Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sérðu mannlega veikleika sömu augum og Jehóva?

Sérðu mannlega veikleika sömu augum og Jehóva?

„Miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir sem virðast vera í veikbyggðara lagi.“ – 1. KOR. 12:22.

1, 2. Hvers vegna gat Páll sett sig í spor þeirra sem voru veikburða?

 VIÐ þekkjum það öll að vera stundum veikburða. Flensa eða ofnæmiskast getur dregið svo úr okkur þrótt að okkur finnst erfitt að sinna daglegum verkum. Reyndu nú að ímynda þér að þú hafi verið máttfarinn mánuðum saman, ekki aðeins í viku eða hálfan mánuð. Værir þú ekki þakklátur ef aðrir sýndu þér samkennd þegar svo stæði á?

2 Páll postuli vissi hvernig það var að verða fyrir lýjandi álagi, bæði innan safnaðarins og utan. Oftar en einu sinni hélt hann að nú gæti hann ekki meir. (2. Kor. 1:8; 7:5) Þegar hann leit yfir farinn veg og þá mörgu erfiðleika sem hann hafði glímt við sem dyggur þjónn Guðs sagði hann: „Hver er sjúkur án þess að ég sé sjúkur?“ (2. Kor. 11:29) Hann líkti bræðrum og systrum í söfnuðinum við limi mannslíkamans og sagði að þeir væru „nauðsynlegir sem virðast vera í veikbyggðara lagi“. (1. Kor. 12:22) Hvað átti hann við? Hvers vegna þurfum við að sjá þá sem virðast vera veikburða sömu augum og Jehóva? Og af hverju er það okkur til góðs?

HVERNIG LÍTUR JEHÓVA Á VEIKLEIKA MANNANNA?

3. Hvað gæti haft áhrif á afstöðu okkar til þeirra sem þarfnast aðstoðar í söfnuðinum?

3 Við lifum í hörðum heimi þar sem æska og kraftur eru í hávegum höfð. Margir gera hvað sem er til að koma sér áfram og troða þá oft á tilfinningum þeirra sem eru veikari fyrir. Við erum ekki samþykk slíkri hegðun. Hins vegar gætum við óafvitandi orðið neikvæð gagnvart þeim sem þurfa oft á aðstoð að halda, jafnvel innan safnaðarins. Hvernig getum við séð alla í söfnuðinum sömu augum og Jehóva?

4, 5. (a) Hvernig lítur Jehóva á veikleika mannanna, samanber samlíkinguna í 1. Korintubréfi 12:21-23? (b) Hvernig er það sjálfum okkur til góðs að aðstoða þá sem eru veikburða?

4 Páll bregður upp líkingu í 1. Korintubréfi sem lýsir vel hvernig Jehóva lítur á veikleika mannanna. Í 12. kaflanum nefnir Páll að jafnvel viðkvæmustu og óvirðulegustu hlutar mannslíkamans gegni sínu hlutverki. (Lestu 1. Korintubréf 12:12, 18, 21-23.) Sumir þróunarsinnar hafa véfengt þetta. Rannsóknir í líffærafræði hafa samt sem áður sýnt fram á að líkamshlutar, sem voru einu sinni taldir óþarfir, gegna mikilvægu hlutverki. * Sumir hafa til dæmis dregið í efa að litla táin gerði nokkurt gagn en nú er viðurkennt að hún hafi áhrif á jafnvægi líkamans.

5 Líking Páls ber með sér að allir í kristna söfnuðinum gera gagn. Satan reynir að ræna fólk mannlegri reisn en í augum Jehóva eru allir þjónar hans „nauðsynlegir“, einnig þeir sem virðast í veikbyggðara lagi. (Job. 4:18, 19) Það ætti að hjálpa okkur öllum að sjá hlutverk okkar í jákvæðu ljósi, bæði í heimasöfnuðinum okkar og í söfnuði þjóna Guðs um allan heim. Þú hefur eflaust einhvern tíma stutt aldraða manneskju sem þurfti á aðstoð að halda. Kannski þurftir þú að ganga hægar. Þú gerðir gagn með því að veita aðstoð en leið þér ekki líka vel að geta gert það? Jú, þegar við leggjum öðrum lið njótum við gleðinnar sem fylgir því að aðstoða þá, og við vöxum að þolinmæði, kærleika og þroska. (Ef. 4:15, 16) Faðir okkar á himnum veit að söfnuður, þar sem allir njóta virðingar og reisnar óháð takmörkum sínum, endurspeglar jafnvægi og kærleika.

