Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Treystum alltaf á Jehóva

Treystum alltaf á Jehóva

„Þjóð, treyst honum ávallt.“ – SÁLM. 62:9.

1-3. Hvernig fékk Páll enn meira traust á Jehóva? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

 ÞAÐ voru hættulegir tímar fyrir kristna menn í Róm. Þeir voru sakaðir um að hafa kveikt í borginni árið 64 og vera mannhatarar. Fylgjendur Krists urðu fyrir hatrömmum ofsóknum. Ef þú hefðir verið uppi á þeim tíma hefðirðu stöðugt átt á hættu að vera handtekinn og pyndaður. Sum trúsystkini þín höfðu kannski verið rifin sundur af villidýrum eða negld á staur og brennd lifandi til að lýsa upp náttmyrkrið.

2 Það var líklega á þessum róstutímum sem Páll postuli var hnepptur í fangelsi í Róm í annað sinn. Myndu trúsystkini hans koma honum til hjálpar? Til að byrja með virðist Páll hafa haft vissar áhyggjur, því að hann skrifaði Tímóteusi: „Í fyrstu málsvörn minni kom enginn mér til aðstoðar heldur yfirgáfu mig allir. Verði þeim það ekki tilreiknað.“ Þrátt fyrir það segir Páll að hann hafi ekki verið algerlega yfirgefinn. Hann skrifaði: „En Drottinn stóð með mér og veitti mér kraft.“ Já, Drottinn Jesús veitti Páli þann kraft sem hann þurfti. Hversu mikið gagn var í þessari hjálp? Páll segir: „Ég varð frelsaður úr gini ljónsins.“ – 2. Tím. 4:16, 17. *

3 Það hlýtur að hafa styrkt Pál að rifja þetta upp. Það hefur eflaust hjálpað honum að treysta að Jehóva myndi veita honum kraft til að standast alla erfiðleika, bæði yfirstandandi og ókomna. Hann sagði í beinu framhaldi: „Drottinn mun frelsa mig frá öllu illu.“ (2. Tím. 4:18) Páll hafði greinilega lært að Jehóva og sonur hans veita raunverulega hjálp jafnvel þó að takmarkaða aðstoð sé að fá frá mönnum.

TÆKIFÆRI TIL AÐ TREYSTA JEHÓVA

4, 5. (a) Hver getur alltaf veitt þér þá aðstoð sem þú þarft? (b) Hvernig geturðu styrkt sambandið við Jehóva?

4 Hefur þér stundum fundist þú standa aleinn í baráttunni við erfiðleika? Kannski hefurðu verið atvinnulaus, skólafélagar hafa þrýst á þig eða þú hefur átt við heilsuvandamál að stríða eða aðrar erfiðar aðstæður. Ef til vill baðstu einhverja um aðstoð en varðst fyrir vonbrigðum þegar þú uppgötvaðir að þar var litla hjálp að fá. Og sannleikurinn er reyndar sá að menn geta ekki leyst öll vandamál. Eru þá ráð Biblíunnar að treysta Jehóva bara orðin tóm við slíkar aðstæður? (Orðskv. 3:5, 6) Eru þau gagnslaus? Alls ekki. Hjálpin frá Jehóva er raunveruleg eins og sjá má af mörgum frásögum Biblíunnar.

5 Það er hægur vandi að verða bitur þegar fólk bregst vonum okkar. En það er miklu betra að líta á málið eins og Páll postuli gerði – sem tækifæri til að treysta Jehóva að öllu leyti og finna fyrir ást hans og umhyggju. Það styrkir traust þitt til hans og þú eignast enn raunverulegra samband við hann.

VIÐ VERÐUM AÐ TREYSTA GUÐI TIL AÐ EIGA GOTT SAMBAND VIÐ HANN

6. Hvers vegna getur okkur fundist sérstaklega erfitt að treysta Jehóva undir álagi?

6 Geturðu lagt íþyngjandi vandamál fyrir Jehóva í bæn og síðan fundið fyrir innri friði, vitandi að þú hefur gert það sem er á þínu valdi og að hann sjái um framhaldið? Já. (Lestu Sálm 62:9; 1. Pétursbréf 5:7.) Það mikilvægt að læra þetta ef maður vill eignast gott samband við Jehóva. Okkur getur samt fundist erfitt að treysta að Jehóva sjái fyrir því sem við þurfum. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að Jehóva svarar ekki alltaf bænum okkar strax. – Sálm. 13:2, 3; 74:10; 89:47; 90:13; Hab. 1:2.

