Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hugleiðum andleg mál

Hugleiðum andleg mál

„Stunda þetta, ver allur í þessu til þess að framför þín sé öllum augljós.“ – 1. TÍM. 4:15.

SÖNGVAR: 57, 52

1, 2. Að hvaða leyti er mannsheilinn einstakur?

 TUNGUMÁL gera mönnum kleift að lesa, skrifa, tala, skilja talað mál, biðja og lofsyngja Jehóva. Hver þessara hæfileika er stórmerkilegur og virkjar heilastöðvar og tauganet sem vísindamenn skilja ekki enn til fulls. Þar sem mannsheilinn er einstakur erum við fær um að læra tungumál. Prófessor í málvísindum segir: „Hæfileiki barna til að læra tungumál er eitt af aðalsmerkjum [mannsins].“

2 Málhæfni mannsins er stórfengleg gjöf sem Guð hannaði. (Sálm. 139:14; Opinb. 4:11) Heilinn, sem Guð gaf okkur, er líka einstakur á annan hátt. Mennirnir voru skapaðir „eftir Guðs mynd“ ólíkt dýrunum. Þeir hafa frjálsan vilja og geta valið að nota málhæfni sína til að vegsama Guð. – 1. Mós. 1:27.

3. Hvaða dásamlegu gjöf hefur Jehóva gefið okkur sem getur veitt okkur speki og visku?

3 Höfundur tungumálanna hefur gefið öllum sem þrá að heiðra hann dásamlega gjöf, Biblíuna. Hún er til í heild eða að hluta á yfir 2.800 tungumálum. Þegar þú hugleiðir og tileinkar þér það sem þú lest í Biblíunni fyllirðu hugann af hugsunum Guðs. (Sálm. 40:6; 92:6; 139:17) Og hugsanir hans „geta veitt þér speki til sáluhjálpar“. – Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:14-17.

4. Hvað merkir það að hugleiða og hvaða spurningar ætlum við að skoða?

4 Að hugleiða merkir að einbeita sér að einhverju, íhuga það og velta því fyrir sér, hvort heldur það er gott eða slæmt. (Sálm. 77:13; Orðskv. 24:1, 2) Það mikilvægasta, sem við getum hugleitt, er það sem við lærum um Jehóva Guð og son hans, Jesú Krist. (Jóh. 17:3) En kannski veltum við því fyrir okkur hver tengslin eru milli þess að lesa og hugleiða. Hvaða tækifæri höfum við til að hugleiða og hvernig getum við haft ánægju af því að gera það að staðaldri?

NOTAÐU NÁMSSTUNDIRNAR VEL

5, 6. Hvað getur hjálpað þér að bæta lesskilning og festa í minni það sem þú lest?

5 Heilinn getur gert ótrúlegustu hluti, jafnvel án þess að maður sé þess meðvitaður. Við getum til dæmis andað, gengið og hjólað og jafnvel vélritað án þess að hugsa út í það. Að einhverju marki á þetta líka við um lestur. Þess vegna er mikilvægt að einbeita sér að merkingu þess sem maður les. Í lok efnisgreinar eða áður en þú byrjar á nýrri millifyrirsögn í riti gætirðu staldrað við og hugleitt það sem þú varst að lesa til að ganga úr skugga um að þú hafir skilið efnið rétt. Auðvitað geta bæði truflanir og einbeitingarskortur valdið því að hugurinn fari að reika og þá skilur lesturinn lítið eftir sig. Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að það gerist?

6 Rannsóknir á námsaðferðum sýna fram á að það sé auðveldara að muna orð ef maður segir þau upphátt. Skapari heilans veit þetta. Þess vegna sagði hann Jósúa að „hugleiða“ efni lögbókarinnar en hebreska orðið getur einnig merkt „að lesa í hálfum hljóðum“. (Lestu Jósúabók 1:8.) Þú kemst eflaust að raun um að þegar þú lest Biblíuna lágum rómi festist efnið betur í huga þér. Það getur líka hjálpað þér að einbeita þér.

7. Hvenær er best að hugleiða orð Guðs? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

7 Það er hægt að lesa án mikillar fyrirhafnar en til að hugleiða þurfum við að einbeita okkur. Ófullkominn heili okkar á það því til að snúa sér að auðveldari verkefnum sem krefjast minni fyrirhafnar. Það er því best að hugleiða þegar maður er nægilega hvíldur og í rólegu umhverfi þar sem fátt truflar. Sálmaritaranum fannst gott að hugleiða á nóttunni þegar hann lá vakandi í rúminu. (Sálm. 63:7) Jesús, sem hafði fullkominn huga, sá kosti þess að vera í rólegu umhverfi þegar hann hugleiddi og baðst fyrir. – Lúk. 6:12.

VIÐFANGSEFNI SEM VIÐ ÆTTUM AÐ HUGLEIÐA

8. (a) Hvað getum við hugleitt auk Biblíunnar? (b) Hvað finnst Jehóva um að við notum tíma til að tala um hann?

