Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Elskarðu náungann eins og sjálfan þig?

Elskarðu náungann eins og sjálfan þig?

„Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ – MATT. 22:39.

SÖNGVAR: 73, 36

1, 2. Hvernig bendir Biblían á mikilvægi þess að sýna kærleika?

 KÆRLEIKURINN er sá eiginleiki Jehóva Guðs sem ber hæst. (1. Jóh. 4:16) Jesús var fyrsta sköpunarverk hans. Hann var óralengi með föður sínum á himnum og kynntist kærleika hans. (Kól. 1:15) Jesús hefur alltaf sýnt að hann skilur fullkomlega hve kærleiksríkur Jehóva er, einnig meðan hann var á jörðinni, og hann líkir eftir kærleika hans. Við getum því treyst að Jehóva og Jesús beiti yfirráðum sínum alltaf á kærleiksríkan hátt.

2 Aðspurður hvert væri æðsta boðorð lögmálsins svaraði Jesús: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ – Matt. 22:37-39.

3. Hver er náungi okkar?

3 Við tökum eftir að Jesús segir fyrst að við eigum að elska Jehóva og bætir síðan við að við eigum að elska náungann. Það vitnar um hve mikilvægt er að sýna kærleika í öllum okkar samskiptum. En hver er náungi okkar? Ef við erum gift er makinn okkur nákomnastur. Trúsystkini okkar í söfnuðinum standa okkur einnig nærri. Og að síðustu er að nefna þá sem við hittum þegar við boðum fagnaðarerindið. Hvernig eigum við sem tilbiðjum Jehóva og fylgjum kennslu sonar hans að sýna náunganum kærleika?

ELSKUM MAKA OKKAR

4. Hvers vegna getur hjónabandið verið farsælt þrátt fyrir ófullkomleikann?

4 Eftir að Jehóva skapaði Adam og Evu gaf hann þau saman í hjónaband. Það átti að vera hamingjusamt og varanlegt og þau hjónin fengu það verkefni að fylla jörðina afkomendum sínum. (1. Mós. 1:27, 28) En uppreisnin gegn drottinvaldi Jehóva spillti fyrir sambandi þeirra og kallaði synd og dauða yfir allt mannkyn. (Rómv. 5:12) Biblían bendir engu að síður á hvernig hægt sé að eiga farsælt hjónaband. Þar er að finna bestu leiðbeiningar um hjónaband sem völ er á vegna þess að þær koma frá Jehóva, höfundi hjónabandsins. – Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

5. Hve mikilvægu hlutverki gegnir kærleikurinn í hjónabandinu?

5 Það má lýsa kærleikanum sem hlýlegri ástúð og djúpri væntumþykju. Í Biblíunni kemur fram að kærleikurinn sé nauðsynlegur til að mynda náin tengsl við aðra. Hjónabandið er þar engin undantekning. Páll postuli skrifaði söfnuðinum á fyrstu öld: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ (1. Kor. 13:4-8) Að hugleiða þessi innblásnu orð og fara eftir þeim stuðlar tvímælalaust að hamingjusömu hjónabandi.

Í Biblíunni er bent á hvernig hjón geta verið hamingjusöm. (Sjá 6. og 7. grein.)

6, 7. (a) Hvað segir Biblían um forystu? (b) Hvernig á kristinn eiginmaður að koma fram við eiginkonu sína?

6 Kærleikurinn er sérstaklega mikilvægur vegna meginreglunnar sem Jehóva setti um forystu. Páll segir: „Ég vil að þið vitið að Kristur er höfuð sérhvers karlmanns, að karlmaðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ (1. Kor. 11:3) Jehóva ætlast til að eiginmaðurinn sé kærleiksríkur. Hann má ekki vera ráðríkur og kröfuharður. Jehóva er sjálfur hlýr og óeigingjarn og Jesús virðir kærleiksríka forystu hans. Hann sagðist „elska föðurinn“. (Jóh. 14:31) Það er ólíklegt að Jesús hefði sagt það ef Jehóva hefði komið fram við hann eins og strangur harðstjóri.

7 Þó að eiginmaður sé höfuð konunnar á hann eftir sem áður að virða hana, eins og fram kemur í Biblíunni. (1. Pét. 3:7) Hann getur meðal annars virt eiginkonu sína með því að taka tillit til þarfa hennar og leyfa henni að velja í ýmsum málum. Í Biblíunni segir: „Karlmenn, elskið konur ykkar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ (Ef. 5:25) Jesús fórnaði lífi sínu fyrir fylgjendur sína. Þegar eiginmaður líkir eftir kærleiksríkri forystu Jesú er miklu auðveldara fyrir konuna hans að elska hann og virða og styðja ákvarðanir hans. – Lestu Títusarbréfið 2:3-5.

