Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hjálpaðu öðrum að nýta hæfileika sína

Hjálpaðu öðrum að nýta hæfileika sína

„Ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér.“ – SÁLM. 32:8.

1, 2. Hvernig lítur Jehóva á þjóna sína á jörð?

 FORELDRAR undrast oft þegar þeir uppgötva hvaða meðfæddu hæfileikar búa í börnum þeirra. Þú þekkir það kannski af eigin reynslu. Eitt af börnunum virðist búa yfir lipurð og snerpu en annað er handlagið og hefur gaman af að teikna. En óháð hæfileikum barnanna hafa foreldrar ánægju af því að sjá hvað í þeim býr.

2 Jehóva hefur líka mikinn áhuga á jarðneskum börnum sínum. Hann talar um þjóna sína nú á dögum sem „gersemar allra þjóða“. (Hag. 2:7, Biblían 1981) Þeir eru sérstaklega dýrmætir vegna trúar sinnar og hollustu. En þú hefur sennilega veitt því athygli að bræður þínir og systur í söfnuðinum búa yfir margs konar hæfileikum. Sumir af bræðrunum eru góðir ræðumenn en aðrir hafa mjög góða skipulagsgáfu. Margar systur eru duglegar að læra önnur tungumál og nota þau við boðunina en aðrar skara fram úr í því að annast sjúka eða styðja og styrkja þá sem þarfnast uppörvunar. (Rómv. 16:1, 12) Er ekki ánægjulegt að vera í söfnuði með öllum þessum trúsystkinum?

3. Hvaða spurningar eru ræddar í þessari grein?

3 En sumir í söfnuðinum, þeirra á meðal ungir eða nýlega skírðir bræður, hafa ef til vill ekki náð að njóta sín til fulls í söfnuðinum enn þá. Hvernig getum við hjálpað þeim að nýta hæfileika sína? Hvers vegna ættum við að líkja eftir Jehóva og reyna að koma auga á kosti þeirra?

JEHÓVA SÉR HIÐ GÓÐA Í FARI ÞJÓNA SINNA

4, 5. Hvernig ber frásagan í Dómarabókinni 6:11-16 með sér að Jehóva sér þá hæfileika sem þjónar hans búa yfir?

4 Margar frásögur Biblíunnar bera með sér að Jehóva sér ekki aðeins hið góða í fari þjóna sinna heldur líka þá möguleika sem þeir búa yfir. Þegar Gídeon var valinn til að frelsa þjóð Guðs undan oki Midíaníta hlýtur hann að hafa verið agndofa yfir kveðju engilsins: „Drottinn er með þér, hugrakki hermaður.“ Gídeon virðist ekki hafa talið sig sérlega hugrakkan. Honum fannst hann ósköp lítilfjörlegur og var efins um getu sína. En af samtalinu má sjá að Jehóva hafði miklu meiri trú á Gídeon en hann hafði sjálfur. – Lestu Dómarabókina 6:11-16.

5 Jehóva treysti Gídeon til að frelsa Ísraelsmenn vegna þess að hann hafði séð hvaða hæfileika hann hafði. Engillinn hafði til dæmis horft á hann þreskja hveiti af miklum krafti. En engillinn tók eftir öðru. Bændur á biblíutímanum voru vanir að þreskja hveiti úti á opnu svæði og nýta sér vindinn til að blása burt hisminu. Gídeon þreskti hveitið hins vegar með leynd í vínþröng til að fela rýra uppskeru sína fyrir Midíanítum. Þetta var bráðsnjallt. Í augum Jehóva var Gídeon ekki bara varkár bóndi heldur snjall og úrræðagóður maður. Jehóva sá hvað bjó í honum og nýtti sér hæfileika hans.

6, 7. (a) Hvernig leit Jehóva á Amos spámann, ólíkt sumum Ísraelsmönnum? (b) Hvað bendir til þess að Amos hafi verið vel upplýstur?