8 Það er mikilvægt að íhuga það sem maður les í Biblíunni en það er fleira sem við getum hugleitt. Þegar þú skoðar undur sköpunarverksins gætirðu til dæmis staldrað við og velt þeim fyrir þér. Það fær þig örugglega til að lofa Jehóva fyrir góðvild hans, og ef þú ert með öðrum langar þig eflaust til að segja þeim frá hugleiðingum þínum. (Sálm. 104:24; Post. 14:17) Kann Jehóva að meta slíkt lof og það að við tjáum okkur um hann með þessum hætti? Sjáum hvernig því er svarað í orði hans. Þar fáum við eftirfarandi loforð um þessa síðustu daga: „Um þetta töluðu þeir hver við annan, sem óttuðust Drottin, og Drottinn hlýddi á með athygli. Frammi fyrir honum var skrifuð bók til að minna á alla sem óttast Drottin og virða nafn hans.“ – Mal. 3:16.

Hugleiðir þú þarfir og aðstæður biblíunemenda þinna? (Sjá 9. grein.)

9. (a) Hvað hvatti Páll Tímóteus til að hugleiða? (b) Hvernig getum við tileinkað okkur ráðleggingar Páls þegar við búum okkur undir boðunarstarfið?

9 Páll postuli hvatti Tímóteus til að hugleiða hvaða áhrif orð hans, hegðun og kennsla hefði á aðra. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:12-16.) Rétt eins og hjá Tímóteusi er margt í þjónustu okkar við Guð sem við getum íhugað. Við þurfum til dæmis að taka okkur tíma til að hugleiða þegar við búum okkur undir að halda biblíunámskeið. Með biblíunemandann í huga gætum við reynt að finna viðhorfsspurningu eða líkingu til að hjálpa honum að taka framförum. Það getur verið mjög hvetjandi fyrir okkur að nota tímann á þennan hátt. Við styrkjum okkar eigin trú og verðum hnitmiðaðri og ákafari í kennslu okkar. Það sama á við þegar við búum okkur undir boðunarstarfið. (Lestu Esrabók 7:10.) Til að ,glæða hjá okkur‘ áhugann á boðuninni er gott að lesa kafla í Postulasögunni. Við gætum líka hugleitt biblíuvers sem við viljum nota þann dag og efni ritanna sem við ætlum að bjóða. (2. Tím. 1:6) Hugsaðu um fólkið á starfssvæðinu og hvað gæti vakið áhuga þess. Allur slíkur undirbúningur hjálpar okkur að boða trúna á áhrifaríkan hátt með „krafti Guðs anda“ sem kemur frá orði hans. – 1. Kor. 2:4.

10. Hvaða fleiri tækifæri höfum við til að hugleiða andleg mál?

10 Skrifarðu stundum minnispunkta á samkomum og mótum? Með því að fara yfir þessa minnispunkta færðu gott tækifæri til að hugleiða það sem þú hefur lært af orði Guðs og söfnuði hans. Í hverju eintaki af Varðturninum og Vaknið! og í öllu sem kemur út á mótunum fáum við nýtt efni til að lesa og meðtaka. Þegar þú lest árbókina gæti þér fundist gagnlegt að stoppa aðeins á milli frásagna. Þannig færðu tíma til að íhuga það sem þú lest og láta frásöguna ná til hjartans. Þú gætir strikað undir aðalatriði eða skrifað athugasemdir á spássíurnar sem geta komið að gagni þegar þú býrð þig undir að fara í endurheimsókn, hirðisheimsókn eða halda ræðu.Það sem mestu máli skiptir er að staldra við öðru hverju og hugleiða þegar þú lest biblíutengd rit. Þannig færðu tækifæri til að taka til þín efnið og þakka Jehóva í bæn fyrir allt það góða sem þú hefur lært.

HUGLEIDDU ORÐ GUÐS DAGLEGA

11. Hvað er það mikilvægasta sem við getum hugleitt og hvers vegna? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

11 Af öllu sem við getum hugleitt er innblásið orð Guðs auðvitað það mikilvægasta. Segjum að þú lendir í aðstæðum þar sem þú hefur ekki aðgang að biblíu. * Þú getur alltaf hugleitt það sem þú hefur geymt í minni þínu, eins og uppáhaldsbiblíuversin þín og texta úr söngbókinni okkar. (Post. 16:25) Þar að auki getur andi Guðs hjálpað þér að kalla fram í hugann það góða sem þú hefur lært. – Jóh. 14:26.

12. Hvernig getum við skipulagt biblíulestur okkar?

12 Við getum tekið frá tíma suma daga vikunnar til að lesa og hugleiða biblíulesturinn fyrir Boðunarskólann. Aðra daga gætum við gefið okkur tíma til að hugleiða það sem Jesús sagði og gerði. Þú ert eflaust sammála um að meðal þekktari bóka Biblíunnar eru guðspjöllin sem segja frá ævi og starfi Jesú. (Rómv. 10:17; Hebr. 12:2; 1. Pét. 2:21) Þjónar Guðs hafa jafnvel fengið rit þar sem atburðir í lífi Jesú á jörð eru teknir fyrir í tímaröð. Það er frábært hjálpargagn, sérstaklega ef við lesum og hugleiðum vandlega versin í guðspjöllunum sem vísað er til í hverjum kafla. – Jóh. 14:6.

