Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hugleiðum kærleika Jehóva sem aldrei bregst

Hugleiðum kærleika Jehóva sem aldrei bregst

„Ég vil hugleiða öll þín verk.“ – SÁLM. 77:13.

SÖNGVAR: 18, 61

1, 2. (a) Hvað sannfærir þig um að Jehóva elski þjóna sína? (b) Með hvaða þörf eru allir menn skapaðir?

 HVAÐ sannfærir þig um að Jehóva elski þjóna sína? Áður en þú svarar skaltu hugleiða þessi dæmi: Trúsystkini Taylene hvöttu hana hlýlega um árabil að gæta jafnvægis og gera ekki of miklar kröfur til sjálfrar sín. Hún segir: „Ef Jehóva elskaði mig ekki hefði hann ekki ítrekað ráð sín svona oft.“ Brigitte ól upp tvö börn á eigin spýtur eftir að hafa misst manninn sinn. Hún segir: „Það er gífurleg áskorun að ala upp börn í heimi Satans, sérstaklega fyrir einstæða foreldra. En ég er sannfærð um að Jehóva elski mig því að hann hefur hjálpað mér í gegnum tár og trega. Hann leyfði aldrei að ég gengi í gegnum meira en ég gat þolað.“ (1. Kor. 10:13) Sandra á í baráttu við ólæknandi sjúkdóm. Eitt sinn á umdæmismóti sýndi eiginkona þekkts bróður henni persónulegan áhuga. Eiginmaður Söndru segir: „Þótt við þekktum hana ekki snerti það okkur djúpt að finna fyrir umhyggju hennar. Jafnvel fáein orð eða lítil kærleiksverk frá trúsystkinum sýna mér hve heitt Jehóva elskar okkur.“

2 Mennirnir voru skapaðir með þörf til að elska og vera elskaðir. Það er auðvelt að missa móðinn sökum óvæntra atburða í lífi okkar, vonbrigða, heilsumissis eða fjárhagserfiðleika, eða ef illa gengur í boðuninni. Okkur gæti fundist að Jehóva elski okkur ekki lengur. Ef okkur líður þannig þurfum við að muna að við erum verðmæt í hans augum, að hann er með okkur, ,heldur í hægri hönd okkar‘ og hjálpar okkur. Hann gleymir okkur aldrei ef við erum honum trúföst. – Jes. 41:13; 49:15.

3. Hvað getur styrkt sannfæringu okkar um að kærleikur Jehóva til okkar bregðist ekki?

3 Þau sem vitnað var í hér á undan voru sannfærð um að Guð væri með þeim á erfiðum tímum. Við getum líka verið viss um að hann standi með okkur. (Sálm. 118:6, 7) Í þessari grein er athyglinni beint að því hvernig kærleikur Guðs birtist í (1) sköpunarverkinu, (2) innblásnu orði hans, (3) bæninni og (4) lausnargjaldinu. Ef við hugleiðum það góða, sem Jehóva hefur gert, er nokkuð víst að við verðum þakklátari fyrir kærleika hans sem aldrei bregst. – Lestu Sálm 77:12, 13.

HUGLEIÐUM SKÖPUNARVERK JEHÓVA

4. Hvað getum við lært af því að hugleiða sköpunarverk Jehóva?

4 Getum við séð óbrigðulan kærleika Jehóva til okkar í því sem hann hefur skapað? Já, við getum það. Það eitt að Guð hófst handa við að skapa er merki um kærleika hans. (Rómv. 1:20) Hann hannaði jörðina með vistkerfi sem gerir okkur kleift að lifa og hrærast í öruggu umhverfi. En hann vill ekki bara að við séum til. Við þurfum að borða til að viðhalda lífinu. Jehóva sá til þess að jörðin gæfi af sér ógrynni af fjölbreyttri fæðu. Hann gerði okkur meira að segja þannig úr garði að við njótum þess að borða. (Préd. 9:7) Systir í Kanada, sem heitir Catherine, hefur mikla ánægju af því að virða fyrir sér sköpunarverkið, sérstaklega þegar tekur að vora. Hún segir: „Það er undursamlegt hvernig allt lifnar við – blómin sem eru hönnuð til að spretta upp úr jörðinni og farfuglarnir sem snúa aftur, þar á meðal agnarsmáu kólibrífuglarnir sem rata á fuglahúsið fyrir utan eldhúsgluggann minn. Jehóva hlýtur að elska okkur fyrst hann veitir okkur svona mikla ánægju.“ Kærleiksríkur faðir okkar á himnum hefur yndi af sköpunarverki sínu og vill að við njótum þess líka. – Post. 14:16, 17.