6 Amos spámaður er annað dæmi um mann sem lét ekki mikið yfir sér og var líklega ósköp venjulegur maður í augum annarra. En Jehóva sá hvað bjó í honum. Amos sagðist vera fjárhirðir og rækta mórber – en þar er átt við fíkjutegund sem var talin fæða fátækra. Þegar Jehóva fól Amosi það verkefni að fordæma tíu ættkvíslir Ísraels fyrir fráhvarf þeirra má vera að sumir Ísraelsmenn hafi talið hann slæman valkost. – Lestu Amos 7:14, 15.

7 Amos var frá afskekktu þorpi en þekking hans á siðvenjum og höfðingjum samtíðarinnar sýnir að hann var vel upplýstur. Hann virðist hafa vitað mætavel hvernig ástandið var í Ísrael og vera má að hann hafi þekkt til grannþjóðanna vegna samskipta við farandkaupmenn. (Amos 1:6, 9, 11, 13; 2:8; 6:4-6) Sumir biblíufræðingar benda á að Amos hafi verið ágætlega ritfær. Spámaðurinn valdi einföld og sterk orð og notaði ríkulega orðaleiki og samanburð. Hann var óhræddur að fordæma spilltan prest sem hét Amasía. Djarfmannleg orð hans staðfesta að Jehóva hafði valið rétta manninn og gat nýtt sér hæfileika hans sem voru kannski ekki augljósir við fyrstu sýn. – Amos 7:12, 13, 16, 17.

8. (a) Hverju lofaði Jehóva Davíð? (b) Hvers vegna er Sálmur 32:8 hvetjandi fyrir þá sem hafa ekki mikla trú á sjálfum sér?

8 Já, Jehóva tekur eftir hæfileikum allra þjóna sinna. Hann fullvissaði Davíð konung um að hann myndi alltaf leiðbeina honum og vaka yfir honum. (Lestu Sálm 32:8.) Hvers vegna ætti það að vera hvetjandi fyrir okkur? Við höfum ef til vill ekki mikla trú á sjálfum okkur en Jehóva getur hjálpað okkur að ná markmiðum sem við héldum að væru utan seilingar. Hann er fús til að leiðbeina okkur til að við getum tekið framförum, rétt eins og leiðbeinandi fylgist vandlega með óreyndum manni við klettaklifur og hjálpar honum að finna bestu handfestuna. Jehóva getur líka látið bræður og systur hjálpa okkur að nýta hæfileika okkar sem best. Á hvaða hátt?

HORFÐU EFTIR ÞVÍ GÓÐA Í FARI ANNARRA

9. Hvernig getum við ,litið á hag annarra‘ eins og Páll hvetur til?

9 Páll hvetur alla kristna menn til að ,líta á hag annarra‘. (Lestu Filippíbréfið 2:3, 4.) Kjarninn í þessum leiðbeiningum er sá að við eigum að hafa augun opin fyrir hæfileikum annarra og hafa orð á þeim. Hvernig líður þér þegar einhver sýnir áhuga á þeim framförum sem þú hefur tekið? Það hvetur okkur yfirleitt til að gera enn betur og laðar fram hið besta í fari okkar. Þegar við höfum orð á því hvernig trúsystkini okkar leggja sig fram hjálpum við þeim að taka framförum og gera vel í þjónustu Jehóva.

10. Hverjir þurfa sérstaklega á athygli okkar að halda?

10 Allir þurfa á athygli að halda af og til. Það er þó sérstaklega verðmætt fyrir unga eða nýlega skírða bræður að finna að þeir hafa hlutverki að gegna í söfnuðinum. Það minnir þá á að þeir gera gagn í þjónustu Jehóva. Ef við sýnum ekki að við kunnum að meta störf þeirra getur það hins vegar dregið úr löngun þeirra til að sækjast eftir ábyrgðarstörfum eins og hvatt er til í Biblíunni. – 1. Tím. 3:1.

11. (a) Hvernig hjálpaði öldungur ungum manni að sigrast á feimni? (b) Hvað má læra af þessari frásögu?

