„Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“
„Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ – MATT. 22:39.
1, 2. (a) Hvert sagði Jesús vera annað mesta boðorð lögmálsins? (b) Um hvaða spurningar ræðum við núna?
EINU sinni vildi farísei nokkur reyna Jesú og spurði hann: „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ Eins og fram kom í greininni á undan svaraði Jesús að „hið æðsta og fremsta boðorð“ væri: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ Síðan bætti hann við: „Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ – Matt. 22:34-39.
2 Jesús sagði að við ættum að elska náungann eins og sjálf okkur. Það er því ástæða til að spyrja hver sé náungi okkar og hvernig við getum sýnt náungakærleika.
HVER ER NÁUNGI OKKAR?
3, 4. (a) Hvaða dæmisögu sagði Jesús þegar hann var spurður: ,Hver er náungi minn?‘ (b) Hvernig hjálpaði Samverjinn manninum sem hafði verið rændur, barinn og skilinn eftir nær dauða en lífi? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
3 Maður, sem áleit sig réttlátan, spurði Jesú: „Hver er þá náungi minn?“ Jesús svaraði með því að segja honum dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. (Lestu Lúkas 10:29-37.) Ætla mætti að ísraelskur prestur og Levíti myndu sýna umhyggju og náungakærleika ef þeir gengju fram á mann sem hefði verið rændur, barinn og skilinn eftir nær dauða en lífi. En þeir fóru fram hjá án þess að gera nokkuð fyrir hann. Að lokum bar þar að Samverja sem kom manninum til hjálpar. Samverjar virtu lögmál Móse en Gyðingar fyrirlitu þá. – Jóh. 4:9.
4 Miskunnsami Samverjinn hellti olíu og víni í sár mannsins til að flýta fyrir að þau greru. Denararnir tveir, sem hann fékk gestgjafanum fyrir uppihaldi mannsins, samsvöruðu tveggja daga launum. (Matt. 20:2) Það er því ekki vandséð hver reyndist náungi særða mannsins. Dæmisaga Jesú hvetur okkur til að sýna náunganum umhyggju og kærleika.
5. Hvernig sýndu þjónar Jehóva náungakærleika í kjölfar náttúruhamfara síðla árs 2012?
5 Umhyggjusamt fólk á borð við miskunnsama Samverjann er ekki á hverju strái. Síðustu dagar eru erfiðir og allt of margir eru kærleikslausir, grimmir og andsnúnir öllu góðu. (2. Tím. 3:1-3) Þetta sýnir sig stundum í kjölfar náttúruhamfara. Tökum sem dæmi hvað gerðist eftir að fellibylurinn Sandy gekk yfir New York-borg seint í október 2012. Í einum borgarhluta, sem varð illa úti, urðu íbúar fyrir barðinu á ræningjum og voru þó illa staddir fyrir vegna þess að þeir voru án rafmagns, hita og annarra nauðsynja. Á þessu sama svæði skipulögðu vottar Jehóva hjálparstarf í þágu trúsystkina og annarra. Sannkristið fólk gerir þetta vegna þess að það elskar náungann. Hvað fleira er hægt að gera til að sýna náungakærleika?
HVERNIG GETUM VIÐ SÝNT NÁUNGAKÆRLEIKA?
6. Hvernig sýnum við náungakærleika með því að boða fagnaðarerindið?
6 Segðu fólki frá boðskap Biblíunnar. Við reynum að vekja athygli fólks á þeirri ,uppörvun sem ritningarnar gefa‘. (Rómv. 15:4) Við sýnum vissulega náungakærleika með því að segja fólki frá sannleika Biblíunnar. (Matt. 24:14) Jehóva er „Guð vonarinnar“ og það er mikill heiður að mega boða boðskapinn um ríkið sem hann hefur falið okkur að flytja. – Rómv. 15:13.
7. Hver er gullna reglan og hvernig er það okkur til góðs að fara eftir henni?
7 Farðu eftir gullnu reglunni. Jesús setti fram gullnu regluna í fjallræðunni: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.“ (Matt. 7:12) Þegar við komum fram við fólk eins og Jesús hvatti til hegðum við okkur í samræmi við andann að baki ,lögmálinu‘ (Mósebækurnar fimm) og ,spámönnunum‘ (spádómsbækur Hebresku ritninganna). Af þessum ritum er ljóst að Guð blessar þá sem elska aðra. Jehóva sagði til dæmis fyrir munn Jesaja: „Varðveitið réttinn og iðkið réttlæti ... Sæll er sá maður sem breytir þannig.“ (Jes. 56:1, 2) Það er okkur til ánægju og blessunar að sýna náunganum kærleika og vera réttlát gagnvart honum.
