Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvert er hlutverk kvenna í fyrirætlun Jehóva?

Hvert er hlutverk kvenna í fyrirætlun Jehóva?

„Heill her kvenna flytur sigurfréttina.“ – SÁLM. 68:12.

1, 2. (a) Hvað gaf Guð Adam? (b) Hvers vegna gaf Guð Adam eiginkonu? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

 JEHÓVA skapaði jörðina í ákveðnum tilgangi. Hann „gerði hana byggilega“ handa mönnunum. (Jes. 45:18) Adam, fyrsti maðurinn sem Guð skapaði, var fullkominn og hann gaf honum indælt heimili, aldingarðinn Eden. Adam hlýtur að hafa notið þess að ganga á milli tígulegra trjánna, hlusta á sefandi lækjarniðinn og horfa á ærslafull dýrin. En eitt vantaði hann. Jehóva gaf það til kynna þegar hann sagði: „Eigi er það gott að maðurinn sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi.“ Hann lét þá djúpan svefn falla á Adam, tók eitt af rifjum hans og „myndaði konu af rifinu“. Adam var yfir sig hrifinn þegar hann vaknaði. „Loks er hér bein af mínum beinum og hold af mínu holdi,“ sagði hann. „Hún skal kvenmaður kallast af því að hún er af karlmanni tekin.“ – 1. Mós. 2:18-23.

2 Konan var gjöf Guðs. Hún var fullkomin og átti að vera manninum stoð og stytta. Hún naut líka þeirrar sérstöku blessunar að geta alið börn. „Adam nefndi konu sína Evu því að hún varð móðir allra sem lifa.“ (1. Mós. 3:20, neðanmáls) Það var einstök gjöf sem Guð gaf fyrstu hjónunum. Þau voru fær um að eignast fullkomin börn og fylla jörðina smám saman fullkomnu fólki sem ríkti yfir hinum lífverunum í einni samfelldri paradís. – 1. Mós. 1:27, 28.

3. (a) Hvað þurftu Adam og Eva að gera til að Guð blessaði þau en hvernig fór? (b) Hvaða spurningar eru skoðaðar í þessari grein?

3 Adam og Eva þurftu að hlýða Jehóva og viðurkenna yfirráð hans til að hljóta blessunina sem þeim var ætluð. (1. Mós. 2:15-17) Það var eina leiðin til að þau gætu gegnt því hlutverki sem Guð hafði fyrirhugað þeim. Því miður létu þau ,hinn gamla höggorm‘, Satan, hafa áhrif á sig og syndguðu gegn Guði. (Opinb. 12:9; 1. Mós. 3:1-6) Hvaða áhrif hefur þessi uppreisn haft á konur? Hvað afrekuðu guðræknar konur til forna? Hvers vegna er hægt að tala um kristnar konur nú á dögum sem ,heilan her‘? – Sálm. 68:12.

ÞAÐ SEM UPPREISNIN HAFÐI Í FÖR MEÐ SÉR

4. Hver var kallaður til ábyrgðar fyrir synd fyrstu hjónanna?

4 Þegar Adam var krafinn skýringar á uppreisn sinni kom hann með auma afsökun: „Konan sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át.“ (1. Mós. 3:12) Adam tók ekki ábyrgð á synd sinni og í þokkabót reyndi hann að koma sökinni á konuna sem Guð hafði gefið honum – og sjálfan gjafarann. Adam og Eva syndguðu bæði en Adam var kallaður til ábyrgðar fyrir því. Þess vegna skrifaði Páll postuli: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni [Adam] og dauðinn með syndinni.“ – Rómv. 5:12.

5. Hvað hefur sannast á þeim tíma sem Guð hefur leyft mönnunum að ráða sér sjálfir?

5 Fyrstu hjónin létu telja sér trú um að þau þyrftu ekki á Jehóva að halda sem yfirboðara. Það vakti þá brýnu spurningu hver hefði réttinn til að ráða yfir mönnunum. Til að svara því í eitt skipti fyrir öll leyfði Guð mönnunum að ráða sér sjálfir um tíma, óháð honum. Hann vissi að reynslan myndi sanna að þeir gætu það ekki svo vel færi. Í aldanna rás hefur stjórn manna kallað eina hörmung af annarri yfir mannkynið. Á síðustu öld dóu um 100.000.000 manna af völdum styrjalda, meðal annars milljónir saklausra karla, kvenna og barna. Það er því deginum ljósara að það er ekki „á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum“. (Jer. 10:23, Biblían 1981) Við gerum okkur það ljóst og viðurkennum Jehóva sem yfirboðara okkar. – Lestu Orðskviðina 3:5, 6.

