Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hve raunverulegt samband áttu við Jehóva?

Hve raunverulegt samband áttu við Jehóva?

„Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ – JAK. 4:8.

1. Hvers vegna þurfum við að varðveita sterkt samband við Jehóva?

 ERTU vígður og skírður vottur Jehóva? Þá áttu persónulegt samband við Guð og það er einstaklega verðmætt. En þar sem við eigum í glímu bæði við heim Satans og okkar eigin ófullkomleika er hætta á að það geti rofnað. Allir kristnir menn eiga í þessari baráttu. Þess vegna er mikilvægt að samband okkar við Jehóva sé eins sterkt og hægt er.

2. (a) Hvað er fólgið í því að eiga samband við aðra persónu? (Sjá neðanmálsgrein.) (b) Hvernig getum við styrkt samband okkar við Jehóva?

2 Hve raunverulegt finnst þér samband þitt við Jehóva vera? Myndirðu vilja styrkja það? Í Jakobsbréfinu 4:8 kemur fram hvernig við getum gert það: „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ Við tökum eftir að báðir aðilar þurfa að leggja sitt af mörkum. * Þegar við nálægjum okkur Guði nálgast hann okkur á móti. Ef þessi samskipti endurtaka sig oft leiðir það til þess að samband okkar við Jehóva styrkist jafnt og þétt. Þannig getur sambandið við Jehóva orðið mjög náið. Við byggjum upp sams konar traust til Jehóva og Jesús hafði. Hann sagði: „Sá er sannur sem sendi mig og ... ég þekki hann.“ (Jóh. 7:28, 29) En hvað, nákvæmlega, getum við þá gert til að nálægja okkur Jehóva?

Hvernig geturðu átt samskipti við Guð? (Sjá 3. grein.)

3. Hvernig getum við átt samskipti við Jehóva?

3 Til að mynda náin tengsl við Jehóva er mikilvægt að eiga regluleg samskipti við hann. Hvernig geturðu gert það? Hugsaðu málið. Hvernig áttu samskipti við vini sem búa langt í burtu? Þið skrifist líklega á og talið saman í síma, kannski nokkuð oft. Þú talar við Jehóva þegar þú biður til hans. (Lestu Sálm 142:3.) Og þú lætur Jehóva tala við þig þegar þú lest í orði hans, Biblíunni, og hugleiðir efnið. (Lestu Jesaja 30:20, 21.) Skoðum núna hvernig þessi gagnkvæmu samskipti styrkja samband okkar við Jehóva og gera það nánara og raunverulegra.

BIBLÍUNÁM – JEHÓVA TALAR VIÐ ÞIG

4, 5. Hvernig talar Jehóva við þig persónulega fyrir milligöngu Biblíunnar? Lýstu með dæmi.

4 Þú ert eflaust sammála því að Biblían innihaldi boðskap Guðs til mannkynsins í heild. En sýnir hún líka fram á hvernig þú sjálfur getur eignast nánara samband við Jehóva? Vissulega. En hvernig? Þegar þú lest í Biblíunni og skoðar efnið veltu þá fyrir þér hvernig þú bregst við orðum hennar og hvernig þú getur nýtt þér efnið. Þá leyfirðu Jehóva að tala við þig fyrir milligöngu Biblíunnar. Og þannig eignastu nánara samband við hann. – Hebr. 4:12; Jak. 1:23-25.

5 Þú getur til dæmis lesið og hugleitt orð Jesú: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu.“ Ef þér finnst líf þitt nú þegar snúast um þjónustuna við ríki Guðs skynjarðu að Jehóva er að hrósa þér. En kannski áttarðu þig á að þú þarft að einfalda lífið til að geta einbeitt þér betur að þjónustunni við Jehóva. Þá hefur Jehóva vakið athygli þína á ákveðnu sviði þar sem þú getur tekið framförum og styrkt sambandið við hann. – Matt. 6:19, 20.

6, 7. (a) Hvaða áhrif hefur biblíunám á kærleika okkar til Jehóva og hans til okkar? (b) Hvert ætti markmið okkar að vera með biblíunámi?

6 Biblíunám dregur ekki bara fram á hvaða sviðum við getum bætt okkur. Við kynnumst líka betur hvernig Jehóva starfar og elskum hann enn heitar. Því meira sem við elskum Jehóva því meira elskar hann okkur. Og það styrkir samband okkar við hann. – Lestu 1. Korintubréf 8:3.

