Biðjum Guð að styrkja trú okkar
„Hjálpaðu mér þar sem mig skortir trú.“ – MARK. 9:24, NW.
1. Hversu mikilvæg er trúin? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
HEFURÐU einhvern tíma hugsað: Er ég þess konar manneskja sem Jehóva myndi vilja bjarga í þrengingunni miklu og hjálpa að komast inn í nýja heiminn? Það er auðvitað ýmislegt sem við þurfum að búa yfir til að komast lífs af en Páll postuli bendir á eina mjög mikilvæga kröfu þegar hann segir: „Ógerlegt er að þóknast Guði án trúar.“ (Hebr. 11:6) Okkur finnst það kannski sjálfsagt en raunin er sú að „ekki er trúin allra“. (2. Þess. 3:2) Þessi vers hjálpa okkur að skilja hve mikilvægt það er að efla trúna.
2, 3. (a) Hvað lærum við af Pétri um mikilvægi trúarinnar? (b) Hvaða spurningar ætlum við að ræða?
2 Pétur postuli beindi athyglinni að trúnni þegar hann talaði um „trúfesti“ sem ,gæti orðið til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists‘. (Lestu 1. Pétursbréf 1:7.) Við vitum að þrengingin mikla nálgast óðum. Er þá ekki mikilvægt fyrir okkur að hafa þess konar trú að dýrlegur konungur okkar launar okkur þegar hann opinberast? Við viljum örugglega vera meðal þeirra sem ,trúa og frelsast‘. (Hebr. 10:39) Með þetta markmið í huga biðjum við ef til vill eins og maðurinn sem sagði: „Hjálpaðu mér þar sem mig skortir trú.“ (Mark. 9:24, NW) Eða kannski segjum við eins og postular Jesú: „Auk oss trú!“ – Lúk. 17:5.
3 Mikilvægi þess að styrkja trúna vekur upp nokkrar spurningar. Hvernig getum við styrkt hana? Hvernig getum við sýnt að við höfum trú? Og hvernig getum við verið viss um að við fáum aukna trú ef við biðjum um það?
BYGGJUM UPP TRÚ SEM ER GUÐI AÐ SKAPI
4. Fordæmi hverra getur hvatt okkur til að styrkja trúna?
4 Fyrst „allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu“ getum við lært margt af trúföstum þjónum Guðs sem sagt er frá í Biblíunni. (Rómv. 15:4) Þegar við lesum um fólk eins og Abraham, Söru, Ísak, Jakob, Móse, Rahab, Gídeon, Barak og marga aðra getur það hvatt okkur til að skoða okkar eigin trú. (Hebr. 11:32-35) Við getum líka lesið frásögur af bræðrum og systrum nú á tímum sem hafa sýnt óbifandi trú. Það getur orðið okkur hvatning til að gera okkar ýtrasta til að styrkja trúna. *
5. Hvernig sýndi Elía að hann hafði sterka trú á Jehóva, og hvað hvetur hann okkur til með fordæmi sínu?
5 Elía spámaður, sem sagt er frá í Biblíunni, er dæmi um mann með sterka trú. Sjáðu fyrir þér eftirfarandi atburði í lífi hans sem sýna fram á óbifandi trú hans á Jehóva. Þegar Elía sagði Akab konungi frá áformum Jehóva um að leiða mikla þurrka yfir landið sagði hann öruggur: „Svo sannarlega sem Drottinn ... lifir, þá skal hvorki falla dögg né regn ... nema ég skipi svo fyrir.“ (1. Kon. 17:1) Elía treysti að Jehóva myndi veita honum og öðrum það sem þeir þyrftu meðan á þurrkunum stæði. (1. Kon. 17:4, 5, 13, 14) Elía sýndi að hann var sannfærður um að Jehóva gæti reist barn upp frá dauðum. (1. Kon. 17:21) Hann efaðist ekki um að Jehóva myndi láta eld gleypa fórnina sem hann færði á Karmelfjalli. (1. Kon. 18:24, 37) Þegar Jehóva ákvað að binda enda á þurrkana, jafnvel áður en nokkur ummerki voru um rigningu, sagði Elía við Akab: „Farðu upp eftir, et og drekk, því að ég heyri dyn af regni.“ (1. Kon. 18:41) Hvetja frásögur eins og þessi okkur ekki til að prófa okkur sjálf, hvort trú okkar sé svona sterk?
HVAÐ GETUM VIÐ GERT TIL AÐ BYGGJA UPP TRÚ?
6. Hvað þarf Jehóva að gefa okkur til að við getum byggt upp trú?
6 Við getum ekki byggt upp trú í eigin krafti því að trú er hluti af ávexti heilags anda. (Gal. 5:22) Það er því skynsamlegt að fylgja ráði Jesú um að biðja um að fá þennan anda í auknum mæli. Jesús fullvissar okkur um að faðir hans ,gefi þeim heilagan anda sem biðja hann‘. – Lúk. 11:13.
