Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ættirðu að skipta um skoðun?

Ættirðu að skipta um skoðun?

HÓPUR ungmenna í söfnuðinum ákveður að fara og sjá bíómynd. Þau hafa heyrt að margir skólafélagar hafi haft gaman af henni. Þegar þau koma í kvikmyndahúsið sjá þau veggspjöld með myndum af drápsvopnum og fáklæddum konum. Hvað gera ungu vottarnir nú? Ákveða þeir samt að sjá myndina?

Þetta dæmi lýsir vel að við þurfum oft að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á samband okkar við Jehóva – til góðs eða ills. Stundum ætlar maður að gera eitthvað en skoðar svo málið að nýju og skiptir um skoðun. Er það merki um óákveðni eða getur það verið skynsamlegt?

Hvenær ættirðu EKKI að skipta um skoðun?

Við vígðumst Jehóva og létum skírast vegna þess að við elskum hann. Við þráum heitt að vera honum trú. En óvinur okkar, Satan djöfullinn, er ákveðinn í að fá okkur til að óhlýðnast Guði. (Opinb. 12:17) Við höfum ákveðið að þjóna Jehóva og halda boðorð hans. Það væri dapurlegt að skipta um skoðun hvað það varðar. Það gæti kostað okkur lífið.

Fyrir rúmlega 26 öldum lét Nebúkadnesar, konungur í Babýlon, reisa gríðarmikið líkneski úr gulli og fyrirskipaði að allir skyldu falla fram og tilbiðja það. Þeim sem ekki gerðu það yrði kastað í glóandi eldsofn. Þrír tilbiðjendur Jehóva, þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó, neituðu. Þar sem þeir vildu ekki falla fram fyrir líkneskinu var þeim kastað í glóandi eldsofninn. Jehóva bjargað þeim með kraftaverki en þeir höfðu verið tilbúnir til að hætta lífinu frekar en að hvika frá þeirri ákvörðun sinni að þjóna Guði. – Dan. 3:1-27.

Daníel spámaður hætti ekki að biðja til Guðs þó að hann ætti á hættu að vera kastað í ljónagryfju. Hann hélt áfram að biðja til Jehóva þrisvar á dag eins og hann var vanur. Hann hvikaði ekki frá þeirri ákvörðun sinni að tilbiðja hinn sanna Guð. Fyrir vikið var honum bjargað „úr klóm ljónanna“. – Dan. 6:2-28.

Þjónar Guðs nú á tímum halda líka vígsluheit sitt við hann. Í skóla einum í Afríku er hópur nemenda sem eru vottar Jehóva. Þeir neituðu að taka þátt í að hylla þjóðartákn við hátíðlega athöfn í skólanum. Þeim var hótað að þeim yrði vikið úr skóla ef þeir tækju ekki þátt í athöfninni með hinum nemendunum. Menntamálaráðherrann heimsótti bæinn skömmu síðar og talaði við nokkra af þessum nemendum. Þessir ungu vottar skýrðu afstöðu sína óhikað en kurteislega. Síðan hefur málið ekki komið til tals. Ungir bræður og systur geta nú sótt skóla án þess að reynt sé að fá þau til að óhlýðnast Jehóva.

Joseph þurfti einnig að vera einbeittur þegar eiginkona hans, sem var með krabbamein, dó snögglega. Fjölskylda hans skildi og virti afstöðu hans til útfararsiða. En ættingjar konunnar hans eru ekki vottar, og þeir vildu að fylgt yrði ákveðnum útfararsiðum, meðal annars siðum sem eru Guði vanþóknanlegir. Joseph segir: „Þegar ég vildi ekki láta undan reyndu þeir að hafa áhrif á börnin mín en þau voru jafn ákveðin og ég. Ættingjarnir reyndu líka að skipuleggja líkvöku á heimili mínu eins siður er en ég sagði þeim að ef þeir vildu halda líkvöku yrði það ekki á heimili mínu. Þeir vissu að líkvaka samræmdist ekki trúarskoðunum mínum eða eiginkonu minnar, þannig að eftir miklar umræður ákváðu þeir að halda hana annars staðar.

Á þessum erfiða tíma meðan við vorum í sárum bað ég Jehóva ákaft um að hjálpa okkur svo að fjölskyldan bryti ekki lög hans. Hann bænheyrði mig og hjálpaði okkur að vera staðföst þrátt fyrir álagið.“ Það kom ekki til greina hjá Joseph og börnum hans að breyta þeirri ákvörðun sinni að þjóna Jehóva.

Hvenær ættirðu KANNSKI að skipta um skoðun?

Skömmu eftir páska árið 32 kom kona frá Fönikíu sýrlensku að máli við Jesú Krist í grennd við Sídon. Hún þrábað hann að reka illan anda út af dóttur sinni. Í fyrstu svaraði Jesús henni ekki einu orði. Hann sagði lærisveinunum: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“ Þegar hún gaf sig ekki sagði Jesús: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“ Hún sýndi mikla trú og svaraði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“ Jesús varð þá við beiðni hennar og læknaði dótturina. – Matt. 15:21-28.

