Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Færðu „mat á réttum tíma“?

Færðu „mat á réttum tíma“?

VIÐ LIFUM á erfiðustu tímum sögunnar. (2. Tím. 3:1-5) Á hverjum degi reynir á kærleika okkar til Jehóva og hvort við séum ákveðin að lifa í samræmi við réttlátan mælikvarða hans. Jesús sá þessa erfiðu tíma fyrir og fullvissaði fylgjendur sína um að þeir fengju nauðsynlega hvatningu til að halda út allt til enda. (Matt. 24:3, 13; 28:20) Til þess að styrkja þá útnefndi Jesús trúan þjón til „að gefa þeim mat á réttum tíma“. – Matt. 24:45, 46.

Frá útnefningu hins trúa þjóns árið 1919 hefur milljónum ,hjúa‘ af öllum tungum verið safnað saman í söfnuð Guðs og gefin andleg fæða. (Matt. 24:14; Opinb. 22:17) En það er ekki jafn mikið efni fáanlegt á öllum tungumálum og það hafa ekki allir aðgang að ritum okkar í rafrænu formi. Sömuleiðis hafa ekki allir aðgang að myndböndum og greinum sem koma eingöngu út á jw.org. Þýðir það að sumir fari á mis við andlega fæðu sem er nauðsynleg til að viðhalda sterkri trú? Til að komast að réttri niðurstöðu skaltu hugleiða svörin við fjórum mikilvægum spurningum.

1 Hver er uppistaðan í fæðunni sem Jehóva sér okkur fyrir?

Þegar Satan reyndi að freista Jesú til að breyta steinum í brauð svaraði Jesús: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matt. 4:3, 4) Orð Jehóva eru skráð í Biblíunni. (2. Pét. 1:20, 21) Þess vegna er Biblían meginuppistaðan í andlegri fæðu okkar. – 2. Tím. 3:16, 17.

Hinn trúi og hyggni þjónn hefur gert Nýheimsþýðingu heilagrar ritningar aðgengilega í heild eða að hluta til á yfir 120 tungumálum, og fleiri tungumál bætast við á hverju ári. Auk þessarar þýðingar eru milljarðar eintaka af öðrum biblíuútgáfum aðgengilegar í heild eða að hluta á þúsundum tungumála. Þetta ótrúlega framtak er í samræmi við vilja Jehóva „að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tím. 2:3, 4) Og vegna þess að „enginn skapaður hlutur er [Jehóva] hulinn“ getum við verið þess fullviss að hann dragi þá sem „heyra Guðs orð og varðveita það“ til safnaðar síns og sjái þeim fyrir andlegri fæðu. – Hebr. 4:13; Lúk. 11:28; Jóh. 6:44; 10:14

2 Hvaða hlutverki gegna ritin okkar í að sjá okkur fyrir andlegri fæðu?

Til að hafa sterka trú er ekki nóg að lesa í Biblíunni. Fólk verður að skilja það sem það les og fara eftir því sem það lærir. (Jak. 1:22-25) Eþíópískur hirðmaður á fyrstu öld gerði sér grein fyrir því. Hann var að lesa orð Guðs þegar trúboðinn Filippus spurði hann: „Skilur þú það sem þú ert að lesa?“ Hirðmaðurinn svaraði: „Hvernig ætti ég að geta það ef enginn leiðbeinir mér?“ (Post. 8:26-31) Filippus brást við með því að hjálpa hirðmanninum að skilja það sem hann var að lesa í orði Guðs. Hirðmaðurinn var svo snortinn af því sem hann lærði að hann lét skírast. (Post. 8:32-38) Ritin okkar hafa á sama hátt hjálpað okkur að fá nákvæma þekkingu á sannleikanum. Þau hafa hreyft við okkur þannig að okkur langar til að fara eftir því sem við lærum. – Kól. 1:9, 10.

Fyrir milligöngu ritanna hafa þjónar Jehóva fengið gnægð andlegrar fæðu. (Jes. 65:13) Til dæmis er Varðturninn fáanlegur á meira en 210 tungumálum. Í honum eru biblíuspádómar útskýrðir, við fáum aukinn skilning á djúpum sannindum Biblíunnar og við fáum hvatningu til að lifa eftir meginreglum hennar. Tímaritið Vaknið! er gefið út á um 100 tungumálum. Með lestri þess fáum við víðtækari þekkingu á sköpunarverki Jehóva og við lærum að fara eftir hagnýtum leiðbeiningum Biblíunnar. (Orðskv. 3:21-23; Rómv. 1:20) Hinn trúi þjónn sér okkur fyrir biblíutengdu efni á meira en 680 tungumálum! Tekurðu þér ákveðinn tíma á hverjum degi til að lesa í Biblíunni? Lestu öll nýjustu blöðin og allt sem kemur út á hverju ári á þínu tungumáli?