HVERS VEGNA ER HUGLEIÐING MIKILVÆG?

13, 14. Hvers vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að hugleiða andleg mál og hvað hvetur það okkur til að gera?

13 Að hugleiða andleg mál stuðlar að þroska í trúnni. (Hebr. 5:14; 6:1) Sá sem notar lítinn tíma til að hugsa um Jehóva og Jesú getur ekki viðhaldið sterkri trú. Slíkir einstaklingar eiga á hættu að berast afleiðis eða jafnvel hafna sannleikanum. (Hebr. 2:1; 3:12) Jesús varaði við því að ef við hlustuðum ekki á orð Guðs og tækjum við því með „göfugu, góðu hjarta“ myndum við ekki varðveita það. Þess í stað gætum við hæglega ,kafnað undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins‘ og myndum þá ,ekki bera þroskaðan ávöxt‘. – Lúk. 8:14, 15.

14 Við skulum því halda áfram að íhuga orð Guðs. Það hvetur okkur til að endurspegla dýrð hans, persónuleika og eiginleika sem eru opinberaðir í Biblíunni. (2. Kor. 3:18) Við getum haldið áfram um alla eilífð að læra um föður okkar á himnum og líkja eftir honum. Það er óviðjafnanlegur heiður! – Préd. 3:11.

15, 16. (a) Hvaða gagn höfum við af því að hugleiða andleg mál? (b) Hvers vegna getur stundum verið erfitt að hugleiða, en af hverju ættum við að halda áfram að reyna?

15 Að íhuga reglulega andleg mál hjálpar okkur að hafa brennandi áhuga á sannleikanum. Eldmóður okkar hefur síðan hvetjandi áhrif á trúsystkini okkar og áhugasama sem við hittum í boðuninni. Að hugleiða vandlega lausnarfórn Jesú, mestu gjöf Jehóva, hjálpar okkur að meta að verðleikum náið samband okkar við Jehóva, föðurinn á himnum. (Rómv. 3:24; Jak. 4:8) Mark, suðurafrískur bróðir sem sat þrjú ár í fangelsi vegna hlutleysis síns, sagði: „Hægt er að líkja hugleiðingu við spennandi ævintýri. Því meira sem við hugleiðum andleg mál þeim mun meira lærum við um Jehóva, Guð okkar. Stundum, þegar ég verð niðurdreginn eða hef áhyggjur af framtíðinni, opna ég Biblíuna og hugleiði nokkur vers. Það hefur mjög róandi áhrif á mig.“

16 Það er svo margt sem getur truflað í heimi nútímans að stundum getur reynst þrautin þyngri að hugleiða andleg mál. Patrick, annar trúfastur bróðir í Afríku, segir: „Hausinn á mér er eins og pósthólf fullt af alls konar upplýsingum, bæði nytsamlegum og óæskilegum, og það þarf að taka til í því á hverjum degi. Þegar ég skoða hug minn tek ég stundum eftir að áhyggjur hafa skotið rótum og ég þarf að ræða þær við Jehóva til að fá ró til að geta hugleitt. Þótt það taki stundum smá tíma áður en ég get byrjað að hugleiða andleg mál þá finnst mér ég eignast nánara samband við Jehóva fyrir vikið. Það auðveldar mér að skilja og meðtaka sannleikann.“ (Sálm. 94:19) Við höfum svo sannarlega mikið gagn af því að ,rannsaka daglega ritningarnar‘ og hugleiða það sem við lesum. – Post. 17:11.

HVERNIG GETURÐU FUNDIÐ ÞÉR TÍMA?

17. Hvernig finnurðu þér tíma til að hugleiða?

17 Sumir fara snemma á fætur til að lesa, hugleiða og biðja. Aðrir gera það í hádegishléinu. Kannski finnst þér best að gefa þér tíma til þess snemma á kvöldin eða áður en þú ferð í háttinn. Sumum finnst gott að lesa Biblíuna á morgnana og aftur í lok dags. Þannig lesa þeir hana „dag og nótt“, á reglulegum grundvelli. (Jós. 1:8) Aðalatriðið er að taka sér tíma á hverjum degi frá því sem minna máli skiptir til að hugleiða orð Guðs. – Ef. 5:15, 16.

18. Hvað segir Biblían um alla þá sem hugleiða orð Guðs daglega og leitast við að tileinka sér það sem þeir læra?

18 Jehóva lofar hvað eftir annað í Biblíunni að blessa alla þá sem hugleiða hana og leitast við að tileinka sér það sem þeir læra. (Lestu Sálm 1:1-3.) „Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það,“ sagði Jesús. (Lúk. 11:28) En það sem mestu máli skiptir er að þegar við hugleiðum andleg mál daglega hjálpar það okkur að upphefja hinn mikla skapara okkar undraverða heila. Og hann launar okkur með hamingjuríku lífi núna og eilífu lífi í réttlátum nýjum heimi sínum. – Jak. 1:25; Opinb. 1:3.

^ Sjá greinina „Our Fight to Stay Spiritually Strong“ í Varðturninum á ensku 1. desember 2006.