Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Einfaldur maður trúir öllu“

„Einfaldur maður trúir öllu“

„Heimskur er sá sem les aldrei dagblað, og enn heimskari sá sem trúir því sem hann les af því að það stendur í dagblaði.“ – August von Schlözer, þýskur sagnfræðingur og blaðamaður (1735-1809).

FYRST ekki var hægt að treysta öllu sem skrifað var í dagblaði fyrir rúmum tveim öldum hlýtur hið sama að gilda um stóran hluta þess sem hægt er að lesa á Netinu núna á 21. öldinni. Svo er nútímatækni fyrir að þakka að fólk hefur aðgang að gríðarlegu magni upplýsinga – sönnum og ósönnum, gagnlegum og gagnslausum, skaðlausum og skaðlegum. Við þurfum að vanda valið þegar við ákveðum hverju við veitum athygli. Þeir sem hafa lítið notað Netið geta öðrum fremur átt það til að álykta að frásögn eða frétt sé sönn, hversu undarleg eða æsifengin hún er, bara af því að hún birtist á Netinu eða vinur sendi hana í tölvupósti. Það er því ekki að ástæðulausu að Biblían veitir þessa viðvörun: „Einfaldur maður trúir öllu en hygginn maður kann fótum sínum forráð.“ – Orðskv. 14:15.

Hvernig getum við verið ,hyggin‘ og áttað okkur á blekkingum, gróusögum, svindli og röngum eða villandi upplýsingum sem gætu birst á tölvuskjánum? Byrjaðu á því að spyrja þig hvort upplýsingarnar séu sóttar á opinbera, áreiðanlega vefsíðu eða hvort þær séu af óþekktum uppruna eða af bloggsíðu. Hefur efnið þegar verið birt á síðum sem fletta ofan af blekkingum? * Notaðu síðan skynsemina „til að greina gott frá illu“. (Hebr. 5:14) Ef fréttir virðast ótrúverðar er sú líklega raunin. Og ef upplýsingarnar koma óorði á aðra er gott að velta fyrir sér hver hagnist á að þeim sé dreift og hvort annarlegar hvatir búi að baki.

ÁRÁTTAN AÐ ÁFRAMSENDA

Sumum er mikið í mun að vera fyrstir með fréttirnar, oft til að fá athygli. Þeir senda póst áfram á alla sem eru á netfangaskránni án þess að hugsa um afleiðingarnar eða sannreyna upplýsingarnar. (2. Sam. 13:28-33) Ef við erum ,hyggin‘ hugsum við hins vegar um þau slæmu áhrif sem þetta gæti haft, til dæmis á mannorð einhvers eða orðstír samtaka eða fyrirtækis.

Það kostar fyrirhöfn að sannreyna upplýsingar. Þess vegna láta sumir viðtakandann um að komast að því hvort þær séu trúverðugar. En hvað tekur það hann langan tíma? Tíminn er dýrmætur. (Ef. 5:15, 16) Í stað þess að áframsenda það sem óvíst er að sé satt er því betra að láta það fara bara í tunnuna.

Veltu fyrir þér hvort það sé orðin hálfgerð árátta hjá þér að áframsenda tölvupóst. Hefurðu þurft að biðjast afsökunar á því að hafa sent upplýsingar sem reyndust síðan rangar eða jafnvel hrein lygi? Hefur einhver beðið þig um að hætta að áframsenda tölvupóst? Mundu að allir sem eru á netfangaskrá hjá þér hafa líka aðgang að Netinu og geta þess vegna sjálfir fundið athyglisvert efni, án þinnar aðstoðar. Það er óþarfi að drekkja þeim í pósti með bröndurum, myndböndum eða skyggnusýningum. Sömuleiðis er óskynsamlegt að áframsenda upptökur eða ítarlega minnispunkta af biblíutengdum ræðum. * Mundu líka að þegar maður leitar sjálfur að ítarefni í biblíunámi sínu, flettir upp versum eða undirbýr sín eigin svör fyrir samkomur hefur maður meira upp úr því en ef einhver annar sendir manni þetta.