Hinn trúi og hyggni þjónn sér okkur auk þess fyrir ræðudrögum, byggðum á Biblíunni, til að flytja á samkomum, svæðismótum og umdæmismótum. Nýtur þú þess að horfa á leikrit, hlusta á ræður, viðtöl og sviðsett samtöl? Jehóva hefur svo sannarlega boðið okkur í andlega veislu. – Jes. 25:6.

3 Áttu á hættu að verða andlega vannærður ef þú hefur ekki aðgang að öllum ritum sem hafa komið út á móðurmáli þínu?

Svarið er nei. Það ætti ekki að koma okkur á óvart þótt stundum hafi sumir þjónar Jehóva aðgang að meiri andlegri fæðu en aðrir. Hvers vegna ekki? Tökum postulana sem dæmi. Þeir fengu fleiri leiðbeiningar en aðrir lærisveinar á fyrstu öld. (Mark. 4:10; 9:35-37) Þrátt fyrir það voru hinir lærisveinarnir ekki andlega vannærðir, þeir fengu það sem þeir þurftu. – Ef. 4:20-24; 1. Pét. 1:8.

Það er einnig eftirtektarvert að margt af því sem Jesús sagði og gerði, þegar hann var hér á jörð, er ekki skráð í guðspjöllunum. Jóhannes postuli skrifaði: „Margt er það annað sem Jesús gerði og yrði það hvað eina upp skrifað ætla ég að öll veröldin mundi ekki rúma þær bækur sem þá yrðu ritaðar.“ (Jóh. 21:25) Við förum ekki á mis við neitt þótt fylgjendur Jesú á fyrstu öld hafi haft meiri upplýsingar en við um hinn fullkomna mann Jesú. Jehóva sér til þess að við vitum nógu mikið um Jesú til að feta í fótspor hans. – 1. Pét. 2:21.

Og hvað um bréfin sem postularnir sendu á fyrstu öld til safnaðanna? Páll skrifaði að minnsta kosti eitt bréf sem var ekki varðveitt í Biblíunni. (Kól. 4:16) Er andlega fæðan, sem við fáum, ófullnægjandi vegna þess að við höfum ekki aðgang að þessu bréfi? Nei, Jehóva veit hvers við þörfnumst og lætur okkur í té það sem við þurfum til að hafa sterka trú. – Matt. 6:8.

Jehóva veit hvers við þörfnumst og hefur gefið okkur nóg til að við getum viðhaldið sterkri trú.

Sumir af þjónum Jehóva hafa nú aðgang að meiri andlegri fæðu en aðrir. Eru bara fá rit til á því tungumáli sem þú talar? Ef svo er skaltu samt vita að Jehóva er annt um þig. Lestu það efni sem þú hefur og ef mögulegt er skaltu sækja samkomur á tungumáli sem þú skilur. Þú getur treyst því að Jehóva hjálpar þér að hafa sterka trú. – Sálm. 1:2; Hebr. 10:24, 25.

4 Veikir það trú þína að hafa ekki aðgang að efni sem er birt á jw.org?

Á vefsetrinu birtum við tímarit okkar og annað biblíutengt efni. Þar er einnig að finna hjálplegt efni fyrir hjón, unglinga og barnafólk. Það getur verið gagnlegt fyrir fjölskyldur að hugleiða þetta efni í tilbeiðslustund fjölskyldunnar. Auk þess er birt á vefsetrinu efni frá sérstökum viðburðum eins og brautskráningu Gíleaðnemenda og ársfundinum. Einnig fá bræður og systur um allan heim upplýsingar um náttúruhamfarir og dómsmál sem snerta fólk Jehóva. (1. Pét. 5:8, 9) Vefsetrið er líka öflugt verkfæri sem gerir fagnaðarerindið aðgengilegt í þeim löndum þar sem hömlur eru á boðunarstarfinu eða þar sem það er bannað.

Þú getur viðhaldið sterkri trú hvort sem þú hefur aðgang að vefsetrinu eða ekki. Þjónninn hefur lagt hart að sér til að sjá fyrir nægu prentuðu efni til að öll ,hjúin‘ séu andlega vel nærð. Þér ætti þess vegna ekki að finnast að þú verðir að kaupa tæki til að hafa aðgang að jw.org. Sumir hafa sjálfir prentað fáeinar greinar af vefsetrinu til að gefa þeim sem hafa ekki aðgang að Netinu, en söfnuðir eru ekki skyldugir til þess.

Við erum Jesú þakklát fyrir að halda loforð sitt um að sjá fyrir andlegum þörfum okkar. Nú líður óðum að lokum hinna síðustu daga en við getum treyst því að Jehóva haldi áfram að sjá okkur fyrir andlegum „mat á réttum tíma“.