Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líkjum eftir hugrekki og dómgreind Jesú

Líkjum eftir hugrekki og dómgreind Jesú

„Þið hafið ekki séð hann en elskið hann þó. Þið hafið hann ekki nú fyrir augum ykkar en trúið samt á hann.“ – 1. PÉT. 1:8.

1, 2. (a) Hvernig getum við hlotið eilíft líf? (b) Hvernig getum við haldið okkur á réttri braut?

 VIÐ leggjum upp í langferð þegar við gerumst fylgjendur Krists. Leiðin liggur til eilífs lífs, hvort heldur á himni eða jörð. Jesús sagði: „Sá sem staðfastur er allt til enda [þar til hann deyr eða þetta illa heimskerfi líður undir lok] verður hólpinn.“ (Matt. 24:13) Ef við erum trúföst og höldum okkur á veginum til lífsins verðum við hólpin. Við megum ekki villast af leið eða láta heiminn glepja okkur. (1. Jóh. 2:15-17) En hvernig getum við haldið okkur á réttri braut?

2 Jesús, fyrirmynd okkar, ruddi brautina. Sagt er frá honum og ævi hans í Biblíunni. Við getum kynnst Jesú með því að kynna okkur þessa frásögu. Það verður til þess að við elskum hann og trúum á hann. (Lestu 1. Pétursbréf 1:8, 9.) Pétur postuli sagði að Jesús hefði látið okkur eftir fyrirmynd svo að við gætum fetað í fótspor hans. (1. Pét. 2:21) Ef við líkjum vandlega eftir honum náum við á leiðarenda og verðum hólpin. * Í greininni á undan var rætt hvernig við getum líkt eftir lítillæti Jesú og umhyggju hans. Nú skulum við skoða hvernig við getum fetað í fótspor hans með því að vera hugrökk og sýna góða dómgreind.

JESÚS ER HUGRAKKUR

3. Hvað er hugrekki og hvernig verðum við hugrökk?

3 Hugrekki er eins konar öryggi sem getur gert okkur sterk og þrautseig. Hugrökkum manni hefur verið lýst þannig að hann „haldi út í erfiðleikum“, „taki málstað þess sem er rétt“ og „taki þjáningum með reisn eða trú“. Hugrekki helst í hendur við ótta, von og kærleika. Hvernig? Guðsótti veitir okkur hugrekki til að óttast ekki menn. (1. Sam. 11:7; Orðskv. 29:25) Sönn von gerir okkur kleift að hugsa lengra en til erfiðleika líðandi stundar og horfa björtum augum til framtíðar. (Sálm. 27:14) Fórnfús kærleikur er okkur hvöt til að vera hugrökk, jafnvel þó að við setjum okkur í lífshættu. (Jóh. 15:13) Ef við treystum á Guð og fetum í fótspor sonar hans verðum við hugrökk. – Sálm. 28:7.

4. Hvernig sýndi Jesús hugrekki „mitt á meðal lærifeðranna“ í helgidóminum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

4 Jesús tók málstað þess sem var rétt. Skoðum það sem gerðist þegar hann var 12 ára og sat „mitt á meðal lærifeðranna“ í helgidóminum. (Lestu Lúkas 2:41-47.) Þessir kennarar voru vel að sér í Móselögunum en einnig í öllum erfikenningum Gyðinga sem unnu gegn þeim. Jesús var samt óhræddur að tala og spyrja spurninga. Hann var auðvitað ekki að spyrja spurninga sem forvitnir strákar voru vanir að spyrja. Við getum séð Jesú fyrir okkur spyrja umhugsunarverðra spurninga sem fengu þessa lærðu menn til að sperra eyrun. Og hafi þeir reynt að rugla hann í ríminu með því að spyrja flókinna spurninga mistókst þeim það. Alla sem hlustuðu, jafnvel kennarana, „furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum“. Hugrakkur hélt Jesús sannleikanum í orði Guðs á lofti.

5. Hvernig sýndi Jesús hugrekki þegar hann starfaði hér á jörð?

5 Jesús sýndi hugrekki á ýmsa vegu meðan hann starfaði hér á jörð. Hann afhjúpaði trúarleiðtogana sem leiddu fólk afvega með fölskum kenningum. (Matt. 23:13-36) Hann lét ekki spillast af heiminum. (Jóh. 16:33) Hann boðaði fagnaðarerindið ótrauður þrátt fyrir andstöðu. (Jóh. 5:15-18; 7:14) Hann hreinsaði musterið tvisvar og rak óttalaust burt þá sem spilltu tilbeiðslunni þar. – Matt. 21:12, 13; Jóh. 2:14-17.

