Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Blessun Jehóva hefur auðgað líf mitt

Blessun Jehóva hefur auðgað líf mitt

ÉG FÆDDIST árið 1927 í smábænum Wakaw í Saskatchewan-fylki í Kanada. Pabbi og mamma eignuðust sjö börn, fjóra stráka og þrjár stelpur. Það má því segja að ég hafi kynnst því snemma að vera mikið innan um fólk.

Fjölskyldan okkar fór ekki varhluta af erfiðu efnahagsástandi þegar heimskreppan mikla reið yfir á fjórða áratug síðustu aldar. Við vorum ekki efnuð en okkur skorti aldrei mat. Við áttum eina kú og nokkrar hænur og því var alltaf til nóg af eggjum, mjólk, rjóma, osti og smjöri. Eins og þú getur ímyndað þér höfðu allir næg verkefni á býlinu.

Ég á margar ljúfar minningar frá þessum árum. Ég man til dæmis vel eftir sætum eplailmi sem fyllti húsið. Pabbi kom nefnilega oftar en ekki til baka með kassa af nýtíndum eplum þegar hann fór í bæinn að selja afurðirnar af býlinu. Okkur krökkunum fannst dásamlegt að fá safarík epli á hverjum degi.

FJÖLSKYLDAN KYNNIST SANNLEIKANUM

Ég var sex ára þegar foreldrar mínir kynntust sannleikanum. Johnny, fyrsti sonur þeirra, hafði dáið stuttu eftir fæðingu og örvingluð af sorg leituðu þau til prestsins til að spyrja hvar Johnny væri núna. Presturinn svaraði að þar sem barnið hefði ekki verið skírt væri það ekki á himnum heldur í forgarði vítis. Presturinn sagði líka að ef foreldrar mínir borguðu honum myndi hann biðja Guð um að leysa Johnny úr forgarði vítis svo að hann kæmist til himna. Hvaða áhrif hefði þetta haft á þig? Pabbi og mamma voru svo hneyksluð að þau töluðu aldrei aftur við prestinn. En þau veltu enn fyrir sér hvar Johnny væri.

Dag einn rakst mamma á bækling frá Vottum Jehóva sem hét Hvar eru hinir dánu? Hún las bæklinginn af brennandi áhuga. Þegar pabbi kom heim sagði hún spennt: „Ég veit hvar Johnny er! Hann sefur núna en einn daginn mun hann vakna.“ Pabbi las allan bæklinginn sama kvöld. Mömmu og pabba fannst hughreystandi að vita að Biblían segir að hinir dánu sofi dauðasvefni og verði reistir upp í framtíðinni. – Préd. 9:5, 10; Post. 24:15.

Það sem þau lærðu breytti lífi okkar til hins betra. Það veitti okkur bæði huggun og hamingju. Þau fóru að kynna sér Biblíuna með vottunum og sækja samkomur með litla söfnuðinum í Wakaw þar sem flestir voru af úkraínskum ættum. Ekki leið á löngu þar til mamma og pabbi fóru að taka þátt í boðunarstarfinu.

Stuttu síðar fluttumst við til Bresku-Kólumbíu þar sem vel var tekið á móti okkur í einum söfnuðinum. Ég minnist þess með ánægju þegar við fjölskyldan fórum saman yfir grein í Varðturninum fyrir sunnudagssamkomurnar. Það hjálpaði okkur að þroska með okkur djúpan kærleika til Jehóva og sannleika Biblíunnar. Ég fann hvernig Jehóva blessaði okkur og líf okkar varð innihaldsríkara.

Skiljanlega var það ekki alltaf auðvelt fyrir okkur börnin að segja öðrum frá trú okkar. En við Eva, yngri systir mín, æfðum oft ritakynningu mánaðarins fyrir boðunarstarfið og sýndum hana á þjónustusamkomu. Það hjálpaði okkur mikið. Það var frábær leið fyrir okkur að læra að tala við aðra um Biblíuna þrátt fyrir að við vorum feimnar. Ég er svo þakklát fyrir hvað við fengum góða þjálfun í að boða trúna.

Eitt af því skemmtilegasta, sem ég man eftir frá æsku minni, var að fá bræður og systur í heimsókn sem þjónuðu Jehóva í fullu starfi. Okkur fannst til dæmis sérlega ánægjulegt þegar Jack Nathan, farandhirðirinn okkar, heimsótti söfnuðinn og gisti heima hjá okkur. * Við höfðum yndi af því að hlusta á sögurnar hans, og einlægt hrós hans hvatti okkur til að þjóna Jehóva trúfastlega.