5. Hvernig eru mennirnir úr garði gerðir og hvernig vitnar það um kærleika Jehóva?

5 Jehóva áskapaði okkur hæfileikann til að vinna innihaldsrík og gefandi störf sem auka ánægju okkar í lífinu. (Préd. 2:24) Hann gaf mönnunum það verkefni að fylla jörðina, gera sér hana undirgefna og ríkja yfir fiskunum, fuglunum og öllum öðrum dýrum. (1. Mós. 1:26-28) Jehóva sýndi okkur líka þann mikla kærleika að skapa okkur með eiginleika sem gera okkur kleift að líkja eftir honum. – Ef. 5:1.

METUM ORÐ GUÐS AÐ VERÐLEIKUM

6. Hvers vegna ættum við að vera þakklát fyrir orð Guðs?

6 Guð hefur sýnt okkur ómældan kærleika með því að gefa okkur innblásið orð sitt, Biblíuna. Hún opinberar okkur það sem við þurfum að vita um hann og hvernig hann hugsar um okkur mennina. Í Biblíunni er til að mynda sagt frá samskiptum Guðs við Ísraelsmenn sem óhlýðnuðust honum hvað eftir annað. Í Sálmi 78:38 segir: „Hann er miskunnsamur, fyrirgefur misgjörðir og eyðir þeim ekki. Oft stillir hann reiði sína, heldur aftur af bræði sinni.“ Með því að hugleiða þetta vers geturðu fundið að Jehóva elskar þig og er innilega annt um þig. Þú mátt treysta því að Jehóva beri umhyggju fyrir þér. – Lestu 1. Pétursbréf 5:6, 7.

7. Hvers vegna ættum við að meta Biblíuna mikils?

7 Við ættum að meta Biblíuna að verðleikum vegna þess að það er aðallega með henni sem Guð á samskipti við okkur. Innileg og innihaldsrík samskipti milli foreldra og barna eru grundvöllurinn að gagnkvæmu trausti og styrkja kærleiksböndin. Hvers megum við þá vænta af Jehóva? Við höfum aldrei séð hann né heyrt rödd hans en hann „talar“ samt til okkar í innblásnu orði sínu, og við þurfum að hlusta. (Jes. 30:20, 21) Jehóva þráir að leiðbeina okkur, vígðum þjónum sínum, og vernda okkur gegn því sem gæti skaðað okkur. Hann vill líka að við þekkjum sig og treystum á sig. – Lestu Sálm 19:8-12; Orðskviðina 1:33.

Þó að Jehú þyrfti að leiðrétta Jósafat konung sá Jehóva „ýmislegt gott“ í fari konungsins. (Sjá 8. og 9. grein.)

8, 9. Hvað vill Jehóva að við vitum? Lýstu með dæmi úr Biblíunni.

8 Jehóva vill að við vitum að hann elskar okkur og horfir fram hjá ófullkomleika okkar. Hann leitar að því góða í fari okkar. (2. Kron. 16:9) Við sjáum það til dæmis af samskiptum hans við Jósafat Júdakonung. Jósafat fór eitt sinn óviturlega að ráði sínu og samþykkti að fylgja Akab Ísraelskonungi í herför gegn Sýrlendingum til að endurheimta Ramót í Gíleað. Þó að 400 falsspámenn fullvissuðu hinn illa Akab um sigur spáði Míka, sannur spámaður Jehóva, að hann myndi bíða ósigur. Akab beið bana í bardaganum og Jósafat komst naumlega lífs af. Þegar Jósafat kom aftur til Jerúsalem var hann ávíttur fyrir að leggja Akab lið. Þrátt fyrir það sagði sjáandinn Jehú Hananíson við Jósafat: ,Ýmislegt gott hefur fundist í fari þínu.‘ – 2. Kron. 18:4, 5, 18-22, 33, 34; 19:1-3.

