Hvernig þjálfa öldungar aðra til starfa?
„Það sem þú heyrðir mig tala ... skalt þú fá í hendur trúum mönnum.“ – 2. TÍM. 2:2.
1. (a) Hvað hafa þjónar Guðs lengi vitað varðandi þjálfun og hvernig á það við nú á dögum? (b) Um hvað er rætt í þessari grein?
ÞJÓNAR GUÐS hafa lengi vitað að þjálfun er lykillinn að góðum árangri. Ættfaðirinn Abram fór með hóp ,valinna manna‘ til að bjarga Lot. Þetta voru vel þjálfaðir menn og þeim tókst ætlunarverk sitt. (1. Mós. 14:14-16) Söngvurum við tjaldbúðina á dögum Davíðs konungs „hafði verið kennt að syngja Drottni söngva“ og þeir voru Jehóva til lofs. (1. Kron. 25:7) Núna eigum við í andlegu stríði við Satan og fylgjendur hans. (Ef. 6:11-13) Við leggjum okkur líka alla fram um að lofa Jehóva. (Hebr. 13:15, 16) Til að okkur vegni vel þurfum við einnig að fá þjálfun, rétt eins og þjónar Guðs til forna. Jehóva hefur trúað öldungunum fyrir því að þjálfa aðra í söfnuðinum. (2. Tím. 2:2) Hvaða aðferðir nota reyndir öldungar til að þjálfa aðra bræður svo að þeir verði færir um að gæta hjarðarinnar?
STYRKTU ANDLEGT HUGARFAR NEMANDANS
2. Hvað getur öldungur þurft að gera áður en hann tekur að þjálfa bróður og hvers vegna?
2 Það má líkja öldungi við garðyrkjumann. Oft þarf að bæta næringarefnum í jarðveginn til að gera hann frjósamari áður en sáð er í hann. Hið sama er að segja um þjálfun sem öldungur veitir óreyndari bróður. Hann getur þurft að næra nemandann með vel völdum biblíuversum til að gera hjarta hans móttækilegra fyrir kennslunni sem hann fær. – 1. Tím. 4:6.
3. (a) Hvernig mætti nota orð Jesú í Markúsi 12:29, 30 í samræðum við nemanda? (b) Hvaða áhrif getur bæn öldungs haft á nemanda?
3 Það er mikilvægt fyrir þig að skilja hvaða áhrif sannleikurinn hefur á verk og viðhorf nemandans. Þú gætir spurt hann hvaða áhrif það hafi á ákvarðanir hans í lífinu að hann skuli vera vígður Jehóva. Spurningin getur orðið kveikjan að innihaldsríkum samræðum um það hvernig hægt sé að þjóna Jehóva af allri sálu. (Lestu Markús 12:29, 30.) Í lok samtalsins gætirðu ef til vill farið með bæn og beðið Jehóva að gefa nemandanum heilagan anda í þeim mæli sem hann þarf til að geta tekið að sér verkefni í söfnuðinum. Það er áreiðanlega uppbyggilegt fyrir bróðurinn að heyra þig biðja innilega fyrir honum.
4. (a) Nefndu dæmi um frásögur í Biblíunni sem geta hraðað framförum nemandans. (b) Hvaða markmið hafa öldungar þegar þeir kenna bræðrum?
4 Það er ágætt að byrja þjálfunina á að ræða nokkrar frásögur Biblíunnar sem geta opnað augu nemandans fyrir því að það sé mikilvægt að vera fús, áreiðanlegur og auðmjúkur. (1. Kon. 19:19-21; Neh. 7:2; 13:13; Post. 18:24-26) Þessir eiginleikar eru jafn mikilvægir fyrir nemandann og áburður fyrir jarðveginn. Þeir hraða framförum hans. Jean-Claude er safnaðaröldungur í Frakklandi. Hann segir: „Þegar ég kenni bræðrum hef ég það meginmarkmið að styrkja andlegt hugarfar þeirra. Ég leita færis að lesa ákveðið vers með nemandanum til að ,ljúka upp augum hans svo að hann sjái dásemdirnar‘ í Biblíunni.“ (Sálm. 119:18) Hvað fleira er hægt að gera til að styrkja andlegt hugarfar nemandans?
BENTU Á MARKMIÐ OG ÁSTÆÐURNAR FYRIR ÞEIM
5. (a) Hve mikilvægt er að ræða við nemandann um markmið í þjónustu Jehóva? (b) Hvers vegna ættu öldungar að byrja kennsluna snemma? (Sjá neðanmálsgrein.)
