Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva stýrir alþjóðlegu fræðslustarfi okkar

Jehóva stýrir alþjóðlegu fræðslustarfi okkar

„Ég er Drottinn, Guð þinn, sem kenni þér það sem gagnlegt er, leiði þig þann veg sem þú skalt ganga.“ – JES. 48:17.

1. Hvaða hindranir hafa kristnir menn á okkar dögum þurft að yfirstíga til að boða fagnaðarerindið?

 MARGT tálmaði Biblíunemendunum * þegar þeir boðuðu fagnaðarerindið undir lok nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu. Boðskapurinn, sem þeir boðuðu, var ekki almennt vinsæll frekar en boðskapur kristinna manna á fyrstu öld. Þeir voru fámennir og ekki taldir sérlega vel menntaðir. Þar við bættist að Satan djöfullinn var ævareiður þegar honum var varpað niður til jarðar. (Opinb. 12:12) Og Biblíunemendurnir áttu að boða fagnaðarerindið „á síðustu dögum“ sem hafa reynst „örðugar tíðir“. – 2. Tím. 3:1.

2. Hvað hefur Jehóva gert til að greiða fyrir boðun fagnaðarerindisins á okkar dögum?

2 Jehóva ætlaði engu síður að láta þjóna sína boða fagnaðarerindið í meiri mæli á okkar tímum en nokkru sinni fyrr, og ekkert getur komið í veg fyrir að vilji hans nái fram að ganga. Hann hefur bjargað nútímaþjónum sínum úr ,Babýlon hinni miklu‘, heimsveldi falskra trúarbragða, rétt eins og hann frelsaði Ísraelsmenn úr Babýlon forðum daga. (Opinb. 18:1-4) Hann hefur kennt okkur það sem gagnlegt er, veitt okkur frið og hjálpað okkur að fræða aðra um sig. (Lestu Jesaja 48:16-18.) Ekki svo að skilja að Jehóva kjósi að sjá alla hluti fyrir og hafi síðan áhrif á allt sem gerist á jörð til að greiða fyrir boðuninni. Sumar aðstæður hafa verið boðuninni í hag. Við erum engu að síður ofsótt og eigum við ýmsa erfiðleika að glíma í heimi sem er á valdi Satans. Það er aðeins með hjálp Jehóva sem við höfum getað staðist þetta og haldið áfram að boða fagnaðarerindið. – Jes. 41:13; 1. Jóh. 5:19.

3. Hvernig hefur skilningur manna á sannleika Biblíunnar aukist til muna?

3 Jehóva innblés Daníel spámanni að segja fyrir að skilningur manna á sannleika Biblíunnar myndi aukast þegar drægi að endalokum þessa heims. (Lestu Daníel 12:4.) Jehóva hjálpaði Biblíunemendunum að skilja grundvallarsannindi Biblíunnar sem höfðu horfið í skuggann af kennisetningum kristna heimsins. Þjónar hans kenna nú sannleika Biblíunnar út um allan heim. Við sjáum spádóm Daníels rætast nú á tímum. Næstum 8.000.000 manna hafa tileinkað sér sannleika Biblíunnar og boða hann um alla jörðina. Hvað hefur gert þjónum Jehóva kleift að boða og kenna um víða veröld?

BIBLÍUÞÝÐINGAR

4. Lýstu útbreiðslu Biblíunnar á 19. öld.

4 Útbreiðsla Biblíunnar hefur greitt fyrir boðun fagnaðarerindisins. Öldum saman voru prestar kristna heimsins mótfallnir því að fólk læsi Biblíuna, og sumir sem þýddu hana voru jafnvel teknir af lífi. Á 19. öld létu biblíufélög hins vegar þýða og prenta Biblíuna í heild eða að hluta á um það bil 400 tungumálum. Margir áttu biblíu undir lok 19. aldar en skildu ekki nema að takmörkuðu leyti það sem hún kennir.

5. Hvaða biblíuþýðingu hafa Vottar Jehóva gefið út?

5 Biblíunemendurnir vissu að þeir urðu að boða það sem Biblían kennir og voru óþreytandi að skýra það fyrir fólki. Þjónar Jehóva hafa notað og dreift ýmsum útgáfum Biblíunnar. Frá árinu 1950 hafa þeir gefið út Nýheimsþýðingu heilagrar ritningar í heild eða að hluta á meira en 120 tungumálum. Árið 2013 gáfu þeir út endurskoðaða útgáfu hennar. Hún á eftir að einfalda þýðingu Biblíunnar á fleiri tungumál. Og það auðveldar líka boðunina að vera með auðskilda biblíu.

FRIÐARTÍMAR

6, 7. (a) Hvaða stríð hafa verið háð síðastliðin 100 ár eða svo? (b) Hvernig hefur það greitt fyrir boðuninni að það hefur verið sæmilegur friður víða um lönd?