6. Hvernig sýndi Jesús hugrekki daginn áður en hann dó?

6 Það er trústyrkjandi að sjá hvernig Jesús var hugrakkur þegar miklar þjáningar voru fram undan. Lítum á það sem gerðist síðasta daginn sem hann lifði hér á jörð. Hann vissi hvaða atburðarás svikarinn Júdas myndi hleypa af stað. Samt sagði hann Júdasi við páskamáltíðina: „Það sem þú gerir, það ger þú skjótt!“ (Jóh. 13:21-27) Í Getsemanegarðinum gaf hann sig óttalaust fram við hermennina sem komu til að handtaka hann. Hann kom lærisveinunum til varnar þó að hann væri í lífshættu. (Jóh. 18:1-8) Þegar hann kom fyrir æðstaráð Gyðinga staðfesti hann djarfmannlega að hann væri bæði Kristur og sonur Guðs, þó að hann vissi að æðstipresturinn væri að leita að átyllu til að geta tekið hann af lífi. (Mark. 14:60-65) Jesús var trúfastur allt til dauða á aftökustaur. Áður en hann dró andann í síðasta sinn hrópaði hann: „Það er fullkomnað.“ – Jóh. 19:28-30.

LÍKTU EFTIR HUGREKKI JESÚ

7. Hvað finnst ykkur unga fólkinu um að fá að bera nafn Guðs og hvernig getið þið verið hugrökk?

7 Hvernig getum við verið hugrökk eins og Jesús? Í skólanum. Þið unga fólkið getið sýnt hugrekki með því að segja bekkjarfélögum óhikað frá því að þið séuð vottar Jehóva, jafnvel þó að það sé gert grín að ykkur fyrir vikið. Þannig sýnirðu að þú sért stoltur af því að bera nafn Jehóva. (Lestu Sálm 86:12.) Sumum finnst eflaust að þú eigir að trúa þróunarkenningunni. En þú hefur gild rök til að trúa því sem Biblían segir um sköpun. Þú getur notað greinarnar „Sköpun eða þróun?“ á vefsíðunni jw.org til að svara þeim sem vilja fá sannfærandi ,rök fyrir voninni sem þú átt‘. * (1. Pét. 3:15) Þá hefurðu sýnt það hugrekki að verja sannleikann í orði Guðs og mátt vera ánægður með það.

8. Af hvaða ástæðum getum við boðað trúna djarflega?

8 Í boðuninni. Sannkristnir menn þurfa að ,tala djarflega í trausti til Drottins‘. (Post. 14:3, Biblían 1981) Af hvaða ástæðum getum við boðað trúna djarflega, af hugrekki? Við vitum að það sem við boðum er sannleikur vegna þess að það er sótt í Biblíuna. (Jóh. 17:17) Við erum „samverkamenn Guðs“ og höfum því stuðning heilags anda. (1. Kor. 3:9; Post. 4:31) Við vitum að þegar við boðum trúna af ákafa sýnum við Jehóva hollustu og náunganum kærleika. (Matt. 22:37-39) Full hugrekkis látum við engan þagga niður í okkur. Við afhjúpum óhikað falskar trúarkenningar sem blinda huga fólks fyrir sannleikanum. (2. Kor. 4:4) Og við höldum áfram að boða fagnaðarerindið þrátt fyrir áhugaleysi, háðsglósur eða andstöðu. – 1. Þess. 2:1, 2.

9. Hvernig getum við verið hugrökk í erfiðleikum?

9 Í erfiðleikum. Við höfum trú og hugrekki til að takast á við erfiðleika ef við treystum Guði. Það er eðlilegt að syrgja ef við missum ástvin en við missum ekki vonina. Við treystum að „Guð allrar huggunar“ styrki okkur. (2. Kor. 1:3, 4; 1. Þess. 4:13) Við þjáumst líklega ef við veikjumst alvarlega eða slösumst, en við myndum aldrei þiggja meðferð sem bryti gegn boðum Biblíunnar. (Post. 15:28, 29) Ef við verðum niðurdregin kann ,hjartað að dæma okkur‘ en við gefumst ekki upp þar sem við treystum á Guð sem er „nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta“. * – 1. Jóh. 3:19, 20; Sálm. 34:19.

