Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Að missa föður og eignast föður

Að missa föður og eignast föður

FAÐIR minn fæddist í Graz í Austurríki árið 1899. Hann var því unglingur á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Hann var kvaddur í herinn stuttu eftir að seinni heimsstyrjöldin braust út 1939. Hann féll í bardaga í Rússlandi árið 1943. Á þennan sorglega hátt missti ég föður minn þegar ég var rétt um tveggja ára. Ég fékk aldrei tækifæri til að kynnast honum og ég saknaði þess mjög að eiga ekki föður, sérstaklega þegar ég tók eftir að flestir hinir strákarnir í skólanum áttu pabba. Á unglingsárunum kynntist ég himneskum föður okkar. Það var mér huggun að kynnast föður sem er æðri öðrum feðrum og getur ekki dáið. – Hab. 1:12.

REYNSLA MÍN AF SKÁTUNUM

Ég á barnsaldri.

Þegar ég var sjö ára gerðist ég skáti. Skátarnir eru alþjóðahreyfing sem stofnuð var á Bretlandseyjum 1908. Stofnandi hennar var Robert Stephenson Smyth Baden-Powell, undirhershöfðingi í breska hernum. Árið 1916 stofnaði hann ylfingana sem var skátahreyfing fyrir unga stráka á mínum aldri.

Ég hafði gaman af útilegunum um helgar. Þá fengum við að sofa í tjöldum, klæðast skátabúningi og marsera í takt við trommuslátt. Það var gaman að eiga stund með hinum skátunum, leika sér í skóginum og syngja við varðeldinn á kvöldin. Við fengum líka heilmikla fræðslu um náttúruna og þannig lærði ég að meta handaverk skaparans.

Skátar eru hvattir til að gera góðverk á hverjum degi. Það eru í raun einkunnarorð skátanna. Við heilsuðum hver öðrum með orðunum „Ávallt viðbúinn“. Þetta höfðaði vel til mín. Í minni sveit voru nálægt hundrað strákar. Um helmingur þeirra var kaþólskur og hinn helmingurinn mótmælendatrúar. Einn var búddisti.

Alþjóðleg skátamót hafa verið haldin með nokkurra ára millibili frá 1920. Ég sótti sjöunda alþjóðlega skátamótið sem haldið var í ágúst 1951 í Bad Ischl í Austurríki og níunda skátamótið í ágúst 1957 í Sutton Park við Birmingham á Englandi. Þar voru 33.000 skátar saman komnir frá 85 löndum. Við fengum líka um 750.000 gesti, meðal þeirra var Elísabet Englandsdrottning. Fyrir mér var þetta eins og alþjóðlegt bræðrafélag. Á þessum tíma hafði ég ekki grun um að stuttu síðar myndi ég kynnast enn tilkomumeira bræðrafélagi – andlegu bræðrafélagi.

FYRSTA SKIPTIÐ SEM ÉG HITTI VOTT JEHÓVA

Rudolf Tschiggerl konditormeistari byrjaði að segja mér frá sannleika Biblíunnar.

Vorið 1958 var ég í þann mund að ljúka samningsbundnu þjónanámi á Grand Hotel Wiesler í Graz. Vinnufélagi minn, Rudolf Tschiggerl konditormeistari, byrjaði að segja mér frá sannleika Biblíunnar. Ég hafði aldrei áður heyrt neitt um sannleikann. Fyrst ræddi hann um þrenningarkenninguna og sagði að hún væri óbiblíuleg. Ég reyndi að verja kenninguna og koma fyrir hann vitinu. Ég kunni vel við þennan vinnufélaga minn og ætlaði mér að snúa honum aftur til kaþólsku kirkjunnar.

Rudolf, sem var kallaður Rudi, útvegaði mér biblíu. Ég var harður á því að hún þyrfti að vera kaþólsk útgáfa. Ég byrjaði að lesa í henni og sá að Rudi hafði sett smárit frá Varðturnsfélaginu inn í hana. Ég var ósáttur við það því að ég var hræddur um að svona rit væru orðuð á þann hátt að þau hljómuðu rétt en væru það í raun ekki. Ég var hins vegar tilbúinn til að ræða við Rudi um Biblíuna. Hann sýndi mér skilning og lét mig ekki hafa fleiri prentuð rit. Um þriggja mánaða skeið ræddum við af og til um Biblíuna og oft entust þessar umræður langt fram eftir kvöldi.