6. Hvernig er farið með stúlkur og konur víða um lönd?

6 Bæði karlar og konur hafa sætt illri meðferð í þessum heimi sem er á valdi Satans. (Préd. 8:9; 1. Jóh. 5:19) Mörg af verstu grimmdarverkum sögunnar hafa bitnað á konum. Á heimsvísu hafa um 30 prósent kvenna mátt þola ofbeldi af hálfu eiginmanns eða kærasta. Í sumum þjóðfélögum eru drengir meira metnir en stúlkur vegna þess að þeim er ætlað að vaxa úr grasi, viðhalda ættinni og annast foreldra, afa og ömmur í ellinni. Sums staðar þykir ekki gott að eignast dætur og mun líklegra er að kona láti eyða fóstri ef hún gengur með stúlkubarn.

7. Hvers konar skilyrði bjó Guð bæði körlum og konum í upphafi?

7 Guð hefur vanþóknun á því að konur sæti illri meðferð. Hann sýnir konum sanngirni og virðir þær. Eva var sköpuð fullkomin. Hún var ekki sköpuð til að vera þræll Adams heldur félagi og hjálparhella. Það er ein ástæðan fyrir því að í lok sjötta sköpunardagsins horfði Guð yfir allt sem hann hafði gert og sá að „það var harla gott“. (1. Mós. 1:31) Já, allt sem Jehóva gerði var afar gott. Hann bjó bæði körlum og konum hagstæðustu skilyrði sem hægt er að hugsa sér.

KONUR SEM JEHÓVA STUDDI

8. (a) Lýstu hegðun fólks almennt. (b) Hverjum hefur Jehóva sýnt velvild alla sögu mannkyns?

8 Hegðun karla og kvenna almennt versnaði eftir uppreisnina í Eden, og síðastliðna öld hefur keyrt um þverbak. Í Biblíunni var sagt fyrir að á „síðustu dögum“ yrði illskan mjög útbreidd. Slík eru vonskuverk mannanna að við lifum sannarlega „örðugar tíðir“. (2. Tím. 3:1-5) En alla sögu mannkyns hefur Drottinn Jehóva sýnt velvild bæði körlum og konum sem hafa treyst honum, hlýtt lögum hans og verið honum undirgefin sem stjórnanda. – Lestu Sálm 71:5.

9. Hve margir lifðu af flóðið og af hverju?

9 Fáir lifðu af þegar Guð eyddi ofbeldisfullum heimi fortíðar í Nóaflóðinu. Ef systkini Nóa voru enn á lífi þegar það gerðist dóu þau líka í flóðinu. (1. Mós. 5:30) En konurnar og karlarnir, sem lifðu af flóðið, voru jafnmörg. Þetta voru Nói, eiginkona hans, synir þeirra þrír og konur þeirra. Þau björguðust vegna þess að þau óttuðust Guð og gerðu vilja hans. Þeir milljarðar, sem byggja jörðina núna, eru komnir af þessum átta einstaklingum sem Jehóva studdi og verndaði. – 1. Mós. 7:7; 1. Pét. 3:20.

10. Hvers vegna studdi Jehóva og verndaði eiginkonur trúfastra ættfeðra?

10 Guð studdi einnig og verndaði guðhræddar eiginkonur ættfeðranna sem voru uppi löngu síðar. Það hefði hann ekki gert ef þær hefðu verið síkvartandi yfir hlutskipti sínu í lífinu. (Júd. 16) Það er erfitt að ímynda sér að Sara, eiginkona Abrahams, hafi kvartað hástöfum þegar þau yfirgáfu þægindin í borginni Úr og bjuggu eftir það í tjöldum sem gestir í öðru landi. „Sara hlýddi Abraham og kallaði hann herra.“ (1. Pét. 3:6) Hugsum líka til Rebekku sem Guð gaf Ísak fyrir konu. Hún var honum til mikillar blessunar og hann „fékk ást á henni og lét huggast eftir móðurmissinn“. (1. Mós. 24:67) Og við erum innilega þakklát fyrir að á meðal okkar skuli vera guðræknar konur á borð við Söru og Rebekku.

