Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hann ,þekkti veginn‘

Hann ,þekkti veginn‘

GUY HOLLIS PIERCE, sem sat í stjórnandi ráði Votta Jehóva, lauk jarðlífi sínu þriðjudaginn 18. mars 2014. Hann var 79 ára þegar sú von hans varð að veruleika að rísa upp og sameinast bræðrum Krists á himnum. – Hebr. 2:10-12; 1. Pét. 3:18.

Guy Pierce fæddist í Auburn í Kaliforníu 6. nóvember 1934 og skírðist árið 1955. Hann kvænist Penny, ástkærri eiginkonu sinni, 1977 og þau eignuðust börn. Það átti eflaust sinn þátt í því hve föðurlegur hann var í framkomu. Árið 1982 voru þau hjónin orðin brautryðjendur og 1986 tók hann að starfa sem farandhirðir í Bandaríkjunum. Hann var farandhirðir í 11 ár.

Guy og Penny Pierce hófu störf á Betel í Bandaríkjunum árið 1997. Bróðir Pierce vann í þjónustudeildinni og árið 1998 var hann skipaður aðstoðarmaður starfsmannanefndar hins stjórnandi ráðs. Á ársfundi Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania 2. október 1999 var tilkynnt að bróðir Pierce hefði verið útnefndur til að sitja í hinu stjórnandi ráði. Undanfarin ár hefur hann starfað í starfsmanna-, rit-, útgáfu- og ritaranefndinni.

Hlýlegt bros bróður Pierce og gott skopskyn átti sinn þátt í því að fólki af ólíkum uppruna og menningu leið vel í návist hans. En framar öðru laðaðist fólk að honum vegna kærleika hans, auðmýktar, virðingar fyrir réttlátum lögum og meginreglum og þess að hann treysti Jehóva algerlega. Í augum Guys Pierce var líklegra að sólin kæmi ekki upp að morgni en að loforð Jehóva myndu ekki rætast. Og hann vildi segja öllum heiminum frá þessum sannleika.

Bróðir Pierce var óþreytandi í þjónustu Jehóva. Hann fór snemma á fætur og vann oft lengi fram eftir. Hann ferðaðist um allan heim til að uppörva trúsystkini sín en gaf sér alltaf tíma til að sinna einstaklingum á Betel og öðrum sem leituðu ráða og aðstoðar og sóttust eftir félagsskap hans. Árum síðar minnast bræður og systur gestrisni hans, vinskapar og uppörvunar sem hann veitti frá Biblíunni.

Bróðir okkar og kær vinur lætur eftir sig eiginkonu og sex börn, auk barnabarna og barnabarnabarna. Hann átti einnig fjölda andlegra barna. Mark Sanderson, sem situr í hinu stjórnandi ráði, flutti ræðu við minningarathöfn um bróður Pierce á Betel í Brooklyn laugardaginn 22. mars 2014. Meðal annars ræddi hann um himneska von bróður Pierce og las orð Jesú: „Í húsi föður míns eru margar vistarverur ... Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“ – Jóh. 14:2-4.

Við söknum bróður okkar, Guys Pierce. En við fögnum því að hann ,þekkti veginn‘ að varanlegum ,vistarverum‘ sínum.