Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kanntu að meta það sem þú hefur fengið?

Kanntu að meta það sem þú hefur fengið?

,Við höfum hlotið andann sem er frá Guði, til þess að við skulum vita hvað Guð hefur gefið okkur.‘ – 1. KOR. 2:12.

1. Hvað segir máltæki nokkurt?

 „ENGINN veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur,“ segir máltækið. Hefurðu einhvern tíma upplifað það? Ef maður hefur átt eitthvað frá barnæsku er ekki víst að maður kunni fyllilega að meta það. Þeim sem alast upp við ríkidæmi hættir til að líta á margt sem þeir hafa sem sjálfsagðan hlut. Sökum reynsluleysis getur verið að ungt fólk átti sig ekki á hvað sé raunverulega verðmætt í lífinu.

2, 3. (a) Hvað ætti ungt fólk í söfnuðinum að forðast? (b) Hvað getur hjálpað okkur að hafa mætur á því sem við höfum?

2 Ertu á unglingsaldri eða rétt kominn yfir tvítugt? Hvað finnst þér skipta mestu máli? Hjá mörgum í heiminum snýst lífið um efnislega hluti – góð laun, fínt heimili eða nýjustu græjurnar. En ef þetta er það eina sem við hugsum um vantar eitt það mikilvægasta – andlegu verðmætin. Því miður eru milljónir manna ekki einu sinni byrjaðar að leita að þeim. Þið unga fólkið, sem eigið kristna foreldra, þurfið að gæta þess að missa ekki sjónar á gildi þeirrar andlegu arfleifðar sem þið hafið fengið. (Matt. 4:4) Ef þú kannt ekki að meta andlegu arfleifðina gæti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir þig það sem eftir er ævinnar.

3 En þú getur komið í veg fyrir að það fari þannig. Hvað getur hjálpað þér að hafa mætur á andlegu arfleifðinni sem þú hefur fengið? Við skulum líta á nokkur dæmi í Biblíunni sem sýna fram á hvers vegna það sé skynsamlegt að varðveita andlega arfleifð sína. Dæmin, sem við skoðum, geta verið öllum þjónum Guðs, ekki aðeins unga fólkinu, hvatning til að hlúa að andlegu verðmætunum sem þeir eiga.

ÞEIR KUNNU EKKI AÐ META ÞAÐ SEM ÞEIR HÖFÐU FENGIÐ

4. Hvað er sagt um syni Samúels í 1. Samúelsbók 8:1-5?

4 Í Biblíunni er sagt frá fólki sem fékk góða andlega arfleifð en kunni ekki að meta hana. Þannig fór fyrir sonum Samúels spámanns þótt hann hefði þjónað Jehóva frá unga aldri og verið honum trúr alla ævi. (1. Sam. 12:1-5) Synir hans, þeir Jóel og Abía, hefðu átt að líkja eftir góðu fordæmi hans. En þeir fetuðu ekki í fótspor föður síns heldur voru þeir spilltir og ,hölluðu réttinum‘. – Lestu 1. Samúelsbók 8:1-5.

5, 6. Hvernig fór fyrir sonum Jósía og sonarsyni?

5 Svipaða sögu er að segja af sonum Jósía konungs. Jósía elskaði Jehóva og tilbað hann í einlægni. Þegar lögmálsbók Guðs fannst og var lesin fyrir hann gerði hann sitt ýtrasta til að fara eftir fyrirmælum hennar. Hann útrýmdi skurðgoðadýrkun og dulspeki í landinu og hvatti þjóðina til að hlýða Jehóva. (2. Kon. 22:8; 23:2, 3, 12-15, 24, 25) Það er óhætt að segja að synir hans hafi fengið góða andlega arfleifð. Þrír þeirra og einn sonarsonur gegndu síðar konungsembætti en enginn þeirra kunni að meta það sem þeim hafði verið gefið.

6 Jóahas, sonur Jósía, tók við völdum af honum en „gerði það sem illt var í augum Drottins“. Hann ríkti aðeins í þrjá mánuði áður en faraó Egyptalands lét setja hann í fangelsi og hann dó síðar í útlegð. (2. Kon. 23:31-34) Jójakím, bróðir hans, tók við af honum sem konungur og ríkti í 11 ár. Hann kunni ekki heldur að meta það sem faðir hans hafði gefið honum. Svo illa breytti hann að Jeremía spáði að hann yrði „grafinn eins og asni“. (Jer. 22:17-19) Aðrir afkomendur Jósía, þeir Sedekía sonur hans og Jójakín sonarsonur hans, voru ekki hótinu skárri. Hvorugur þeirra fetaði í fótspor Jósía og þjónaði Jehóva. – 2. Kon. 24:8, 9, 18, 19.