9 Snemma á stjórnartíð sinni hafði Jósafat sent embættismenn, Levíta og presta til allra borga Júda til að kenna þegnunum lög Jehóva. Þetta hafði svo mikil áhrif að fólk af þjóðunum í kring fór að óttast Jehóva. (2. Kron. 17:3-10) Jósafat hafði vissulega farið illa að ráði sínu en Jehóva lokaði ekki augunum fyrir því góða sem hann hafði gert áður. Þessi frásaga Biblíunnar minnir okkur á að þrátt fyrir ófullkomleika okkar sýnir Jehóva okkur óbrigðulan kærleika ef við leitumst heilshugar við að þóknast honum.

VERUM ÞAKKLÁT FYRIR BÆNINA

10, 11. (a) Af hverju er bænin einstök gjöf frá Jehóva? (b) Hvernig gæti Guð svarað bænum okkar? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

10 Umhyggjusamur faðir tekur sér tíma til að hlusta á börnin sín þegar þau vilja tala við hann. Honum er innilega annt um þau og vill því vita hvað þeim býr í brjósti. Jehóva, faðir okkar á himnum, sýnir okkur þann mikla heiður að hlusta á okkur þegar við leitum til hans í bæn.

11 Við getum leitað til Jehóva í bæn hvenær sem er. Fyrir því eru engin takmörk. Hann er vinur okkar og er alltaf reiðubúinn að hlusta. Taylene, sem vitnað var í fyrr í greininni, segir: „Maður getur sagt honum hvað sem er.“ Þegar við tjáum Guði innstu hugsanir okkar getur hann svarað okkur með versum í Biblíunni, grein í blöðunum okkar eða hvetjandi orðum bróður eða systur. Jehóva hlustar á einlægar beiðnir okkar og skilur okkur, jafnvel þegar enginn annar gerir það. Svör Jehóva við bænum okkar er falleg birtingarmynd kærleika hans sem aldrei bregst.

12. Hvers vegna ættum við að skoða vandlega bænir sem eru skráðar í Biblíunni? Nefndu dæmi.

12 Við getum lært margt af bænum sem eru skráðar í orði Guðs. Það gæti því verið mjög gagnlegt öðru hverju að taka fyrir einhverjar af þessum bænum í tilbeiðslustund fjölskyldunnar. Við getum ef til vill auðgað okkar eigin bænir með því að hugleiða hvernig þjónar Jehóva fyrr á tímum tjáðu Guði sínar innstu hugsanir. Þú gætir til dæmis skoðað iðrunarfulla bæn Jónasar í kviði stórfisksins. (Jónas 2:1-11) Rifjaðu upp einlæga bæn Salómons til Jehóva við vígslu musterisins. (1. Kon. 8:22-53) Hugleiddu faðirvorið sem Jesús kenndi okkur. (Matt. 6:9-13) Umfram allt skaltu venja þig á að ,gera í öllum hlutum óskir þínar kunnar Guði‘. Þá mun ,friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, varðveita hjarta þitt og hugsanir þínar‘. Þannig mun þakklæti okkar fyrir óbrigðulan kærleika Jehóva aukast. – Fil. 4:6, 7.

SÝNUM ÞAKKLÆTI FYRIR LAUSNARGJALDIÐ

13. Hvað stendur mönnunum til boða vegna lausnargjaldsins?

13 Lausnarfórn Jesú var óverðskulduð gjöf frá Jehóva sem veitir okkur möguleika á eilífu lífi. (1. Jóh. 4:9) Páll postuli skrifaði um þetta óviðjafnanlega kærleiksverk Guðs: „Kristur [dó] á settum tíma fyrir óguðlega. Varla gengur nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann. Fyrir góðan mann kynni einhver ef til vill að vilja deyja. En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Rómv. 5:6-8) Lausnarfórnin er mesta kærleiksverk Jehóva. Hún gerir mönnunum kleift að eiga náið samband við hann.

