Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sækir þú fram með söfnuði Jehóva?

Sækir þú fram með söfnuði Jehóva?

„Augu Drottins hvíla á réttlátum.“ – 1. PÉT. 3:12.

1. Hvaða söfnuður kom í stað Ísraelsmanna sem útvalin þjóð Guðs? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

 JEHÓVA á heiðurinn af því að hafa stofnað kristna söfnuðinn á fyrstu öld og endurreist sanna tilbeiðslu á okkar dögum. Eins og fram kom í greininni á undan kom söfnuður fylgjenda Krists í stað Ísraelsþjóðarinnar sem hafði snúið baki við sannri tilbeiðslu. Þessi nýi söfnuður tók nú við sem þjóð Jehóva og komst undan árið 70 þegar Jerúsalem var eytt. (Lúk. 21:20, 21, 28) Þessir atburðir fyrstu aldar eiga sér samsvörun í atburðarás sem snertir þjóna Jehóva nú á tímum. Heimur Satans líður bráðum undir lok en söfnuður Guðs á jörð heldur velli. (2. Tím. 3:1) Hvernig getum við verið viss um það?

2. Hvað sagði Jesús um ,þrenginguna miklu‘ og með hvaða atburði hefst hún?

2 Jesús sagði eftirfarandi um ósýnilega nærveru sína og síðustu daga: „Þá verður sú mikla þrenging sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og verður aldrei framar.“ (Matt. 24:3, 21) Þessi fordæmislausa þrenging hefst þegar Jehóva fær stjórnmálaöflin til að eyða ,Babýlon hinni miklu‘, heimsveldi falskra trúarbragða. (Opinb. 17:3-5, 16) Hvað gerist svo?

ÁRÁS SATANS LEIÐIR TIL HARMAGEDÓN

3. Hvað gerist eftir að fölskum trúarbrögðum er eytt?

3 Satan og ýmis öfl í heiminum ráðast á þjóna Jehóva eftir að falstrúarbrögðunum hefur verið eytt. Í Biblíunni er „Góg í landinu Magóg“ ávarpaður með þessum orðum: „Þú skalt fara þangað upp eftir eins og þrumuveður, koma eins og óveðursský til að hylja landið, þú og allar hersveitir þínar og margar þjóðir.“ Vottar Jehóva eiga sér engan her og eru friðsamasta fólk á jörð þannig að þeir virðast vera auðveld bráð. En það eru stórkostleg mistök að ráðast á þá. – Esek. 38:1, 2, 9-12.

4, 5. Hvernig bregst Jehóva við þegar Satan reynir að útrýma þjónum hans?

4 Hvernig bregst Guð við þegar Satan reynir að útrýma þjónum hans? Hann beitir rétti sínum sem Drottinn alheims og skerst í leikinn. Jehóva lítur svo á að árás á þjóna sína jafngildi árás á sig. (Lestu Sakaría 2:12.) Faðir okkar á himnum bregst því við án tafar til að bjarga okkur. Þessi björgun nær hámarki þegar hann eyðir heimi Satans í Harmagedón sem er kallað ,stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘. – Opinb. 16:14, 16.

5 Í einum af spádómum Biblíunnar segir um Harmagedón: „Drottinn höfðar mál gegn þjóðunum, heldur rétt yfir öllum dauðlegum og gefur hina guðlausu sverðinu á vald, segir Drottinn. Svo segir Drottinn hersveitanna: Ógæfan berst frá þjóð til þjóðar, voldugur stormur geisar frá endimörkum jarðar. Þeir sem felldir verða af Drottni munu á þeim degi liggja dreifðir um alla jörðina. Þeir verða hvorki syrgðir né þeim safnað saman og þeir verða ekki grafnir. Þeir verða að áburði fyrir jarðveginn.“ (Jer. 25:31-33) Illur heimur Satans líður undir lok en söfnuður Jehóva á jörð bjargast.

HVERS VEGNA DAFNAR SÖFNUÐUR JEHÓVA?