JESÚS HEFUR GÓÐA DÓMGREIND

10. Hvað felst í því að hafa góða dómgreind og hvernig sýnir þjónn Guðs hana í tali og hegðun?

10 Góð dómgreind gerir manni kleift að greina rétt frá röngu og velja síðan réttu leiðina. (Hebr. 5:14) Hún hjálpar þjóni Guðs að taka ákvarðanir sem styrkja samband hans við Guð. Hann þóknast Guði með því að vera uppbyggilegur í tali og varast að særa aðra með orðum sínum. (Orðskv. 11:12, 13) Hann er „seinn til reiði“. (Orðskv. 14:29) Hann „gengur beinar brautir“ og heldur sig á réttri leið í lífinu. (Orðskv. 15:21) Hvernig getum við þroskað með okkur góða dómgreind? Með því að vera góðir biblíunemendur og fara eftir því sem við lærum. (Orðskv. 2:1-5, 10, 11) Við lærum líka mikið af því að skoða ævi Jesú en enginn hefur haft eins næma dómgreind og hann.

11. Hvernig sýndi Jesús góða dómgreind með orðum sínum?

11 Jesús sýndi góða dómgreind í öllu sem hann sagði og gerði. Í orðum sínum. Hann sýndi góða dómgreind þegar hann boðaði fagnaðarerindið og notaði svo ,hugnæm orð‘ að fólk undraðist. (Lúk. 4:22; Matt. 7:28) Oft lét hann orð Guðs tala – þegar hann las, vitnaði í eða vísaði í vers sem hittu í mark. (Matt. 4:4, 7, 10; 12:1-5; Lúk. 4:16-21) Jesús skýrði líka versin á þann hátt að það hreyfði við hjörtum áheyrenda. Eftir að hann reis upp frá dauðum átti hann tal við tvo lærisveina sem voru á leið til Emmaus. Hann „útlagði fyrir þeim það sem um hann er ritað í öllum ritningunum“. Eftir á sögðu lærisveinarnir: „Brann ekki hjartað í okkur meðan hann talaði við okkur ... og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“ – Lúk. 24:27, 32.

12, 13. Nefndu dæmi sem sýna að Jesús var seinn til reiði og að hann var sanngjarn.

12 Í viðmóti og viðhorfum. Dómgreind Jesú hjálpaði honum að hafa stjórn á skapi sínu þannig að hann var „seinn til reiði“. (Orðskv. 16:32) Hann var hógvær í framkomu. (Matt. 11:29) Hann var alltaf þolinmóður við lærisveinana þrátt fyrir veikleika þeirra. (Mark. 14:34-38; Lúk. 22:24-27) Hann hélt ró sinni jafnvel þegar illa var komið fram við hann. – 1. Pét. 2:23.

13 Dómgreind Jesú varð líka til þess að hann var sanngjarn. Hann einblíndi ekki á bókstaf Móselaganna heldur skildi ástæðurnar að baki þeim og breytti samkvæmt því. Skoðum til dæmis frásöguna í Markúsi 5:25-34. (Lestu.) Kona, sem var með langvinnar blæðingar, mjakaði sér gegnum mannfjöldann, snerti yfirhöfn Jesú og læknaðist. Samkvæmt lögmálinu var hún óhrein og hefði því ekki átt að snerta nokkurn mann. (3. Mós. 15:25-27) En Jesús ávítaði hana ekki fyrir að snerta sig. Hann skildi hvað var „mikilvægast ... í lögmálinu“, meðal annars „miskunn og trúfesti“. (Matt. 23:23) Hann sagði því við hana í vingjarnlegum tón: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði og ver heil meina þinna.“ Erum við ekki snortin af því að Jesús skyldi hafa svona næma dómgreind og vera svona umhyggjusamur?

