyr hann: „Hefurðu velt einhverri af þessum spurningum fyrir þér?“ Ef húsráðandinn velur spurningu opnar bróðirinn smáritið og sýnir honum hvernig Biblían svarar henni. Ef húsráðandinn velur ekki spurningu velur hann sjálfur spurningu til að gera hann ekki vandræðalegan og heldur samræðunum áfram. Að sjálfsögðu er hægt að hefja samræður á marga vegu. Sums staðar getur þurft að fylgja ákveðnum kurteisisvenjum áður en hægt er að koma sér að efninu. Aðalatriðið er að aðlaga kynningu okkar þannig að fólk langi til að hlusta á boðskapinn.

HÖLDUM ÁFRAM AÐ FYLGJA GULLNU REGLUNNI Í BOÐUNARSTARFINU

17. Hvernig getum við fylgt gullnu reglunni eins og við höfum skoðað í þessari námsgrein?

17 Hvernig getum við þá fylgt gullnu reglunni í boðunarstarfinu? Við sýnum fólki persónulegan áhuga. Við berum virðingu fyrir heimili þess og eigum. Við gerum okkar besta til að taka þátt í boðunarstarfinu þegar mestar líkur eru á að fólk sé heima og tilbúið til að hlusta. Og við kynnum boðskapinn þannig að fólk vilji heyra hann.

18. Hvaða gagn er af því að koma fram við aðra eins og við viljum að þeir komi fram við okkur?

18 Margt gott hlýst af því að koma fram við aðra eins og við viljum að þeir komi fram við okkur. Þegar við erum vingjarnleg og tillitssöm í boðunarstarfinu sýnum við að við fylgjum meginreglum Biblíunnar og heiðrum föður okkar á himnum. (Matt. 5:16) Með framkomu okkar getum við hugsanlega fengið fleiri til að laðast að sannleikanum. (1. Tím. 4:16) Við getum verið ánægð með að hafa gert okkar besta til að fullna þjónustu okkar, hvort sem fólk tekur við boðskapnum eða ekki. (2. Tím. 4:5) Tökum okkur Pál postula til fyrirmyndar, en hann sagði: „Allt geri ég vegna fagnaðarerindisins.“ (1. Kor. 9:23) Við skulum því alltaf fylgja gullnu reglunni í boðunarstarfinu.