Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Foreldrar – gætið barnanna

Foreldrar – gætið barnanna

„Gefðu nákvæmar gætur að sauðum þínum.“ – ORÐSKV. 27:23.

1, 2. (a) Hvað fólst í starfi fjárhirðis í Ísrael forðum daga? (b) Að hvaða leyti eru foreldrar eins og fjárhirðar?

 ÞAÐ var hörkuvinna að vera fjárhirðir í Ísrael forðum daga. Fjárhirðirinn þurfti að þola hitann á daginn og kuldann um nætur, auk þess að verja hjörðina fyrir rándýrum og ræningjum. Hann skoðaði féð reglulega og veitti sjúkum og meiddum skepnum viðeigandi umönnun. Hann sinnti lömbunum sérstaklega, því að þau voru viðkvæm og þróttminni en fullorðna féð. – 1. Mós. 33:13.

2 Kristnir foreldrar eru að sumu leyti eins og fjárhirðar og þurfa að tileinka sér svipaða eiginleika. Þeir hafa það verkefni að ala börnin upp „með aga og fræðslu um Drottin“. (Ef. 6:4) Er það auðvelt verkefni? Nei. Áróður Satans dynur á börnunum og þau þurfa auk þess að glíma við ófullkomleikann og þær tilhneigingar sem fylgja honum. (2. Tím. 2:22; 1. Jóh. 2:16) Hvernig geturðu stutt börnin sem best? Við skulum líta á þrennt sem þú getur gert til að gæta barnanna – að þekkja þau, næra þau og leiðbeina þeim.

ÞEKKIÐ BÖRNIN

3. Hvað er fólgið í því að gefa gætur að börnunum?

3 Góður fjárhirðir skoðar sauðina vandlega, hvern og einn, til að fullvissa sig um að þeir séu heilbrigðir. Foreldrar geta með hliðstæðum hætti fylgst náið með börnunum. „Gefðu nákvæmar gætur að sauðum þínum,“ segir í Biblíunni. (Orðskv. 27:23) Til að gera það þurfið þið bæði að gefa gaum að hegðun barnsins og fylgjast með hvað það er að hugsa og hvernig því líður. Hvernig er hægt að gera það? Ein besta leiðin er að tala oft við börnin.

4, 5. (a) Hvað er hægt að gera til að fá börnin til að opna sig fyrir foreldrunum? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvað hefurðu gert til að auðvelda börnunum að ræða við þig?

4 Sumir foreldrar hafa komist að raun um að það verður erfiðara að ræða við börnin þegar þau ná unglingsaldri. Þau eru ef til vill ekki eins opin og áður og tregari til að ræða um hugsanir sínar og tilfinningar. Hvað er til ráða ef þetta gerist hjá börnunum þínum? Reyndu að nota þau tækifæri sem gefast til að spjalla við þau frekar en að þvinga þau til að eiga langar og alvarlegar samræður við þig. (5. Mós. 6:6, 7) Þú þarft kannski að leggja meira á þig en áður til að gera eitthvað með þeim. Þið gætuð farið í gönguferð eða bíltúr, spilað eða unnið einhver húsverk saman. Við slíkar aðstæður má búast við að unglingurinn sé afslappaður og þá eru meiri líkur á að hann opni sig og segi það sem honum býr í brjósti.

5 Hvað er til ráða ef barnið virðist samt sem áður tregt til að tjá sig? Þá gætirðu reynt aðra aðferð. Tökum dæmi: Í stað þess að spyrja dóttur þína hvernig dagurinn hafi verið hjá henni gætirðu minnst á hvernig dagurinn hafi verið hjá þér. Kannski segir hún þér þá hvað hafi gerst hjá henni. Til að kanna hvernig dóttirin hugsar í einhverju máli mætti spyrja spurninga sem beina athyglinni frá henni. Þú gætir spurt hana hvernig einhver af vinkonum hennar líti á málið. Síðan væri hægt að spyrja hvað hún myndi ráðleggja vinkonu sinni.