7, 8. (a) Hvernig sóaði Salómon andlegri arfleifð sinni? (b) Hvaða lærdóm getum við dregið af mönnum sem sagt er frá í Biblíunni að hafi sóað andlegri arfleifð sinni?

7 Salómon konungur lærði margt af Davíð, föður sínum. En þótt hann fengi besta trúaruppeldi, sem völ var á, og stæði sig vel í byrjun fór hann síðar út af réttri braut. „Þegar Salómon var orðinn gamall sneru konurnar hjarta hans til annarra guða svo að hann fylgdi ekki Drottni, Guði sínum, heils hugar eins og Davíð, faðir hans.“ (1. Kon. 11:4) Fyrir vikið missti Salómon velþóknun Jehóva.

8 Það er dapurlegt til þess að hugsa að þessir menn, sem fengu svona góðan trúararf, skyldu sóa þeim tækifærum sem þeir höfðu til að gera rétt. En það fóru ekki öll ungmenni þannig að ráði sínu á biblíutímanum og það er ekki heldur þannig á okkar dögum. Við skulum líta á dæmi um unga menn sem kristin ungmenni geta tekið sér til fyrirmyndar.

ÞEIR KUNNU AÐ META ÞAÐ SEM ÞEIR HÖFÐU FENGIÐ

9. Hvernig eru synir Nóa okkur góð fyrirmynd? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

9 Synir Nóa eru góð fyrirmynd til eftirbreytni. Faðir þeirra fékk þau fyrirmæli að smíða örk til að bjarga sér og sínum. Synirnir skildu greinilega hve mikilvægt var að gera vilja Jehóva. Þeir unnu fúslega með föður sínum að smíði arkarinnar og gengu síðan með honum í örkina þegar þar að kom. (1. Mós. 7:1, 7) Hvert var markmiðið? Í 1. Mósebók 7:3 segir að þeir hafi tekið dýr með sér inn í örkina „til þess að viðhalda lífsstofni á allri jörðinni“. Örkin varð einnig til þess að mannkynið bjargaðist. Synir Nóa kunnu að meta það sem faðir þeirra hafði gefið þeim og áttu þar af leiðandi sinn þátt í því að bjarga mannkyninu og endurreisa sanna tilbeiðslu á hreinsaðri jörð. – 1. Mós. 8:20; 9:18, 19.

10. Hvernig sýndu fjórir ungir Hebrear í Babýlon að þeir kunnu að meta þau sannindi sem þeir höfðu lært?

10 Öldum síðar sýndu fjórir ungir Hebrear að þeir höfðu skilið hvað skipti raunverulega máli. Þeir Hananja, Mísael, Asarja og Daníel voru fluttir til Babýlonar árið 617 f.Kr. Ungu mennirnir voru myndarlegir og vel gefnir og hefðu auðveldlega getað lagað sig að lífsháttunum í Babýlon. En þeir gerðu það ekki. Það er ljóst af atferli þeirra að þeir mundu eftir því sem þeim hafði verið kennt – arfleifð sinni. Þeir hlutu ríkulega blessun fyrir að fara eftir því sem þeir höfðu lært á barns- og unglingsárunum. – Lestu Daníel 1:8, 11-15, 20.

11. Hvernig lét Jesús aðra njóta góðs af því sem hann hafði lært hjá föður sínum?

11 Við getum ekki skilið við umræðuna um góðar fyrirmyndir án þess að nefna Jesú, son Guðs. Hann fékk margt frá föður sínum og mat það ákaflega mikils. Það er ljóst af orðum hans þegar hann sagði: „Ég [tala] það eitt sem faðirinn hefur kennt mér.“ (Jóh. 8:28) Hann vildi láta aðra njóta góðs af því sem hann hafði lært. Hann sagði við mannfjöldann: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki því að til þess var ég sendur.“ (Lúk. 4:18, 43) Hann sýndi áheyrendum sínum fram á að þeir mættu ekki tilheyra heiminum en þar eru andlegu málin ekki mikils metin. – Jóh. 15:19.