Eftir að ég hafði lokið námi mínu á hótelinu heima kostaði móðir mín mig til áframhaldandi náms í hótelrekstri. Ég fluttist því til Bad Hofgastein þar sem skólinn var, en það er bær í Ölpunum. Skólinn var í samvinnu við Grand Hotel og stundum vann ég á hótelinu til að fá verklega reynslu samhliða náminu.

TVÆR TRÚBOÐSSYSTUR HEIMSÓTTU MIG

Ég byrjaði að kynna mér Biblíuna með hjálp Ilse Unterdörfer og Elfriede Löhr árið 1958.

Rudi sendi deildarskrifstofunni í Vín nýja heimilisfangið mitt og þaðan var það sent til tveggja trúboðssystra sem hétu Ilse Unterdörfer og Elfriede Löhr. * Dag einn var hringt í mig úr gestamóttökunni á hótelinu og mér var sagt að tvær konur væru í bíl fyrir utan og vildu ná af mér tali. Ég varð undrandi því að ég átti ekki von á neinum. Ég fór samt út til að sjá hverjar þær væru. Seinna frétti ég að þær hefðu verið sendiboðar vottanna þegar starfið var bannað fyrir seinni heimsstyrjöldina, þegar Þýskaland var undir stjórn nasista. Áður en stríðið braust út hafði Gestapo, þýska leynilögreglan, handsamað þær og sent í fangabúðirnar í Lichtenburg. Á stríðsárunum voru þær svo fluttar í fangabúðirnar í Ravensbrück í grennd við Berlín.

Ég sýndi þessum systrum virðingu þar sem þær voru á aldur við móður mína. Þess vegna vildi ég ekki vera að sóa tíma þeirra með því að hefja umræður við þær og þurfa svo að segja þeim nokkrum vikum eða mánuðum síðar að ég vildi ekki halda áfram. Ég spurði þær því hvort þær gætu ekki bara látið mig hafa lista með biblíuversum sem fjölluðu um kenningu kaþólsku kirkjunnar um postullega arftöku. Ég sagði þeim að ég myndi fara með listann til prestsins á staðnum og ræða þetta við hann. Með því að gera það hugsaði ég að ég gæti komist að hinu sanna í málinu.

ÉG LÆRÐI UM HINN SANNA HEILAGA FÖÐUR

Kenning rómversk-kaþólsku kirkjunnar um postullega arftöku segir að röð páfa megi rekja óslitna allt aftur til Péturs postula. (Kirkjan rangtúlkar orð Jesú í Matteusi 16:18, 19.) Kaþólska kirkjan heldur því fram að páfinn, sem kaþólikkar kalla heilagan föður, sé óskeikull í málum sem tengjast kenningum kirkjunnar þegar hann talar í embætti sínu (ex cathedra). Ég trúði þessu og hélt að ef páfinn væri óskeikull í þessum málum og hann segði að þrenningarkenningin væri sönn þá hlyti hún að vera það. En væri hann ekki óskeikull þá gæti kenningin verið ósönn. Það er því ekki skrýtið að kenningin um postullega arftöku sé sú mikilvægasta í hugum margra kaþólikka því að aðrar kenningar kirkjunnar standa og falla með henni.

Þegar ég heimsótti prestinn gat hann ekki svarað spurningum mínum. En hann tók fram bók sem fjallaði um kenningu kaþólsku kirkjunnar um postullega arftöku. Hann mælti með því að ég læsi þessa bók og ég tók hana með mér heim, las hana og kom svo aftur til hans með enn fleiri spurningar. Presturinn gat ekki svarað spurningum mínum og sagði því að lokum: „Ég get ekki sannfært þig og þú getur ekki sannfært mig ... Ég óska þér alls hins besta.“ Hann vildi ekki ræða neitt frekar við mig.