7. Lýstu með dæmi hvernig við getum viðhaldið sterkri trú.
7 Eftir að við höfum öðlast trú þurfum við að halda áfram að næra hana. Það má bera trúna saman við bál. Þegar kveikt er í bálinu blossar það upp og logar af miklum krafti. En ef ekkert meira er gert deyr eldurinn smám saman út þar til glóðin ein er eftir. Að lokum verður glóðin að kaldri ösku. Ef maður hins vegar bætir eldivið á bálið jafnt og þétt getur það logað endalaust. Á svipaðan hátt getum við haldið trú okkar lifandi ef við nærumst reglulega á orði Guðs. Með því að stunda markvisst biblíunám vex kærleikur okkar til Biblíunnar og höfundar hennar. Þá höfum við góðan grunn til að styrkja trúna enn frekar.
8. Hvað hjálpar okkur að byggja upp og viðhalda trúnni?
8 Hvað fleira er hægt að gera til að byggja upp trúna og viðhalda henni? Láttu þér ekki nægja þá þekkingu sem þú aflaðir þér fyrir skírnina. (Hebr. 6:1, 2) Skoðaðu vandlega spádóma Biblíunnar sem hafa þegar uppfyllst. Þannig færðu sterk rök fyrir trú þinni. Þú getur líka notað Biblíuna sem mælikvarða til að kanna hvort trú þín samræmist lýsingu hennar á sterkri trú. – Lestu Jakobsbréfið 1:25; 2:24, 26.
9, 10. Hvernig styrkir það trúna að (a) eiga góðan félagsskap? (b) mæta á samkomur? (c) taka þátt í boðuninni?
9 Páll postuli sagði trúsystkinum sínum að þau gætu „uppörvast saman í sömu trú“. (Rómv. 1:12) Þegar við umgöngumst trúsystkini getum við byggt upp trú hvert annars, sérstaklega þegar við erum með þeim sem hafa sýnt trúfesti í prófraunum. (Jak. 1:3) Slæmur félagsskapur brýtur niður trúna en góður félagsskapur byggir hana upp. (1. Kor. 15:33) Það er ein ástæðan fyrir því að okkur er sagt að ,vanrækja ekki safnaðarsamkomur okkar heldur uppörva hvert annað‘. (Lestu Hebreabréfið 10:24, 25.) Önnur ástæða er að dagskráin á samkomunum veitir okkur fræðslu sem byggir upp trúna. Það er í samræmi við orð Páls: „Trúin kemur ... af því að heyra.“ (Rómv. 10:17) Er það reglulegur þáttur í lífi okkar að hitta trúsystkini á samkomum?
10 Þegar við tökum þátt í boðuninni byggjum við ekki aðeins upp trú annarra heldur styrkjum við líka okkar eigin trú. Við lærum að treysta algerlega á Jehóva og tala af hugrekki við allar aðstæður eins og kristnir menn á fyrstu öld. – Post. 4:17-20; 13:46.
11. Hvers vegna höfðu Kaleb og Jósúa sterka trú og hvernig getum við líkt eftir þeim?
11 Trú okkar styrkist þegar við finnum fyrir hjálp Jehóva og hvernig hann svarar bænum okkar. Kaleb og Jósúa komust að raun um það. Þeir sýndu trú á Jehóva þegar þeir njósnuðu um fyrirheitna landið. En með tímanum varð trú þeirra enn sterkari því að þeir sáu hvernig Jehóva hjálpaði þeim í öllu sem þeir gerðu. Það er ekki að undra að Jósúa gat talað af sannfæringu þegar hann sagði við Ísraelsmenn: „Ekkert fyrirheitanna sem voru ykkur í hag og Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur er óefnt.“ Síðar bætti hann við: „Óttist því Drottin og þjónið honum af fullkominni trúmennsku ... Ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni.“ (Jós. 23:14; 24:14, 15) Við getum líka byggt upp slíka sannfæringu þegar við finnum hve góður Jehóva er. – Sálm. 34:9.
SÝNUM TRÚ OKKAR Í VERKI
12. Hvernig sýnum við að trú okkar sé lifandi?
12 Hvernig sýnum við að trú okkar sé lifandi? Lærisveinninn Jakob svarar því þegar hann segir: „Ég skal sýna þér trúna af verkum mínum.“ (Jak. 2:18) Með verkum okkar sýnum við að trú okkar sé sönn. Skoðum nokkur dæmi.
13. Hvernig sýnum við trú okkar í verki með boðuninni?
13 Að boða fagnaðarerindið er góð leið til að sýna trú okkar í verki. Hvers vegna? Boðunin útheimtir að við trúum að Guð bindi enda á þetta heimskerfi á tilsettum tíma og að það „rætist ... án tafar“. (Hab. 2:3) Til að komast að því hve sterk trú okkar er getum við velt fyrir okkur hve fús við erum til að leggja okkur fram í boðuninni. Gerum við okkar ýtrasta og leitum jafnvel leiða til að eiga enn meiri þátt í henni? (2. Kor. 13:5) „Með munninum [er] játað til hjálpræðis“ og það er kraftmikil leið til að sýna að trú okkar sé einlæg. – Lestu Rómverjabréfið 10:10.