5 Spyrðu nemandann hvaða markmið hann hafi í þjónustu Jehóva. Ef hann hefur engin sérstök markmið skaltu hjálpa honum með því að stinga upp á markmiði sem hann getur náð. Segðu honum frá ákveðnu markmiði sem þú settir þér einu sinni í þjónustu Jehóva og hve ánægður þú varst þegar þú náðir því. Þetta er einföld aðferð en hún er áhrifarík. Victor er öldungur og brautryðjandi í Afríku. Hann segir: „Öldungur spurði mig nokkurra vel valinna spurninga um markmið mín þegar ég var ungur. Þær urðu mér hvatning til að hugsa alvarlega um þjónustu mína.“ Reyndir öldungar leggja líka áherslu á að það sé mikilvægt að byrja að kenna bræðrum snemma, þegar þeir komast á unglingsárin, og fela þeim verkefni í söfnuðinum í samræmi við aldur þeirra. Með því að byrja snemma hjálparðu ungu bræðrunum að hafa þessi markmið ofarlega í huga þegar þeir fara að nálgast tvítugt og það er fleira sem glepur. – Lestu Sálm 71:5, 17. *
6. Hvaða aðferð notaði Jesús meðal annars þegar hann kenndi?
6 Skýrðu bæði fyrir nemandanum hvað hann eigi að gera og hvers vegna. Þannig geturðu glætt löngun hans til að þjóna trúsystkinum sínum. Með því að tilgreina ástæðurnar líkirðu eftir Jesú, kennaranum mikla. Áður en hann fól postulunum það verkefni að gera fólk að lærisveinum sagði hann þeim hvers vegna þeir ættu að hlýða fyrirmælum hans. Hann sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.“ Síðan bætti hann við: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“ (Matt. 28:18, 19) Hvernig geturðu líkt eftir kennsluaðferðum Jesú?
7, 8. (a) Hvernig geta öldungar líkt eftir kennsluaðferðum Jesú? (b) Hve miklu máli skiptir að hrósa nemandanum? (c) Hvað geta öldungar gert til að þjálfa bræður? (Sjá greinina „ Að þjálfa aðra til starfa“.)
7 Bentu nemandanum á biblíulegar ástæður fyrir því sem hann er beðinn að gera. Þannig kennirðu honum að taka mið af meginreglum Biblíunnar. Segjum til dæmis að þú biðjir bróður að halda anddyri ríkissalarins og stéttinni fyrir utan hreinni og tryggja að aðgengi sé öruggt. Þú gætir lesið með honum Títusarbréfið 2:10 og útskýrt hvernig hann geti ,prýtt kenningu Guðs frelsara okkar‘ með því að sjá vel um ríkissalinn. Biddu líka nemandann að hugsa um hina öldruðu í söfnuðinum og velta fyrir sér hvernig hann geti verið þeim til aðstoðar ef hann sinnir verkefni sínu vel. Með því að ræða þessi mál við nemandann hjálparðu honum að hugsa frekar um fólk en reglur. Það gleður hann að sjá bræður og systur í söfnuðinum njóta góðs af þeirri þjónustu sem hann lætur í té.
8 Og gleymdu ekki að hrósa nemandanum fyrir að fara eftir leiðbeiningum þínum. Hve miklu máli skiptir það? Einlægt hrós hefur sömu áhrif á nemandann og það hefur á plöntu að vökva hana – hann vex og dafnar. – Samanber Matteus 3:17.
ÖNNUR ÁSKORUN
9. (a) Við hvaða áskorun eiga öldungar í efnameiri löndum stundum að glíma? (b) Hvers vegna er þjónustan við Jehóva ekki í fyrsta sæti hjá sumum ungum bræðrum?
9 Öldungar í efnameiri löndum eiga við aðra áskorun að glíma: að hvetja skírða bræður á þrítugs- og fertugsaldri til að vera vel virkir í starfi safnaðarins. Við spurðum reynda öldunga í um það bil 20 vestrænum löndum hvers vegna þeir teldu að sumir ungir bræður væru tregir til að taka að sér verkefni í söfnuðinum. Algengasta svarið var að sumir foreldrar hafi ekki hvatt syni sína til að setja sér markmið í þjónustu Jehóva meðan þeir voru að alast upp. Í sumum tilfellum höfðu foreldrar hvatt unglinga, sem langaði til að gera meira í þjónustu Jehóva, til að afla sér frekar æðri menntunar eða stefna að starfsframa í heiminum. Þjónustan við Jehóva var aldrei í fyrsta sæti hjá þeim. – Matt. 10:24.