6. Hvernig geturðu látið börnin finna að þú hafir tíma til að ræða við þau og að það sé auðvelt að tala við þig?

6 Til að börnin opni sig þurfa þau auðvitað að finna að þú gefir þér tíma fyrir þau og að það sé auðvelt að tala við þig. Ef foreldrarnir virðast aldrei mega vera að því að ræða við börnin er ekki líklegt að unglingarnir í fjölskyldunni segi þeim frá vandamálum sínum. Og hvað geturðu gert til að börnin eigi auðvelt með að tala við þig? Það er ekki nóg að segja bara: „Þú getur talað við mig hvenær sem er.“ Unglingarnir þurfa að finna að þú gerir hvorki lítið úr vandamálum þeirra né bregðist harkalega við. Margir foreldrar gera þetta vel. Kayla, sem er 19 ára, segir: „Ég get talað við pabba um hvað sem er. Hann grípur ekki fram í og hann dæmir mig ekki. Hann hlustar bara. Síðan gefur hann mér alltaf bestu ráðin.“

7. (a) Hvernig geta foreldrar sýnt jafnvægi þegar mál eins og samskipti við hitt kynið eru til umræðu? (b) Hvernig gætu foreldrar óafvitandi gert börnunum gramt í geði?

7 Stundum þarf að ræða við börnin um mál af viðkvæmara tagi, svo sem samskipti við hitt kynið. Gættu þess þá að leggja ekki svo mikla áherslu á að vara börnin við hættunum að þú gleymir að kenna þeim hver sé rétta leiðin. Lýsum því með dæmi: Segjum sem svo að þú farir á veitingahús. Þú skoðar matseðilinn og uppgötvar að þar er ekkert að finna nema viðvaranir við matareitrun. Sennilega gengurðu út og leitar að öðrum veitingastað. Hið sama getur gerst ef börnin leita ráða hjá þér en þú ert ekki með neitt annað á „matseðlinum“ en strangar viðvaranir. (Lestu Kólossubréfið 3:21.) Reyndu að sýna jafnvægi. Ung systir, Emily að nafni, segir: „Þegar foreldrar mínir tala við mig um stráka er það ekki bara í neikvæðum tón. Þau leggja áherslu á hve ánægjulegt það sé að kynnast og finna sér maka. Þess vegna finnst mér ekkert óþægilegt að tala við þau um þetta. Ég vil gjarnan segja þeim frá ef ég er hrifin af strák í stað þess að fela það fyrir þeim.“

8, 9. (a) Hvaða áhrif hefur það að hlusta á börnin án þess að grípa fram í? (b) Hvernig hefur þér gengið að hlusta á börnin þín?

8 Börnin eiga auðveldara með að tala við þig ef þú ert þolinmóður og hlustar, rétt eins og Kayla lýsir. (Lestu Jakobsbréfið 1:19.) „Ég var afskaplega óþolinmóð við dóttur mína hér áður fyrr,“ segir einstæð móðir sem heitir Katia. „Ég gaf henni ekki tækifæri til að ljúka máli sínu. Ég var annaðhvort of þreytt til að hlusta eða vildi ekki láta ónáða mig. Eftir að ég breytti um háttarlag hefur dóttir mín líka breyst. Hún er orðin miklu samvinnuþýðari.“

Hlustaðu vel til að ÞEKKJA þau. (Sjá 3.-9. grein.)

9 Faðir, sem heitir Ronald, hefur svipaða sögu að segja af samskiptum við 16 ára dóttur sína. „Ég reiddist mjög í fyrstu þegar hún sagði mér að hún væri ástfangin af strák í skólanum,“ segir hann. „En síðan fór ég að hugleiða hve þolinmóður og sanngjarn Jehóva er við þjóna sína, og þá hugsaði ég sem svo að það væri betra fyrir dóttur mína ef ég gæfi henni tækifæri til að lýsa tilfinningum sínum áður en ég reyndi að leiðrétta hana. Ég er ánægður að ég skyldi gera það. Í fyrsta sinn skildi ég hvernig dóttur minni leið. Þegar hún lauk máli sínu átti ég auðveldara með að tala hlýlega við hana. Mér til undrunar tók hún ráðum mínum mjög vel. Hún sagði að sig langaði í einlægni til að breyta hátterni sínu.“ Ef þú talar oft við börnin færðu betri innsýn í hugsanir þeirra og tilfinningar. Þá geturðu haft meiri áhrif á þær ákvarðanir sem þau taka. *

NÆRIÐ BÖRNIN

10, 11. Hvernig geturðu hjálpað börnunum að halda sig við sannleikann?