Þegar hér var komið sögu var ég tilbúinn til að byrja að kynna mér Biblíuna með aðstoð Ilse og Elfriede. Þær kenndu mér margt um Jehóva Guð, heilagan föður okkar á himnum. (Jóh. 17:11) Á þessum tíma var enn enginn söfnuður á staðnum þannig að þessar tvær systur héldu samkomur á heimili áhugasamrar fjölskyldu. Þetta var fámennur hópur. Systurnar tvær fóru yfir meirihluta samkomudagskrárinnar í samræðuformi þar sem enginn skírður bróðir var til að stjórna samkomunni. Af og til kom bróðir í heimsókn og flutti fyrirlestur í leigusal.

FYRSTU SKREFIN Í BOÐUNARSTARFINU

Ilse og Elfriede byrjuðu að fræða mig um Biblíuna í október 1958 og ég lét skírast þremur mánuðum síðar, í janúar 1959. Áður en ég lét skírast spurði ég hvort ég mætti koma með þeim í boðunarstarfið svo að ég gæti séð hvernig ætti að fara að. (Post. 20:20) Eftir að hafa farið með þeim aðeins einu sinni spurði ég hvort ég gæti fengið mitt eigið starfssvæði. Þær úthlutuðu mér þorpi og þangað fór ég einsamall að boða trúna hús úr húsi. Ég heimsótti líka aftur þá sem sýndu boðskapnum áhuga. Seinna heimsótti farandhirðir hópinn okkar og hann var fyrsti bróðirinn sem ég fór með í boðunarstarfið.

Árið 1960 lauk ég hótelnáminu og fluttist aftur til heimabæjarins til að segja ættingjum mínum frá sannleika Biblíunnar. Hingað til hefur enginn þeirra tekið við sannleikanum en nokkrir sýna honum þó einhvern áhuga.

Í FULLU STARFI Í ÞJÓNUSTU JEHÓVA

Ég á þrítugsaldri

Árið 1961 fengu söfnuðirnir bréf frá deildarskrifstofunni sem hvatti til brautryðjandastarfs og það var lesið upp á samkomu. Ég var bæði einhleypur og heilsuhraustur og taldi mig því ekki hafa neina afsökun fyrir því að vera ekki brautryðjandi. Ég spurði Kurt Kuhn, sem var farandhirðir okkar, hvað honum fyndist um að ég héldi áfram að vinna í nokkra mánuði í viðbót svo að ég gæti keypt mér bíl til að nota í brautryðjandastarfinu. Hann svaraði: „Þurftu Jesús og postularnir bíl til að þjóna í fullu starfi?“ Þetta dugði mér. Ég ákvað að byrja sem brautryðjandi eins fljótt og mögulegt var. En fyrst þurfti ég að gera einhverjar breytingar því að ég vann 72 stunda vinnuviku á veitingastað á hóteli.

Ég spurði yfirmann minn hvort ég mætti stytta vinnuvikuna niður í 60 stundir. Hann leyfði mér það og borgaði mér sömu laun og áður. Stuttu síðar spurði ég hann hvort ég mætti minnka vinnuna niður í 48 stundir á viku. Hann samþykkti það og borgaði mér enn sömu laun. Því næst spurði ég hvort ég mætti vinna 36 stundir á viku, eða 6 stundir á dag 6 daga vikunnar, og hann samþykkti það líka. Mér til undrunar fékk ég enn sömu launin. Yfirmaðurinn virtist endilega vilja halda í mig. Með þessa stundaskrá hóf ég brautryðjandastarf. Í þá daga áttu brautryðjendur að starfa 100 klukkustundir á mánuði.

Fjórum mánuðum síðar var ég útnefndur sérbrautryðjandi og safnaðarþjónn í litlum söfnuði í bænum Spittal an der Drau í Carinthia-héraði. Þá þurftu sérbrautryðjendur að starfa 150 klukkustundir á mánuði. Ég hafði engan brautryðjandafélaga en kunni vel að meta aðstoð sem ég fékk frá systur að nafni Gertrude Lobner. Hún var aðstoðarsafnaðarþjónn. *

NÝ OG NÝ VERKEFNI

Árið 1963 var mér boðið að hefja farandstarf. Stundum þurfti ég að burðast með þungar töskur og ferðast með lestum á milli safnaða. Fáir bræður áttu bíla svo enginn gat komið og sótt mig á lestarstöðina. Ég vildi ekki taka leigubíl að heimilinu þar sem ég átti að dvelja, til þess að sýnast ekki fyrir öðrum. Ég kaus því að ganga.