11. Hvaða hugrekki sýndu tvær hebreskar ljósmæður?

11 Ísraelsmönnum fjölgaði hratt meðan þeir voru þrælar í Egyptalandi. Faraó fyrirskipaði þá að allir drengir skyldu myrtir strax eftir fæðingu. Tvær hebreskar ljósmæður, þær Sífra og Púa, virðast hafa farið með forystu meðal annarra ljósmæðra. Þær óttuðust Jehóva og sýndu það hugrekki að láta börnin lifa. Hann umbunaði þeim með því að veita þeim barnalán. – 2. Mós. 1:15-21.

12. Hvað afrekuðu Debóra og Jael?

12 Á dómaratímanum í Ísrael var uppi spákona sem hét Debóra. Jehóva studdi hana og verndaði. Hún hvatti Barak dómara til dáða og hjálpaði Ísraelsmönnum að brjótast undan kúgun óvina sinna. Hún spáði þó að Barak myndi ekki fá heiðurinn af því að sigra Kanverja heldur myndi Jehóva „selja Sísera í hendur konu“ en Sísera var hershöfðingi þeirra. Það rættist þegar Jael, sem var ekki ísraelsk, varð honum að bana. – Dóm. 4:4-9, 17-22.

13. Hvað er sagt í Biblíunni um Abígail?

13 Abígail var uppi á 11. öld f.Kr. Hún var skynsöm kona en Nabal, eiginmaður hennar, var aftur á móti illmenni, heimskur og harður í lund. (1. Sam. 25:2, 3, 25) Davíð og menn hans vernduðu eignir Nabals um tíma. Þeir báðu hann síðan að láta sér í té vistir en hann „svaraði með fúkyrðum“ og rak þá burt tómhenta. Davíð reiddist svo að hann ætlaði að gera út af við Nabal og menn hans. Þegar Abígail frétti þetta færði hún Davíð og mönnum hans bæði mat og drykk og afstýrði blóðsúthellingum. (1. Sam. 25:8-18) Davíð sagði þá við hana: „Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, sem sendi þig til móts við mig í dag.“ (1. Sam. 25:32) Abígail varð síðan eiginkona Davíðs eftir að Nabal var dáinn. – 1. Sam. 25:37-42.

14. Við hvaða verk unnu dætur Sallúms og hvernig líkja margar systur í söfnuðinum eftir þeim?

14 Fjöldi karla, kvenna og barna týndi lífi þegar her Babýlonar eyddi Jerúsalem og musterið árið 607 f.Kr. Borgarmúrarnir voru endurbyggðir árið 455 f.Kr. undir umsjón Nehemía. Meðal þeirra sem unnu að viðgerð á múrunum voru dætur Sallúms en hann stjórnaði helmingi Jerúsalemhéraðs. (Neh. 3:12) Þær voru fúsar til að vinna erfiðisvinnu. Þær minna á þær mörgu systur sem taka fúslega þátt í byggingarframkvæmdum á vegum safnaðarins víða um lönd nú á dögum.

GUÐRÆKNAR KONUR Á FYRSTU ÖLD

15. Hvaða heiður sýndi Jehóva konu sem hét María?

15 Jehóva sýndi mörgum konum mikinn heiður á fyrstu öld og skömmu áður en hún gekk í garð. Ein þeirra var mey sem hét María. Meðan hún var trúlofuð Jósef varð hún barnshafandi vegna kraftaverks af völdum heilags anda. Hvers vegna valdi Jehóva hana til að vera móðir Jesú? Eflaust vegna þess að hún var þeim kostum gædd sem þurfti til að ala upp fullkominn son sinn og koma honum til þroska. Hvílíkur heiður að fá að vera móðir mesta mikilmennis sem lifað hefur. – Matt. 1:18-25.

16. Nefndu dæmi sem lýsir viðhorfum Jesú til kvenna.

16 Jesús sýndi konum mikla góðvild. Sem dæmi má nefna konu sem hafði haft blóðlát í 12 ár. Hún kom aftan að Jesú í mannþröng og snerti föt hans. Hann ávítaði hana ekki heldur sagði hlýlega: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði og ver heil meina þinna.“ – Mark. 5:25-34.