11 Ludovic er öldungur í söfnuðinum og naut sjálfur góðs af áhuga annarra þegar hann var yngi. Hann segir: „Bróðir er fljótari að taka framförum þegar ég sýni honum einlægan áhuga.“ Hann segir um Julien, ungan mann sem var frekar feiminn: „Julien var stundum svolítið klaufskur þegar hann vildi láta til sín taka þannig að framkoma hans virkaði ekki alveg eðlileg. Ég sá hins vegar að hann vildi vel og langaði til að hjálpa öðrum í söfnuðinum. Ég einbeitti mér því að jákvæðum eiginleikum hans og reyndi að hvetja hann í stað þess að tortryggja hvatir hans.“ Þegar fram liðu stundir var Julien útnefndur safnaðarþjónn og er núna brautryðjandi.

HJÁLPAÐU ÞEIM AÐ NÝTA HÆFILEIKA SÍNA

12. Hvað þurfum við að gera til að hjálpa öðrum að njóta sín? Skýrðu með dæmi.

12 Ef við viljum hjálpa öðrum að njóta sín til fulls þurfum við auðvitað að hafa augun opin. Eins og frásagan af Julien ber með sér getum við þurft að horfa fram hjá veikleikum annarra til að koma auga á góða eiginleika þeirra og hæfileika sem þeir geta þroskað með sér. Það var þannig sem Jesús sá Pétur postula. Pétur virtist stundum vera óáreiðanlegur en Jesús spáði að hann myndi verða traustur eins og klettur. – Jóh. 1:42.

13, 14. (a) Hvernig leit Barnabas á Markús þegar hann var ungur? (b) Hvernig fékk ungur bróðir aðstoð, ekki ósvipað og Markús? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

13 Barnabas var líka góður mannþekkjari. Það sýndi sig þegar Jóhannes, sem bar rómverska nafnið Markús, átti í hlut. (Post. 12:25) Hann var þeim Páli og Barnabasi „til aðstoðar“ í fyrstu trúboðsferðinni. Þegar þeir komu til Pamfýlíu yfirgaf hann þá skyndilega og þeir þurftu að ferðast án hans um slóðir þar sem ræningjar voru á hverju strái. (Post. 13:5, 13) En síðar horfði Barnabas fram hjá hverflyndi Markúsar og greip tækifærið til að hjálpa honum að þroskast. (Post. 15:37-39) Mörgum árum síðar var Markús með Páli í Róm þegar hann var fangi þar. Markús sendi kveðjur þaðan til kristinna manna í söfnuðinum í Kólossu og Páll bar honum gott orð. (Kól. 4:10) Við getum rétt ímyndað okkur hvernig Barnabasi hefur verið innanbrjósts þegar Páll óskaði eftir að Markús kæmi og aðstoðaði sig. – 2. Tím. 4:11.

14 Alexandre var útnefndur öldungur nýlega og hann minnist þess hvernig bróðir nokkur hjálpaði honum: „Ég átti mjög erfitt með að fara með bæn á samkomum þegar ég var yngri. Öldungur skýrði fyrir mér hvernig ég gæti undirbúið mig og verið afslappaðri. Hann hætti ekki að biðja mig að fara með bæn heldur gaf mér reglulega tækifæri til þess í samansöfnunum. Smám saman fékk ég meira sjálfstraust.“

15. Hvernig lét Páll í ljós að hann mat trúsystkini sín mikils?

15 Hrósum við trúsystkinum þegar við tökum eftir góðum eiginleika í fari þeirra? Í 16. kafla Rómverjabréfsins nafngreinir Páll rúmlega 20 trúsystkini og hrósar þeim fyrir eiginleika sem hann mat mikils. (Rómv. 16:3-7, 13) Hann viðurkennir að Andróníkus og Júnía hafi þjónað Kristi lengur en hann og leggur áherslu á þolgæði þeirra. Hann fer einnig hlýjum orðum um móður Rúfusar og vísar þar hugsanlega til alúðar og umhyggju sem hún sýndi honum.

Frédéric (til vinstri) hvatti Rico til að vera ákveðinn í að þjóna Jehóva. (Sjá 16. grein.)

