Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vörumst slæman félagsskap á þessum síðustu dögum

Vörumst slæman félagsskap á þessum síðustu dögum

„Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ – 1. KOR. 15:33.

SÖNGVAR: 73, 119

1. Á hvaða tíma lifum við?

 VIÐ lifum á afar erfiðum tímum. Biblían kallar tímabilið, sem hófst árið 1914, ,síðustu daga‘. Þessar ,örðugu tíðir‘ einkennast af langtum verra heimsástandi en mannkynið hafði nokkru sinni upplifað fyrir það tímamótaár. (2. Tím. 3:1-5) Og heimurinn á enn eftir að versna því að í Biblíunni er spáð að ,vondir menn og svikarar muni magnast í vonskunni‘. – 2. Tím. 3:13.

2. Hvað einkennir skemmtanaiðnað heimsins? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

2 Margir sækja í skemmtun sem er ofbeldisfull, er klúr, tengist dulspeki eða gengur í berhögg við meginreglur Biblíunnar á annan hátt. Netið, sjónvarpsþættir, kvikmyndir, skáldsögur og tímaritsgreinar sýna ofbeldi og siðleysi oft í jákvæðu ljósi. Hegðun, sem eitt sinn var talin óviðunandi, hefur jafnvel verið lögleidd í sumum löndum. En það breytir því ekki að Guð hefur eftir sem áður vanþóknun á slíku athæfi. – Lestu Rómverjabréfið 1:28-32.

3. Hvernig er gjarnan litið á þá sem lifa eftir siðferðisreglum Biblíunnar?

3 Fylgjendur Jesú á fyrstu öld forðuðust spillta afþreyingu. Þar sem þeir hlýddu lögum Guðs á þessu sviði sem og öðrum voru þeir spottaðir og ofsóttir. Pétur postuli skrifaði: „Nú furðar þá að þið [kristnir menn] hlaupið ekki með þeim út í sama spillingardíki og þeir hallmæla ykkur.“ (1. Pét. 4:4) Nú á tímum álítur heimurinn einnig að þeir sem fylgja siðferðisreglum Guðs séu skrýtnir. Reyndar segir Biblían að ,allir verði ofsóttir sem lifa vilja guðrækilega í Kristi Jesú‘. – 2. Tím. 3:12.

„VONDUR FÉLAGSSKAPUR SPILLIR GÓÐUM SIÐUM“

4. Af hverju ættum við ekki að elska þennan heim?

4 Ef við viljum gera vilja Guðs megum við ekki elska þennan heim né það sem er stundað í honum. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16.) Trúarbrögð, stjórnvöld og viðskiptaheimurinn auk fjölmiðla, sem þjóna hagsmunum þeirra, eru undir áhrifum Satans sem er „guð þessarar aldar“. (2. Kor. 4:4; 1. Jóh. 5:19) Við þurfum því að varast slæman félagsskap til að verða ekki fyrir áhrifum heimsins. Í innblásnu orði Guðs koma fram þessi grundvallarsannindi: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ – 1. Kor. 15:33.

5, 6. Hverja ættum við ekki að umgangast og hvers vegna?

5 Til að góðir siðir okkar spillist ekki verðum við að varast náinn vinskap við þá sem hegða sér ósæmilega. Það á ekki aðeins við um fólk utan safnaðarins heldur einnig um þá sem segjast tilbiðja Jehóva en brjóta lög hans af ásettu ráði. Ef þeir sem þykjast vera þjónar Jehóva drýgja alvarlega synd og iðrast ekki hættum við að umgangast þá. – Rómv. 16:17, 18.

6 Ef við ættum félagsskap við þá sem hlýða ekki lögum Guðs gætum við átt það til að vilja líkja eftir þeim til að hljóta viðurkenningu þeirra. Ef við ættum til dæmis náinn félagsskap við fólk sem stundar kynferðislegt siðleysi gætum við freistast til að gera slíkt hið sama. Það hefur gerst hjá sumum vígðum þjónum Guðs og af þeim hafa sumir ekki iðrast og því verið vikið úr söfnuðinum. (1. Kor. 5:11-13) Ef þeir iðrast ekki getur farið fyrir þeim eins og Pétur talaði um. – Lestu 2. Pétursbréf 2:20-22.