Ætti ég ... að áframsenda æsifengnar fréttir eða annan tölvupóst?

Hvað ættirðu að gera ef þú rekst á neikvætt umtal um söfnuð Jehóva á Netinu? Hafnaðu því umsvifalaust. Sumum finnst nauðsynlegt að segja öðrum frá slíku umtali til að heyra þeirra álit. En það eina sem hlýst af því er að maður kemur þessu illskeytta efni á framfæri. Ef eitthvað sem við sjáum á Netinu veldur okkur hugarangri ættum við að biðja Jehóva um visku og tala við þroskaðan bróður. (Jak. 1:5, 6; Júd. 22, 23) Jesús var sakaður um ýmislegt sem átti ekki við rök að styðjast. Hann varaði fylgjendur sína við því að þeir yrðu líka ofsóttir og að óvinir myndu „ljúga á [þá] öllu illu“. (Matt. 5:11; 11:19; Jóh. 10:19-21) Við þurfum að vera ,aðgætin og hyggin‘ til að bera kennsl á ,þá menn sem fara með fals‘ og þá sem eru „komnir á glapstigu í breytni sinni“. – Orðskv. 2:10-16.

VIRÐUM RÉTT ANNARRA

Við þurfum líka að gæta okkar þegar við segjum fréttir af trúsystkinum eða starfsfrásögur sem við höfum heyrt. Jafnvel þótt fréttir séu sannar er ekki endilega sniðugt að segja frá þeim. Stundum getur verið að það sé hvorki kærleiksríkt né rétt að segja sannar frásögur af öðrum. (Matt. 7:12) Það er til dæmis hvorki kærleiksríkt né uppbyggjandi að slúðra, jafnvel þó að upplýsingarnar séu sannar. (2. Þess. 3:11; 1. Tím. 5:13) Sumt getur verið trúnaðarmál og við ættum að virða rétt annarra til að segja frá slíku þegar rétti tíminn er fyrir það og réttu aðstæðurnar. Það getur valdið miklum skaða að koma upplýsingum á framfæri áður en það er tímabært.

Nú á tímum er hægt að dreifa upplýsingum ótrúlega hratt – sönnum og ósönnum, gagnlegum og gagnslausum, skaðlausum og skaðlegum. Allir sem senda tölvupóst eða textaskilaboð, jafnvel bara til eins einstaklings, þurfa að muna að skilaboðin geta borist um allan heim á svipstundu, hvort sem það var ætlunin eða ekki. Stöndumst því freistinguna að áframsenda upplýsingar fljótt eða til hverra sem er. Þegar við lesum æsifengnar fréttir skulum við hafa í huga að kærleikurinn er ekki óhóflega tortrygginn en hann er ekki heldur trúgjarn. Og kærleikurinn myndi auðvitað aldrei trúa illkvittnu umtali um söfnuð Jehóva eða lygum um trúsystkini okkar, þó að þeir sem eru þrælar Satans, ,föður lyginnar‘, komi slíku á framfæri. (Jóh. 8:44; 1. Kor. 13:7) Ef við erum aðgætin og sýnum góða dómgreind hjálpar það okkur að vera ,hyggin‘ og hugsa vandlega um hvernig við förum með þær gríðarmiklu upplýsingar sem verða á vegi okkar á hverjum degi. Það á vel við sem Biblían segir: „Einfeldningarnir erfa fíflsku en vitrir menn krýnast þekkingu.“ – Orðskv. 14:18.

^ Gróusögur og blekkingar, sem hafa verið afhjúpaðar, skjóta af og til upp kollinum aftur, stundum í nýjum búningi til að auka trúverðugleika þeirra.

^ Sjá „Spurningakassann“ í Ríkisþjónustu okkar apríl 2010.