17. Hvað gerðist á hvítasunnu árið 33?

17 Sumar af konunum, sem voru lærisveinar Jesú, þjónuðu honum og postulum hans dyggilega. (Lúk. 8:1-3) Og á hvítasunnu árið 33 fengu um 120 karlar og konur heilagan anda með sérstökum hætti. (Lestu Postulasöguna 2:1-4.) Þessari úthellingu heilags anda hafði verið spáð: „Síðar mun ég [Jehóva] úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá ... jafnvel yfir þræla og ambáttir mun ég úthella anda mínum.“ (Jóel 3:1, 2) Með þessu kraftaverki á hvítasunnudegi sýndi Jehóva að hann væri hættur að styðja Ísraelsþjóðina og veitti nú „Ísrael Guðs“ blessun sína, bæði körlum og konum. (Gal. 3:28; 6:15, 16) Fjórar dætur Filippusar trúboða voru meðal þeirra kvenna sem boðuðu fagnaðarerindið á fyrstu öld. – Post. 21:8, 9.

„HEILL HER KVENNA“

18, 19. (a) Hvaða heiður hefur Guð sýnt bæði körlum og konum í tengslum við sanna tilbeiðslu? (b) Hvað kallar sálmaskáldið konurnar sem boða fagnaðarerindið?

18 Á síðustu áratugum nítjándu aldar sýndi fámennur hópur karla og kvenna brennandi áhuga á sannri guðsdýrkun. Þau voru undanfarar þeirra sem eiga nú hlutdeild í uppfyllingu eftirfarandi spádóms Jesú: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ – Matt. 24:14.

19 Þessi fámenni hópur biblíunemenda er nú orðinn að hér um bil 8.000.000 vottum Jehóva. Rúmlega 11.000.000 til viðbótar sýna áhuga á Biblíunni og starfi okkar með því að sækja minningarhátíðina um dauða Jesú. Víðast hvar í heiminum eru konur þar í meirihluta. Þeir sem boða fagnaðarerindið í fullu starfi um allan heim eru rösklega 1.000.000. Meiri hluti þeirra er konur. Guð hefur sannarlega veitt trúum konum þann heiður að fá að uppfylla orð sálmaskáldsins sem sagði: „Drottinn lætur boðskap út ganga, heill her kvenna flytur sigurfréttina.“ – Sálm. 68:12.

Konurnar, sem boða fagnaðarerindið, eru „heill her“. (Sjá 18. og 19. grein.)

GUÐRÆKNAR KONUR EIGA MIKLA BLESSUN Í VÆNDUM

20. Hvers konar námsverkefni er hægt að setja á dagskrá?

20 Hér er ekki rúm til að fjalla um allar þær mörgu trúu konur sem sagt er frá í Biblíunni. Við getum hins vegar lesið um þær í Biblíunni og í greinum sem birst hafa um þær í ritum okkar. Við getum til dæmis íhugað hollustu Rutar. (Rut. 1:16, 17) Við getum styrkt trúna með því að lesa bókina sem nefnd er eftir Ester drottningu og greinar um hana. Hægt er að setja námsverkefni af þessu tagi á dagskrá fyrir tilbeiðslukvöld fjölskyldunnar. Ef við búum ein getum við tekið fyrir slíkt efni í sjálfsnámi okkar.

21. Hvernig hafa guðræknar konur sýnt Jehóva hollustu á erfiðum tímum?

21 Jehóva blessar greinilega boðun kristinna kvenna og styður þær í prófraunum. Með hjálp hans varðveittu guðræknar konur ráðvendni í valdatíð nasista og kommúnista. Margar þeirra þoldu miklar þjáningar og týndu jafnvel lífi vegna þess að þær hlýddu Guði. (Post. 5:29) Systur okkar og samþjónar þeirra styðja drottinvald Jehóva, nú eins og fyrr á tímum. Hann heldur í hægri hönd þeirra og segir þeim hið sama og hann sagði Ísraelsmönnum forðum daga: „Óttast eigi, ég bjarga þér.“ – Jes. 41:10-13.

22. Hvaða verkefni bíða okkar í framtíðinni?

22 Í náinni framtíð hefjast guðræknir karlar og konur handa við að breyta jörðinni í paradís og hjálpa þeim milljónum, sem Jehóva reisir upp frá dauðum, að kynnast vilja hans. Þangað til skulum við öll, bæði karlar og konur, vera þakklát fyrir að mega þjóna honum „einhuga“. – Sef. 3:9.