7. Hverja ættum við að velja okkur að nánum vinum?

7 Þótt við viljum koma vel fram við alla ættum við að forðast náinn félagsskap við þá sem fylgja ekki lögum Guðs. Það væri því rangt af einhleypum votti Jehóva að fara á stefnumót með einhverjum sem er ekki vígður og trúr Guði og virðir ekki háleitar siðferðisreglur hans. Það er mun mikilvægara að vera ráðvandur Jehóva en að afla sér vinsælda þeirra sem lifa ekki eftir lögum hans. Við ættum aðeins að velja okkur nána vini meðal þeirra sem gera vilja Guðs. Jesús sagði: „Hver sem gerir vilja Guðs, sá er bróðir minn, systir og móðir.“ – Mark. 3:35.

8. Hvaða áhrif hafði slæmur félagsskapur á Ísraelsþjóðina til forna?

8 Slæmur félagsskapur hefur hörmulegar afleiðingar í för með sér. Tökum Ísraelsþjóðina sem dæmi. Þegar Jehóva frelsaði hana úr þrælkuninni í Egyptalandi og leiddi hana inn í fyrirheitna landið sagði hann um samskipti hennar við íbúa landsins: „Þú mátt hvorki falla fram fyrir guðum þeirra né þjóna þeim. Þú mátt ekki fylgja siðum þeirra heldur skaltu brjóta þá gersamlega niður og mölbrjóta merkisteina þeirra. Þið skuluð þjóna Drottni, Guði ykkar.“ (2. Mós. 23:24, 25) En fæstir Ísraelsmanna hlýddu fyrirmælum Guðs. (Sálm. 106:35-39) Þar sem þeir héldu ekki tryggð sinni við Guð sagði Jesús síðar við þá: „Guð mun yfirgefa musteri yðar og það verður lagt í rúst.“ (Matt. 23:38) Jehóva hafnaði Ísraelsþjóðinni og lagði nú blessun sína yfir hinn nýstofnaða kristna söfnuð. – Post. 2:1-4.  

HUGLEIDDU HVAÐ ÞÚ LEST OG HORFIR Á

9. Hvers vegna getur afþreyingar- og lestrarefni heimsins verið hættulegt?

9 Margt af því afþreyingar- og lestrarefni, sem heimurinn býður upp á, getur skaðað samband okkar við Jehóva. Það er ekki gert til að styrkja trú okkar á hann og loforð hans. Þess í stað endurspeglar það illan heim Satans og markmið hans. Við þurfum því að gæta okkar vel svo að við veljum ekki efni sem vekur hjá okkur ,veraldlegar girndir‘. – Tít. 2:12.

10. Hvað verður um skaðlegt lestrar- og myndefni þessa heims?

10 Skaðlegt lestrar- og myndefni heyrir brátt sögunni til. Því verður öllu eytt ásamt heimi Satans sem það stendur fyrir. Í orði Guðs segir: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans en sá sem gerir Guðs vilja varir að eilífu.“ (1. Jóh. 2:17) Sálmaskáldið tekur í sama streng: „Illvirkjum verður tortímt en þeir sem vona á Drottin fá landið til eignar ... Hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.“ Hversu lengi? „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ – Sálm. 37:9, 11, 29.

11. Hvernig sér Guð okkur fyrir andlegri fæðu?

11 Ólíkt heimi Satans veitir söfnuður Jehóva okkur efni sem hvetur okkur til að lifa þannig að við getum hlotið eilíft líf. Jesús sagði í bæn til Jehóva: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóh. 17:3) Faðir okkar á himnum sér okkur ríkulega fyrir uppbyggjandi andlegri fæðu fyrir milligöngu safnaðar síns. Það er mikil blessun að fá tímarit, bæklinga, bækur, myndbönd og efni á Netinu sem eflir sanna tilbeiðslu. Söfnuður Jehóva skipuleggur einnig reglulegar samkomur í yfir 110.000 söfnuðum um heim allan. Á samkomum okkar og mótum förum við yfir biblíutengt efni sem styrkir trú okkar á Guð og loforð hans. – Hebr. 10:24, 25.