Ég var enn þá einhleypur þegar mér var boðið að sækja 41. bekk Gíleaðskólans árið 1965. Margir bekkjarfélagar mínir voru líka einhleypir. Mér til mikillar undrunar var ég aftur sendur heim til Austurríkis, eftir að ég útskrifaðist úr skólanum, svo að ég gæti haldið áfram í farandstarfinu. En áður en ég yfirgaf Bandaríkin fékk ég að starfa með farandhirði þar í fjórar vikur. Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa með Anthony Conte, mjög elskulegum bróður. Honum líkaði boðunarstarfið vel eins og mér og var mjög fær í því. Við störfuðum saman á Cornwall svæðinu við Hudson-ána í New York-ríki.

Á brúðkaupsdaginn.

Þegar ég kom aftur til Austurríkis var mér úthlutað svæði þar sem ég kynntist Tove Merete sem var einhleyp og aðlaðandi systir. Hún hafði verið alin upp í sannleikanum frá fimm ára aldri. Þegar við erum spurð að því hvernig við hittumst segjum við oft í gríni að deildarskrifstofan hafi séð til þess. Við giftum okkur í apríl 1967, um ári eftir að við kynntumst. Við fengum leyfi til að halda áfram í farandstarfinu.

Um ári síðar áttaði ég mig á því að með óverðskulduðum kærleika sínum hafði Jehóva ættleitt mig sem andlegan son. Þannig hófst sérstakt samband við himneskan föður minn og við þá sem ákalla hann „abba, faðir“ eins og talað er um í Rómverjabréfinu 8:15.

Við Merete héldum áfram í farandstarfinu til 1976. Á vetrarmánuðunum þurftum við stundum að sofa í óupphituðum svefnherbergjum þar sem hitinn var undir frostmarki. Eitt skiptið vöknuðum við upp við það að efsti hluti sængurinnar var frosinn af andardrætti okkar. Að lokum ákváðum við að hafa með okkur rafmagnshitara til að hafa einhvern hita á nóttinni. Sums staðar þurftum við að ganga í snjónum á nóttinni til að komast á salernið. Kaldur vindurinn blés oftast í gegnum óþétta veggina á kömrunum. Við höfðum enga íbúð til afnota svo að við dvöldum á mánudögum hjá fjölskyldunni sem við höfðum verið hjá um vikuna. Á þriðjudagsmorgni héldum við svo af stað til næsta safnaðar.

Ég get með ánægju sagt að konan mín hefur veitt mér mikinn stuðning í gegnum árin. Hún hefur yndi af boðunarstarfinu og ég hef aldrei þurft að hvetja hana til þess að fara í starfið. Henni þykir vænt um trúsystkini okkar og lætur sér annt um aðra. Það hefur verið mér mikil hjálp.

Árið 1976 var okkur boðið að koma og starfa við deildarskrifstofuna í Vín og ég var valinn til að vera í deildarnefndinni. Á þessum árum sá deildarskrifstofan í Austurríki um starfið í löndum Austur-Evrópu og skipulagði flutninga á ritum til þessara landa svo að lítið bæri á. Bróðir Jürgen Rundel sýndi mikið frumkvæði og tók af skarið í þessum málum. Ég var mjög þakklátur að fá að vinna með honum og seinna var mér falið að hafa umsjón með þýðingum rita á 10 austur-evrópsk tungumál. Jürgen og Gertrude, eiginkona hans, starfa enn trúfastlega sem sérbrautryðjendur í Þýskalandi. Árið 1978 hóf deildarskrifstofan í Austurríki að setja blöðin upp á prentmyndaplötur og prenta þau með lítilli offsetprentvél á sex mismunandi tungumál. Við sendum líka blöð í áskrift til margra landa sem báðu um það. Otto Kuglitsch, sem nú starfar ásamt Ingrid, konu sinni, á deildarskrifstofunni í Þýskalandi, gegndi lykilhlutverki í þessari starfsemi.