Jesús líkti eftir Jehóva með því að vera fús til að skipta um skoðun þegar það átti við. Sem dæmi má nefna að Guð ætlaði að útrýma Ísraelsmönnum eftir að þeir gerðu gullkálfinn en skipti um skoðun þegar Móse sárbændi hann um að gera það ekki. – 2. Mós. 32:7-14.

Páll postuli líkti eftir Jehóva og Jesú. Jóhannes Markús hafði yfirgefið hann og Barnabas á fyrstu trúboðsferðinni og Páll vildi því ekki hafa hann með í för um tíma. En síðar virðist Páll hafa áttaði sig á að Markús hafði þroskast og gæti komið að miklu gagni. Hann skrifaði því Tímóteusi: „Tak þú Markús með þér til mín. Hann er mér þarfur í þjónustunni.“ – 2. Tím. 4:11.

Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu? Jehóva er miskunnsamur, þolinmóður og kærleiksríkur og er þess vegna fús til að skipta um skoðun þó að hann sé fullkominn. Við erum ekki fullkomin og sjáum hlutina ekki alltaf í réttu ljósi. Við höfum því enn ríkari ástæðu til skipta stundum um skoðun. Til dæmis er eðlilegt að álit okkar á öðru fólki breytist þegar við fáum betri innsýn í aðstæður þess.

Það getur verið gott að skipta um skoðun varðandi markmið okkar í þjónustu Guðs. Sumir draga það að láta skírast þó að þeir hafi verið í biblíunámi og sótt samkomur um tíma. Eða segjum sem svo að við séum í aðstöðu til að gerast brautryðjendur en hikum við að stíga skrefið til fulls. Og einstaka bróðir virðist kannski tregur til að sækjast eftir ábyrgðarstörfum í söfnuðinum. (1. Tím. 3:1) Hefurðu einhvern tíma verið í svipuðum sporum og hér er lýst? Jehóva hvetur þig til að vera framsækinn og taka að þér verkefni í þjónustu hans. Hví ekki að hugsa þinn gang upp á nýtt og upplifa gleðina sem fylgir því að gefa af sjálfum þér í þágu Guðs og annarra?

Það getur orðið okkur til blessunar að skipta um skoðun.

Ella starfar við eina af deildarskrifstofum Votta Jehóva í Afríku. Hún segir: „Þegar ég kom á Betel var ég ekki viss um að ég yrði þar lengi. Mig langaði til að þjóna Jehóva af allri sálu en ég tengdist líka fjölskyldu minni sterkum böndum. Í fyrstu saknaði ég fjölskyldunnar sárlega. En herbergisfélagi minn var mjög uppörvandi og ég ákvað að vera áfram á Betel. Nú hef ég verið á Betel í tíu ár og mig langar til að vera hér eins lengi og ég get til að þjóna bræðrum mínum og systrum.“

Hvenær VERÐUR þú að skipta um skoðun?

Manstu hvernig fór þegar Kain varð öfundsjúkur út í bróður sinn og reiddist mjög? Guð sagði þessum þungbúna manni að hann gæti verið upplitsdjarfur ef hann gerði rétt. Hann ráðlagði honum að sigrast á syndinni sem ,lá við dyrnar‘. Kain hefði getað breytt hugarfari sínu og skipt um skoðun en kaus að hunsa ráðleggingar Guðs. Því miður drap hann bróður sinn og varð þar með fyrsti maðurinn sem framdi morð. – 1. Mós. 4:2-8.

Hvað hefði gerst ef Kain hefði skipt um skoðun?

Við getum líka dregið lærdóm af Ússía konungi. Í byrjun gerði hann rétt í augum Jehóva og leitaði hans. En því miður eyðilagði hann fyrir sér með því að verða hrokafullur. Hann gekk inn í musterið til að færa reykelsisfórn þó að hann væri ekki prestur. Skipti hann um skoðun og hætti við þegar prestarnir vöruðu hann við því að gera þetta? Nei, Ússía reiddist og hunsaði viðvörun þeirra. Fyrir vikið sló Jehóva hann holdsveiki. – 2. Kron. 26:3-5, 16-20.

Já, stundum eigum við hreinlega að skipta um skoðun. Við skulum líta á nútímadæmi. Joachim lét skírast árið 1955 en var vikið úr söfnuðinum árið 1978. Meira en 20 árum síðar sýndi hann iðrun og var tekinn aftur inn í söfnuðinn. Öldungur spurði hann nýlega hvers vegna hann hefði beðið svona lengi með að óska eftir inngöngu í söfnuðinn á ný. Joachim svaraði: „Ég var bæði reiður og stoltur. Ég harma að ég skuli hafa beðið svona lengi. Meðan ég var utan safnaðarins vissi ég að vottar Jehóva kenndu sannleikann.“ Hann þurfti að breyta hugarfari sínu og iðrast.

Stundum getur verið að við þurfum að skipta um skoðun og breyta um stefnu. Ef svo er skulum við vera fús til að gera það svo að Jehóva hafi velþóknun á okkur. – Sálm. 34:9.