10 Góður fjárhirðir veit að sauðir geta villst frá hjörðinni. Ein af kindunum kemur auga á girnilegan grastopp stutt frá og síðan annan svolítið fjær. Smám saman fjarlægist hún hjörðina. Barn getur líka fjarlægst söfnuðinn smám saman. Það lætur tælast af óheppilegum félagsskap eða skaðlegu skemmtiefni. (Orðskv. 13:20) Hvernig geturðu dregið úr hættunni á að það gerist?

11 Vertu fljótur til ef þú tekur eftir veikleika í fari barnanna sem gæti leitt þau út á hættulega braut. Hjálpaðu þeim að styrkja kristna eiginleika sem þau þurfa að þroska betur. (2. Pét. 1:5-8) Tilbeiðslustund fjölskyldunnar er gott tækifæri til þess. Eftirfarandi stóð í Ríkisþjónustu okkar í október 2008: „Þeir sem veita fjölskyldu forstöðu verða að axla ábyrgð sína frammi fyrir Jehóva og tryggja að reglulegt og markvisst fjölskyldunám sé á dagskrá.“ Notarðu tilbeiðslustundina vel til að gæta barnanna? Þú mátt treysta að þau kunna vel að meta það sem þú leggur á þig til að fullnægja andlegum þörfum þeirra. – Matt. 4:4; Fil. 1:10.

NÆRÐU þau vel. (Sjá 10.-12. grein.)

12. (a) Hvernig hefur tilbeiðslustund fjölskyldunnar verið ungu fólki til góðs? (Sjá rammagreinina „ Þau kunna vel að meta hana“.) (b) Hvernig hefur þú notið góðs af tilbeiðslustund fjölskyldunnar?

12 Unglingsstúlka, sem heitir Carissa, segir að þau fjölskyldan hafi haft mikið gagn af tilbeiðslustundinni. „Mér finnst gott að við getum öll sest niður og talað saman,“ segir hún. „Þegar við gerum það styrkjum við fjölskylduböndin og eigum góðar stundir sem gleymast ekki. Pabbi er mjög ákveðinn að láta tilbeiðslustundina ekki falla niður. Það er hvetjandi að sjá hvað hann tekur hana alvarlega, og það er mér líka hvatning til að taka hana alvarlega. Þess vegna hef ég enn ríkari ástæðu til að virða hann sem föður og virða forystu hans í andlegu málunum.“ Ung systir, sem heitir Brittney, segir: „Tilbeiðslustund fjölskyldunnar hefur styrkt böndin milli mín og foreldranna. Hennar vegna veit ég að þau vilja vita af vandamálum mínum og þeim er virkilega annt um mig. Hún hjálpar okkur að vera sterk og sameinuð fjölskylda.“ Ein besta leiðin til að vera góður hirðir og gæta barnanna vel er greinilega sú að næra þau andlega. Og tilbeiðslustundin er góður vettvangur til þess. *

LEIÐBEINIÐ BÖRNUNUM

13. Hvernig geta foreldrar hvatt barn til að þjóna Jehóva?

13 Góður fjárhirðir notar staf til að beina hjörðinni í rétta átt og verja hana. Það er eitt helsta markmið hans að leiða hjörðina að „góðu haglendi“. (Esek. 34:13, 14) Þið foreldrarnir hafið sama markmið. Þið viljið leiðbeina börnunum svo að þau þjóni Jehóva. Þið viljið að börnin hugsi eins og sálmaskáldið sem orti: „Að gera vilja þinn, Guð minn, er mér yndi og lögmál þitt er innra með mér.“ (Sálm. 40:9) Ef börnunum er þannig innanbrjósts langar þau til að vígjast Jehóva og láta skírast. Þegar þau stíga þetta skref þurfa þau auðvitað að vera nógu þroskuð til að taka slíka ákvörðun og langa í einlægni til að þjóna Jehóva.

14, 15. (a) Hvaða markmið ættu kristnir foreldrar að hafa? (b) Hvers vegna gæti unglingur látið í ljós efasemdir um trúna?