7. Hvers vegna verður Jehóva ekki alltaf við bænum okkar samstundis?

7 Hvers vegna svarar Jehóva ekki öllum bænum okkar samstundis? Höfum í huga að hann líkir sambandi okkar við sig við samband barns og föður. (Sálm. 103:13) Barn getur ekki ætlast til að foreldrarnir geri alltaf það sem það biður um né að þeir geri það strax. Börn geta ekki fengið allt sem þeim dettur í hug. Og sumt þarf líka að bíða þangað til það er tímabært. Annað er ekki einu sinni gott fyrir barnið eða aðra sem hlut eiga að máli. Ef foreldrar gæfu barninu strax allt sem það bæði um myndi sambandið verða eins og milli húsbónda og þræls. Og barnið yrði húsbóndinn. Jehóva bíður líka stundum um tíma með að svara bænum okkar af því að það er okkur fyrir bestu. Það er réttur hans þar sem hann er alvitur skapari okkar, kærleiksríkur húsbóndi og himneskur faðir. Ef hann uppfyllti allar óskir okkar þegar í stað yrði sambandið milli okkar og hans óheilbrigt. – Samanber Jesaja 29:16; 45:9.

8. Hverju lofar Jehóva þar sem hann veit hvað við þolum?

8 Annað sem við ættum að hafa í huga er að Jehóva veit vel af takmörkum okkar. (Sálm. 103:14) Hann ætlast því ekki til að við stöndumst í eigin krafti heldur býður okkur hjálp eins og góður faðir. Auðvitað finnst okkur stundum að við getum ekki meir. En Jehóva fullvissar okkur um að hann leyfi aldrei að þjónar sínir þjáist meira en þeir ráða við. Hann sér okkur fyrir undankomuleið. (Lestu 1. Korintubréf 10:13.) Við getum því treyst að Jehóva viti nákvæmlega hve mikið við þolum.

9. Hvað eigum við að gera þegar við biðjum Jehóva um hjálp en fáum ekki bænheyrslu strax?

9 Þegar við biðjum Jehóva um hjálp en fáum ekki bænheyrslu strax skulum við bíða þolinmóð þar sem hann veit hvenær rétti tíminn er til að skerast í leikinn. Munum að Jehóva er mikið í mun að koma okkur til hjálpar svo að hann þarf sjálfur að vera þolinmóður. „Því bíður Drottinn þess að sýna yður náð, þess vegna rís hann upp til að miskunna yður, því að Drottinn er Guð réttlætisins. Sælir eru þeir sem á hann vona.“ – Jes. 30:18.

„ÚR GINI LJÓNSINS“

10-12. (a) Hvaða vanda geta þjónar Guðs átt í sem annast langveika ástvini? (b) Hvaða áhrif hefur það á sambandið við Jehóva að treysta honum þegar við eigum í miklum raunum? Skýrðu með dæmi.

10 Þegar við eigum í miklum raunum getur okkur liðið eins og Páli – að við séum í „gini ljónsins“ eða að minnsta kosti mjög nærri því. Það er þá sem erfiðast er að treysta Jehóva en jafnframt mikilvægast. Þú gætir þurft að annast ástvin sem á við langvinn veikindi að stríða. Þú hefur eflaust beðið Jehóva að gefa þér visku og styrk. * Þegar þú hefur gert allt sem þú getur finnurðu örugglega fyrir innri friði því að þú veist að Jehóva vakir yfir þér og veitir þér það sem þú þarft til að halda út og vera trúr. – Sálm. 32:8.

11 Það lítur þó kannski ekki þannig út. Læknar gætu gefið þér ólík ráð um hvað eigi að gera. Ættingjar, sem þú hélst að mundu styðja þig, virðast bara gera þér erfiðara fyrir. Haltu samt áfram að leita styrks hjá Jehóva. Nálægðu þig honum. (Lestu 1. Samúelsbók 30:3, 6.) Sambandið við hann styrkist þegar þú sérð hvernig hann liðsinnir þér.

12 Linda * kynntist þessu af eigin raun þegar hún annaðist aldraða og lasburða foreldra sína síðustu árin sem þau lifðu. „Við maðurinn minn og bróðir vorum oft í vafa um hvað við áttum að gera. Við vorum stundum alveg ráðþrota. En þegar við hugsum til baka sjáum við samt betur hvernig Jehóva var með okkur. Hann styrkti okkur og gaf okkur það sem við þurftum jafnvel þegar við vorum ráðalaus.“

13. Hvernig reyndist það mikil hjálp fyrir systur nokkra að treysta Jehóva þegar mikla erfiðleika bar að garði?

13 Það er ómetanleg hjálp að treysta Jehóva skilyrðislaust þegar harmleik ber að garði. Rhonda fann fyrir því þegar eiginmaður hennar, sem er ekki vottur, sótti um skilnað og bróðir hennar greindist með rauða úlfa sem getur verið banvænn sjúkdómur. Nokkrum mánuðum síðar dó mágkona hennar. Þegar Rhondu fannst hún vera að ná sér eftir þessi áföll gerðist hún brautryðjandi. Fljótlega eftir það dó mamma hennar. Hvernig komst Rhonda í gegnum þessa erfiðleika? „Ég talaði við Jehóva á hverjum degi, jafnvel um smávægilegar ákvarðanir,“ segir hún. „Ég fann vel fyrir nálægð Jehóva. Þetta kenndi mér að treysta á hann en ekki á sjálfa mig eða jafnvel annað fólk. Og hjálpin sem ég fékk var raunveruleg, hann sá fyrir öllum þörfum mínum. Ég fann hvernig það var að vinna náið með Jehóva.“

Við getum orðið fyrir erfiðleikum, jafnvel í fjölskyldunni, sem reyna á sambandið við Jehóva. (Sjá 14.-16. grein.)