14, 15. (a) Hvernig getum við sýnt trú í daglegu lífi okkar? (b) Segðu frá fjölskyldu sem sýndi sterka trú.
14 Við getum einnig sýnt trú í verki þegar við glímum við erfiðleika daglegs lífs. Hvort sem við þurfum að kljást við veikindi, depurð, þunglyndi, fátækt eða aðra erfiðleika treystum við að Jehóva og sonur hans hjálpi okkur „þegar við erum hjálparþurfi“. (Hebr. 4:16) Við sýnum slíkt traust með því að biðja Jehóva um hjálp, og ekki bara í andlegum málum. Jesús sagði að við gætum beðið um það sem við þörfnumst efnislega eins og „daglegt brauð“. (Lúk. 11:3) Frásögur í Biblíunni fullvissa okkur um að Jehóva geti séð fyrir okkur. Hann sá Elía fyrir mat og vatni þegar þrálátir þurrkar stóðu yfir í Ísrael. „Hrafnarnir færðu honum brauð og kjöt á hverjum morgni og sömuleiðis brauð og kjöt að kvöldi og hann drakk úr læknum,“ eins og Jehóva hafði sagt honum að gera. (1. Kon. 17:3-6) Við trúum því að Jehóva geti hagað málum þannig að við fáum líka það sem við þörfnumst.
15 Við treystum því að við munum eiga í okkur og á ef við förum eftir meginreglum Biblíunnar. Rebecca, systir sem er fjölskyldukona í Asíu, hefur reynslu af því. Þau fjölskyldan hafa farið eftir ráðunum í Matteusi 6:33 og Orðskviðunum 10:4 með því að leita fyrst Guðsríkis og leggja sig fram í vinnu. Rebecca segir að eiginmaður hennar hafi komist að því að vinnan var farin að stofna sambandi fjölskyldunnar við Jehóva í hættu. Hann ákvað því að segja upp vinnunni þó að þau ættu fyrir fjórum börnum að sjá. Rebecca segir hvernig fór: „Við fórum að búa til sælgæti og selja það. Árin, sem við gerðum þetta, fundum við að Jehóva yfirgaf okkur aldrei. Við misstum aldrei úr máltíð.“ Hefur þú líka getað sýnt að þú trúir því að Biblían veiti okkur bestu leiðbeiningar sem völ er á?
16. Hvernig fer að lokum ef við treystum á Guð?
16 Við megum aldrei efast um að það sé okkur til góðs að fylgja leiðsögn Guðs. Páll vitnaði í innblásin orð Habakkuks og skrifaði: „Hinn réttláti mun lifa fyrir trú.“ (Gal. 3:11; Hab. 2:4) Það er því nauðsynlegt að við trúum á þann sem getur veitt raunverulega hjálp. Páll minnir okkur á að Guð sé sá „sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum“. (Ef. 3:20) Þjónar Jehóva gera allt sem þeir geta til að gera vilja hans en þeir þekkja takmörk sín og treysta því að Jehóva blessi verk þeirra. Erum við ekki ánægð að Guð skuli vera með okkur?
JEHÓVA SVARAR BÆNUM OKKAR UM TRÚ
17. (a) Hvernig var beiðni postulanna um trú svarað? (b) Hvers vegna megum við búast við að bænum okkar um aukna trú verði svarað?
17 Eftir að hafa skoðað þetta efni líður okkur kannski eins og postulunum þegar þeir sögðu við Jesú: „Auk oss trú!“ (Lúk. 17:5) Beiðni þeirra var svarað með sérstökum hætti á hvítasunnu árið 33 þegar þeir fylltust heilögum anda og fengu dýpri skilning á fyrirætlun Guðs. Þetta styrkti trú þeirra. Í kjölfarið hófu þeir mesta boðunarátak sem gert hafði verið fram að þeim tíma. (Kól. 1:23) Getum við búist við að bænum okkar um sterkari trú verði svarað? Biblían fullvissar okkur um að svo sé „ef við biðjum um eitthvað eftir [Guðs] vilja“. – 1. Jóh. 5:14.
18. Hvernig blessar Jehóva þá sem byggja upp trúna?
18 Jehóva er greinilega ánægður með þá sem setja allt sitt traust á hann. Hann svarar bænum okkar um aukna trú þannig að hún styrkist og leiðir til þess að hann ,meti okkur makleg Guðs ríkis‘. – 2. Þess. 1:3, 5.
^ Svo nokkur dæmi séu nefnd má lesa ævisögu Andrejs Hanáks (Vaknið! júlí-september 2002) og í enskri útgáfu blaðanna ævisögu Lillian Gobitas Klose (Vaknið! 22. júlí 1993), Feliks Borys (Vaknið! 22. febrúar 1994) og Josephine Elias (Vaknið! september 2009).