10, 11. (a) Hvernig getur öldungur smám saman hjálpað bróður, sem virðist áhugalítill, að breyta um afstöðu? (b) Hvaða biblíuvers gæti öldungur rætt við slíkan bróður og hvers vegna? (Sjá neðanmálsgrein.)
10 Ef bróðir virðist áhugalítill getur það kostað töluverða vinnu og þolinmæði að hjálpa honum að breyta um hugsunarhátt, en það er samt hægt. Garðyrkjumaður getur rétt smám saman úr plöntu með því að stýra vexti hennar. Þú getur sömuleiðis hjálpað bræðrum smám saman að átta sig á að þeir þurfi að breyta um afstöðu og vera fúsir til að taka að sér verkefni í söfnuðinum. En hvernig?
11 Gefðu þér tíma til að vingast við bróðurinn. Sýndu honum fram á að hann sé söfnuðinum mikilvægur. Notaðu síðan af og til góða stund til að ræða við hann um ákveðin biblíuvers og hjálpa honum að hugsa um vígsluheitið sem hann gaf Jehóva. (Préd. 5:3; Jes. 6:8; Matt. 6:24, 33; Lúk. 9:57-62; 1. Kor. 15:58; 2. Kor. 5:15; 13:5) Þú gætir spurt hann hverju hann hafi lofað Jehóva þegar hann vígðist honum. Reyndu að ná til hjarta hans með því að spyrja: Hvernig heldurðu að Jehóva hafi verið innanbrjósts þegar þú lést skírast? (Orðskv. 27:11) Hvað heldurðu að Satan hafi fundist um það? (1. Pét. 5:8) Þú skalt aldrei vanmeta hve sterk áhrif það getur haft á bróður að lesa vel valin vers í Biblíunni. – Lestu Hebreabréfið 4:12. *
NEMENDUR, VERIÐ ÁREIÐANLEGIR
12, 13. (a) Hvaða hugarfar sýndi Elísa meðan hann var nemandi? (b) Hvernig launaði Jehóva Elísa fyrir trúfesti hans?
12 Þið ungu bræður, söfnuðurinn þarf á kröftum ykkar að halda. Hvaða hugarfar getur hjálpað ykkur að verða að sem mestu gagni í þjónustu Jehóva? Til að svara því skulum við líta á nokkur dæmi úr lífi ungs manns sem fékk kennslu hjá sér eldri manni forðum daga.
13 Það eru næstum 3.000 ár síðan Elía spámaður bauð ungum manni, sem hét Elísa, að verða aðstoðarmaður sinn. Elísa þáði boðið þegar í stað og þjónaði spámanninum dyggilega með því að vinna ýmis hversdagsleg verk fyrir hann. (2. Kon. 3:11) Elía kenndi Elísa í ein sex ár. Þá var að því komið að Elía hætti störfum í Ísrael og hann hvatti aðstoðarmann sinn til að hætta að starfa með sér. En Elísa svaraði þrívegis: ,Ég mun ekki yfirgefa þig.‘ Hann var ákveðinn í að vera eins lengi og hann gæti með læriföður sínum. Jehóva launaði Elísa hollustuna og trúfestina með því að leyfa honum að sjá Elísa halda brott með tilkomumiklum hætti. – 2. Kon. 2:1-12.
14. (a) Hvernig geta nemendur líkt eftir Elísa? (b) Hvers vegna er mikilvægt að nemandi sé áreiðanlegur?
14 Hvernig geturðu líkt eftir Elísa? Með því að taka fúslega að þér verkefni, þar á meðal ýmis hversdagsleg verk. Líttu á kennarann sem vin og segðu honum hve mikils þú metur það sem hann gerir fyrir þig. Með viðbrögðum þínum geturðu efnislega sagt honum: ,Ég mun ekki yfirgefa þig.‘ Umfram allt skaltu sinna öllum verkefnum, sem þú færð, af trúmennsku. Hvers vegna? Þegar þú sýnir að þú sért trúr og áreiðanlegur geta öldungarnir treyst að Jehóva vilji að þér sé trúað fyrir fleiri ábyrgðarstörfum í söfnuðinum. – Sálm. 101:6; lestu 2. Tímóteusarbréf 2:2.