6. Hvernig notaði Páll stundum orðin ,veikur‘ og ,styrkur‘?

6 Þegar Páll skrifaði söfnuðinum í Korintu notaði hann orðin „hið veika“ og „veikleika“ til að lýsa því hvernig vantrúaðir litu á kristna menn á þeim tíma og hvað honum fannst um sjálfan sig. (1. Kor. 1:26, 27; 2:3) Þegar hann talaði um ,hina styrku‘ í söfnuðinum var hugsunin ekki sú að þeim ætti að finnast þeir vera betri en aðrir. (Rómv. 15:1) Páll er einfaldlega að segja að hinir reyndu í söfnuðinum eigi að vera þolinmóðir við þá sem eru ekki enn búnir að festa djúpar rætur í sannleikanum.

ÞURFUM VIÐ AÐ ENDURSKOÐA AFSTÖÐU OKKAR?

7. Hvers vegna gætum við veigrað okkur við að aðstoða þá sem eru hjálparþurfi?

7 Þegar við liðsinnum „bágstöddum“ líkjum við eftir Jehóva og hljótum velþóknun hans. (Sálm. 41:2; Ef. 5:1) Ef við erum neikvæð í garð þeirra sem þarfnast aðstoðar getur það orðið til þess að við höldum að okkur höndum. Eða verðum við vandræðaleg og forðumst þá sem eiga í erfiðleikum af því að við vitum við ekki hvað við eigum að segja við þá? Cynthia * varð fyrir því að maðurinn hennar fór frá henni. Hún segir: „Það getur verið særandi ef trúsystkini forðast mann eða koma ekki fram eins og vænta má af nánum vinum. Þegar maður lendir í erfiðleikum þarf maður á félagsskap að halda.“ Davíð konungur þekkti þá tilfinningu að vera sniðgenginn. – Sálm. 31:13.

8. Hvað getur hjálpað okkur að vera skilningsrík?

8 Hvað getur hjálpað okkur að vera skilningsrík í garð trúsystkina okkar? Höfum hugfast að mörg þeirra eiga við erfiðleika að stríða eins og heilsubrest eða þunglyndi, eða búa með heimilismönnum sem eru ekki í trúnni. Við gætum sjálf staðið í svipuðum sporum einhvern tíma. Áður en Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið voru þeir minntir á að þeir hefðu verið fátækir og illa settir í Egyptalandi og bent á að þeir ættu ekki að sýna bágstöddum bræðrum sínum „harðýðgi“. Jehóva ætlaðist til að þeir virtu fátæka og veittu þeim hjálp. – 5. Mós. 15:7, 11; 3. Mós. 25:35-38.

9. Hvað ættum við að láta ganga fyrir þegar við hjálpum trúsystkinum í erfiðleikum? Lýstu með dæmi.

9 Við ættum ekki að vera dómhörð eða tortryggin heldur hughreysta trúsystkini okkar þegar þau eiga í erfiðleikum. (Job. 33:6, 7; Matt. 7:1) Lýsum því með dæmi: Hugsum okkur að ökumaður mótorhjóls slasist í umferðinni. Ætli læknar og hjúkrunarfræðingar, sem taka á móti honum, sói tímanum í að ræða hvort hann hafi valdið slysinu? Nei, þau veita honum nauðsynlega læknishjálp þegar í stað. Við ættum líka að einbeita okkur að því að hughreysta trúsystkini sem eru veikburða vegna erfiðleika sem þau eiga við að glíma. – Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:14.