Í Austurríki tók ég þátt í margs konar boðunarstarfi, þar á meðal götustarfinu.

Bræðurnir í Austur-Evrópu framleiddu líka blöð í sínum heimalöndum með því að vinna efni af filmum eða nota fjölrita. Þeir þurftu þó á hjálp að halda frá öðrum löndum. Jehóva sá um að vernda þessa starfsemi. Okkur á deildarskrifstofunni fór að þykja mjög vænt um trúsystkini okkar sem störfuðu við þessi erfiðu skilyrði þar sem starfið var bannað um langt árabil.

SÉRSTÖK HEIMSÓKN TIL RÚMENÍU

Árið 1989 fékk ég það ánægjulega verkefni að fara með bróður Theodore Jaracz, úr stjórnandi ráði, til Rúmeníu. Markmið ferðarinnar var að aðstoða stóran hóp bræðra við að endurheimta tengsl sín við höfuðstöðvarnar. Frá 1949 höfðu þeir af ýmsum ástæðum slitið tengslin við höfuðstöðvarnar og stofnað sína eigin söfnuði. Þrátt fyrir það héldu þeir áfram að vitna fyrir fólki og skíra það. Þeir voru líka hnepptir í fangelsi vegna hlutleysis síns alveg eins og bræður í söfnuðum sem voru tengdir höfuðstöðvunum. Starfið í Rúmeníu var enn þá bannað þannig að við, ásamt fjórum útvöldum öldungum og fulltrúum deildarskrifstofunnar í Rúmeníu, komum saman á laun á heimili bróður Pamfils Albus. Með okkur í för var Rolf Kellner sem var túlkur frá Austurríki.

Annað kvöldið, sem við ræddum saman, fékk bróðir Albu hina fjóra öldungana til að samþykkja að sameinast bræðrafélaginu. Hann sagði: „Ef við gerum það ekki núna fáum við kannski aldrei aftur tækifæri til þess.“ Í kjölfarið samlagaðist um 5.000 manna hópur alheimssöfnuði Jehóva. Þvílíkur sigur fyrir Jehóva og þvílíkt högg fyrir Satan.

Áður en járntjaldið féll í lok ársins 1989 var okkur hjónunum boðið að flytjast til höfuðstöðvanna í New York. Við áttum alls ekki von á því. Við hófum störf á Betel í Brooklyn í júlí 1990 og 1992 var ég útnefndur sem aðstoðarmaður þjónustudeildar stjórnandi ráðs. Frá júlí 1994 hef ég notið þess heiðurs að fá að þjóna í hinu stjórnandi ráði.

LITIÐ TIL FORTÍÐAR OG HORFT TIL FRAMTÍÐAR

Við hjónin í Brooklyn í New York.

Það er langur tími liðinn síðan ég var þjónn á hóteli. Núna fæ ég að taka þátt í að útbúa andlega fæðu og framreiða til allra í alþjóðlega bræðrafélaginu (Matt. 24:45-47) Þegar ég lít yfir farinn veg, á þau 50 ár sem ég hef starfað í fullu starfi, get ég ekki annað en verið Jehóva þakklátur fyrir að blessa alþjóðlega bræðrafélagið okkar. Ég hef yndi af því að vera á alþjóðamótunum þar sem aðaláherslan er lögð á að læra um Jehóva, himneskan föður okkar, og sannleika Biblíunnar.

Ég bið til Jehóva um að milljónir núlifandi manna muni kynna sér Biblíuna, taka við sannleikanum og þjóna Jehóva ásamt alþjóðlegu bræðralagi okkar. (1. Pét. 2:17) Ég hlakka líka til þess að fylgjast með jarðnesku upprisunni af himnum ofan og sjá loksins blóðföður minn. Ég vona að bæði hann og móðir mín og aðrir ástkærir ættingjar mínir, vilji þjóna Jehóva í paradís.

Ég hlakka líka til þess að fylgjast með jarðnesku upprisunni af himnum ofan og sjá loksins blóðföður minn.

^ Lesa má ævisögu þeirra í Varðturninum á ensku 1. nóvember 1979.

^ Núna er talað um umsjónarmann öldungaráðs og ritara í stað safnaðarþjóns og aðstoðarsafnaðarþjóns.