Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Við eigum að vera heilög í allri hegðun

Við eigum að vera heilög í allri hegðun

„Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun.“ – 1. PÉT. 1:15, BIBLÍAN 1981.

1, 2. (a) Til hvers ætlast Jehóva af þjónum sínum? (b) Hvaða spurningum er svarað í þessari grein?

 JEHÓVA innblés Pétri postula að vitna í 3. Mósebók og benda á að kristnir menn þurfi að vera heilagir í hegðun rétt eins og Ísraelsmenn áttu að vera. (Lestu 1. Pétursbréf 1:14-16.) Jehóva er heilagur og hann ætlast til að hinir andasmurðu og ,aðrir sauðir‘ geri sitt ýtrasta til að verða heilagir í allri hegðun, ekki aðeins á sumum sviðum. – Jóh. 10:16.

2 Það er mjög gagnlegt fyrir okkur að skoða fleiri gullmola í 3. Mósebók. Ef við förum eftir því sem við lærum þar hjálpar það okkur að vera heilög í allri hegðun. Við ætlum að leita svara við eftirfarandi spurningum: Hvernig eigum við að líta á tilslakanir? Hvað lærum við af 3. Mósebók um að styðja drottinvald Jehóva? Hvað getum við lært af fórnunum sem Ísraelsmenn færðu?

FORÐUMST TILSLAKANIR

3, 4. (a) Hvers vegna verða kristnir menn að forðast tilslakanir þar sem lög og meginreglur Biblíunnar eiga í hlut? (b) Hvers vegna ættum við ekki að hefna okkar eða ala með okkur gremju í garð annarra?

3 Til að þóknast Jehóva og vera heilög verðum við að fylgja lögum hans og meginreglum. Við megum ekki hugsa sem svo að það sé allt í lagi að sniðganga þau af og til. Þó að Móselögin séu fallin úr gildi gefa þau okkur innsýn í það hvað sé boðlegt í augum Jehóva og hvað sé ótækt. Ísraelsmönnum var til dæmis sagt: „Eigi skalt þú hefnisamur vera né langrækinn við samlanda þína, en þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.“ – 3. Mós. 19:18, Biblían 1981.

4 Jehóva vill ekki að við hefnum okkar og hann vill ekki heldur að við ölum með okkur gremju í garð annarra. (Rómv. 12:19) Satan myndi fagna og við gætum kastað rýrð á Jehóva ef við hunsuðum lög hans og meginreglur. Jafnvel þó að einhver hafi sært okkur af ásettu ráði skulum við ekki láta reiði og gremju ná tökum á okkur. Biblían líkir okkur við leirker sem hafa að geyma verðmætan fjársjóð – þjónustuna við Jehóva. (2. Kor. 4:1, 7) Beiskja og gremja eiga ekki heima í keri sem geymir slíkan fjársjóð.

5. Hvaða lærdóm má draga af frásögunni af Aroni og dauða sona hans? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

5 Í 3. Mósebók 10:1-11 er sagt frá átakanlegri reynslu sem fjölskylda Arons varð fyrir. Fjölskyldan hlýtur að hafa verið harmi slegin þegar eldur kom af himni við tjaldbúðina og gleypti syni Arons, þá Nadab og Abíhú. Það hefur verið mikil prófraun fyrir Aron og fjölskyldu hans að mega ekki syrgja látna ættingja sína. Heldurðu þér heilögum með því að umgangast ekki ættingja eða aðra sem hefur verið vikið úr söfnuðinum? – Lestu 1. Korintubréf 5:11.

6, 7. (a) Hvað ættum við að íhuga þegar við ákveðum hvort við tökum þátt í kirkjulegu brúðkaupi? (Sjá neðanmálsgrein.) (b) Hvernig gætum við útskýrt afstöðu okkar til kirkjulegs brúðkaups fyrir ættingjum sem eru ekki vottar?

