Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Hann sá aldrei eftir því sem hann ákvað á unga aldri

Hann sá aldrei eftir því sem hann ákvað á unga aldri

ÖMMUBRÓÐIR minn, Níkolaj Dúbovínskíj, tók saman endurminningar sínar á síðustu árunum sem hann lifði. Hann hafði þjónað Jehóva í Sovétríkjunum frá unga aldri, en lengst af var starfsemi okkar bönnuð þar. Þrátt fyrir alls konar erfiðleika og áskoranir á lífsleiðinni var hann Jehóva trúr alla tíð og var lífsglaður með afbrigðum. Níkolaj frændi hafði oft á orði að sig langaði til að segja unga fólkinu frá því sem dreif á daga hans, bæði í meðbyr og mótbyr. Ég ætla að stikla á stóru. Níkolaj fæddist af bændafólki árið 1926 í þorpinu Podvírívka í Tsjernívtsí-umdæmi í Úkraínu.

NÍKOLAJ KYNNIST SANNLEIKANUM

Níkolaj frændi segir svo frá: „Dag nokkurn árið 1941 kom Ívan, eldri bróðir minn, heim með bækurnar Harpa Guðs og Aldaáætlun Guðs. Hann kom einnig með nokkra bæklinga og fáein tölublöð af Varðturninum. Ég las öll ritin. Það kom mér á óvart að allir erfiðleikar heimsins væru Satan að kenna en ekki Guði. Ég las líka guðspjöllin og áttaði mig á að ég hefði fundið sannleikann. Fullur ákafa sagði ég öðrum frá von minni um betri heim. Ég las ritin í þaula og fékk dýpri skilning á sannleikanum, og ég fékk sterka löngun til að verða þjónn Jehóva.

Ég gerði mér grein fyrir að það yrði ekki þrautalaust að þjóna Guði. Það voru stríðstímar og ég ætlaði mér alls ekki að drepa nokkurn mann. Til að búa mig undir prófraunirnar fram undan lagði ég á minnið biblíuvers eins og Matteus 10:28 og 26:52. Ég var staðráðinn í að vera Jehóva alltaf trúr, jafnvel þó að það gæti kostað mig lífið.

Ég var kallaður í herinn árið 1944 þegar ég varð 18 ára. Þetta var í fyrsta sinn sem ég var með trúbræðrum mínum, öðrum ungum bræðrum á svipuðu reki sem höfðu safnast saman við herskráningarstöðina. Við sögðum yfirvöldunum einbeittir í bragði að við ætluðum ekki að taka þátt í stríðinu. Starfsmenn hersins brugðust ókvæða við og hótuðu að svelta okkur, þvinga okkur til að grafa skotgrafir eða bara skjóta okkur. Við svöruðum óhræddir: ,Þið ráðið. En hvað sem þið gerið ætlum við ekki að brjóta boðorð Guðs: „Þú skalt ekki morð fremja.“‘ – 2. Mós. 20:13.

Það endaði með því að ég var sendur ásamt tveim bræðrum til Hvíta-Rússlands til að vinna á ökrunum og gera við hús sem höfðu orðið fyrir skemmdum. Ég man enn eftir hryllilegum afleiðingum stríðsins í útjaðri Minsk. Trén með fram veginum voru sviðin. Á víð og dreif um skurði og skóga lágu lík og uppblásin hræ hesta. Ég sá yfirgefnar kerrur og fallbyssur, og meira að segja flugvélarflak. Hvert sem ég leit blasti við hvaða afleiðingar það hefur að brjóta boðorð Guðs.

Stríðinu lauk árið 1945 en við vorum samt dæmdir í tíu ára fangelsi fyrir að neita að berjast. Fyrstu þrjú árin gátum við ekki haldið samkomur og höfðum engin biblíunámsrit. Við gátum haft bréfasamband við nokkrar systur en svo voru þær handteknar og dæmdar til 25 ára vistar í vinnubúðum.

Okkur var sleppt úr haldi árið 1950 og við snerum til okkar heima. Meðan ég var í fangelsi höfðu móðir mín og Marja systir gerst vottar Jehóva. Eldri bræður mínir voru ekki enn orðnir vottar en voru að kynna sér Biblíuna. Sovéska leyniþjónustan vildi senda mig aftur í fangelsi vegna þess að ég boðaði fagnaðarerindið af kappi. Bræðurnir, sem veittu starfinu forstöðu, báðu mig þá um að aðstoða við að framleiða rit neðanjarðar. Ég var þá 24 ára.

AÐ FJÖLFALDA RITIN

Vottarnir sögðu gjarnan: ,Ef starfið verður bannað ofanjarðar höldum við því áfram neðanjarðar.‘ (Orðskv. 28:28) Á þessum tíma voru ritin okkar að mestu leyti prentuð með leynd neðanjarðar. Fyrsta ,vinnuherbergið‘ mitt var neðanjarðarbyrgi undir húsinu þar sem Dmítríj bróðir bjó. Stundum var ég samfellt í hálfan mánuð í byrginu. Ef súrefni var orðið svo lítið að það slokknaði á olíulampanum lagði ég mig og beið þangað til loftið hafði endurnýjað sig.

Skissa af leynilegu neðanjarðarbyrgi undir húsinu þar sem Níkolaj fjölfaldaði rit.