6 Hefur verið einhver friður í heiminum síðastliðin 100 ár eða svo? Það hafa verið háðar ótal styrjaldir, þar á meðal tvær heimsstyrjaldir, og þær hafa kostað milljónir manna lífið. Nathan Knorr fór með forystu meðal Votta Jehóva á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar. Á móti, sem var haldið árið 1942, flutti hann ræðu sem nefndist: „Friður – verður hann varanlegur?“ Hann rökstuddi með vísun í 17. kafla Opinberunarbókarinnar að stríðið, sem geisaði þá, væri ekki undanfari Harmagedón heldur kæmist á friður. – Opinb. 17:3, 11.

7 Það komst ekki á alger friður í heiminum þegar síðari heimsstyrjöldinni lauk. Samkvæmt einni heimild kom 331 sinni til stríðsátaka á árabilinu 1946 til 2013. Milljónir manna féllu í þessum átökum. Víða um lönd hefur þó verið sæmilegur friður á þessu tímabili og þjónar Jehóva hafa nýtt sér það vel til að boða fagnaðarerindið. Með hvaða árangri? Árið 1944 voru innan við 110.000 boðberar í heiminum. Núna eru þeir um 8.000.000. (Lestu Jesaja 60:22.) Erum við ekki þakklát fyrir að geta boðað fagnaðarerindið við friðsamlegar aðstæður?

GREIÐAR SAMGÖNGUR

8, 9. Hvaða framfarir hafa orðið á sviði samgangna og hvernig hafa þær auðveldað starf okkar?

8 Bættar samgöngur hafa auðveldað boðunina. Árið 1900, 21 ári eftir að Varðturninn kom fyrst út, voru ekki skráðir nema 8.000 bílar í öllum Bandaríkjunum. Ökufærir vegir voru ekki nema nokkur hundruð kílómetrar. Núna er skráður meira en einn og hálfur milljarður vélknúinna ökutækja í heiminum og góðir vegir teljast í milljónum kílómetra. Mörg okkar fara akandi á afskekktar slóðir til að flytja fólki fagnaðarerindið. En jafnvel þó að við búum á svæðum þar sem samgöngur eru erfiðar og við þurfum að ferðast fótgangandi langar vegalengdir, gerum við allt sem við getum við að kenna fólki. – Matt. 28:19, 20.

9 Ýmis önnur samgöngutæki hafa einnig komið okkur að góðum notum. Hægt er að flytja biblíutengd rit til afskekktustu staða á fáeinum vikum með skipum, flutningabílum og járnbrautarlestum. Farandhirðar, trúboðar, bræður í deildarnefndum og fleiri geta komist með hraði flugleiðis til að sækja mót eða annast önnur verkefni á vegum safnaðarins. Bræður í hinu stjórnandi ráði og aðrir frá aðalstöðvunum ferðast flugleiðis til annarra landa til að fræða og hvetja trúsystkini þar. Bættar samgöngur stuðla þannig að einingu meðal þjóna Jehóva. – Sálm. 133:1-3.

ENSK TUNGA OG ÞÝÐINGAR

10. Hvers vegna má segja að enska sé alþjóðlegt tungumál?

10 Gríska var töluð víða í Rómaveldi á fyrstu öld. Er eitthvert tungumál jafn útbreitt nú á dögum? Telja má að enskan sé sambærileg grískunni að þessu leyti. Í bókinni English as a Global Language segir: „Um fjórðungur jarðarbúa hefur góð tök á ensku eða talar hana reiprennandi.“ Enska er algengasta erlenda tungumálið sem fólk lærir og er notuð á alþjóðavettvangi á sviði viðskipta, stjórnmála, vísinda og tækni.

11. Hvaða áhrif hefur enska haft á framgang sannrar tilbeiðslu?

11 Útbreiðsla enskunnar hefur átt sinn þátt í framgangi sannrar tilbeiðslu. Árum saman voru Varðturninn og önnur biblíutengd rit gefin út á ensku á undan öðrum málum. Enska er hið opinbera tungumál við aðalstöðvar Votta Jehóva. Og hún er að jafnaði notuð sem kennslumál við Fræðslumiðstöð Votta Jehóva í Patterson í New York.

12. Á hve mörg tungumál hafa þjónar Jehóva þýtt biblíutengd rit og hvernig hefur tæknin auðveldað þeim það?

12 Við höfum það verkefni að boða fólki af öllum þjóðum fagnaðarerindið um ríkið þannig að við höfum þýtt ritin okkar á um það bil 700 tungumál. Framfarir í tölvutækni, þar á meðal þróun MEPS-útgáfukerfisins, hafa auðveldað okkur þetta viðamikla verkefni. Þetta hefur átt drjúgan þátt í að útbreiða boðskapinn um ríki Guðs og skapa einingu meðal þjóna hans um allan heim. En umfram allt erum við sameinuð vegna þess að við höfum ,hreinar varir‘ en það merkir að við tölum hið hreina tungumál sannleikans sem Biblían boðar. – Lestu Sefanía 3:9.

LÖG OG DÓMSÚRSKURÐIR

13, 14. Hvernig hafa kristnir menn nú á tímum notið góðs af lögum og dómsúrskurðum?