6, 7. (a) Hvaðan koma þeir sem mynda múginn mikla? (b) Hvernig hefur söfnuðurinn vaxið á síðustu árum?

6 Söfnuður Jehóva vex og dafnar vegna þess að Jehóva hefur velþóknun á fólkinu sem tilheyrir honum. Í Biblíunni segir: „Augu Drottins hvíla á réttlátum og eyru hans hneigjast að bænum þeirra.“ (1. Pét. 3:12) Í hópi réttlátra er „mikill múgur“ fólks sem kemur úr „þrengingunni miklu“. (Opinb. 7:9, 14) Þetta er ekki aðeins „múgur“ fólks heldur „mikill múgur“ – það er að segja gríðarlegur fjöldi fólks. Hugsaðu þér hvernig tilfinning það verður að tilheyra þeim mikla fjölda sem kemur lifandi úr „þrengingunni miklu“.

7 Hvaðan koma þeir sem mynda múginn mikla? Þeim er safnað saman með miklu boðunarátaki. Þegar Jesús lýsti tákni nærveru sinnar sagði hann meðal annars: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ (Matt. 24:14) Þetta er helsta verkefni safnaðar Guðs núna á síðustu dögum. Milljónir manna hafa lært að tilbiðja Guð „í anda og sannleika“ vegna þess að vottar Jehóva boða fagnaðarerindið og kenna út um allan heim. (Jóh. 4:23, 24) Á tíu ára tímabili, frá 2003 til 2012, létu meira en 2.707.000 manns skírast til að sýna að þeir þeir hefðu vígst Jehóva. Núna eru rúmlega 7.900.000 vottar í heiminum og milljónir að auki sækja samkomur þeirra, ekki síst minningarhátíðina um dauða Krists. Það er ,Guð sem gefur vöxtinn‘ þannig að við stærum okkur ekki af þessum tölum. (1. Kor. 3:5-7) Engu að síður er ljóst að múgurinn mikli vex jafnt og þétt með hverju árinu sem líður.

8. Hvers vegna hefur söfnuður Jehóva vaxið mjög nú á tímum?

8 Þjónum Guðs hefur fjölgað svona mikið vegna þess að hann styður sjálfur við bakið á vottum sínum. (Lestu Jesaja 43:10-12.) Jesaja boðaði að vöxturinn yrði með ólíkindum: „Hinn minnsti verður að þúsund, hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, Drottinn, mun hraða þessu þegar að því kemur.“ (Jes. 60:22) Einu sinni voru hinir andasmurðu eins og „hinn minnsti“ en þeim fjölgaði þegar fleiri andlegir Ísraelsmenn bættust við söfnuð Jehóva. (Gal. 6:16) Milljónir manna, sem tilheyra múginum mikla, hafa síðan bæst við, þökk sé blessun Jehóva.

ÞAÐ SEM JEHÓVA ÆTLAST TIL AF OKKUR

9. Hvað þurfum við að gera til að eiga í vændum þá björtu framtíð sem heitið er í Biblíunni?

9 Hvort sem við erum andasmurð eða tilheyrum múginum mikla eigum við kost á þeirri björtu framtíð sem lofað er í Biblíunni. En til þess þurfum við að hlýða boðorðum Jehóva. (Jes. 48:17, 18) Jehóva ætlaðist til þess að Ísraelsmenn héldu lögmál Móse. Í lögmálinu voru uppbyggileg ákvæði um kynferðismál, viðskipti, umönnun barna, framkomu við náungann og margt fleira. Þessi ákvæði voru fólki til verndar. (2. Mós. 20:14; 3. Mós. 19:18, 35-37; 5. Mós. 6:6-9) Það er líka til góðs fyrir okkur að fara eftir lögum Guðs og það er alls ekki íþyngjandi. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:3.) Lög og meginreglur Jehóva Guðs eru okkur til verndar ekki síður en Ísraelsmönnum, og þau hjálpa okkur að hafa „heilbrigða trú“. – Tít. 1:13.

