Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Upprisa Jesú – hvað þýðir hún fyrir okkur?

Upprisa Jesú – hvað þýðir hún fyrir okkur?

„Hann er upp risinn.“ – MATT. 28:6.

1, 2. (a) Hvað heimtuðu trúarleiðtogar Gyðinga og hvernig svaraði Pétur? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvers vegna var Pétur svona hugrakkur núna?

 FÁEINUM dögum eftir að Jesús dó stóð Pétur postuli frammi fyrir fjandsamlegum hópi og heldur ógnvekjandi. Þetta voru hinir voldugu trúarleiðtogar Gyðinga – þeir hinir sömu og höfðu búið svo um hnútana að Jesús var tekinn af lífi. Mennirnir heimtuðu skýringu. Pétur hafði læknað mann sem hafði verið lamaður frá fæðingu og þeir vildu vita í nafni hvers hann hefði læknað hann og með hvaða krafti. Pétur svaraði hugrakkur: „Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þið krossfestuð en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum ykkar.“ – Post. 4:5-10.

2 Nokkru áður hafði Pétur verið hræddur og afneitað Jesú þrisvar. (Mark. 14:66-72) Hvernig gat hann verið svona hugrakkur núna frammi fyrir trúarleiðtogunum? Heilagur andi átti stóran þátt í því en Pétur hafði líka sannfærst um að Jesús væri risinn upp frá dauðum. Hvernig gat hann verið svona viss um að Jesús væri á lífi? Og hvernig getum við verið sannfærð um það?

3, 4. (a) Hvaða upprisur áttu sér stað fyrir daga postulanna? (b) Hverja reisti Jesús upp frá dauðum?

3 Það var engin nýlunda fyrir postula Jesú að dánir gætu risið upp því að það hafði gerst áður. Þeir vissu að Guð hafði gefið spámönnunum Elía og Elísa mátt til að vinna slík kraftaverk. (1. Kon. 17:17-24; 2. Kon. 4:32-37) Dáinn maður hafði jafnvel lifnað við þegar líki hans var kastað í gröf og það snerti bein Elísa. (2. Kon. 13:20, 21) Frumkristnir menn trúðu þessum frásögum, rétt eins og við trúum að orð Guðs sé satt.

4 Í Biblíunni er sagt frá því að Jesús hafi reist fólk upp frá dauðum. Við erum líklega öll snortin af þessum frásögum. Ekkjan hlýtur að hafa verið agndofa þegar hann vakti einkason hennar til lífs. (Lúk. 7:11-15) Jesús reisti líka upp 12 ára stúlku. Hugsaðu þér hvernig harmi slegnum foreldrunum hefur verið innanbrjóst þegar dóttir þeirra lifnaði við. (Lúk. 8:49-56) Og fólk hlýtur að hafa verið frá sér numið af gleði þegar það sá Lasarus ganga alheilan út úr gröfinni. – Jóh. 11:38-44.

HVERNIG VAR UPPRISA JESÚ EINSTÖK?

5. Á hvaða hátt var upprisa Jesú ólík fyrri upprisum?

5 Postularnir vissu að upprisa Jesú var ólík fyrri upprisum. Áður fyrr hafði fólk verið reist upp í efnislegum líkama og það dó aftur um síðir. Jesús var hins vegar reistur upp í ódauðlegum andalíkama. (Lestu Postulasöguna 13:34.) Pétur skrifaði að Jesús hefði verið „deyddur að líkamanum til en lifandi ger í anda“. Enn fremur „steig [hann] upp til himna, situr Guði á hægri hönd, og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir“. (1. Pét. 3:18-22) Fyrri upprisur voru meiri háttar kraftaverk en engin þeirra komst í jafnkvisti við þetta einstaka kraftaverk.

6. Hvaða áhrif hafði upprisa Jesú á lærisveina hans?

6 Upprisa Jesú hafði djúpstæð áhrif á lærisveina hans. Hann var ekki lengur dáinn eins og óvinir hans héldu. Jesús var á lífi og var nú voldug andavera sem enginn maður gat gert mein. Upprisa hans sannaði að hann væri sonur Guðs. Sú vitneskja hafði þau áhrif að sorg lærisveinanna breyttist í mikinn fögnuð og óttinn vék fyrir hugrekki. Upprisa Jesú var grundvallaratriði í fyrirætlun Jehóva og fagnaðarerindinu sem þeir boðuðu djarflega um allar jarðir.

7. Hvað gerir Jesús núna og hvaða spurningar vakna?

7 Við sem þjónum Jehóva vitum fullkomlega að Jesús var ekki bara mikill maður. Hann er lifandi núna og hefur yfirumsjón með starfi sem hefur áhrif á alla jarðarbúa. Hann er konungur Guðsríkis á himnum og sem slíkur stöðvar hann bráðum illskuna á jörðinni og breytir henni í paradís þar sem fólk lifir að eilífu. (Lúk. 23:43) Ekkert af þessu gæti orðið ef Jesús hefði ekki risið upp. En hvernig getum við verið viss um að hann hafi verið reistur upp frá dauðum? Og hvaða þýðingu hefur upprisa hans fyrir okkur?