GIFTIST ,AÐEINS Í DROTTNI‘

12. Útskýrðu leiðbeiningar Biblíunnar um að giftast ,aðeins í Drottni‘.

12 Einhleypt fólk í söfnuðinum, sem langar til að gifta sig, þarf sérstaklega að gæta að hverja það umgengst. Leiðbeiningar Biblíunnar eru skýrar: „Dragið ekki ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti eða með ljósi og myrkri?“ (2. Kor. 6:14) Biblían segir þjónum Guðs, sem eru að leita sér að maka, að giftast ,aðeins í Drottni‘. Það merkir að þeir eigi aðeins að giftast vígðum, skírðum þjóni Jehóva sem lifir í samræmi við meginreglur Biblíunnar. (1. Kor. 7:39, Biblían 1981) Með því að giftast trúsystkini eignast þjónn Guðs félaga sem elskar Jehóva og hjálpar honum að halda tryggð sinni við hann.

13. Hvaða fyrirmæli gaf Guð Ísraelsmönnum um hjónaband?

13 Jehóva veit hvað er okkur fyrir bestu og fyrirmæli hans um að giftast ,aðeins í Drottni‘ eru ekki ný af nálinni. Tökum eftir skýrum fyrirmælum hans til Ísraelsmanna fyrir milligöngu Móse. Jehóva varaði þá við nágrannaþjóðunum – fólki sem þjónaði honum ekki – og sagði: „Ekki mægjast við þær. Þú skalt hvorki gefa dætur þínar sonum þeirra né taka dætur þeirra til handa sonum þínum. Það mundi snúa sonum þínum frá fylgd við mig svo að þeir færu að þjóna öðrum guðum. Þá mundi reiði Drottins blossa upp gegn ykkur og eyða þér þegar í stað.“ – 5. Mós. 7:3, 4.

14, 15. Hvaða afleiðingar hafði það fyrir Salómon að hunsa leiðbeiningar Jehóva?

14 Salómon konungur, sonur Davíðs, bað Guð um visku snemma á valdatíð sinni og Guð veitti honum hana í ríkum mæli. Salómon varð þannig vitur konungur í landi sem naut mikillar velgengni og varð frægur fyrir það. Þegar drottningin af Saba heimsótti Salómon lýsti hún yfir: „Ekki trúði ég því sem sagt var fyrr en ég kom og kynntist því af eigin raun. Þó var mér ekki skýrt frá helmingnum. Viska þín og velmegun er meiri en ég hafði heyrt um.“ (1. Kon. 10:7) En Salómon er sorglegt dæmi um það sem getur gerst þegar maður hunsar fyrirmæli Guðs um að giftast ekki öðrum en tilbiðjendum hans. – Préd. 4:13.

15 Þrátt fyrir allt sem Guð hafði gert fyrir Salómon hunsaði hann fyrirmælin um að giftast ekki konum af nágrannaþjóðunum, konum sem tilbáðu ekki Jehóva. Salómon ,elskaði margar útlendar konur‘ og að lokum átti hann 700 eiginkonur og 300 hjákonur. Hvað leiddi þetta af sér? Þegar Salómon var orðinn gamall sneru heiðnu konurnar „hjarta hans til annarra guða ... Salómon gerði það sem illt var í augum Drottins.“ (1. Kon. 11:1-6) Slæmur félagsskapur spillti visku Salómons og varð til þess að hann hætti að tilbiðja Jehóva. Þetta er sterk viðvörun fyrir kristna einstaklinga sem eru kannski að íhuga að giftast einhverjum sem elskar ekki Jehóva.