Ég man eftir að hafa hugsað með mér: „Þegar ég verð eldri langar mig til að vera eins og bróðir Nathan.“ Mig grunaði ekki á þeim tíma að fordæmi hans hafði lagt grunninn að þjónustu minni við Jehóva í fullu starfi. Fimmtán ára gömul var ég staðráðin í að þjóna Jehóva. Við Eva létum báðar skírast árið 1942.

TRÚARPRÓFRAUNIR

Í síðari heimsstyrjöldinni, þegar þjóðernishyggjan var allsráðandi, var báðum systrum mínum og einum bræðra minna vikið úr skóla fyrir að neita að hylla fánann. Kennarinn, sem stóð fyrir brottrekstrinum, hét fröken Scott og var einstaklega fordómafull. Hún talaði svo við kennarann minn og lagði hart að honum að reka mig líka. En kennarinn minn svaraði: „Þetta er frjálst land og við höfum rétt til að neita að taka þátt í þjóðernislegum athöfnum.“ Þrátt fyrir mikinn þrýsting af hálfu frökenar Scott sagði kennarinn minn ákveðinn: „Þetta er mín ákvörðun.“

Fröken Scott svaraði: „Nei, þú ræður engu um þetta. Ef þú rekur ekki Melitu klaga ég þig.“ Kennarinn minn skýrði fyrir foreldrum mínum að ef hann vildi halda starfinu ætti hann ekki annarra kosta völ en að víkja mér úr skólanum, þrátt fyrir að hann teldi það vera rangt. Við fengum þó að taka með okkur námsefnið svo að við gætum lært heima. Stuttu síðar fluttumst við á nýjan stað, sem var rúmlega 30 kílómetra í burtu, og fengum inngöngu í annan skóla.

Á stríðsárunum var lagt bann á ritin okkar en við gátum samt notað Biblíuna til að boða trúna hús úr húsi. Fyrir vikið urðum við fær í að nota Biblíuna þegar við boðuðum fagnaðarerindið um ríkið. Það hjálpaði okkur að þroskast í trúnni og finna fyrir stuðningi Jehóva.

AÐ ÞJÓNA JEHÓVA Í FULLU STARFI

Ég hafði gott lag á hárgreiðslu og vann jafnvel til nokkurra verðlauna.

Við Eva gerðumst brautryðjendur um leið og við lukum skólaskyldunni. Til að byrja með vann ég í matvörudeild í stórmarkaði. Seinna meir sótti ég hálfs árs námskeið í hárgreiðslu en það var nokkuð sem ég hafði haft gaman af að gera heima. Ég fékk vinnu á hárgreiðslustofu tvo daga í viku og að auki kenndi ég fagið tvisvar í mánuði. Þannig sá ég fyrir mér samfara þjónustunni í fullu starfi.

Árið 1955 langaði mig til að sækja mótið „Guðsríki hrósar sigri“ í New York-borg í Bandaríkjunum og í Nürnberg í Þýskalandi. Áður en ég lagði af stað til New York hitti ég bróður Nathan Knorr frá aðalstöðvunum. Hann var að sækja mót í Vancouver í Kanada ásamt eiginkonu sinni. Á meðan heimsókn þeirra stóð var ég beðin um að snyrta hárið á konunni hans. Bróðir Knorr var ánægður með útkomuna og langaði til að hitta mig. Við spjölluðum saman um stund og ég sagði honum að ég ætlaði mér að koma við í New York á leið minni til Þýskalands. Hann bauð mér að koma og vinna á Betel í Brooklyn í níu daga.

Ferðin þangað breytti lífi mínu. Í New York hitti ég ungan bróður sem hét Theodore Jaracz, eða Ted eins og hann var oftast kallaður. Stuttu eftir að við kynntumst spurði hann mig: „Ertu brautryðjandi?“ „Nei,“ svaraði ég undrandi. LaVonne, vinkona mín greip þá fram í og sagði: „Jú, víst er hún það.“ Ted varð hissa og spurði LaVonne: „Hvor veit betur, þú eða hún?“ Ég útskýrði að ég hefði verið brautryðjandi og ætlaði mér að byrja aftur um leið og ég kæmi heim frá mótunum.

ÉG GIFTIST MANNI SEM VAR ANDLEGA SINNAÐUR

Ted fæddist árið 1925 í Kentucky í Bandaríkjunum og skírðist 15 ára gamall til tákns um að hann væri vígður Jehóva. Þó að enginn annar í fjölskyldunni hans tæki við sannleikanum gerðist hann brautryðjandi tveimur árum síðar. Það var byrjunin á næstum 67 ára þjónustu við Jehóva í fullu starfi.

Árið 1946 sótti Ted Biblíuskólann Gíleað og var í sjöunda útskriftarhópnum, þá tvítugur að aldri. Að því loknu fékk hann það verkefni að starfa sem farandhirðir í Cleveland í Ohio. Fjórum árum síðar var hann sendur til Ástralíu til að hafa umsjón með deildarskrifstofunni þar.