JEHÓVA SÝNIR MÁTT SINN YFIR DAUÐANUM

8, 9. (a) Hvers vegna fóru trúarleiðtogar Gyðinga fram á að grafar Jesú yrði gætt? (b) Hvað gerðist þegar konur komu til grafarinnar?

8 Eftir að Jesús var tekinn af lífi fóru æðstu prestarnir og farísearnir til Pílatusar og sögðu: „,Herra, við minnumst þess að svikari þessi sagði í lifanda lífi: Eftir þrjá daga rís ég upp. Bjóð því að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: Hann er risinn frá dauðum. Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri.‘ Pílatus sagði við þá: ,Hér hafið þið varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þið kunnið.‘“ Og það gerðu þeir. – Matt. 27:62-66.

9 Líkami Jesú hafði verið lagður í gröf sem var höggvin í klett og lokað með stórum steini. Þar vildu trúarleiðtogar Gyðinga hafa hann að eilífu – dáinn og grafinn. En Jehóva hafði allt annað í hyggju. Þegar María Magdalena og María hin komu til grafarinnar á þriðja degi sáu þær að steininum hafði verið velt frá og engill sat á honum. Engillinn sagði konunum að líta inn í gröfina og sjá að hún væri tóm. „Hann er ekki hér. Hann er upp risinn,“ sagði engillinn. (Matt. 28:1-6) Jesús var lifandi!

10. Hvernig rökstuddi Páll að Jesús væri risinn upp?

10 Atburðir næstu 40 daga leiddu í ljós að Jesús var risinn upp. Á því lék enginn vafi. Páll postuli segir í bréfi til safnaðarins í Korintu: „Það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum. En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði.“ – 1. Kor. 15:3-8.

HVERS VEGNA VITUM VIÐ AÐ JESÚS HAFI RISIÐ UPP?

11. Hvernig var spáð í Biblíunni að Jesús skyldi rísa upp frá dauðum?

11 Ein ástæðan fyrir því að við vitum að Jesús hafi risið upp frá dauðum er að það gerðist „samkvæmt ritningunum“. Upprisu hans var spáð í Biblíunni. Davíð skrifaði til dæmis að trúr þjónn Guðs yrði ekki ofurseldur helju. (Lestu Sálm 16:10.) Á hvítasunnu árið 33 heimfærði Pétur þetta spádómlega vers á Jesú og sagði: „Því var það upprisa Krists sem [Davíð] sá fyrir þegar hann sagði: Ekki varð hann eftir skilinn í helju og ekki varð líkami hans rotnun að bráð.“ – Post. 2:23-27, 31.

12. Hverjir sáu Jesú upprisinn?

12 Vitnisburður sjónarvotta er önnur ástæða fyrir því að við vitum að Jesús hafi verið reistur upp frá dauðum. Eftir að Jesús reis upp birtist hann lærisveinunum margsinnis á 40 daga tímabili, meðal annars í garðinum þar sem gröfin var og á veginum til Emmaus. (Lúk. 24:13-15) Hann talaði við einstaka lærisveina, svo sem Pétur, og einnig við marga saman. Einu sinni birtist hann jafnvel meira en 500 manns í einu. Það er ekki hægt að andmæla vitnisburði svona margra sjónarvotta.

13. Hvernig sýndu lærisveinar Jesú að þeir voru sannfærðir um að hann hefði risið upp?

13 Þriðja ástæðan fyrir því að við vitum að Jesús hafi risið upp er að lærisveinar hans boðuðu það af miklum krafti. Með því að vitna um upprisu Krists kölluðu þeir yfir sig ofsóknir, þjáningar og jafnvel dauða. Ef þetta var tóm blekking, ef Jesús var ekki upprisinn, hví í ósköpunum hefði Pétur þá átt að hætta lífi sínu til að boða trúarleiðtogunum það – mönnunum sem hötuðu Jesú og höfðu lagt á ráðin um að fá hann líflátinn? Pétur og hinir lærisveinarnir voru algerlega sannfærðir um að Jesús væri lifandi og stjórnaði starfinu sem Guð vildi láta gera. Og upprisa Jesú veitti fylgjendum hans vissu fyrir því að þeir yrðu líka reistir upp. Þegar Stefán dó var hann viss um að hann yrði reistur upp frá dauðum. – Post. 7:55-60.

14. Hvers vegna trúirðu að Jesús sé lifandi?

14 Fjórða ástæðan fyrir því að við vitum að Jesús hafi risið upp er sú að við höfum sannanir fyrir því að hann ríki núna sem konungur og sé höfuð kristna safnaðarins. Þess vegna dafnar sönn kristni. Myndi það gerast ef Jesús hefði ekki verið reistur upp frá dauðum? Við hefðum sennilega aldrei heyrt um Jesú ef hann hefði ekki risið upp. En við höfum sterk rök fyrir því að Jesús lifi og leiðbeini okkur og stjórni þegar við boðum fagnaðarerindið út um alla jörðina.