14, 15. Hvaða þýðingu hefur lausnargjaldið fyrir (a) andasmurða þjóna Guðs? (b) þá sem hafa jarðneska von?

14 Fámennur hópur finnur fyrir kærleika Jehóva á sérstakan hátt. (Jóh. 1:12, 13; 3:5-7) Þeir sem tilheyra honum hafa verið smurðir heilögum anda og eru því „Guðs börn“. (Rómv. 8:15, 16) Páll segir að hinir andasmurðu hafi verið ,reistir upp með Kristi Jesú og búinn staður hjá honum í himinhæðum‘. (Ef. 2:6) Hvers vegna kemst Páll þannig að orði fyrst sumir þeirra eru enn á jörð? Þeir hafa þessa andlegu stöðu þar sem þeir hafa verið ,merktir innsigli heilags anda sem þeim var fyrirheitið. Hann er pantur arfleifðar þeirra,‘ það er að segja ,vonarinnar um það sem þeir eiga geymt í himnunum‘. – Ef. 1:13, 14; Kól. 1:5.

15 Langflestum sem trúa á lausnargjaldið stendur til boða að vera vinir Jehóva með von um að vera ættleiddir sem börn hans og lifa að eilífu í paradís á jörð. Lausnargjaldið er því merki um kærleika Jehóva til allra manna. (Jóh. 3:16) Ef við vonumst til að lifa að eilífu á jörð og höldum áfram að þjóna Jehóva trúfastlega getum við treyst því að hann veiti okkur hamingjuríkt líf í nýja heiminum. Það á því vel við að við lítum á lausnargjaldið sem skýrasta merki þess að Guð beri óbrigðulan kærleika til okkar.

SÝNUM AÐ VIÐ ELSKUM JEHÓVA

16. Hvaða áhrif hefur það á okkur að hugleiða kærleikann sem Jehóva hefur sýnt okkur?

16 Kærleikur Jehóva birtist á fleiri vegu en við getum tölu á komið. Sálmaskáldið Davíð söng: „Guð, hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, hversu stórfenglegur er fjöldi þeirra. Ef ég vildi telja þær væru þær fleiri en sandkornin.“ (Sálm. 139:17, 18) Þegar við hugleiðum kærleika Jehóva vaknar með okkur löngun til að endurgjalda hann. Við skulum því gera okkar allra besta í þjónustunni við Jehóva.

17, 18. Hvernig getum við sýnt að við elskum Guð?

17 Við getum sýnt á marga vegu að við elskum Jehóva. Við sýnum til dæmis kærleika til Guðs og til náungans með því að taka dyggan þátt í að boða ríki Guðs. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Við sýnum að við elskum Jehóva heitt með því að standast prófraunir og reynast honum trúföst. (Lestu Sálm 84:12; Jakobsbréfið 1:2-5.) Ef við eigum við miklar raunir að etja getum við verið viss um að Guð taki eftir þjáningum okkar. Hann vill hjálpa okkur því að við erum honum mikils virði. – Sálm. 56:9.

18 Kærleikur okkar til Jehóva fær okkur til að hugleiða sköpunarverkið og önnur undursamleg verk hans. Við sýnum að við elskum hann og metum orð hans að verðleikum með því að vera iðnir biblíunemendur. Við biðjum oft til Jehóva vegna þess að við elskum hann og viljum styrkja samband okkar við hann. Og þegar við hugleiðum lausnarfórnina, sem hann færði fyrir syndir okkar, vex kærleikur okkar til hans. (1. Jóh. 2:1, 2) Þetta eru aðeins nokkrar af þeim mörgu ástæðum sem við höfum til að sýna Jehóva þakklæti fyrir kærleika hans sem aldrei bregst.