16. Hvað ráðleggur Biblían þeim sem eiga maka utan safnaðarins?

16 Hvað ef giftur einstaklingur gerist tilbiðjandi Jehóva en maki hans ekki? Biblían segir: „Eins skuluð þið, eiginkonur, vera eftirlátar eiginmönnum ykkar til þess að jafnvel þeir sem vilja ekki hlýða orðinu geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna.“ (1. Pét. 3:1) Að sjálfsögðu eiga þessi orð líka við um eiginmann sem gerist tilbiðjandi Jehóva en konan hans ekki. Leiðbeiningar Biblíunnar eru skýrar: Vertu góður maki og farðu eftir meginreglum Guðs um hjónabandið. Margir hafa tekið við sannleikanum þegar þeir hafa séð breytingarnar í fari maka síns eftir að hann fór að fylgja leiðbeiningum Guðs.

EIGUM FÉLAGSSKAP VIÐ ÞÁ SEM ELSKA JEHÓVA

17, 18. Hvað hjálpaði Nóa að lifa flóðið af og hvað hjálpaði kristnum mönnum á fyrstu öld að lifa af eyðingu Jerúsalem?

17 Slæmur félagsskapur spillir góðum siðum en góður félagsskapur leiðir gott af sér. Nói er okkur gott fordæmi. Hann bjó í illum heimi en hafði enga löngun til að eiga fólkið, sem tilheyrði þessum heimi, að vinum. Jehóva sá á þeim tíma „að illska mannanna var mikil orðin á jörðinni og að allar hneigðir þeirra og langanir snerust ætíð til ills“. (1. Mós. 6:5) Guð ákvað því að eyða þessum illa heimi í miklu flóði ásamt þeim sem fylgdu heiminum að málum. En „Nói var réttlátur og vandaður maður á sinni tíð. Hann gekk með Guði.“ – 1. Mós. 6:7-9.

18 Nói sótti greinilega ekki í félagsskap óguðlegra manna. Ásamt hinum sjö í fjölskyldunni einbeitti hann sér að þeim verkefnum sem Guð hafði falið honum. Hann vann að smíði arkarinnar en auk þess var hann „boðberi réttlætisins“. (2. Pét. 2:5) Boðunin, arkarsmíðin og félagsskapurinn við fjölskylduna hélt honum uppteknum af góðum verkum sem Guð hafði velþóknun á. Fyrir vikið lifði Nói flóðið af ásamt nánustu fjölskyldu. Við ættum að vera þeim þakklát þar sem við erum öll afkomendur þessara þjóna Jehóva – hins trúfasta Nóa og eiginkonu hans, sona hans og eiginkvenna þeirra. Trúfastir og hlýðnir kristnir menn á fyrstu öld héldu sér sömuleiðis frá félagsskap óguðlegra manna og lifðu af eyðingu Jerúsalem og þjóðskipulags Gyðinga árið 70. – Lúk. 21:20-22.

Uppbyggjandi félagsskapur við trúsystkini gefur okkur forsmekk af lífinu í nýja heiminum. (Sjá 19. grein.)

19. Hvað þurfum við að gera til að hljóta velþóknun Guðs?

19 Við sem tilbiðjum Jehóva þurfum að líkja eftir Nóa og fjölskyldu hans og hlýðnum kristnum mönnum á fyrstu öld. Við þurfum að halda okkur aðgreindum frá heiminum og velja okkur uppbyggjandi vini úr hópi trúfastra bræðra okkar og systra sem núna skipta milljónum. Náinn félagsskapur við þá sem láta visku Guðs leiðbeina sér hjálpar okkur að ,standa stöðug í trúnni‘ á þessum erfiðu tímum. (1. Kor. 16:13; Orðskv. 13:20) Og hugsum um þá frábæru framtíð sem bíður okkar. Ef við vörumst slæman félagsskap á þessum síðustu dögum getum við lifað af endi þessa illa heimskerfis og komist óhult inn í nýjan réttlátan heim Jehóva sem nú er svo nærri.