Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Veldu fótum þínum beina braut“ og taktu framförum

„Veldu fótum þínum beina braut“ og taktu framförum

ÞEGAR þjóð Guðs fór frá Babýlon árið 537 f.Kr. sýndi Jehóva heimferðinni til Jerúsalem áhuga. Hann sagði: „Greiðið götu þjóðarinnar. Leggið, leggið braut, ryðjið grjótinu burt.“ (Jes. 62:10) Reynum að sjá fyrir okkur hvernig sumir Gyðingar hafa gert þetta. Sennilega hafa hópar farið á undan, lagt braut, fyllt upp í skurði og sléttað úr ójöfnum. Það hefur eflaust komið sér vel fyrir bræður þeirra sem á eftir komu á leið til heimalandsins.

Við getum líkt þessu við leiðina að markmiðum okkar í þjónustu Jehóva. Hann vill að allir þjónar sínir fylgi þessari leið án óþarfa hindrana. Í orði hans segir: „Veldu fótum þínum beina braut, þá verður ætíð traust undir fótum.“ (Orðskv. 4:26) Hvort sem þú ert ungur eða ekki ættirðu að sjá viskuna í þessu biblíulega ráði.

UNDIRBÚÐU VEGINN MEÐ ÞVÍ AÐ TAKA RÉTTAR ÁKVARÐANIR

Þú hefur eflaust heyrt fólk segja eitthvað þessu líkt um ungling: „Hún á framtíðina fyrir sér“ eða „honum eru allir vegir færir“. Yfirleitt hefur ungt fólk góða heilsu, skarpa hugsun og langar til að ná árangri í lífinu. Í Biblíunni segir réttilega: „Þrek er ungs manns þokki.“ (Orðskv. 20:29) Ung manneskja, sem notar hæfileika sína og krafta til að þjóna Jehóva, getur náð markmiðum sínum í þjónustu hans og höndlað sanna hamingju.

Það er ljóst að hæfileikar unga fólksins okkar eru mikils metnir í heiminum. Þegar ungur vottur stendur sig vel í skóla hvetja námsráðgjafar, kennarar eða aðrir nemendur hann til að afla sér æðri menntunar sem stuðlar að starfsframa í þjóðfélaginu. Stundum reyna þjálfarar að freista ungra bræðra eða systra, sem eru efnileg í íþróttum, til að leggja fyrir sig keppnisíþróttir. Hefur þú staðið í þeim sporum eða þekkirðu einhvern sem verður fyrir slíkum þrýstingi? Hvað hjálpar þjónum Jehóva að taka skynsamlegar ákvarðanir?

Biblíuþekking getur hjálpað manni að feta réttu leiðina í lífinu. „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum,“ segir í Prédikaranum 12:1. Hvernig getur þú lagt þig fram, eða ungur vinur þinn, við að muna eftir skaparanum?

Veltum fyrir okkur því sem kom fyrir Eric * en hann býr í Vestur-Afríku. Hann hafði mikinn áhuga á að spila fótbolta. Þegar Eric var 15 ára var hann valinn í landslið. Það þýddi að innan skamms gæti hann átt von á að fá sérstaka þjálfun í Evrópu sem gæti leitt til atvinnumennsku. En hvaða áhrif hafði ráðið um að ,muna eftir skaparanum‘ á áform hans? Og hvaða lærdóm gætir þú eða félagi þinn dregið af þessu?

Eric hóf biblíunám með aðstoð votta Jehóva meðan hann var í skóla. Hann lærði að skaparinn ætlar að leysa vandamál mannkynsins í eitt skipti fyrir öll. Eric sá þá hvað það er mikilvægt að nota tíma sinn og krafta til að gera vilja Guðs. Í ljósi alls þessa valdi hann að keppa ekki eftir frama í íþróttum. Þess í stað lét hann skírast og lagði sig fram í þjónustu Jehóva. Með tímanum varð hann safnaðarþjónn og seinna var honum boðið að sækja Biblíuskólann fyrir einhleypa bræður.

Ef Eric hefði sóst eftir frama í íþróttum hefði hann getað orðið frægur og ríkur. En hann gerði sér grein fyrir sannleiksgildi eftirfarandi meginreglu Biblíunnar: „Auður ríks manns er honum öflugt vígi og ókleifur múrveggur að hans hyggju.“ (Orðskv. 18:11) Já, öryggið sem auðurinn virðist veita er í rauninni bara tálsýn. Þeir sem sækjast af ákafa eftir ríkidæmi valda auk þess sjálfum sér oft „mörgum harmkvælum“. – 1. Tím. 6:9, 10.

