Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Óvæntur glaðningur handa Japönum

Óvæntur glaðningur handa Japönum

SÉRSTÖK samkoma var haldin í Nagoya í Japan 28. apríl 2013. Anthony Morris, sem á sæti í stjórnandi ráði, kom áheyrendum skemmtilega á óvart með tilkynningu sem vakti mikinn fögnuð. Hann tilkynnti að út væri komið nýtt rit á japönsku sem ber heitið Biblían – Matteusarguðspjall. Allir þeir 210.000 sem hlustuðu, annaðhvort á staðnum eða í gegnum Netið, fögnuðu með dynjandi lófataki.

Þetta einstaka rit er 128 blaðsíðna endurprentun úr japönsku Nýheimsþýðingunni á Matteusarguðspjalli. Bróðir Anthony Morris skýrði frá því að ritið væri sniðið að þörfum japanska starfssvæðisins. Hvað er sérstakt við þessa bók? Hvers vegna var þörf á henni? Og hvernig hefur henni verið tekið?

HVAÐ ER ÓVENJULEGT VIÐ ÞESSA BÓK?

Uppsetning þessarar útgáfu af Matteusarguðspjalli kom mörgum á óvart. Hægt er að setja japanskan texta upp lóðrétt eða lárétt og í mörgum bókum og tímaritum er lárétta sniðið notað, þar á meðal í ritunum okkar undanfarna áratugi. En textinn í þessari nýju útgáfu er lóðréttur eins og algengt er í japönskum dagblöðum og bókmenntaverkum. Mörgum japönskum lesendum finnst auðveldara að lesa þannig texta. Yfirskriftir hafa líka verið færðar inn í textann sem millifyrirsagnir svo að lesandinn á auðvelt með að koma auga á aðalatriðin.

Bræður okkar og systur í Japan byrjuðu strax að lesa Matteusarguðspjall. Systir á níræðisaldri sagði: „Ég hef oft lesið Matteusarguðspjall en þegar ég las fjallræðuna í þessari útgáfu, með lóðréttum texta og millifyrirsögnum, skildi ég hana betur.“ Ung systir skrifaði: „Ég las Matteusarguðspjall í einni lotu. Sjálf er ég vön láréttum texta en margir Japanar kjósa heldur lóðréttu gerðina.“

BÓKIN ER GERÐ FYRIR STARFSSVÆÐIÐ

Hvers vegna höfðar þessi biblíubók sérstaklega til fólks á svæðinu? Margir Japanar vita lítið um Biblíuna en vilja gjarnan lesa hana. Þessi útgáfa af Matteusarguðspjalli gefur þeim sem hafa aldrei séð biblíu möguleika á að eignast hluta þessarar helgu bókar til að lesa.

Hvers vegna varð Matteusarguðspjall fyrir valinu? Flestir Japanar tengja orðið „biblía“ við Jesú Krist. Matteusarguðspjall var valið vegna þess að það hefur að geyma frásögn af fæðingu Jesú, ættartölu hans, fjallræðuna frægu og áhrifamikla spádóma um síðustu daga – efni sem margir Japanar hafa áhuga á að fræðast um.

Boðberar í Japan byrjuðu strax að dreifa þessu nýja riti í boðunarstarfinu hús úr húsi og þegar þeir heimsóttu aftur áhugasama. „Nú gefast mér fleiri tækifæri til að færa fólki á starfssvæðinu orð Guðs,“ skrifaði ein systir. „Ég gaf meira að segja eintak af Matteusarguðspjalli sama dag og bókin kom út.“

HVERNIG HEFUR BÓKINNI VERIÐ TEKIÐ?

Hvernig kynna boðberar bókina Biblían – Matteusarguðspjall? Margir Japanar þekkja orðasambönd eins og „þrönga hliðið“, „að kasta perlum fyrir svín“ og „að hafa ekki áhyggjur af morgundeginum“. (Matt. 6:34; 7:6, 13) Það kemur þeim á óvart að þau komi frá Jesú Kristi. Margir segja þegar þeir sjá þessi orð í Matteusarguðspjalli: „Mig hefur alltaf langað til að lesa Biblíuna, að minnsta kosti einu sinni.“

Þegar boðberar heimsækja aftur þá sem þáðu Matteusarguðspjall segja þeir oft að þeir hafi strax byrjað að lesa bókina og jafnvel klárað hana. Maður á sjötugsaldri sagði við boðbera: „Ég las hana aftur og aftur og hún hughreysti mig. Viltu fræða mig meira um Biblíuna?“

Matteusarguðspjall er líka boðið fólki á götum úti. Systir í götustarfinu gaf ungri konu netfangið sitt eftir að hún hafði þegið Matteusarguðspjall. Klukkustund síðar fékk hún tölvupóst frá konunni. Hún sagðist hafa lesið hluta af bókinni og vildi fá að vita meira. Viku síðar byrjaði hún í biblíunámi og fór fljótlega að sækja samkomur.

Meira en 1,6 milljónir eintaka af bókinni Biblían – Matteusarguðspjall hafa verið send söfnuðum í Japan og boðberar dreifa tugþúsundum eintaka í hverjum mánuði. Formáli bókarinnar endurspeglar huga útgefenda en þar segir: „Það er einlæg ósk okkar að lestur þessarar bókar eigi eftir að auka áhuga þinn á Biblíunni.“