7 Ef við viljum verða nánari vinir Jehóva er mikilvægt að lesa Biblíuna af réttu tilefni. Í Jóhannesi 17:3 stendur: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ Við ættum því ekki bara að lesa til að fræðast heldur til að „þekkja“ Jehóva og kynnast honum betur sem persónu. – Lestu 2. Mósebók 33:13; Sálm. 25:4.

8. (a) Af hverju gætum við haft áhyggjur þegar við lesum í 2. Konungabók 15:1-5 hvað Jehóva gerði við Asaría konung? (b) Hvers vegna efumst við ekki um að Jehóva geri rétt ef við þekkjum hann vel?

8 Þegar við kynnumst Jehóva nánar látum við það ekki raska ró okkar að lesa frásögur þar sem við skiljum ekki alveg hvers vegna Jehóva gerði það sem hann gerði. Lítum á dæmi. Hvernig bregstu við þegar þú lest hvernig Jehóva tók á málum Asaría Júdakonungs? (2. Kon. 15:1-5) Við lesum að fólkið hafi haldið áfram „að færa sláturfórnir og reykelsisfórnir á hæðunum“ en Asaría sjálfur „gerði það sem rétt var í augum Drottins“. Þrátt fyrir það segir að Jehóva hafi ,lostið konunginn svo að hann var holdsveikur allt til dauðadags‘. Hvers vegna? Því er ekki svarað í frásögunni. Ættum við að hafa áhyggjur af þessu og velta fyrir okkur hvort Jehóva hafi refsað Asaría að tilefnislausu? Ekki ef við þekkjum Jehóva vel. Þá vitum við að hann refsar alltaf „við hæfi“. (Jer. 30:11) Ef við þekkjum Jehóva vel erum við sannfærð um að dómur hans hafi verið réttlátur þó að við vitum ekki hvers vegna hann gerði það sem hann gerði við Asaría.

9. Hvað varpar ljósi á ástæðuna fyrir því að Jehóva lét Asaría verða holdsveikan?

9 Í þessu tilviki fáum við reyndar að vita meira annars staðar í Biblíunni. Asaría konungur var einnig þekktur undir nafninu Ússía. (2. Kon. 15:7, 32) Í hliðstæðri frásögu í 2. Kroníkubók 26:3-5, 16-21 kemur fram að hann hafi verið Jehóva trúr framan af. En síðar „varð hann svo hrokafullur að hann vann óhæfuverk“. Hann ætlaði sér að vinna verk sem hann hafði ekki umboð til heldur var í verkahring presta. Hópur presta, alls 81, tók sér þá stöðu gegn honum og reyndi að telja honum hughvarf. Hvernig brást Ússía við? Hann sýndi greinilega hve hrokafullur hann var orðinn og reiddist prestunum. Það er engin furða að Jehóva skyldi refsa honum með holdsveiki.

10. Hvers vegna ættum við ekki alltaf að þurfa skýringar á því sem Jehóva gerir og hvernig byggjum við upp það traust að hann sé alltaf réttlátur?

10 Hvað getum við samt lært af þessu dæmi? Hugsum okkur að engar nánari upplýsingar hafi verið gefnar í Biblíunni, eins og raunin er í mörgum stuttum frásögum hennar. Hefðirðu tilhneigingu til að véfengja að Jehóva hafi gert rétt? Eða myndirðu hugsa sem svo að við fáum nægar upplýsingar í Biblíunni til að vera viss um að Jehóva geri alltaf rétt og sé í rauninni mælikvarðinn á rétt og rangt? (5. Mós. 32:4) Með tímanum kynnumst við Jehóva svo vel að við þurfum ekki að fá skýringar á öllum smáatriðum. Við elskum hann og vitum að allt sem hann gerir er gott. Þú mátt vera viss um að þegar þú leggur þig fram við að lesa og hugleiða það sem Jehóva segir í orði sínu áttu eftir að elska hann enn meir. (Sálm. 77:13, 14) Það styrkir síðan sambandið við Jehóva og hann verður þér enn raunverulegri.

BÆN – ÞÚ TALAR VIÐ JEHÓVA

11-13. Hvernig veistu að Jehóva heyrir bænir? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

11 Við nálægjum okkur Jehóva þegar við biðjum. Þá lofum við hann, þökkum honum og leitum leiðsagnar hans. (Sálm. 32:8) En ef við viljum að Jehóva sé okkur raunverulegur þurfum við að vera sannfærð um að hann heyri bænir okkar.