6 Það er ekki víst að við lendum í jafn erfiðri prófraun og Aron og fjölskylda. En segjum sem svo að ættingi, sem er ekki vottur, bjóði okkur að vera viðstödd og taka þátt í kirkjulegu brúðkaupi. Það eru engin bein ákvæði í Biblíunni sem banna okkur að vera viðstödd en eru einhverjar meginreglur sem við þurfum að skoða þegar við ákveðum okkur? *

7 Við erum ákveðin í að vera heilög í augum Jehóva við áðurnefndar aðstæður. Ættingjar, sem eru ekki vottar, gætu þó átt erfitt með að skilja afstöðu okkar. (1. Pét. 4:3, 4) Við viljum auðvitað ekki móðga þá en yfirleitt er best að ræða málið við þá vinsamlega og opinskátt. Ef hægt er væri gott að gera það tímanlega. Við getum þakkað þeim fyrir og sagt að við séum ánægð að okkur skuli hafa verið boðið að taka þátt í brúðkaupinu. Síðan gætum við sagt að við viljum að þau njóti þessa sérstaka dags og við viljum ekki gera þau og gesti þeirra vandræðalega með því að taka ekki þátt í trúarlegri athöfn. Það er ein leið til að forðast tilslakanir þar sem trú okkar á í hlut.

STYÐJUM DROTTINVALD JEHÓVA

8. Hvernig er því haldið á lofti í 3. Mósebók að Jehóva sé Drottinn alheims?

8 Þriðja Mósebók leggur áherslu á að Jehóva sé Drottinn alheims. Þess er getið meira en 30 sinnum að hann sé höfundur laganna sem er að finna í bókinni. Móse viðurkenndi það og gerði eins og Jehóva sagði honum. (3. Mós. 8:4, 5) Við ættum líka alltaf að gera eins og Jehóva, Drottinn alheims, vill að við gerum, og söfnuður hans styður við bakið á okkur. En við getum líka orðið fyrir prófraun þegar við erum ein, rétt eins og Jesú var freistað í eyðimörkinni. (Lúk. 4:1-13) Ef drottinvald Jehóva er okkur efst í huga og við treystum honum getur enginn fengið okkur til að láta undan og bugast af ótta. – Orðskv. 29:25.

9. Hvers vegna eru þjónar Guðs hataðir meðal allra þjóða?

9 Við sem erum fylgjendur Krists og vottar Jehóva erum ofsótt víða um heim. Það kemur ekki á óvart því að Jesús sagði lærisveinum sínum: „Þá munu menn framselja yður, pína og taka af lífi og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.“ (Matt. 24:9) En þrátt fyrir þetta hatur höldum við áfram að boða fagnaðarerindið og vera heilög frammi fyrir Jehóva. Við erum heiðarleg, lifum hreinu lífi og erum löghlýðnir borgarar. Hvers vegna erum við samt hötuð? (Rómv. 13:1-7) Það er vegna þess að við hlýðum Jehóva og engum öðrum sem Drottni okkar. Við veitum „honum einum“ heilaga þjónustu og hvikum ekki frá réttlátum lögum hans og meginreglum. – Matt. 4:10.

10. Hvað gerðist einu sinni þegar bróðir varðveitti ekki hlutleysi sitt?

10 Við tilheyrum ekki heiminum. Þess vegna erum við hlutlaus í styrjöldum og stjórnmálum heimsins. (Lestu Jóhannes 15:18-21; Jesaja 2:4.) Sumir sem hafa vígst Jehóva hafa ekki varðveitt hlutleysi sitt þegar á reyndi. Margir þeirra hafa iðrast og endurheimt sambandið við miskunnsaman föður sinn á himnum. (Sálm. 51:19) Fáeinir hafa ekki iðrast. Í síðari heimsstyrjöldinni sátu margir bræður að ósekju í ýmsum fangelsum í Ungverjalandi. Yfirvöld söfnuðu saman 160 þessara bræðra, sem voru yngri en 45 ára, og fluttu þá til ákveðinnar borgar. Þar var þeim skipað að ganga í herinn. Langflestir neituðu en níu úr hópnum létu undan, sóru hollustueið og klæddust hermannabúningi. Tveim árum síðar var einn þeirra síðarnefndu settur í aftökusveit sem átti að skjóta vottana sem höfðu verið trúir. Bróðir hans var einn þeirra. Að lokum var þó hætt við aftökuna.

GEFÐU JEHÓVA ÞITT BESTA

11, 12. Hvaða lærdóm getum við dregið af fórnum Ísraelsmanna til forna?