10. Hvernig má segja að margir sem virðast í veikara lagi séu í rauninni „auðugir í trú“?

10 Ef við veltum fyrir okkur aðstæðum trúsystkina má vel vera að við sjáum þau í nýju ljósi. Hugsaðu til systra í söfnuðinum sem hafa búið við andstöðu innan fjölskyldunnar árum saman. Þær eru ef til vill viðkvæmar að sjá. En sýna þær ekki einstaka trú og innri styrk? Þú sérð einstæða móður sækja samkomur reglulega með börnum sínum. Berðu ekki virðingu fyrir trú hennar og staðfestu? Og hvað um unglinga sem halda sig við sannleikann þrátt fyrir neikvæðan hópþrýsting í skólanum? Við hljótum að viðurkenna að margir sem virðast í veikara lagi eru jafn „auðugir í trú“ og hinir sem búa við hagstæðari skilyrði. – Jak. 2:5.

LAGAÐU VIÐHORF ÞÍN AÐ SJÓNARMIÐUM JEHÓVA

11, 12. (a) Hvað getur hjálpað okkur að leiðrétta viðhorf okkar til mannlegra veikleika? (b) Hvað má læra af því hvernig Jehóva tók á málum Arons?

11 Við getum lagað viðhorf okkar til mannlegra veikleika að sjónarmiðum Jehóva með því að skoða hvernig hann tók á málum sumra þjóna sinna. (Lestu Sálm 130:3.) Segjum sem svo að þú hefðir verið með Móse þegar Aron gerði styttuna af gullkálfinum. Hvað hefði þér fundist um lélegar afsakanir Arons? (2. Mós. 32:21-24) Eða hvað hefði þér fundist um viðhorf Arons þegar hann gagnrýndi Móse, undir áhrifum Mirjam systur sinnar, fyrir að giftast útlendri konu? (4. Mós. 12:1, 2) Hvernig hefðir þú brugðist við þegar Móse gaf Jehóva ekki heiðurinn af því kraftaverki að sjá þjóðinni fyrir vatni við Meríba? – 4. Mós. 20:10-13.

12 Jehóva hefði getað refsað Aroni á staðnum í öllum þessum tilfellum. Hann vissi hins vegar að Aron var ekki illa innrættur þótt hann væri stundum veiklundaður. Aron virðist hafa látið aðstæður eða áhrif annarra setja sig út af sporinu. En þegar honum var bent á brot sín játaði hann þau fúslega og studdi dóm Jehóva. (2. Mós. 32:26; 4. Mós. 12:11; 20:23-27) Jehóva kaus að horfa á trú Arons og iðrun. Öldum síðar er talað um að Aron og afkomendur hans hafi óttast Jehóva. – Sálm. 115:10-12; 135:19, 20.

13. Hvers vegna ættum við að grandskoða viðhorf okkar til mannlegra veikleika?

13 Til að laga hugsunarhátt okkar að sjónarmiðum Jehóva ættum við að grandskoða viðhorf okkar til þeirra sem virðast í veikara lagi. (1. Sam. 16:7) Tökum dæmi: Hver eru viðbrögð okkar þegar unglingur virðist kærulaus eða sýnir ekki skynsemi í vali á afþreyingu? Í stað þess að vera gagnrýnin um of ættum við að hugleiða hvernig við getum hjálpað honum að þroskast. Við getum lagt okkur fram um að aðstoða þá sem eru hjálparþurfi, og fyrir vikið verðum við skilningsríkari og kærleiksríkari.

14, 15. (a) Hvað gerði Jehóva þegar hann sá að Elía var hræddur? (b) Hvernig hjálpaði Jehóva Elía og hvað má læra af því?

14 Við getum líka orðið víðsýnni ef við berum álit okkar á öðrum saman við viðbrögð Jehóva þegar sumir af þjónum hans voru niðurdregnir. Elía var einn þeirra. Hann hafði sýnt það hugrekki að skora á 450 spámenn Baals en tók til fótanna þegar hann frétti að Jesebel drottning ætlaði að ráða hann af dögum. Hann gekk um 150 kílómetra leið til Beerseba og hélt síðan áfram langt út í eyðimörkina. Hann var uppgefinn eftir að hafa gengið í brennandi sólarhitanum, settist niður undir runna og „óskaði þess eins að deyja“. – 1. Kon. 18:19; 19:1-4.

Jehóva tók tillit til þess að Elía hafði sín takmörk og sendi engil til að uppörva hann. (Sjá 14. og 15. grein.)