12 Sumir telja að bænir hafi aðeins sálfræðilegt gildi. Þeir halda því fram að þegar manni finnst maður hafa fengið bænheyrslu sé það bara af því að maður kom orðum að hugsun sinni, skilgreindi vandamálið og ákvað að leysa það. En hvernig vitum við að þetta er ekki eina gagnið sem við höfum af því að biðja heldur að Jehóva heyrir bænir í raun og veru?

13 Áður en Jesús kom til jarðar hafði hann fylgst með hvernig Jehóva svaraði bænum þjóna sinna á jörð. Meðan hann var sjálfur á jörð var bænin sú leið sem hann notaði til að tjá föður sínum á himnum tilfinningar sínar. Hefði hann gert það – og jafnvel beðið heila nótt – ef hann hefði haldið að Jehóva væri eiginlega ekki að hlusta? (Lúk. 6:12; 22:40-46) Hefði hann kennt lærisveinum sínum að biðja ef hann hefði haldið að bænir væru bara einhvers konar hækja? Jesús vissi greinilega að hann var að tala við Jehóva í raun og veru þegar hann bað. Eitt sinn sagði hann: „Faðir, ég þakka þér að þú hefur bænheyrt mig. Ég vissi að sönnu að þú heyrir mig ávallt.“ Við getum haft þetta sama traust, að Jehóva ,heyri bænir‘. – Jóh. 11:41, 42; Sálm. 65:3.

14, 15. (a) Hvernig er það okkur til góðs að biðja markvissar bænir? (b) Hvernig styrktu bænir systur einnar samband hennar við Jehóva?

14 Ef þú ert markviss þegar þú biður bænir tekurðu betur eftir þegar Jehóva svarar þeim, jafnvel þó að bænheyrslan sé ekki svo augljós. Þá verður Jehóva líka raunverulegri fyrir þér. Og því oftar sem þú tjáir Jehóva innstu tilfinningar þínar því meira nálgast hann þig.

15 Sjáum hvað Kathy segir um það. * Hún tók reglulega þátt í boðuninni en hafði ekki gaman af. Hún segir: „Mér fannst ekki gaman í starfinu. Ég á við að ég hafði enga ánægju af því. Þegar ég fór á eftirlaun talaði öldungur við mig og sagðist vona að ég gæti orðið brautryðjandi. Hann gaf mér meira að segja umsókn. Ég ákvað að gerast brautryðjandi en ég bað líka Jehóva á hverjum degi að hjálpa mér að hafa gaman af boðuninni.“ Bænheyrði Jehóva hana? Hún segir: „Þetta er þriðja árið sem ég er brautryðjandi. Þar sem ég hef notað meiri tíma í starfinu og lært margt af trúsystrum hefur mér farið fram við boðunina. Núna hef ég ekki bara ánægju af boðuninni, ég hef yndi af henni. Auk þess hef ég eignast miklu nánara samband við Jehóva en ég hafði áður.“ Samband Kathyjar við Jehóva varð miklu raunverulegra vegna bæna hennar.

LEGGJUM OKKAR AF MÖRKUM

16, 17. (a) Hvað þurfum við að gera til að viðhalda sambandinu við Jehóva og styrkja það jafnt og þétt? (b) Hvað getur reynt sérstaklega á sambandið við Jehóva?

16 Við þurfum að vinna að því alla ævi að styrkja sambandið við Jehóva. Við verðum að leggja okkar af mörkum ef við viljum að hann nálgist okkur á móti. Við skulum því fyrir alla muni halda reglulegu sambandi við Guð með biblíunámi og bænum. Þegar sambandið við Jehóva styrkist jafnt og þétt hjálpar það okkur að takast á við hverjar þær raunir sem verða á vegi okkar.

Við þurfum að vinna að því alla ævi að styrkja sambandið við Jehóva. (Sjá 16. og 17. grein.)

17 Það getur þó reynt mikið á þegar erfiðleikar okkar leysast ekki þrátt fyrir einlægar bænir. Á slíkum stundum gætu sótt á okkur efasemdir um sambandið við Jehóva. Við veltum kannski fyrir okkur hvort Jehóva hlusti virkilega á bænir okkar eða hvort hann telji sig yfirleitt eiga samband við okkur. Hvernig getum við komist í gegnum slíka erfiðleika án þess að fara að efast um að sambandið við Jehóva sé raunverulegt? Um það er rætt í næstu grein.

^ Samband tveggja einstaklinga byggist á því hvað þeim finnst hvorum um annan og hvernig þeir koma fram hvor við annan. Báðir eiga því hlut að máli.

^ Nafninu er breytt.