ÚR SÖGUSAFNINU
„Mjög mikilvægur árstími“
ÁRIÐ 1870 tók fámennur hópur manna í Pittsburgh (Allegheny) í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum að rannsaka Biblíuna undir forystu Charles Taze Russells. Eitt viðfangsefnið var lausnarfórn Krists og þeir uppgötvuðu fljótt að hún væri þungamiðjan í fyrirætlun Jehóva. Þeir voru yfir sig hrifnir þegar þeir komust að raun um að lausnargjaldið væri lykillinn að hjálpræði, jafnvel þeirra sem hefðu ekki enn heyrt um Jesú. Fullir þakklætis tóku þeir að minnast dauða Jesú ár hvert. – 1. Kor. 11:23-26.
Bróðir Russell tók að gefa út tímaritið Varðturn Síonar sem hélt því á lofti að lausnargjaldið væri skýrasta merkið um kærleika Guðs. Blaðið kallaði tímann kringum minningarhátíðina um dauða Krists „mjög mikilvægan árstíma“ og hvatti lesendur til að halda hátíðina annaðhvort í Pittsburgh eða annars staðar í litlum hópum. „Þótt ekki séu nema tveir eða þrír sem eiga þessa dýrmætu trú“ – eða bara einn – myndu þeir eiga „innilegt samfélag við Drottin“.
Ár frá ári fjölgaði þeim sem sóttu minningarhátíðina í Pittsburgh. „Við bjóðum ykkur velkomin með hlýju í hjarta,“ stóð í blaðinu þegar boðið var til hátíðarinnar. Biblíunemendur í Pittsburgh hýstu trúsystkini sín fúslega og sáu þeim fyrir fæði. Árið 1886 var haldin nokkurra daga „almenn samkoma“ í tengslum við minningarhátíðina. „Komið,“ hvatti Varðturninn, „með hjörtun yfirfull af kærleika til Drottins, bræðra hans og sannleika.“
Um nokkurra ára skeið sáu Biblíunemendurnir í Pittsburgh um að halda mót handa þeim sem trúðu á lausnargjaldið og komu þangað til að halda minningarhátíðina. Eftir því sem Biblíunemendunum fjölgaði urðu samkomurnar fjölmennari og voru haldnar víðar um heim. Ray Bopp tilheyrði söfnuðinum í Chicago. Hann minnist þess að upp úr 1910 hafi það tekið nokkrar klukkustundir að láta brauðið og vínið ganga meðal viðstaddra, því að þeir skiptu hundruðum og næstum allir neyttu þess.
Í Varðturninum kom fram að Jesús hefði notað vín við kvöldmáltíðina en um tíma mælti blaðið með því að nota ferskan þrúgusafa eða soð af rúsínum til að freista ekki þeirra sem væru „veikir fyrir í holdinu“. Vín var þó í boði handa þeim sem „töldu að nota ætti gerjað vín“. Biblíunemendurnir skildu síðar að hreint rauðvín væri viðeigandi tákn um blóð Jesú.
Minningarhátíðin gaf viðstöddum tækifæri til hugleiða dauða Jesú alvarlega. Í sumum söfnuðum var samkoman hins vegar með sorgarblæ og að
henni lokinni sögðu menn varla orð áður en þeir héldu heim. Í bókinni Jehovah, sem kom út árið 1934, sagði hins vegar að það ætti ekki að halda minningarhátíðina „í sorg“ vegna þess að Jesús dó kvalafullum dauða heldur „með fögnuði“ yfir því að hann skyldi hafa ríkt sem konungur frá 1914.Árið 1935 varð róttæk breyting sem hafði áhrif á minningarhátíðina þaðan í frá. Það ár kom skýring á því hver væri ,múgurinn mikli‘ í Opinberunarbókinni 7:9. Fram að þeim tíma höfðu þjónar Jehóva talið að þessi hópur táknaði vígða kristna menn sem væru ekki eins kostgæfir og hinir andasmurðu. Nú kom fram að þessi mikli múgur táknaði trúa guðsdýrkendur sem ættu von um eilíft líf í paradís á jörð. Russell Poggensee hugleiddi stöðu sína vandlega eftir að hafa fengið þessa skýringu og komst að eftirfarandi niðurstöðu: „Jehóva hafði ekki vakið himnesku vonina innra með mér með heilögum anda sínum.“ Þessi bróðir og margir aðrir dyggir þjónar Guðs hættu að neyta brauðsins og vínsins en héldu áfram að sækja minningarhátíðina.
Á þessum ,mikilvæga árstíma‘ var gert boðunarátak sem bauð öllum upp á tækifæri til að sýna hve þakklátir þeir væru fyrir lausnargjaldið. Árið 1932 voru kristnir menn hvattir í fréttaritinu Bulletin til að sækja ekki bara minningarhátíðina og samkomur heldur vera „sannir verkamenn“ með því að boða boðskap sannleikans. Árið 1934 var óskað eftir aðstoðarmönnum við boðunina og spurt: „Verða 1.000 skráðir þegar kemur að minningarhátíðinni?“ Enn fremur sagði um hina andasmurðu í fréttaritinu Informant: „Gleði þeirra verður því aðeins fullkomin að þeir taki þátt í að vitna um ríki Guðs.“ Þegar fram liðu stundir mátti segja hið sama um þá sem höfðu jarðneska von. *
Minningarhátíðin er helgasta kvöld ársins í augum allra þjóna Jehóva og þeir halda hana jafnvel við erfiðustu aðstæður. Árið 1930 gengu þær Pearl English og Ora, systir hennar, heila 80 kílómetra til að sækja samkomuna. Trúboðinn Harold King samdi lög og orti ljóð um minningarhátíðina meðan hann var í einangrun í fangelsi í Kína. Hann gerði sér brauð úr hrísgrjónum og vín úr sólberjum. Hugrakkir þjónar Guðs, allt frá Austur-Evrópu til Mið-Ameríku og Afríku, hafa boðið stríðsástandi og bönnum birginn til að geta minnst dauða Jesú. Hvar sem við erum og hverjar sem aðstæður okkar eru söfnumst við saman til að heiðra Jehóva Guð og Jesú Krist á þessum mikilvæga árstíma.
^ Bulletin var síðar kallað Informant en heitir nú Ríkisþjónusta okkar.