8. Hvers vegna eigum við að elska óvini okkar og hvað getur það haft í för með sér?
8 Elskaðu óvini þína. „Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn,“ sagði Jesús. „En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum.“ (Matt. 5:43-45) Páll postuli tók í sama streng og sagði: „Ef óvin þinn hungrar þá gef honum að eta, ef hann þyrstir þá gef honum að drekka.“ (Rómv. 12:20; Orðskv. 25:21) Samkvæmt Móselögunum áttu Gyðingar að hjálpa óvini sínum að losa burðardýr hans ef það hafði sligast undan byrði. (2. Mós. 23:5) Óvinir gátu kannski orðið góðir vinir ef þeir hjálpuðust að. Andstæðingar okkar hafa stundum breytt um afstöðu til okkar vegna þess að vottar Jehóva hafa sýnt þeim kærleika. Það er mikið gleðiefni ef einhverjir af óvinum okkar, jafnvel ofstopafullir andstæðingar sem ofsækja okkur, gerast þjónar Jehóva.
9. Hvað sagði Jesús um það að sættast við bræður okkar?
9 „Stundið frið við alla menn.“ (Hebr. 12:14) Trúsystkini okkar eru auðvitað innifalin því að Jesús sagði: „Sértu ... að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.“ (Matt. 5:23, 24) Guð blessar okkur þegar við sýnum trúsystkinum kærleika og erum fljót til að friðmælast við þau.
10. Hvers vegna ættum við ekki að vera aðfinnslusöm?
10 Vertu ekki aðfinnslusamur. „Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd,“ sagði Jesús. „Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmd verða og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða. Hví sér þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: Lát mig draga flísina úr auga þér? Og þó er bjálki í auga þínu. Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.“ (Matt. 7:1-5) Það er augljóst að við eigum ekki að gagnrýna smávægileg mistök og galla annarra þegar haft er í huga að við erum ekki beinlínis fullkomin sjálf.
SÉRSTÖK LEIÐ TIL AÐ SÝNA NÁUNGAKÆRLEIKA
11, 12. Hvaða einstöku leið höfum við til að sýna náunganum kærleika?
11 Það er hægt að sýna náunganum kærleika á marga vegu. Að sögn Jesú er einhver besta leiðin sú að boða fagnaðarerindið um ríkið. (Lúk. 8:1) Jesús fól fylgjendum sínum það verkefni að ,gera allar þjóðir að lærisveinum‘. (Matt. 28:19, 20) Með þessum hætti reynum við að hjálpa náunganum að yfirgefa breiða veginn sem leiðir til glötunar og komast inn á mjóa veginn sem liggur til lífsins. (Matt. 7:13, 14) Enginn vafi leikur á að Jehóva blessar okkur þegar við leggjum okkar af mörkum.
12 Líkt og Jesús viljum við vekja fólk til vitundar um andlega þörf sína. (Matt. 4:4) Við getum hjálpað fólki að fullnægja þessari þörf með því að segja því frá ,fagnaðarerindi Guðs‘. (Rómv. 1:1) Þeir sem taka við boðskapnum geta eignast velþóknun og vináttu Guðs vegna lausnarfórnar Jesú. (2. Kor. 5:18, 19) Að boða fagnaðarerindið er því afar mikilvæg leið til að sýna náungakærleika.
13. Hvernig lítur þú á það verkefni að boða ríki Guðs?
13 Ef við búum okkur vel undir endurheimsóknir og biblíunámskeið má vel vera að við getum hjálpað fólki að fylgja réttlátum lögum Jehóva. Það getur haft í för með sér að biblíunemandinn breyti líferni sínu umtalsvert. (1. Kor. 6:9-11) Það er ákaflega ánægjulegt að sjá hvernig Jehóva hjálpar auðmjúku fólki að taka framförum og eignast náið samband við sig. (Post. 13:48) Hjá mörgum hefur þetta í för með sér að örvænting víkur fyrir gleði og fólk lærir að treysta Jehóva í stað þess að vera kvíðið og áhyggjufullt. Það er gleðilegt að sjá nýja taka framförum. Ertu ekki sammála því að það sé okkur til blessunar að sýna náunganum kærleika með því að boða ríki Guðs?
INNBLÁSIN LÝSING Á KÆRLEIKANUM
14. Nefndu nokkur einkenni kærleikans sem lýst er í 1. Korintubréfi 13:4-8.
14 Við getum afstýrt ótal vandamálum, verið hamingjusöm og hlotið blessun Guðs ef við sýnum náunganum kærleika í samræmi við lýsingu Páls. (Lestu 1. Korintubréf 13:4-8.) Við skulum nú fara í stuttu máli yfir lýsingu Páls á kærleikanum og kanna hvernig við getum fylgt henni í samskiptum við náungann.
15. (a) Af hverju eigum við að vera þolinmóð og góðviljuð? (b) Hvers vegna eigum við að forðast hroka og öfund?