16. Hvaða áhrif getur það haft að hrósa unga fólkinu?

16 Einlægt hrós getur haft mjög góð áhrif. Franskur drengur, sem heitir Rico, var niðurdreginn vegna þess að pabbi hans, sem er ekki vottur, var mótfallinn því að hann léti skírast. Rico óttaðist að hann gæti ekki látið skírast fyrr en hann næði lögræðisaldri. Hann var líka dapur yfir því að hafa orðið fyrir aðkasti í skólanum. Frédéric er safnaðaröldungur sem hafði verið beðinn að kenna drengnum. Hann segir: „Ég hrósaði Rico vegna þess að svona mótlæti benti til þess að hann hefði verið nógu hugrakkur til að segja frá trú sinni.“ Það var mjög hvetjandi fyrir Rico að fá þetta hrós. Hann var ákveðinn í að vera til fyrirmyndar og það hjálpaði honum að bæta samskiptin við pabba sinn. Hann lét skírast þegar hann var 12 ára.

Jérôme (til hægri) hvatti Ryan til að setja sér það markmið að verða trúboði. (Sjá 17. grein.)

17. (a) Hvernig getum við hjálpað bræðrum okkar að taka framförum? (b) Hvernig hefur trúboði nokkur hjálpað ungum bræðrum og með hvaða árangri?

17 Þegar við hrósum trúsystkinum fyrir að leggja sig vel fram eða leysa verkefni vel af hendi er það hvatning fyrir þau til að gera enn betur í þjónustu Jehóva. Sylvie * hefur starfað á Betel í Frakklandi árum saman. Hún segir að systur geti átt drjúgan þátt í að hrósa bræðrum. Hún nefnir að konur hafi oft auga fyrir öðru en karlar. „Hrós eða hvatning frá þeim er oft góð viðbót við það sem reyndir bræður hafa fram að færa,“ segir hún og bætir við: „Ég lít á það sem skyldu mína að hrósa.“ (Orðskv. 3:27) Jérôme er trúboði í Frönsku Gvæjana. Hann hefur hjálpað mörgum ungum mönnum setja sér það markmið að gerast trúboðar. Hann segir: „Ég hef tekið eftir að ungir bræður fá meira sjálfstraust þegar ég hrósa þeim fyrir eitthvað ákveðið sem þeir gerðu í boðunarstarfinu eða fyrir vel úthugsuð svör á samkomum. Og það er þeim hvatning til að gera enn betur.“

18. Hvers vegna er gott að vinna með ungum bræðrum?

18 Við getum líka hvatt trúsystkini til að taka framförum með því að vinna að ýmsum verkum með þeim. Öldungur gæti beðið ungan bróður, sem er flinkur að nota tölvur, að prenta út efni af jw.org sem getur verið uppörvandi fyrir aldraða sem eiga ekki tölvu. Þú gætir beðið ungan bróður að aðstoða þig þegar þú tekur þátt í viðhaldi ríkissalarins. Þá færðu tækifæri til að koma auga á hæfileika unga fólksins, hrósa og sjá árangurinn af því. – Orðskv. 15:23.

HUGSUM TIL FRAMTÍÐAR

19, 20. Hvers vegna ættum við að hjálpa öðrum að taka framförum?

19 Þegar Jehóva skipaði Jósúa leiðtoga Ísraelsmanna sagði hann Móse að ,stappa í hann stálinu‘. (Lestu 5. Mósebók 3:28.) Æ fleiri bætast við söfnuðinn um allan heim. Allir reyndir þjónar Jehóva – ekki aðeins öldungar – geta hjálpað ungum bræðrum að nýta hæfileika sína til fulls. Sífellt fleiri þjóna þá Jehóva í fullu starfi og verða „færir um að kenna öðrum“. – 2. Tím. 2:2.

20 Hvort sem við tilheyrum gamalgrónum söfnuði eða litlum hópi sem stefnir að því að verða söfnuður skulum við hugsa til framtíðar. Lykillinn að því er að líkja eftir Jehóva sem horfir alltaf eftir hinu góða í fari þjóna sinna.

^ Nafninu er breytt.