14. Hvaða lífsstefnu valdi Jesús og hvernig gat hann haldið sig á þeirri braut?

14 Með lífsstefnu sinni. Jesús sýndi góða dómgreind með því að velja rétta lífsstefnu og halda sig við hana. Hann gaf sig allan að boðun fagnaðarerindisins og gerði hana að lífsstarfi sínu. (Lúk. 4:43) Jesús hélt sig á þessari braut og tók ákvarðanir sem gerðu honum kleift að einbeita sér að starfi sínu og ljúka því. Hann var skynsamur og lifði einföldu lífi til að geta notað tíma sinn og krafta í þjónustu Jehóva. (Lúk. 9:58) Hann áttaði sig á þörfinni að kenna öðrum svo að þeir gætu haldið boðuninni áfram eftir að hann væri dáinn. (Lúk. 10:1-12; Jóh. 14:12) Hann lofaði fylgjendum sínum að vera með þeim í þessu verki „allt til enda veraldar“. – Matt. 28:19, 20.

HÖFUM GÓÐA DÓMGREIND EINS OG JESÚS

Reynum að átta okkur á áhugamálum og þörfum fólks og haga orðum okkar eftir því. (Sjá 15. grein.)

15. Hvernig getum við sýnt góða dómgreind þegar við tölum við aðra?

15 Hvernig getum við líkt eftir Jesú og haft góða dómgreind? Með orðum okkar. Þegar við tölum við trúsystkini reynum við að vera uppörvandi en ekki letjandi. (Ef. 4:29) Þegar við segjum öðrum frá ríki Guðs látum við mál okkar vera „salti kryddað“. (Kól. 4:6) Við reynum að átta okkur á áhugamálum og þörfum húsráðandans og haga orðum okkar eftir því. Munum að með vel völdum orðum getum við hugsanlega náð til fólks og boðskapur okkar getur snert hjörtu þess. Þegar við skýrum frá trú okkar reynum við að láta Biblíuna tala með því að vitna í hana sem örugga heimild og lesa upp úr henni við hvert tækifæri. Við viðurkennum að boðskapur Biblíunnar er miklu öflugri en nokkuð sem við getum sagt frá eigin brjósti. – Hebr. 4:12.

16, 17. (a) Hvernig getum við sýnt að við erum sein til reiði og sanngjörn? (b) Hvernig getum við einbeitt okkur að boðuninni?

16 Í viðmóti okkar og viðhorfum. Góð dómgreind hjálpar okkur að hafa stjórn á skapinu og vera ,sein til reiði‘. (Jak. 1:19) Þegar fólk kemur illa fram við okkur reynum við að sjá hvað býr að baki orðum þess og framkomu. Það getur komið í veg fyrir að við móðgumst eða verðum sár. (Orðskv. 19:11) Góð dómgreind auðveldar okkur líka að vera sanngjörn. Við reynum að gera ekki óraunhæfar kröfur til trúsystkina og höfum í huga að þau eiga ef til vill í erfiðleikum sem við skiljum ekki til fulls. Við hlustum fúslega á skoðanir þeirra og gefum eftir þegar það á við. – Fil. 4:5.

17 Með lífsstefnu okkar. Við skiljum að það er mesti heiður sem hugsast getur að fá að boða fagnaðarerindið eins og Jesús gerði. Við höldum okkur á réttri braut með því að taka ákvarðanir sem gera okkur kleift að einbeita okkur að boðuninni, mikilvægasta starfi okkar tíma. Við látum þjónustuna við Jehóva ganga fyrir öðru og lifum einföldu lífi til að geta helgað okkur boðuninni núna áður en endirinn kemur. – Matt. 6:33; 24:14.

18. Hvernig getum við haldið okkur á veginum til eilífa lífsins og hvað ætlar þú að gera?

18 Við höfum eflaust haft ánægju af því að skoða nokkra aðlaðandi eiginleika Jesú. Væri ekki gaman að læra um fleiri eiginleika hans og reyna að líkjast honum enn betur? Verum ákveðin í að feta eftir bestu getu í fótspor hans. Þannig getum við haldið okkur á veginum til eilífa lífsins og nálægt okkur Jehóva sem Jesús líkti svo fullkomlega eftir.

^ Fyrra Pétursbréfi 1:8, 9 var beint til kristinna manna með himneska von. Í meginatriðum eiga þessi vers þó einnig við fólk með jarðneska von.

^ Veldu BIBLÍAN OG LÍFIÐ > UNGLINGAR > SKÓLI.

^ Frásögur af fólki, sem hefur sýnt hugrekki í erfiðleikum, má finna í erlendum útgáfum Varðturnsins 1. desember 2000, bls. 24-28, Vaknið! 22. apríl 2003, bls. 18-21 og 22. janúar 1995, bls. 11-15.