11 Í Móselögunum var tekið fram að Ísraelsmenn ættu að færa fórnir af ákveðnu tagi. (3. Mós. 9:1-4, 15-21) Fórnirnar áttu að vera gallalausar vegna þess að þær fyrirmynduðu fullkomna fórn Jesú. Auk þess átti að fara með hverja fórn eftir ákveðinni forskrift. Í 3. Mósebók 12:6 er til dæmis lýst hvað móðir nýfædds barns átti að gera. Þar segir: „Þegar hreinsunardagar hennar eru liðnir, hvort heldur eftir fæðingu sonar eða dóttur, skal hún færa prestinum veturgamla sauðkind í brennifórn og unga dúfu eða turtildúfu í syndafórn að dyrum samfundatjaldsins.“ Fyrirmæli Guðs voru skýr en lögmálið ber greinilega vitni um kærleika hans og sanngirni. Ef móðirin átti ekki fyrir sauðkind mátti hún færa tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur að fórn. (3. Mós. 12:8) Jehóva þótti jafn vænt um fátæku móðurina og hina sem hafði efni á að færa dýrari fórn. Hvað lærum við af þessu?

12 Páll postuli hvatti trúsystkini sín til að færa Guði „lofgjörðarfórn“. (Hebr. 13:15) Við ættum að segja fólki frá heilögu nafni Jehóva. Heyrnarlaus trúsystkini okkar nota táknmál til að lofa Guð. Vottar, sem eiga ekki heimangengt, lofa hann með því að skrifa bréf, boða trúna í síma og vitna fyrir gestum og aðstoðarfólki. Lofgerðarfórnir okkar, sem við færum honum með því að kunngera nafn hans og boða fagnaðarerindið, ættu að vera í takt við heilsu okkar og getu. Við ættum að gefa Jehóva það besta sem við getum. – Rómv. 12:1; 2. Tím. 2:15.

13. Hvers vegna eigum við að gefa skýrslu um starf okkar?

13 Við færum Jehóva lofgerðarfórnir af fúsu geði af því að við elskum hann. (Matt. 22:37, 38) Við erum samt beðin um að gefa skýrslu um starf okkar. Hvernig eigum við að líta á það? Skýrslan, sem við skilum í hverjum mánuði, segir eitthvað um guðrækni okkar. (2. Pét. 1:7) Engum ætti þó að finnast hann knúinn til að starfa sem flesta tíma í mánuði bara til að geta skilað sem bestri skýrslu. Boðberar, sem eru á hjúkrunarheimili eða eru önnur takmörk sett, mega jafnvel telja tímann í 15 mínútna þrepum í stað heilla klukkustunda. Jehóva kann að meta þessar mínútur því að þær eru það besta sem boðberinn getur gefið. Þannig tjáir boðberinn kærleika sinn til Jehóva og sýnir hvað það er honum mikils virði að fá að vera vottur hans. Starf þeirra sem eru takmörk sett er sambærilegt við fórnir fátækra Ísraelsmanna. Og skýrslan okkar er talin með í heildarskýrslunni fyrir allan heiminn en hún hjálpar hinum trúa og hyggna þjóni og deildarskrifstofunum að skipuleggja boðunina. Er þá til of mikils mælst að við gefum skýrslu um starf okkar?

NÁMSVENJUR OG LOFGERÐARFÓRNIR

14. Hvers vegna ættum við að skoða námsvenjur okkar?

14 Nú ertu búinn að skoða nokkra gullmola í 3. Mósebók og hugsar kannski með þér að þú skiljir betur hvers vegna þessi bók tilheyrir innblásnu orði Guðs. (2. Tím. 3:16) Líklega ertu enn ákveðnari en áður að vera heilagur, ekki aðeins vegna þess að Jehóva ætlast til þess heldur líka vegna þess að hann verðskuldar að þú reynir eftir fremsta megni að þóknast honum. Það sem þú hefur lært af 3. Mósebók í þessum tveim greinum hefur ef til vill vakið sterkari löngun hjá þér til að kafa dýpra í Biblíuna á heildina litið. (Lestu Orðskviðina 2:1-5.) Skoðaðu námsvenjur þínar og ræddu þær við Jehóva í bæn. Þú vilt auðvitað að hann hafi velþóknun á lofgerðarfórnum þínum. Læturðu sjónvarpið, tölvuleiki, íþróttir eða tómstundagaman trufla þig og standa í vegi fyrir að þú takir framförum í sannleikanum? Ef svo er gæti verið mjög gott fyrir þig að hugleiða nokkur atriði sem Páll postuli nefnir í Hebreabréfinu.

Skipar biblíunám fjölskyldunnar og þitt eigið mikilvægan sess í lífi þínu? (Sjá 14. grein.)

15, 16. Hvers vegna var Páll svona beinskeyttur í bréfinu til kristinna Hebrea?