10. Hvers vegna eigum við að taka okkur tíma fyrir biblíunám og tilbeiðslustund fjölskyldunnar í hverri viku?

10 Jarðneskur hluti alheimssafnaðar Jehóva sækir fram á mörgum sviðum. Við fáum til dæmis æ nákvæmari skilning á sannleika Biblíunnar. Það kemur ekki á óvart því að „gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, því bjartari sem nær líður hádegi“. (Orðskv. 4:18) En við getum spurt okkur hvort við fylgjumst vel með nýjum eða breyttum skýringum sem við fáum á ýmsum biblíuversum. Er ég vanur að lesa daglega í Biblíunni? Les ég ritin okkar af áhuga? Notum við fjölskyldan eitt kvöld í viku til sameiginlegrar tilbeiðslu? Flestir eru sammála um að það sé ekki erfitt að koma þessu við. Oft snýst málið bara um það að gefa sér tíma til þess. En það er ákaflega mikilvægt að vera duglegur biblíunemandi, fara eftir því sem maður lærir og sækja fram með söfnuði Jehóva, ekki síst í ljósi þess að þrengingin mikla er á næsta leiti.

11. Hvaða gagn höfðu Ísraelsmenn af hátíðum til forna og hvaða gagn höfum við af samkomum og mótum?

11 Hinn trúi og hyggni þjónn ber hag okkar fyrir brjósti þegar hann hvetur okkur til að fara eftir ráðleggingum Páls postula: „Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur ykkar eins og sumra er siður heldur uppörvið hvert annað og það því fremur sem þið sjáið að dagurinn færist nær.“ (Hebr. 10:24, 25) Árlegar hátíðir Ísraelsmanna og aðrar tilbeiðslusamkomur, sem þeir héldu, voru þeim til uppbyggingar. Laufskálahátíðin, sem haldin var á dögum Nehemía, var ein af þessum gleðilegu hátíðum. (2. Mós. 23:15, 16; Neh. 8:9-18) Við höfum líka ánægju af safnaðarsamkomum og mótum. Við skulum reyna að sækja allar samkomur og öll mót til að styrkja tengslin við Jehóva og njóta þess að þjóna honum. – Tít. 2:2.

12. Hvernig eigum við að líta á boðun fagnaðarerindisins?

12 Við sem tilheyrum söfnuði Guðs höfum það ánægjulega verkefni að flytja fólki „fagnaðarerindi Guðs“. (Rómv. 15:16) Þetta er ,heilög þjónusta‘ og í henni erum við „samverkamenn“ Jehóva sem er heilagur. (1. Kor. 3:9; 1. Pét. 1:15) Boðun fagnaðarerindisins stuðlar að því að heilagt nafn Jehóva helgist. Það er ómetanlegur heiður að vera trúað fyrir „fagnaðarerindinu um dýrð hins blessaða Guðs“. – 1. Tím. 1:11.

13. Undir hverju er líf okkar og samband við Jehóva komið?

13 Jehóva vill að við eigum náið samband við sig og styðjum starfsemi safnaðar hans á sem flestum sviðum. Móse sagði Ísraelsmönnum: „Ég kveð bæði himin og jörð til vitnis gegn ykkur í dag: Ég hef lagt fyrir þig líf og dauða, blessun og bölvun. Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa með því að elska Drottin, Guð þinn, hlýða boði hans og halda þér fast við hann því að þá muntu lifa og verða langlífur í landinu sem Drottinn hét að gefa feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakobi.“ (5. Mós. 30:19, 20) Líf okkar er háð því að við gerum vilja Jehóva, elskum hann, hlýðum boðum hans og höldum okkur fast við hann.