Ted var einnig á mótinu í Nürnberg í Þýskalandi. Þar hittumst við nokkrum sinnum og urðum ástfangin. Það gladdi mig að hann var staðráðinn í að þjóna Jehóva heilshugar. Hann var ákaflega einbeittur maður og tók þjónustuna við Jehóva alvarlega. En hann var mildur og vingjarnlegur í viðmóti og tók velferð annarra fram yfir sína eigin. Eftir mótið sneri Ted aftur til Ástralíu og ég til Vancouver en við héldum sambandi með því að skrifast á.

Eftir fimm ára dvöl í Ástralíu sneri Ted aftur til Bandaríkjanna. Stuttu síðar kom hann til Vancouver til að starfa sem brautryðjandi. Það gladdi mig mikið hve fjölskyldu minni líkaði vel við hann. Michael, eldri bróðir minn, passaði alltaf vel upp á mig og lét oft í ljós áhyggjur ef ungur bróðir sýndi mér áhuga. En Michael fór fljótt að þykja vænt um Ted. Hann sagði við mig: „Þú hefur fundið góðan mann, Melita. Vertu góð við hann og sjáðu til þess að þú missir hann ekki frá þér.“

Við giftum okkur árið 1956 og áttum mörg hamingjurík ár í þjónustu Jehóva í fullu starfi.

Mér var líka farið að þykja mjög vænt um Ted. Við giftum okkur 10. desember 1956. Við störfuðum fyrst saman sem brautryðjendur í Vancouver og svo í Kaliforníu. Síðan fengum við það verkefni að gegna farandstarfi í Missouri og Arkansas. Í 18 ár bjuggum við á nýjum stað í hverri viku meðan við sinntum farandstarfi um stóran hluta Bandaríkjanna. Við upplifðum margt ánægjulegt í boðuninni og áttum ótal góðar stundir með trúsystkinum. Þessar gleðistundir bættu upp fyrir endalaus ferðalögin og gott betur en það.

Eitt af því sem ég mat afar mikils í fari Teds var að hann leit aldrei á samband sitt við Jehóva sem sjálfsagðan hlut. Honum var ákaflega annt um heilaga þjónustu sína við æðstu tignarpersónu alheims. Við höfðum yndi af að lesa og rannsaka Biblíuna saman. Áður en við fórum að sofa á kvöldin krupum við á kné við rúmstokkinn og hann fór með bæn fyrir okkur. Síðan fórum við með bæn hvort í sínu lagi. Ég vissi alltaf þegar eitthvað hvíldi þungt á Ted. Þá fór hann fram úr rúminu, lagðist aftur á hnén og bað lengi til Jehóva í hljóði. Ég dáðist að því að hann vildi tala við Jehóva um öll mál, bæði stór og smá.

Nokkrum árum eftir að við giftum okkur sagði Ted mér að hann ætlaði að byrja að taka af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni. „Ég hef beðið ákaft til Jehóva til að vera fullviss um að ég sé að gera það sem hann vill að ég geri,“ sagði hann. Það kom mér ekki á óvart að hann hefði verið smurður heilögum anda Guðs til að þjóna á himnum þegar þar að kæmi. Ég leit frekar á það sem heiður að geta stutt við bakið á einum af bræðrum Krists. – Matt. 25:35-40.

NÝ VERKEFNI Í HEILAGRI ÞJÓNUSTU

Okkur til mikillar undrunar var Ted boðið að taka sæti í stjórnandi ráði Votta Jehóva árið 1974. Í kjölfarið fengum við boð um að koma og starfa á Betel í Brooklyn. Þar sinnti Ted ábyrgðarstörfum sínum í hinu stjórnandi ráði og ég vann við ræstingar og sem hárgreiðsludama.

Starf Teds fólst meðal annars í því að heimsækja deildarskrifstofur í ýmsum löndum. Hann hafði sérstakan áhuga á boðunarstarfinu í löndum austan járntjaldsins. Eitt sinn vorum við í langþráðu fríi í Svíþjóð þegar Ted sagði við mig: „Melita, boðunarstarfið er bannað í Póllandi og mig langar mjög mikið til að hjálpa bræðrunum þar.“ Við fengum því vegabréfsáritun og héldum af stað til Póllands. Þegar þangað var komið hitti Ted bræður sem höfðu umsjón með starfinu og fór með þeim í langa gönguferð til að enginn gæti hlustað á samræður þeirra. Bræðurnir funduðu stíft í fjóra daga en það gladdi mig að sjá hve ánægður Ted var að geta hjálpað andlegri fjölskyldu sinni.