15 Hvað gerði Jehóva þegar hann sá trúan spámann sinn örvænta? Hafnaði hann þjóni sínum fyrst hann varð niðurdreginn og hræddur um stund? Nei. Jehóva tók tillit til þess að Elía hafði sín takmörk og sendi engil til að hjálpa honum. Tvisvar hvatti engillinn hann til að borða. „Annars reynist þér leiðin of löng,“ sagði hann. (Lestu 1. Konungabók 19:5-8.) Jehóva hlustaði á Elía áður en hann gaf honum nánari fyrirmæli og gerði ráðstafanir til hjálpa honum.

16, 17. Hvernig getum við líkt eftir umhyggjunni sem Jehóva sýndi Elía?

16 Hvernig getum við líkt eftir umhyggju Guðs? Flýtum okkur ekki um of að gefa bróður okkar eða systur ráð. (Orðskv. 18:13) Það er miklu betra að sýna umhyggju og hlusta á þá sem finnst þeir lítils megnugir aðstæðna sinna vegna. (1. Kor. 12:23) Þá erum við í stakk búin til að bregðast rétt við og veita þá aðstoð sem þeir þarfnast.

17 Víkjum aftur að Cynthiu sem áður er getið, en eiginmaðurinn fór frá henni og dætrum þeirra tveim. Þeim fannst þær einar og yfirgefnar. Hvernig brugðust vinir í söfnuðinum við? Cynthia segir: „Þau voru komin til okkar þrem korterum eftir að ég hringdi. Þau voru með tárin í augunum. Þau skildu okkur ekki eftir einar næstu tvo eða þrjá dagana. Við fengum að gista hjá þeim um tíma því að við höfðum varla rænu á að borða almennilega og vorum í tilfinningalegu uppnámi.“ Þetta minnir þig trúlega á orð Jakobs sem skrifaði: „Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi og eitthvert ykkar segði við þau: ,Farið í friði, vermið ykkur og mettið!‘ en þið gefið þeim ekki það sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það? Eins er líka trúin ein og sér dauð vanti hana verkin.“ (Jak. 2:15-17) Cynthia og dætur hennar höfðu safnað nægum styrk til að vera aðstoðarbrautryðjendur aðeins hálfu ári eftir þetta mikla áfall, þökk sé bræðrum og systrum sem studdu þau þegar á þurfti að halda.

TIL GÓÐS FYRIR MARGA

18, 19. (a) Hvernig getum við hjálpað þeim sem eru veikburða um tíma? (b) Hverjir njóta góðs af þegar við aðstoðum þá sem eru veikburða?

18 Þú þekkir kannski af eigin reynslu að það getur tekið sinn tíma að ná sér eftir erfið veikindi. Ef þjónn Jehóva er veikburða af völdum persónulegra erfiðleika eða mjög erfiðra aðstæðna getur það líka tekið sinn tíma fyrir hann að ná fyrri styrk í þjónustu Jehóva. Hann þarf auðvitað að styrkja trú sína með sjálfsnámi og bænum og með því að sækja samkomur. En erum við þolinmóð við hann meðan hann er að ná sér á strik? Og sýnum við honum kærleika meðan á því stendur? Látum við þau sem eru veikburða um tíma finna að okkur þyki vænt um þau og að þau séu mikils metin í söfnuðinum? – 2. Kor. 8:8.

19 Gleymum aldrei að þegar við styðjum og styrkjum trúsystkini upplifum við gleðina sem fylgir því að gefa. Við temjum okkur líka umhyggju og þolinmæði. En það er ekki allt og sumt því að allur söfnuðurinn verður ástúðlegri og hlýlegri. Síðast en ekki síst líkjum við eftir Jehóva og í augum hans eru allir verðmætir. Við höfum öll gott tilefni til að „annast óstyrka“ eins og hvatt er til í Biblíunni. – Post. 20:35.

^ Í bók sinni The Descent of Man talaði Charles Darwin um að mörg líffæri líkamans væru „gagnslaus“. Einn af skoðanabræðrum hans fullyrti að í mannslíkamanum væru tugir „úreltra“ líffæra, þeirra á meðal botnlanginn og hóstarkirtillinn.

^ Nafninu er breytt.