15 „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður.“ Guð hefur verið þolinmóður og góðviljaður í samskiptum við ófullkomna menn. Við þurfum líka að vera þolinmóð og vinsamleg þegar öðrum verður eitthvað á, þeir eru tillitslausir eða jafnvel ruddalegir. „Kærleikurinn öfundar ekki“ þannig að sannur kærleikur kemur í veg fyrir að við girnumst eigur annarra eða stöðu þeirra og verkefni í söfnuðinum. Og ef við erum kærleiksrík erum við hvorki raupsöm né hreykjum okkur upp. „Drembilát augu og hrokafullt hjarta, lampi ranglátra er syndin,“ segir í Orðskviðunum 21:4.
16, 17. Hvernig getum við breytt í samræmi við 1. Korintubréf 13:5, 6?
16 Kærleikurinn er okkur hvatning til að koma vel fram við náungann. Við ljúgum hvorki að honum, stelum frá honum né gerum nokkuð annað ósæmilegt sem brýtur gegn lögum og meginreglum Jehóva. Kærleikurinn kemur í veg fyrir að við hugsum bara um eigin hag en ekki hag annarra. – Fil. 2:4.
17 Sannur kærleikur reiðist ekki auðveldlega og „er ekki langrækinn“. Hann heldur ekki bókhald yfir það sem aðrir gera á hlut okkar. (1. Þess. 5:15) Við þóknumst ekki Guði ef við berum óvild til annarra. Það væri sambærilegt við að halda lífi í glæðum sem gætu blossað upp skyndilega og skaðað okkur eða aðra. (3. Mós. 19:18) Kærleikurinn fær okkur til að samgleðjast sannleikanum en leyfir okkur ekki að ,gleðjast yfir óréttvísinni‘. Við hlökkum ekki yfir því ef hatursmaður okkar sætir illri meðferð eða er ranglæti beittur. – Lestu Orðskviðina 24:17, 18.
18. Hvað lærum við um kærleikann af 1. Korintubréfi 13:7, 8?
18 Páll segir enn fremur að kærleikurinn ,breiði yfir allt‘. Kærleikurinn fær okkur til að fyrirgefa ef einhver móðgar okkur en biðst fyrirgefningar. Kærleikurinn „trúir öllu“ í Biblíunni og vekur með okkur þakklæti fyrir andlegu fæðuna sem við fáum. Kærleikurinn „vonar allt“ sem er lofað í Biblíunni og er okkur hvatning til að færa rök fyrir voninni sem við berum í brjósti. (1. Pét. 3:15) Við biðjum líka og vonum að allt fari á besta veg þegar erfiðleika ber að garði. Kærleikurinn „umber allt“, hvort sem um er að ræða syndir gegn okkur, ofsóknir eða aðrar prófraunir. Og „kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“. Þeir sem hlýða Guði eiga eftir að sýna kærleika um alla eilífð.
HALTU ÁFRAM AÐ ELSKA NÁUNGANN EINS OG SJÁLFAN ÞIG
19, 20. Hvaða fyrirmæli Biblíunnar ættu að vera okkur hvatning til að halda áfram að elska náungann?
19 Við getum sýnt náunganum kærleika ef við förum eftir leiðbeiningum Biblíunnar. Náungakærleikurinn nær til allra, ekki aðeins fólks af sama þjóðerni og við. Við þurfum að hafa hugfast það sem Jesús sagði: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matt. 22:39) Bæði Jehóva og Jesús ætlast til að við gerum það. Ef við erum ekki viss um hvernig við eigum að koma fram við náungann við vissar aðstæður skulum við biðja Guð að leiðbeina okkur með heilögum anda sínum. Þá hljótum við blessun hans og hann hjálpar okkur að vera kærleiksrík. – Rómv. 8:26, 27.
20 Þau fyrirmæli að elska náungann eins og sjálf okkur eru kölluð „hið konunglega boðorð“. (Jak. 2:8) Eftir að hafa vísað í nokkur ákvæði Móselaganna sagði Páll: „Hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.“ (Rómv. 13:8-10) Við þurfum sem sagt að halda áfram að elska náungann.
21, 22. Hvers vegna ættum við að elska Guð og náungann?
21 Jesús sagði að faðir hans léti „sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta“. (Matt. 5:43-45) Það er gott að muna eftir því þegar við hugleiðum hvers vegna við eigum að elska náungann. Við eigum að sýna öðrum kærleika hvort sem þeir eru réttlátir eða ranglátir. Ein mikilvæg leið til að sýna slíkan kærleika er að segja fólki frá fagnaðarerindinu, eins og áður hefur komið fram. Þeir sem taka þakklátir við boðskap Biblíunnar eiga mikla blessun í vændum.
22 Við höfum ótal ástæður til að elska Jehóva skilyrðislaust. Við getum líka sýnt náunganum kærleika á marga vegu. Við virðum það sem Jesús sagði um þessi mikilvægu mál með því að elska Guð og náungann. Síðast en ekki síst þóknumst við Jehóva, kærleiksríkum föður okkar á himnum.