15 Páll var mjög opinskár í bréfinu til kristinna Hebrea. (Lestu Hebreabréfið 5:7, 11-14.) Hann talar enga tæpitungu. Hann segir lesendum að ,athygli þeirra sé orðin sljó‘. Hvers vegna talar Páll svona umbúðalaust? Hann endurspeglaði ást og umhyggju Jehóva fyrir trúsystkinum sínum sem reyndu að láta sér nægja andlega „mjólk“. Það er ákaflega mikilvægt að þekkja undirstöðuatriði kristninnar. Hins vegar er nauðsynlegt að borða „fasta fæðu“ til að vaxa og taka út kristinn þroska.

16 Hebrearnir áttu að vera færir um að kenna öðrum en þurftu sjálfir að fá kennslu. Hvers vegna? Vegna þess að þeir forðuðust ,föstu fæðuna‘. Spyrðu þig hvort þú sjáir fasta andlega fæðu í réttu ljósi. Neytirðu hennar? Eða veigrar þú þér við djúptæku biblíunámi og bænum? Ef svo er, getur þá verið að námsvenjur þínar séu hluti af vandanum? Við eigum ekki aðeins að boða fólki fagnaðarerindið heldur líka að kenna og gera það að lærisveinum. – Matt. 28:19, 20.

17, 18. (a) Hvers vegna ættum við að neyta staðgóðrar andlegrar fæðu að jafnaði? (b) Hvernig ættum við að líta á neyslu áfengis fyrir samkomur?

17 Það eiga ekki allir auðvelt með að stunda biblíunám. Jehóva reynir auðvitað ekki að fá okkur til þess með því að spila á sektarkennd. En hvort sem við höfum þjónað Guði árum saman eða frekar stutt ættum við að neyta staðgóðrar andlegrar fæðu að jafnaði. Það er nauðsynlegt til að vera heilagur í augum Jehóva.

18 Til að vera heilög þurfum við að rannsaka Biblíuna vandlega og gera eins og Guð ætlast til af okkur. Synir Arons, þeir Nadab og Abíhú, voru teknir af lífi fyrir að bera fram „óhreinan eld“. (3. Mós. 10:1, 2) Hugsanlegt er að þeir hafi verið ölvaðir. Tökum eftir hvað Jehóva sagði Aroni eftir það. (Lestu 3. Mósebók 10:8-11.) Ber að skilja þessi orð þannig að við megum ekki bragða áfengi áður en við sækjum safnaðarsamkomu? Lítum á eftirfarandi: Lögmálið er fallið úr gildi. (Rómv. 10:4) Í sumum löndum eru trúsystkini okkar vön að neyta víns í hófi með mat áður en þau sækja samkomur. Fjórir bikarar af víni voru notaðir við páskamáltíðina. Þegar Jesús stofnaði til minningarhátíðarinnar lét hann postulana drekka vín til tákns um blóð sitt. (Matt. 26:27) Biblían fordæmir ölvun og drykkjuskap. (1. Kor. 6:10; 1. Tím. 3:8) Og samviska margra votta leyfir þeim ekki að snerta áfengi áður en þeir taka þátt í heilagri þjónustu af einhverju tagi. En aðstæður eru breytilegar frá einu landi til annars. Aðalatriðið er að kristnir menn ,aðgreini heilagt og vanheilagt‘ til að vera heilagir í hegðun frammi fyrir Guði.

19. (a) Hvernig getum við auðgað tilbeiðslustund fjölskyldunnar og sjálfsnám okkar? (b) Hvernig geturðu sýnt að þú sért ákveðinn í að vera heilagur?

19 Þú átt eftir að finna marga gullmola ef þú grefur eftir þeim í orði Guðs. Notaðu tiltæk hjálpargögn til að finna efni sem getur auðgað tilbeiðslustund fjölskyldunnar og sjálfsnám þitt. Kynnstu Jehóva og vilja hans betur. Styrktu sambandið við hann. (Jak. 4:8) Biddu til Jehóva eins og sálmaskáldið sem söng: „Ljúk upp augum mínum svo að ég sjái dásemdirnar í lögmáli þínu.“ (Sálm. 119:18) Forðastu allar tilslakanir þar sem lög og meginreglur Biblíunnar eiga í hlut. Fylgdu fúslega háleitum lögum Jehóva, sem er heilagur, og taktu dyggilega þátt í því heilaga starfi að boða „fagnaðarerindi Guðs“. (1. Pét. 1:15; Rómv. 15:16) Við þurfum að varðveita okkur heilög í ólgusjó hinna síðustu daga. Við skulum öll vera heilög í hegðun og styðja drottinvald hins heilaga Guðs, Jehóva.

^ Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 1. júní 2002.