14. Hvernig lýsti bróðir nokkur viðhorfum sínum til safnaðar Guðs?

14 Bróðir Pryce Hughes þjónaði Guði staðfastlega og var samstíga söfnuði hans. Hann skrifaði einu sinni: „Ég er innilega þakklátur fyrir að hafa kynnst fyrirætlun Jehóva skömmu fyrir 1914 ... Mér hefur alltaf þótt hvað mikilvægast að eiga náin tengsl við söfnuð Jehóva. Ég lærði snemma af reynslunni hve óskynsamlegt væri að treysta á visku manna. Eftir að ég hafði gert upp hug minn í sambandi við þetta ákvað ég að halda mig við trúan söfnuð Guðs. Er einhver önnur leið til að hljóta velþóknun og blessun Jehóva?“

SÆKTU FRAM MEÐ SÖFNUÐI JEHÓVA

15. Nefndu dæmi í Biblíunni sem sýnir hvernig við eigum að bregðast við breyttum skýringum.

15 Til að njóta velþóknunar og blessunar Jehóva þurfum við að styðja söfnuð hans og meðtaka breyttar skýringar sem við fáum stundum á ýmsum biblíuversum. Þúsundum Gyðinga, sem tóku kristna trú á fyrstu öld, var ákaflega annt um lögmál Móse og þeir áttu erfitt með að slíta sig frá því. (Post. 21:17-20) Í Hebreabréfinu sýndi Páll fram á að þeir væru ekki helgaðir af fórnum sem ,fram voru bornar samkvæmt lögmálinu‘ heldur því að Jesús „fórnaði sjálfum sér í eitt skipti fyrir öll“. (Hebr. 10:5-10) Flestir þessara kristnu Gyðinga meðtóku eflaust leiðbeiningar Páls og breyttu um afstöðu. Við þurfum líka að vera duglegir biblíunemendur og meðtaka með opnum huga breyttar skýringar á biblíuversum eða nýjar aðferðir við boðunina.

16. (a) Hvers vegna verður unaðslegt að búa í paradís? (b) Hvað hlakkar þú til að sjá og upplifa í nýja heiminum?

16 Jehóva blessar alla sem eru trúir honum og söfnuði hans. Þeir sem eru andasmurðir hljóta þá blessun að ríkja sem konungar með Jesú Kristi á himnum. (Rómv. 8:16, 17) Ef við eigum þá von að lifa á jörð skulum við sjá fyrir okkur hve unaðslegt það verður að búa í paradís. Allir sem tilheyra söfnuði Guðs hafa það ánægjulega verkefni að segja fólki frá nýja heiminum sem Guð hefur lofað. (2. Pét. 3:13) „Hinir hógværu fá landið til eignar,“ segir í Sálmi 37:11, og „gleðjast yfir ríkulegri gæfu“. (Biblían 1981) „Menn munu reisa hús og búa í þeim“ og þeir munu „njóta ávaxta iðju sinnar“. (Jes. 65:21, 22) Kúgun, fátækt og hungur verða liðin tíð. (Sálm. 72:13-16) Babýlon hin mikla blekkir þá engan mann því að hún verður ekki til. (Opinb. 18:8, 21) Dánir verða reistir upp og fá tækifæri til að lifa að eilífu. (Jes. 25:8; Post. 24:15) Milljónir manna, sem hafa vígt sig Jehóva, eiga spennandi framtíð fyrir höndum. Til að sjá þessi fyrirheit Biblíunnar rætast þurfum við hvert og eitt að eiga náið samband við Jehóva, sækja fram með söfnuði hans og vera alltaf samstíga honum.

Geturðu séð sjálfan þig fyrir þér í paradís? (Sjá 16. grein.)

17. Hvaða augum ættum við að líta söfnuð Jehóva og tilbeiðsluna?

17 Þar sem þessi heimur á mjög stutt eftir skulum við vera staðföst í trúnni og innilega þakklát fyrir að mega tilbiðja Jehóva með söfnuði hans. Þannig hugsaði sálmaskáldið Davíð en hann söng: „Eins hef ég beðið Drottin, það eitt þrái ég, að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að horfa á yndisleik Drottins og leita svara í musteri hans.“ (Sálm. 27:4) Við skulum öll halda okkur fast við Jehóva og sækja fram með söfnuði hans.