13 Eins og fram kom í greininni á undan nutu frumkristnir menn góðs af lögum Rómverja sem giltu út um allt heimsveldið. Löggjöf margra landa hefur líka auðveldað kristnum mönnum starf sitt nú á dögum. Stjórnarskrá Bandaríkjanna, þar sem aðalstöðvar okkar eru, tryggir til dæmis þegnum landsins trú-, mál- og fundafrelsi. Þetta hefur veitt þjónum Guðs þar í landi frelsi til að halda samkomur og ræða um Biblíuna fyrir opnum tjöldum og segja öðrum frá því sem þeir hafa lært. Þó hefur þurft að staðfesta fyrir dómstólum frelsi okkar til að njóta ákveðinna réttinda. (Fil. 1:7) Þegar þjónar Jehóva í Bandaríkjunum hafa verið leiddir fyrir rétt hafa þeir margsinnis skotið máli sínu til æðri dómstiga og varið rétt sinn til að boða fagnaðarerindið.

14 Dómstólar í öðrum löndum hafa einnig staðfest trúfrelsi okkar og réttinn til að boða trúna meðal almennings. Í sumum löndum höfum við tapað dómsmálum en þá höfum við leitað til alþjóðlegra dómstóla. Sem dæmi má nefna að í júní 2014 var Mannréttindadómstóll Evrópu búinn að dæma okkur í vil í 57 málum, og úrskurðurinn er bindandi fyrir öll ríki sem eiga aðild að Evrópuráðinu. Þó að ,allar þjóðir hati okkur‘ hafa dómstólar margra landa úrskurðað að við höfum þann rétt að tilbiðja Jehóva. – Matt. 24:9.

ANNAÐ SEM HEFUR GREITT FYRIR KENNSLUNNI

Við bjóðum fólki um allan heim biblíutengd rit.

15. Hvaða framfarir hafa orðið í prenttækni og hvaða áhrif hafa þær haft á starf okkar?

15 Framfarir í prenttækni hafa átt sinn þátt í boðuninni út um allan heim. Prentvélin, sem Johannes Gutenberg fann upp árið 1450, breyttist lítið öldum saman. En síðastliðnar tvær aldir hafa orðið miklar breytingar í prentiðnaðinum. Prentvélar eru orðnar stærri, hraðvirkari og háþróaðri. Pappírsframleiðsla og bókband er orðið ódýrara en áður. Offsetprentun er komin í stað prentunar með upphleyptu letri, og fyrir vikið er prentunin hraðvirkari en áður og myndir mun betri. Hvaða áhrif hefur þetta haft á starf okkar? Fyrsta tölublað Varðturnsins (í júlí 1879) var prentað í 6.000 eintökum. Engar myndir voru í blaðinu og það kom út á aðeins einu tungumáli, ensku. Núna, 136 árum síðar, eru prentaðar rúmlega 50.000.000 eintaka af hverju tölublaði Varðturnsins. Það er fallega myndskreytt, prentað í litum og kemur út á meira en 200 tungumálum.

16. Hvaða uppfinningar hafa auðveldað okkur að boða fagnaðarerindið um allan heim? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

16 Þjónar Jehóva hafa notfært sér margar af uppfinningum síðastliðinna 200 ára til að koma fagnaðarerindinu á framfæri. Við höfum nefnt járnbrautir, bíla og flugvélar, en við höfum líka notfært okkur reiðhjól, ritvélar, tæki til að þrykkja blindraletur, ritsíma, talsíma, ljósmyndavélar, hljóð- og myndupptökutæki, útvarp, sjónvarp, kvikmyndir, tölvur og Internetið. Uppfinningar sem þessar hafa auðveldað okkur á ýmsan hátt að gera fólk að lærisveinum. Þó að þjónar Jehóva hafi ekki fundið upp þessa hluti hafa þeir notað þá til að framleiða biblíur og önnur rit á fjölda tungumála og boða fagnaðarerindið um allan heim. Þannig hafa þeir ,sogið mjólk þjóðanna‘ eins og spáð var í Biblíunni. – Lestu Jesaja 60:16.

17. (a) Hvað hljótum við að álykta? (b) Hvers vegna leyfir Jehóva okkur að vera „samverkamenn“ sínir?

17 Það er augljóst að Jehóva blessar starf okkar. Hann þarf auðvitað ekki á hjálp okkar að halda til að hrinda vilja sínum í framkvæmd. Faðir okkar á himnum leyfir okkur hins vegar að vera „samverkamenn“ sínir, og það gefur okkur tækifæri til að sýna að við elskum hann og náungann. (1. Kor. 3:9; Mark. 12:28-31) Við skulum því nota hvert tækifæri til að boða boðskapinn um ríkið en það er mikilvægasta starf sem hægt er að vinna. Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að stjórna og blessa boðun okkar og kennslu út um allan heim.

^ Biblíunemendurnir tóku sér nafnið Vottar Jehóva árið 1931. – Jes. 43:10.