14. Hverju getum við treyst ef ættingja er vikið úr söfnuðinum?

14 Hugsum okkur aðrar aðstæður. Segjum sem svo að nákomnum ættingja sé vikið úr söfnuðinum. Af biblíunámi þínu veistu hvernig á að koma fram við þá sem vikið er úr söfnuðinum. (1. Kor. 5:11; 2. Jóh. 10) Það getur samt virst mjög erfitt eða jafnvel ómögulegt að styðja úrskurðinn. * Geturðu treyst himneskum föður þínum til að gefa þér þann styrk sem þarf til að hlýða fyrirmælum Biblíunnar um framkomu við þá sem vikið er úr söfnuðinum? Sérðu hvernig þessi staða getur gefið þér tækifæri til að styrkja sambandið við Jehóva?

15. Hvers vegna óhlýðnaðist Adam fyrirmælum Jehóva í Eden?

15 Í þessu samhengi skulum við hugsa aðeins um fyrsta manninn, Adam. Trúði hann því í rauninni að hann gæti lifað áfram þótt hann óhlýðnaðist Jehóva? Nei, því að Biblían segir: „Adam lét ekki tælast.“ (1. Tím. 2:14) Af hverju óhlýðnaðist hann þá? Ástæðan fyrir því að hann át af ávextinum, sem Eva bauð honum, hlýtur að hafa verið sú að hann hafði löngun til konunnar sinnar. Hann hlustaði á hana í stað þess að hlusta á Jehóva, Guð sinn. – 1. Mós. 3:6, 17.

16. Hvern eigum við að elska meira en nokkurn annan og hvers vegna?

16 Gefur þetta til kynna að við eigum ekki að láta okkur innilega annt um ættingja okkar? Auðvitað ekki. En við ættum að elska Jehóva meira en nokkurn annan. (Lestu Matteus 22:37, 38.) Það er líka ættingjum okkar fyrir bestu, hvort sem þeir þjóna Jehóva eða ekki um þessar mundir. Haltu því áfram að glæða kærleikann til Jehóva og styrkja traust þitt til hans. Og ef það fær sérstaklega á þig hvaða stefnu ættingi hefur tekið sem vikið hefur verið úr söfnuðinum skaltu úthella hjarta þínu í bæn til Jehóva. * (Rómv. 12:12; Fil. 4:6, 7) Nýttu þér þessar dapurlegu aðstæður til að eignast enn nánara samband við Jehóva. Það hjálpar þér síðan að leita til hans í trausti þess að allt fari á besta veg.

MEÐAN VIÐ BÍÐUM

Sýndu að þú treystir Jehóva með því að vera önnum kafinn í þjónustu hans. (Sjá 17. grein.)

17. Hverju getum við treyst ef við höldum okkur uppteknum við boðunina?

17 Í hvaða tilgangi var Páll „frelsaður úr gini ljónsins“? Hann segir: „Til þess að ég yrði til að fullna prédikunina og allar þjóðir fengju að heyra.“ (2. Tím. 4:17) Ef við höldum okkur uppteknum við boðunina, eins og Páll, treystum við að Jehóva sjái til þess að við fáum það sem við þurfum að auki. (Matt. 6:33) Okkur hefur verið trúað fyrir að boða fagnaðarerindið og Jehóva lítur á okkur sem „samverkamenn“ sína. (1. Þess. 2:4; 1. Kor. 3:9) Að vera önnum kafin í starfi Guðs auðveldar okkur að bíða eftir bænheyrslu.

18. Hvernig getum við styrkt traust okkar til Jehóva og sambandið við hann?

18 Við ættum að nota tímann núna til að styrkja samband okkar við Guð. Ef við erum kvíðin og áhyggjufull út af einhverju skulum við líta á það sem tækifæri til að nálægja okkur Jehóva. Sökktu þér niður í orð Guðs, biddu oft til hans og vertu önnum kafinn í þjónustu hans. Ef þú gerir það geturðu treyst að Jehóva hjálpi þér í gegnum alla erfiðleika, bæði núna og í framtíðinni.

^ Þegar Páll talar um að hafa verið bjargað „úr gini ljónsins“ getur það hafa verið í bókstaflegri merkingu eða táknrænni.

^ Birtar hafa verið greinar sem hjálpa þjónum Guðs að takast á við veikindi og annast sjúka. Sjá Vaknið! (erlendar útgáfur) 8. febrúar 1994; 8. febrúar 1997; 22. maí 2000; og 22. janúar 2001.

^ Nöfnum er breytt.

^ Birtar hafa verið greinar til að hjálpa trúum þjónum Guðs þegar náinn ættingi snýr baki við Jehóva. Sjá Varðturninn 1. febrúar 2007, bls. 8-12 og erlendar útgáfur blaðsins 15. janúar 2007, bls. 17-20.