Við Ted heimsóttum Pólland aftur í nóvember árið 1977 ásamt Frederick W. Franz og Daniel Sydlik. Það var í fyrsta sinn sem fulltrúar frá hinu stjórnandi ráði fóru í formlega heimsókn til Póllands. Þrátt fyrir að starf okkar væri enn bannað gátu bræðurnir þrír í hinu stjórnandi ráði ferðast um landið og rætt við öldunga, brautryðjendur og gamalreynda votta.

Ted ásamt fleirum fyrir utan dómsmálaráðuneytið í Moskvu eftir að starf okkar hlaut lagalega viðurkenningu.

Þegar Ted heimsótti Pólland ári síðar ásamt Milton Henschel funduðu þeir með embættismönnum sem þá voru orðnir umburðarlyndari gagnvart okkur og starfsemi okkar. Árið 1982 fengu bræður okkar leyfi pólskra stjórnvalda til að halda eins dags mót. Næsta ár voru haldin stærri mót, aðallega í leiguhúsnæði. Þótt starfið væri enn bannað árið 1985 fengum við að halda fjögur mót á stórum leikvöngum. Í maí árið 1989, á meðan enn stærri mót voru í farvatninu, veitti ríkisstjórn Póllands Vottum Jehóva lagalega viðurkenningu. Það gladdi Ted ósegjanlega mikið.

Umdæmismót í Póllandi.

TEKIST Á VIÐ HEILSUBREST

Árið 2007 vorum við á leið til Suður-Afríku til að vera viðstödd vígslu deildarskrifstofunnar þar í landi. Við vorum komin til Englands þegar í ljós kom að Ted var með of háan blóðþrýsting og læknir ráðlagði honum að fresta ferðinni. Eftir að Ted hafði náð sér snerum við aftur til Bandaríkjanna. En nokkrum vikum síðar fékk hann alvarlegt heilablóðfall og lamaðist á hægri hlið.

Batinn var hægur og í fyrstu komst hann ekki til vinnu á skrifstofuna. Við vorum þó þakklát fyrir að hann missti ekki málgetuna. Hann reyndi að halda venjubundinni dagskrá þrátt fyrir heilsubrestinn og tók jafnvel þátt í vikulegum fundum hins stjórnandi ráðs símleiðis úr stofunni heima.

Ted var innilega þakklátur fyrir þá góðu sjúkraþjálfun sem hann fékk á hjúkrunardeildinni á Betel. Með tímanum endurheimti hann hreyfigetuna að mestu leyti. Hann gat sinnt sumum af verkefnum sínum í þjónustu Jehóva á ný og hélt alltaf gleði sinni.

Þremur árum síðar fékk hann annað heilablóðfall og lést miðvikudaginn 9. júní 2010. Þótt ég gerði mér alltaf grein fyrir að Ted myndi einhvern tíma ljúka lífi sínu hér á jörð get ég ekki lýst því hve mikill missir þetta var fyrir mig og hversu sárt ég sakna hans. Ég þakka Jehóva á hverjum degi fyrir það sem ég gat gert til að styðja Ted. Við þjónuðum Jehóva saman í fullu starfi í ríflega 53 ár. Ted hjálpaði mér að eignast nánara samband við föður minn á himnum og fyrir það er ég ákaflega þakklát. Ég er sannfærð um að hans nýja hlutverk á himnum veitir honum ómælda gleði og ánægju.

NÝJAR ÁSKORANIR

Mér fannst ákaflega gaman að vinna á snyrtistofunni á Betel og þjálfa aðra til starfa.

Eftir öll annasömu og hamingjuríku árin með eiginmanni mínum hefur ekki verið auðvelt að takast á við breyttar aðstæður. Okkur Ted þótti alltaf gaman að hitta gesti á Betel og í ríkissalnum. Nú þegar Ted er ekki lengur mér við hlið og ég er ekki jafn hraust og áður umgengst ég ekki eins marga og ég gerði. Ég nýt þess þó að vera innan um bræður og systur á Betel og í söfnuðinum. Dagskráin á Betel er krefjandi en það veitir mér mikla gleði að geta þjónað Jehóva á þennan hátt. Og ástríða mín fyrir boðuninni hefur síður en svo dvínað. Þó að ég þreytist fljótt og geti ekki staðið lengi í einu hef ég mikla ánægju af götustarfinu og að halda biblíunámskeið.

Þegar ég hugsa um alla þá hræðilegu hluti, sem eiga sér stað í heiminum, er ég innilega þakklát fyrir að hafa fengið að þjóna Jehóva ásamt yndislegum maka. Blessun Jehóva hefur svo sannarlega auðgað líf mitt. – Orðskv. 10:22.

^ Ævisögu Jacks Nathans er að finna í Varðturninum á ensku 1. september 1990, bls. 10-14.