14 En segjum nú að börnin virðist ekki taka framförum í trúnni og séu jafnvel með efasemdir. Reyndu að glæða með þeim kærleika til Jehóva Guðs og þakklæti fyrir allt sem hann hefur gert. (Opinb. 4:11) Þegar þau eru tilbúin geta þau síðan ákveðið að þjóna Jehóva.

15 Hvað er til ráða ef börnin láta í ljós efasemdir? Hvernig geturðu gætt þeirra og leitt þeim fyrir sjónir að það sé besta lífsstefnan að þjóna Jehóva og að það stuðli að varanlegri hamingju? Reyndu að kanna hvað búi að baki efasemdunum. Er sonur þinn í alvöru ósammála kenningum Biblíunnar eða vantar hann bara sjálfstraust til að verja þær fyrir skólafélögunum? Er dóttir þín raunverulega efins um að siðferðisreglur Guðs séu góðar eða er hún bara einmana og finnst hún vera skilin út undan?

LEIÐBEINDU þeim. (Sjá 13.-18. grein.)

16, 17. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að tileinka sér sannleikann?

16 Hver sem orsökin er geturðu hjálpað barninu að sigrast á efasemdunum. Hvernig? Mörgum foreldrum hefur reynst vel að fá barnið til að tjá sig með því að spyrja spurninga á borð við þessar: Hvernig finnst þér að vera þjónn Jehóva? Að hvaða leyti finnst þér það vera gott fyrir þig? Hvað kostar það okkur? Ef þú hugsar um kostina, bæði það sem við upplifum núna og eigum eftir að njóta í framtíðinni, finnst þér þeir ekki vega þyngra en gallarnir? Af hverju? Þú átt auðvitað að spyrja hlýlega með eigin orðum og sýna áhuga á svarinu. Þú ert ekki að yfirheyra barnið. Þið gætuð rætt um Markús 10:29, 30. Sumum unglingum þykir gott að setja hugsanir sínar á blað og skipta þeim í tvo dálka, annan fyrir kostina og hinn fyrir gallana. Að sjá þetta á blaði getur hjálpað ykkur að einangra vandamálið og finna lausnir. Við þurfum að fara yfir bækurnar Hvað kennir Biblían? og Látið kærleika Guðs varðveita ykkur með biblíunemendum. Þá hljótum við að þurfa að lesa þær með okkar eigin börnum. Gerirðu það?

17 Það kemur að því að börnin þurfa að ákveða sjálf hverjum þau ætla að þjóna. Þú mátt ekki halda að trúin síist bara inn hjá þeim með andrúmsloftinu. Þau þurfa að tileinka sér sannleikann. (Orðskv. 3:1, 2) Hvað er hægt að gera ef barnið virðist eiga erfitt með það? Þá væri kannski ráð að byrja bara á grundvallaratriðunum. Hjálpaðu barninu að skoða trú sína og sannfæringu með því að spyrja sig spurninga eins og: Hvernig veit ég að Guð er til? Hvað sannfærir mig um að Jehóva sé annt um mig? Hvers vegna trúi ég að lög Jehóva séu mér til góðs? Vertu góður hirðir og leiðbeindu barninu eða börnunum með þolinmæði. Hjálpaðu þeim að sanna fyrir sjálfum sér að það sé besta lífsstefnan að þjóna Jehóva. * – Rómv. 12:2.

18. Hvernig geta foreldrar líkt eftir Jehóva, hirðinum mikla?

18 Allir sannkristnir menn vilja líkja eftir hirðinum mikla, Jehóva. (Ef. 5:1; 1. Pét. 2:25) Foreldrar þurfa að gefa nákvæmar gætur að sauðum sínum – börnunum sem eru þeim svo dýrmæt. Þeir vilja gera allt sem í þeirra valdi stendur til að leiðbeina þeim svo að þau hljóti blessunina sem Jehóva býður öllum þjónum sínum. Gætið barnanna fyrir alla muni með því að ala þau upp í sannleikanum.

^ Fleiri tillögur er að finna í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. ágúst 2008, bls. 10-12.

^ Nánari upplýsingar er að finna í greininni „Biblíunám fjölskyldunnar lífsnauðsynlegt!“ í Varðturninum 15. október 2009, bls. 29-31.

^ Meira er rætt um þetta efni í Varðturninum apríl-júní 2012, bls. 26-29.