HVAÐA ÞÝÐINGU HEFUR UPPRISA JESÚ FYRIR OKKUR?

15. Hvers vegna veitir upprisa Jesú okkur hugrekki til að boða fagnaðarerindið?

15 Upprisa Krists veitir okkur hugrekki til að boða fagnaðarerindið. Í 2.000 ár hafa óvinir Guðs beitt alls konar vopnum til að reyna að stöðva boðunina – fráhvarf, háð, skrílsárásir, bönn, pyndingar og aftökur. En ekkert – ,ekkert vopn, sem smíðað hefur verið gegn okkur‘ – hefur getað komið í veg fyrir að við boðuðum fagnaðarerindið og gerðum fólk að lærisveinum. (Jes. 54:17) Við óttumst ekki handbendi Satans. Jesús er með okkur og styður okkur eins og hann lofaði. (Matt. 28:20) Við höfum enga ástæðu til að óttast því að óvinirnir geta aldrei þaggað niður í okkur, hvað sem þeir reyna.

Upprisa Jesú gefur okkur hugrekki til að boða fagnaðarerindið. (Sjá 15. grein.)

16, 17. (a) Hvernig staðfestir upprisa Jesú að það sem hann kenndi var satt? (b) Hvaða mátt hefur Guð veitt Jesú samkvæmt Jóhannesi 11:25?

16 Upprisa Jesú staðfestir allt sem hann kenndi. Ef Kristur væri ekki risinn upp væri kristin trú ónýt og boðunin tilgangslaus, skrifaði Páll. Biblíufræðingur segir: „Ef Kristur er ekki risinn upp ... eru kristnir menn aumkunarverð ginningarfífl, fórnarlömb risavaxinnar svikamyllu.“ Ef Jesús var ekki reistur upp eru guðspjöllin aðeins sorgleg saga um góðan og vitran mann sem óvinir drápu. En Kristur reis upp og það staðfestir að allt sem hann kenndi er satt, meðal annars það sem hann sagði um framtíðina. – Lestu 1. Korintubréf 15:14, 15, 20.

17 „Ég er upprisan og lífið,“ sagði Jesús. „Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.“ (Jóh. 11:25) Þetta eru stór orð en það er tryggt að þau rætast. Jehóva hefur gefið Jesú mátt til að reisa upp frá dauðum bæði þá sem eru kallaðir til himna og þá milljarða sem eiga í vændum að lifa að eilífu á jörð. Friðþægingarfórn Jesú og upprisa hans merkja að dauðinn verður ekki framar til. Vitneskjan um það veitir okkur styrk til að taka hvaða prófraun sem er og jafnvel að horfast hugrökk í augu við dauðann.

18. Hvaða trygging er fólgin í upprisu Jesú?

18 Upprisa Jesú er trygging fyrir því að jarðarbúar verði dæmdir eftir kærleiksríkum lögum Jehóva. Páll ávarpaði hóp karla og kvenna í Aþenu og sagði: „[Guð] mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum.“ (Post. 17:31) Jesús er dómarinn, sem Guð hefur skipað, og við getum treyst að dómur hans verði kærleiksríkur og sanngjarn. – Lestu Jesaja 11:2-4.

19. Hvaða áhrif hefur það á okkur að við trúum á upprisu Jesú?

19 Trúin á upprisu Jesú er okkur hvatning til að gera vilja Guðs. Ef Jesús hefði ekki fórnað lífi sínu og verið reistur upp yrðum við ofurseld synd og dauða til frambúðar. (Rómv. 5:12; 6:23) Ef Jesús hefði ekki risið upp gætum við alveg eins hugsað: „Etum ... og drekkum, því að á morgun deyjum við!“ (1. Kor. 15:32) En við lifum ekki fyrir nautnir lífsins. Við horfum til vonarinnar um upprisu og viljum fara eftir leiðsögn Jehóva á öllum sviðum.

20. Hvernig vitnar upprisa Jesú um mikilleika Jehóva?

20 Upprisa Jesú er þögull en sterkur vitnisburður um mikilleika Jehóva en hann ,umbunar þeim er leita hans‘. (Hebr. 11:6) Viska og máttur Jehóva birtist með stórfenglegum hætti þegar hann reisti Jesú upp sem ódauðlega andaveru. Og hann sýndi líka að hann væri fær um að standa við öll loforð sín. Þar á meðal er loforðið um sérstakan „niðja“ sem átti að eiga veigamikinn þátt í að útkljá deiluna um drottinvald Jehóva. Til að þetta loforð rættist þurfti Jesús að deyja og rísa upp. – 1. Mós. 3:15.

21. Hvaða þýðingu hefur upprisuvonin fyrir þig?

21 Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að gefa okkur örugga von um upprisu. Í Biblíunni er að finna eftirfarandi loforð: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Það var Jóhannes postuli sem fékk þetta yndislega loforð og honum var sagt: „Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.“ Og frá hverjum fékk Jóhannes þessa innblásnu opinberun? Það var frá Jesú Kristi upprisnum. – Opinb. 1:1; 21:3-5.