Sem betur fer hefur margt ungt fólk fundið gleði og varanlegt öryggi með því að þjóna Jehóva í fullu starfi. Eric segir: „Nú er ég í fjölmennu liði þeirra sem þjóna Jehóva í fullu starfi. Það er besta liðið sem ég get tilheyrt og ég þakka Jehóva fyrir að vísa mér á einu leiðina sem veitir sanna hamingju og velgengni í lífinu.“

Hvað um þig? Í stað þess að keppa að veraldlegum markmiðum, hvernig væri þá að gerast brautryðjandi og hafa „traust undir fótum“ í þjónustu Jehóva? – Sjá greinina „ Ávinningur sem háskólanám veitir ekki“.

ÝTTU HINDRUNUM ÚR VEGI ÞÍNUM

Hjón, sem heimsóttu deildarskrifstofuna í Bandaríkjunum, tóku eftir hvað fólkið, sem þjónar Jehóva á Betel, er hamingjusamt. Systirin skrifaði seinna: „Við höfðum komið okkur of vel fyrir í lífinu.“ Hjónin ákváðu að taka frá meiri tíma og krafta til að sinna verkefnum í þjónustu Jehóva.

Á tímabili virtust breytingarnar, sem þau áformuðu, vera yfirþyrmandi. Dag einn voru þau að ræða dagstextann sem sóttur var í Jóhannes 8:31. Þar lesum við orð Jesú: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir.“ Með hliðsjón af þessu hugsuðu þau: „Hvaðeina sem við gerum til að einfalda líf okkar er fórnarinnar virði.“ Þau seldu stóra húsið sitt, léttu af sér öðrum byrðum og fluttu til safnaðar sem þurfti aðstoð. Þau eru nú brautryðjendur, hjálpa líka við ríkissalabyggingar og starfa sem sjálfboðaliðar við svæðismót. Hvernig gengur þeim? „Við höfum einfaldlega gert það sem hinn trúi og hyggni þjónn hvetur okkur til að gera og erum alveg steinhissa á því hvað einfalt líf hefur fært okkur mikla gleði.“

TAKTU FRAMFÖRUM OG VÍKTU EKKI AF VEGINUM

Salómon skrifaði: „Beindu augum þínum fram á við og sjónum þínum að því sem fram undan er.“ (Orðskv. 4:25) Bílstjóri þarf að horfa einbeittur á veginn fram undan. Á sama hátt ættum við að forðast allt sem dregur athyglina frá markmiðum okkar í þjónustu Jehóva og hindrar okkur í að ná þeim.

Hvaða markmið gætir þú sett þér og keppt eftir? Að þjóna Jehóva í fullu starfi er sannarlega gott markmið. Annað markmið gæti verið að hjálpa söfnuði í nágrenninu sem þarfnast reyndra boðbera til að komast yfir stórt starfssvæði, eða söfnuði sem hefur marga góða boðbera en vantar fleiri öldunga og safnaðarþjóna. Gætir þú komið þannig að gagni? Hvernig væri að tala við farandhirðinn og athuga hvort þú gætir orðið að liði? Ef þú hefur áhuga á að starfa lengra í burtu gætir þú aflað þér upplýsinga um fjarlæga söfnuði sem þarfnast aðstoðar. *

Lítum aftur á sögusviðið sem lýst er í Jesaja 62:10. Sumir Gyðinganna hafa eflaust lagt hart að sér við að slétta úr ójöfnum og leggja brautina til heimalandsins svo að fólk Guðs gæti komist á áfangastað. Leggðu þig fram við að ná markmiðum þínum í heilagri þjónustu og gefstu ekki upp. Þú getur náð þessum markmiðum með hjálp Guðs. Þegar þú þarft að ryðja hindrunum úr vegi þínum skaltu biðja Jehóva stöðuglega um visku. Þegar fram líða stundir munt þú eflaust sjá hvernig hann getur hjálpað þér að ,velja fótum þínum beina braut‘. – Orðskv. 4:26.

^ Nafninu er breytt.

^ Sjá Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva, bls. 111-112.