VERTU ÞAKKLÁTUR FYRIR ÞAÐ SEM ÞÚ HEFUR FENGIÐ

12. (a) Hvernig á 2. Tímóteusarbréf 3:14-17 við margt ungt fólk nú á dögum? (b) Hvaða spurninga ættu kristin ungmenni að spyrja sig?

12 Vel má vera að foreldrar þínir þjóni Jehóva Guði, rétt eins og foreldrar ungu mannanna sem við höfum rætt um. Ef svo er getur verið að það sem sagt er um Tímóteus eigi einnig við um þig. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:14-17.) Það var hjá foreldrum þínum sem þú lærðir um hinn sanna Guð og lærðir að þóknast honum. Vera má að þau hafi byrjað að kenna þér meðan þú varst ómálga barn. Það hefur átt drjúgan þátt í að veita þér „speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú“ þannig að nú ertu „albúinn“ til að þjóna Guði. En kanntu að meta það sem þér hefur verið gefið? Það getur verið gott fyrir þig að líta í eigin barm. Þú ættir að spyrja þig: Hvað finnst mér um að tilheyra þeim mikla hópi votta sem hafa þjónað Jehóva í aldanna rás? Hvernig finnst mér að tilheyra þeim tiltölulega fámenna hópi á jörðinni sem Guð þekkir? Geri ég mér grein fyrir hve einstakt það er að mega þekkja sannleikann?

Hvað finnst þér um að tilheyra þeim mikla fjölda votta sem hafa þjónað Jehóva í aldanna rás? (Sjá 9., 10. og 12. grein.)

13, 14. Hvað freistar sumra kristinna unglinga en hvers vegna væri óviturlegt að láta undan? Nefndu dæmi.

13 Sumir unglingar, sem hafa alist upp á kristnu heimili, sjá kannski ekki hvílíkur munur er á andlegu paradísinni og myrkum heimi Satans. Sumir hafa jafnvel freistast til að kanna hvernig það sé að lifa í heiminum. En myndirðu hlaupa í veg fyrir bíl bara til að prófa hve sársaukafullt það sé – eða hvort það sé jafnvel banvænt? Að sjálfsögðu ekki. Við höfum enga ástæðu til að hlaupa út í „spillingardíki“ þessa heims bara til uppgötva hve kvalafullt það getur verið. – 1. Pét. 4:4.

14 Gener býr í Asíu. Hann ólst upp á kristnu heimili og lét skírast 12 ára. Heimurinn fór að toga í hann á unglingsárunum. „Mig langaði til að kynnast ,frelsinu‘ sem heimurinn býður upp á,“ segir hann. Gener fór að lifa tvöföldu lífi. Fimmtán ára var hann kominn í vondan félagsskap og farinn að tileinka sér líferni félaga sinna. Hann drakk og blótaði eins og þeir. Hann spilaði billjard og ofbeldisfulla tölvuleiki með vinum sínum og kom oft seint heim á kvöldin. En með tímanum áttaði hann sig á að lífið var innantómt því að heimurinn gaf honum ekki lífsfyllinguna sem hann sóttist eftir. Hann sneri aftur til safnaðarins. „Heimurinn togar stundum í mig enn þá en blessun Jehóva er miklu þyngri á metunum,“ segir hann.

15. Hvað ætti ungt fólk að hugleiða þó að það hafi ekki alist upp á kristnu heimili?

15 Í söfnuðinum er auðvitað líka ungt fólk sem ólst ekki upp á kristnu heimili. Ef þú ert í þeim hópi ættirðu að hugleiða hvílíkur heiður það er að fá að þekkja skaparann og þjóna honum. Af öllum þeim milljörðum, sem búa á jörðinni, hefur Jehóva sýnt þér þá vinsemd að draga þig til sín og opinbera þér sannleika Biblíunnar. Hugsaðu þér hve mikil blessun það er. (Jóh. 6:44, 45) Aðeins 1 af hverjum 1.000 jarðarbúum hefur fengið nákvæma þekkingu á sannleikanum og þú ert einn þeirra. Er það ekki gleðilegt, óháð því hvernig við kynntumst sannleikanum? (Lestu 1. Korintubréf 2:12.) „Ég fæ gæsahúð þegar ég hugsa um það,“ segir Gener. „Hver er ég að Jehóva, eigandi alheimsins, skuli þekkja mig?“ (Sálm. 8:5) Systir á sama svæði segir: „Nemendur eru mjög stoltir ef kennarinn þekkir þá. Það er margfalt meiri heiður að Jehóva, hinn mikli kennari, skuli þekkja mann.“

HVAÐ ÆTLAR ÞÚ AÐ GERA?