SÝNDU VIÐEIGANDI VIRÐINGU
15, 16. (a) Hvernig sýndi Elísa kennara sínum virðingu? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvað gerði Elísa sem var traustvekjandi fyrir hina spámennina?
15 Frásagan af Elísa, arftaka Elía, ber einnig með sér hvernig bræður geta sýnt reyndum öldungum viðeigandi virðingu. Eftir að þeir Elía og Elísa höfðu heimsótt hóp spámanna í Jeríkó gengu þeir saman niður að Jórdan. „Þá tók Elía skikkju sína, braut hana saman og sló með henni á vatnið. Við það skiptist það“ og þeir gengu þurrum fótum yfir árbotninn. Þeir héldu ferð sinni áfram og ,töluðu saman á göngunni‘. Elísa hugsaði greinilega ekki með sér að hann væri fullnuma. Hann hlustaði vel á hvert orð sem Elía sagði þangað til Elía fór burt í stormviðri. Hann sneri síðan aftur til Jórdanar, sló skikkju Elía á vatnið og kallaði: „Hvar er nú Drottinn, Guð Elía?“ Og vatnið skiptist öðru sinni. – 2. Kon. 2:8-14.
16 Tókstu eftir að fyrsta kraftaverk Elísa var nákvæmlega eins og síðasta kraftaverk Elía? Hvaða máli skiptir það? Elísa hugsaði greinilega ekki sem svo að hann þyrfti að breyta öllu þegar í stað fyrst hann væri núna við stjórnvölinn. Með því að líkja eftir aðferðum Elía sýndi Elísa viðeigandi virðingu fyrir kennara sínum. Það var traustvekjandi fyrir hina spámennina. (2. Kon. 2:15) Elísa var spámaður í 60 ár og með tímanum gaf Jehóva honum mátt til að vinna miklu fleiri kraftaverk en Elía hafið unnið sem spámaður. Hvaða lærdóm geta nemendur dregið af því?
17. (a) Hvernig geta nemendur sýnt sama hugarfar og Elísa? (b) Hvað má vera að Jehóva feli trúum nemendum þegar fram líða stundir?
17 Hugsaðu ekki sem svo að þú þurfir að breyta um stefnu og gerbylta aðferðum um leið og þú færð ábyrgðarstarf í söfnuðinum. Mundu að breytingar eru gerðar í samræmi við þarfir safnaðarins og leiðbeiningar frá deildarskrifstofunni eða hinu stjórnandi ráði, en ekki af því að þig langar til að breyta einhverju. Elísa sýndi forvera sínum virðingu í verki með því að nota sömu aðferðir og hann, og það var traustvekjandi fyrir hina spámennina. Þú ávinnur þér traust trúsystkina þinna og sýnir reyndum öldungum virðingu með því að nota sömu biblíulegu aðferðirnar og þeir. (Lestu 1. Korintubréf 4:17.) Þegar þú verður reyndari áttu eflaust eftir að taka þátt í að gera breytingar sem hjálpa bræðrum þínum og systrum að vera samstíga framsæknum söfnuði Jehóva. Og með tímanum getur vel verið að Jehóva feli ykkur, trúu nemendur, að vinna enn meiri verk en kennarar ykkar unnu, rétt eins og Elísa. – Jóh. 14:12.
18. Hvers vegna er mjög áríðandi að þjálfa bræður í söfnuðunum?
18 Vonandi verða tillögurnar í þessari grein og greininni á undan enn fleiri öldungum hvatning til að gefa sér tíma til að kenna öðrum. Og það er líka von okkar að hæfir bræður þiggi kennsluna fúslega og noti hana vel til að annast sauði Jehóva. Það á eftir að styrkja söfnuðina um allan heim og hjálpa okkur öllum að vera Guði trú á þeim örlagatímum sem eru fram undan.
^ Ef ungur maður sýnir af sér kristinn þroska, er auðmjúkur og uppfyllir hæfniskröfur Biblíunnar að öðru leyti gætu öldungarnir mælt með að hann sé útnefndur safnaðarþjónn þó hann sé enn undir tvítugu. – 1. Tím. 3:8-10, 12; sjá Varðturninn (enska útgáfu) 1. júlí 1989, bls. 29.
^ Þú gætir rætt um efni sem er að finna í Varðturninum 15. apríl 2012, bls. 14-16, gr. 8-13, og í bókinni „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“, 16. kafla, gr. 1-3.