Bróðir, sem ég vann með, spurði mig einn daginn: ,Ertu skírður, Níkolaj?‘ Ég var enn óskírður þó að ég hefði þjónað Jehóva í 11 ár. Hann ræddi málið við mig og um kvöldið skírðist ég í stöðuvatni 26 ára gamall. Þrem árum síðar fékk ég nýtt ábyrgðarstarf en þá var ég valinn til að sitja í landsnefndinni. Á þeim tíma voru bræður, sem voru enn frjálsir ferða sinna, skipaðir í stað bræðra sem höfðu verið hnepptir í fangelsi. Þannig gat starfsemi safnaðarins haldið áfram.

ÞAÐ VAR EKKI AUÐVELT AÐ STARFA NEÐANJARÐAR

Það var miklu erfiðara að framleiða ritin neðanjarðar en að sitja í fangelsi. Ég gat ekki sótt samkomur í sjö ár því að ég þurfti að forðast eftirlit leyniþjónustunnar KGB. Ég varð því að næra minn andlega mann einn og óstuddur. Ég hitti fjölskyldu mína aðeins þegar ég heimsótti hana og það var ekki oft. En þau skildu aðstöðu mína og það hvatti mig. Það var lýjandi að vera undir stöðugu álagi og þurfa alltaf að vera var um sig. Við urðum að vera við öllu búnir. Sem dæmi má nefna að kvöld eitt bönkuðu tveir lögreglumenn upp á þar sem ég bjó. Ég stökk út um glugga hinum megin hússins og hljóp út í skóg. Þaðan lá leiðin út á akur og þá heyrði ég undarlegan hvin. Síðan heyrði ég skothvell og áttaði mig þá á að hvinurinn var frá byssukúlum. Annar þeirra sem elti mig stökk á hestbak og skaut á eftir mér uns hann varð uppiskroppa með skotfæri. Ég fékk skot í annan handlegginn. Eftir fimm kílómetra eltingaleik komst ég loks undan og faldi mig í skóglendi. Síðar, þegar ég var leiddur fyrir rétt, var mér sagt að þeir hefðu skotið 32 skotum.

Ég var grár og gugginn af því að ég vann tímunum saman í neðanjarðarbyrginu. Það var mikil hætta á að útlit mitt vekti grunsemdir. Ég notaði því hvert tækifæri sem gafst til að sóla mig. Það kom líka niður á heilsunni að vera langdvölum í neðanjarðarbyrgi. Einu sinni gat ég ekki sótt mikilvægan fund með öðrum bræðrum vegna þess að mér blæddi úr nösum og munni.

NÍKOLAJ HANDTEKINN

Í vinnubúðunum í Mordvínju árið 1963.

Ég var handtekinn 26. janúar 1957. Hálfu ári síðar birti Hæstiréttur Úkraínu dóm sinn. Ég var dæmdur til dauða og átti að ganga fyrir aftökusveit. En þar sem dauðarefsing hafði verið afnuminn í landinu var dóminum breytt í 25 ára fangavist. Við vorum átta bræður og samanlagt vorum við dæmdir til 130 ára vistar í vinnubúðum. Við vorum sendir til Mordvínju en þar voru um 500 vottar. Við hittumst með leynd í litlum hópum til að lesa og ræða saman um efni í Varðturninum. Einn af vörðunum skoðaði nokkur blöð sem voru tekin af okkur og sagði: ,Enginn getur bugað ykkur ef þið haldið áfram að lesa þau!‘ Við skiluðum alltaf góðu dagsverki og gerðum oft meira en til var ætlast. Yfirmaður vinnubúðanna sagði hins vegar mæðulega: ,Vinnan ykkar skiptir ekki öllu máli. Það er hollusta ykkar sem við viljum fá.‘“

„Við skiluðum alltaf góðu dagsverki og gerðum oft meira en til var ætlast.“

HANN VAR RÁÐVANDUR GUÐI ALLA TÍÐ

Ríkissalur í Velíkíje Lúkí.

Níkolaj frændi var látinn laus úr vinnubúðunum árið 1967, og í framhaldi af því hjálpaði hann til við að koma á fót söfnuðum í Eistlandi og í Sankti Pétursborg í Rússlandi. Snemma árs 1991 var dómurinn frá 1957 ógiltur á þeim grundvelli að það skorti sönnunargögn fyrir því að Níkolaj hefði brotið af sér. Margir vottar, sem höfðu þolað illt af hendi yfirvalda, fengu uppreisn æru á þeim tíma. Árið 1996 flutti Níkolaj til Velíkíje Lúkí í Pskov-umdæmi en borgin er um 500 kílómetra frá Sankti Pétursborg. Hann keypti sér lítið hús, og árið 2003 var byggður ríkissalur á lóðinni. Tveir blómlegir söfnuðir nota þennan ríkissal núna.

Við hjónin störfum við deildarskrifstofu Votta Jehóva í Rússlandi. Níkolaj frændi heimsótti okkur í síðasta sinn í mars 2011, fáeinum mánuðum áður en hann dó. Við vorum djúpt snortin þegar hann sagði með blik í augum: „Ég fæ ekki betur séð en að nú sé runninn upp sjöundi dagurinn sem gengið er kringum Jeríkó.“ (Jós. 6:15) Hann var 85 ára. Hann hafði ekki átt auðvelda ævi en lýsti henni samt þannig: „Ég er ósegjanlega glaður að ég skyldi ákveða að þjóna Jehóva þegar ég var ungur. Ég hef aldrei séð eftir því.“