16. Hvaða lífsstefnu er skynsamlegt að velja?

16 Jehóva hefur sýnt þér ólýsanlegan heiður. Vertu því ákveðinn í að tilheyra þeim tiltölulega fámenna hópi sem notar líf sitt á réttan hátt. Ef þú gerir það skiparðu þér í flokk með öllum þeim sem hafa þjónað Jehóva dyggilega í aldanna rás. Það er miklu skynsamlegra en að gera bara eins og flestir unglingar sem fljóta sofandi að feigðarósi með þessum heimi. – 2. Kor. 4:3, 4.

17-19. Hvers vegna er skynsamlegt að vera ólíkur heiminum?

17 Það er að sjálfsögðu ekki alltaf auðvelt að vera öðruvísi en heimurinn. En er það ekki einmitt skynsamlegt ef maður hugsar málið? Lýsum því með dæmi: Hugsaðu þér íþróttamann sem fær að keppa á ólympíuleikunum. Hann þurfti eflaust að skera sig úr fjöldanum til að ná svona langt. Til að þjálfa sig þurfti hann að neita sér um margt sem annars hefði gleypt tíma hans og krafta. En hann var fús til að vera öðruvísi en jafnaldrarnir til að geta æft meira og náð markmiði sínu.

18 Heimurinn er skammsýnn. En ef þú horfir aðeins lengra, ert ólíkur heiminum og forðast siðleysi og annað sem getur eyðilagt sambandið við Jehóva, þá geturðu „höndlað hið sanna líf“. (1. Tím. 6:19) Systirin, sem áður er nefnd, segir: „Ef maður heldur fast við sannfæringu sína líður manni virkilega vel þegar upp er staðið. Það sannar að maður er nógu sterkur til að synda móti straumnum í heimi Satans. Síðast en ekki síst sér maður fyrir sér að Jehóva Guð sé stoltur af manni og brosi til manns. Þá er maður ánægður með að skera sig úr fjöldanum.“

19 Lífið er ósköp innantómt ef maður hugsar bara um hvað hægt sé að hafa út úr því hér og nú. (Préd. 9:2, 10) Ertu unglingur eða rétt kominn yfir tvítugt? Hugsarðu alvarlega um tilgang lífsins og hve lengi þú getir lifað? Þá sérðu vafalaust að það er skynsamlegt að hegða sér ekki „eins og heiðingjarnir hegða sér“ heldur lifa innihaldsríku lífi. – Ef. 4:17; Mal. 3:18.

20, 21. Hvað eigum við í vændum ef við tökum réttar ákvarðanir en til hvers ætlast Jehóva af okkur?

20 Ef við tökum réttar ákvarðanir getum við lifað ánægjulegu lífi núna og átt í vændum að ,erfa jörðina‘ og hljóta eilíft líf. Við getum ekki ímyndað okkur allt sem Jehóva á eftir að gefa okkur í framtíðinni. (Matt. 5:5; 19:29; 25:34) Það er þó ekki sjálfsagður hlutur að hann blessi okkur heldur ætlast hann líka til einhvers af okkur. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:3, 4.) En það er sannarlega þess virði að þjóna honum núna.

21 Jehóva sýnir okkur mikinn heiður að gefa okkur svona margt. Við höfum fengið nákvæma þekkingu á Biblíunni og höfum kynnst Jehóva og fyrirætlun hans. Við höfum þann heiður að vera kennd við nafn hans og vera vottar hans. Guð lofar að standa með okkur. (Sálm. 118:7) Hvort sem við erum ung eða gömul skulum við sýna að við kunnum að meta það sem Jehóva hefur gefið okkur. Sýnum með líferni okkar að okkur langi til að gefa honum „dýrð um aldir alda“. – Rómv. 11:33-36; Sálm. 33:12.