Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Áður var oft bent á í ritunum okkar að atburðir og persónur í frásögum Biblíunnar hafi fyrirmyndað ókomna atburði eða persónur, en nú er það sjaldan gert. Hvers vegna?

Í Varðturninum 15. september 1950 var rætt um spádómlegar fyrirmyndir. Atburðir eða persónur í frásögum Biblíunnar voru sagðar fyrirmynda ókomna atburði eða persónur, og atriði í frásögunni talin eiga sér samsvörun í þeim. Einnig var talað um að fyrirmyndin væri skuggi ákveðins veruleika sem ætti eftir að koma fram.

Fyrir mörgum árum var staðhæft í ritunum okkar að trúir þjónar Guðs eins og Debóra, Elíhú, Jefta, Job, Rahab, Rebekka og fleiri hafi fyrirmyndað annaðhvort hina andasmurðu eða ,múginn mikla‘. (Opinb. 7:9) Til dæmis var talið að Jefta, Job og Rebekka táknuðu hina andasmurðu en Debóra og Rahab múginn mikla. Undanfarin ár hefur hins vegar ekki verið talað um slíkar hliðstæður. Hvers vegna?

FYRIRMYND

Páskalambið, sem fórnað var í Ísrael til forna, var fyrirmynd. – 4. Mós. 9:2.

UPPFYLLING

Páll benti á að Kristur væri ,páskalamb okkar‘. – 1. Kor. 5:7.

Í Biblíunni er bent á að sumir einstaklingar í frásögum hennar hafi verið fyrirmyndir um eitthvað annað og meira. Í Galatabréfinu 4:21-31 bendir Páll postuli á frásögu af tveim konum sem hann segir að hafi „óeiginlega merkingu“. Hagar, ambátt Abrahams, táknaði Ísraelsþjóðina sem var skuldbundin Jehóva vegna lagasáttmálans. ,Frjálsa konan‘ Sara táknaði hins vegar eiginkonu Guðs, það er að segja himneskan hluta alheimssafnaðar hans. Í Hebreabréfinu segir Páll að Melkísedek, sem var konungur og prestur, samsvari Jesú og bendir á ákveðnar hliðstæður með þeim. (Hebr. 6:20; 7:1-3) Hann líkir einnig Jesaja og sonum hans við Jesú og andasmurða fylgjendur hans. (Hebr. 2:13, 14) Þar sem Páli var innblásið að skrifa þetta vitum við að þessar samsvaranir eru réttar.

Jafnvel þó að Biblían gefi stundum til kynna að ákveðin persóna fyrirmyndi aðra ættum við ekki að álykta að hvert smáatriði eða atvik í lífi hennar tákni eitthvað annað og meira. Páll segir til dæmis að Melkísedek fyrirmyndi Jesú en hann ræðir ekkert um það atvik þegar Melkísedek bar fram brauð og vín fyrir Abraham eftir að hann hafði sigrað fjóra konunga. Það er því enginn grundvöllur í Biblíunni fyrir því að sjá dulda merkingu í þessu atviki. – 1. Mós. 14:1, 18.

Sumir rithöfundar á öldunum eftir dauða Krists féllu í þá gildru að sjá fyrirmyndir í öllu. The International Standard Bible Encyclopaedia lýsir kenningum Origenesar, Ambrósíusar og Híerónýmusar og segir: „Þeir leituðu að fyrirmyndum og fundu þær auðvitað í hverju einasta atviki í frásögum Biblíunnar, hversu ómerkilegt sem það var. Þeir ímynduðu sér að jafnvel í algengustu aðstæðum væru fólgin merkilegustu sannindi ... meira að segja í fjölda fiskanna sem lærisveinarnir veiddu um nóttina sem frelsarinn birtist þeim upprisinn. Það er með ólíkindum hvað sumir hafa reynt að lesa út úr tölunni 153!“

Ágústínus í Hippo fjallaði ítarlega um frásöguna af því þegar Jesús mettaði um 5.000 karlmenn með fimm byggbrauðum og tveim fiskum. Bygg var álitið lakara en hveiti. Ágústínus ályktaði því sem svo að brauðin hlytu að tákna Mósebækurnar fimm (byggið átti að gefa til kynna að „Gamla testamentið“ væri lakara en „Nýja testamentið“). Og hvað um fiskana tvo? Af einhverri ástæðu líkti hann þeim við konung og prest. Annar fræðimaður, sem hafði ánægju af að finna spádómlegar fyrirmyndir, lagði út af frásögunni af því þegar Jakob keypti frumburðarréttinn af Esaú fyrir skál af rauðri baunakássu. Hún átti að fyrirmynda að Jesús hafi keypt himneska arfleifð handa mannkyninu með rauðu blóði sínu.

Okkur finnst slíkar útleggingar líklega langsóttar en við áttum okkur á vandanum. Menn geta ekki vitað hvaða frásögur Biblíunnar fyrirmynda ókomna atburði og hverjar ekki. Skynsamlegasta afstaðan er því þessi: Þegar Biblían segir að persóna, atvik eða hlutur fyrirmyndi eitthvað annað viðurkennum við það. En ef það er enginn biblíulegur grundvöllur fyrir því að sjá táknmyndir í ákveðnum persónum eða atvikum ættum við að varast það.

Hvaða gagn höfum við þá af því að lesa frásögur af fólki og atburðum í Biblíunni? Í Rómverjabréfinu 15:4 segir Páll postuli: „Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu til þess að við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa.“ Páll bendir hér á að andasmurð trúsystkini hans á fyrstu öld gætu dregið dýrmæta lærdóma af atburðum sem sagt er frá í Biblíunni. Í rauninni geta þjónar Guðs á öllum tímum nýtt sér – og hafa nýtt sér – „það sem áður er ritað“, hvort heldur þeir eru andasmurðir eða af ,öðrum sauðum‘ og hvort heldur er á „síðustu dögum“ eða öðrum tímum. – Jóh. 10:16; 2. Tím. 3:1.

Fæstar frásögur Biblíunnar eiga bara við ákveðinn hóp svo sem hina andasmurðu, ,aðra sauði‘ eða kristna menn á ákveðum tíma. Þjónar Guðs af báðum hópum hafa getað nýtt sér frásögur hennar á hvaða tíma sem er í fortíð og nútíð. Við heimfærum til dæmis frásöguna af Job ekki aðeins upp á aðstæður sem hinir andasmurðu máttu þola á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Margir þjónar Guðs, bæði karlar og konur og bæði andasmurðir og af múginum mikla, hafa upplifað ýmsar raunir líkt og Job og ,vita hvaða lyktir Drottinn gerði á högum þeirra‘. Þeir vita af reynslunni að Jehóva er „mjög miskunnsamur og líknsamur“. – Jak. 5:11.

Í söfnuðum okkar núna eru eldri konur sem sýna sömu trúfesti og Debóra og ungir umsjónarmenn sem eru jafn skynsamir og Elíhú. Þar eru líka hugrakkir brautryðjendur sem hafa eldmóð Jefta og trúir menn og konur sem eru þolgóð eins og Job. Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að varðveita „allt það sem áður er ritað“ svo að „við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa“.

Af þessum ástæðum hafa ritin okkar undanfarin ár lagt áherslu á lærdóma sem við getum dregið af frásögum Biblíunnar í stað þess að leita að spádómlegum fyrirmyndum og uppfyllingu þeirra.