ELSKUM TRÚSYSTKINI OKKAR

8. Hvernig ættu þjónar Jehóva að líta á trúsystkini sín?

8 Milljónir manna út um allan heim tilbiðja Jehóva og vitna um nafn hans og fyrirætlun. Hvernig ættu þjónar Jehóva að líta á trúsystkini sín? Í Biblíunni erum við hvött til að „gera öllum gott og einkum trúsystkinum okkar“. (Gal. 6:10; lestu Rómverjabréfið 12:10.) Pétur postuli skrifaði: „Með því að hlýða sannleikanum hafið þið hreinsað ykkur og getið því borið hræsnislausa elsku hvert til annars. Haldið því áfram að elska hvert annað af heilu hjarta.“ Pétur sagði trúsystkinum sínum enn fremur: „Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars.“ – 1. Pét. 1:22; 4:8.

9, 10. Hvers vegna eru þjónar Guðs sameinaðir?

9 Alþjóðlegt bræðrafélag okkar er einstakt. Ástæðan er sú að við berum brennandi kærleika hvert til annars. Og þar sem við elskum Jehóva og hlýðum lögum hans styður hann okkur með heilögum anda sínum sem er sterkasta aflið í öllum alheiminum. Þess vegna erum við sameinuð og myndum bræðrafélag sem teygir anga sína út um allan heim. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:20, 21.

10 Páll lagði áherslu á að kristnir menn þyrftu að elska hver annan. Hann skrifaði: „Íklæðist ... hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera. En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.“ (Kól. 3:12-14) Við erum innilega þakklát að kærleikurinn, sem „bindur allt saman“, skuli ríkja á meðal okkar óháð uppruna og þjóðerni.

11. Hvað einkennir söfnuð Jehóva?

11 Kærleikurinn og einingin, sem ríkir á meðal votta Jehóva, sannar að þeir iðka hina sönnu trú. Jesús sagði einmitt: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh. 13:34, 35) Og Jóhannes postuli skrifaði: „Af þessu má greina að börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlæti og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til. Því að þetta er sá boðskapur sem þið hafið heyrt frá upphafi: Við eigum að elska hvert annað.“ (1. Jóh. 3:10, 11) Kærleikurinn og einingin bera með sér að vottar Jehóva eru sannir fylgjendur Krists. Það eru þeir sem Guð notar til að boða fagnaðarerindið um ríkið út um allan heim. – Matt. 24:14.

AÐ SAFNA SAMAN MIKLUM MÚGI

12, 13. Hvað gerir ,múgurinn mikli‘ núna og hvað upplifir hann bráðlega?

12 Langflestir þjónar Jehóva tilheyra ,miklum múgi‘ sem er „af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum“. Þeir standa „frammi fyrir hásætinu [hásæti Guðs] og frammi fyrir lambinu [Jesú Kristi]“. Hverjir eru þetta? „Þetta eru þeir sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins“ því að þeir trúa á lausnarfórn Jesú. Þeir sem mynda ,múginn mikla‘ elska Jehóva og son hans og „þjóna honum [Guði] dag og nótt“. – Opinb. 7:9, 14, 15.

13 Guð eyðir bráðlega þessum illa heimi í ,þrengingunni miklu‘. (Matt. 24:21; lestu Jeremía 25:32, 33.) En Jehóva elskar þjóna sína svo að hann verndar þá sem heild og leiðir þá inn í nýja heiminn. Eins og spáð var fyrir næstum 2.000 árum mun Guð „þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ Þráirðu að búa í paradísinni sem verður á jörð eftir að „hið fyrra er farið“? – Opinb. 21:4.

14. Hve fjölmennur er múgurinn mikli orðinn?

14 Þegar síðustu dagar hófust árið 1914 voru þjónar Jehóva aðeins nokkur þúsund. Þessi fámenni hópur andasmurðra þjóna Guðs boðaði fagnaðarerindið um ríkið þrátt fyrir mótlæti. Þeir elskuðu náungann, og Guð studdi þá með anda sínum. Fyrir vikið er nú verið að safna saman miklum múgi fólks sem á von um að lifa að eilífu á jörð. Við erum orðin um 8.000.000 og tilheyrum rösklega 115.400 söfnuðum um heim allan, og okkur fjölgar jafnt og þétt. Á þjónustuárinu 2014 skírðust 275.500 nýir vottar. Það eru að meðaltali um 5.300 á viku.

15. Hve umfangsmikil er boðunin nú á dögum?

15 Boðunin er gríðarlega umfangsmikil. Við gefum út biblíutengd rit á meira en 700 tungumálum. Varðturninn er útbreiddasta tímarit heims, en mánaðarlega eru prentaðar meira en 52.000.000 eintaka á 247 tungumálum. Biblíunámsbókin Hvað kennir Biblían? hefur verið prentuð í rúmlega 200.000.000 eintaka á rösklega 250 tungumálum.

16. Hvers vegna fjölgar jafnt og þétt í söfnuði Jehóva?

16 Þennan gríðarlega vöxt, sem við sjáum núna, má rekja til þess að við trúum á Guð og viðurkennum að Biblían sé innblásið orð hans. (1. Þess. 2:13) Það er einstakt að þjónar Jehóva skuli dafna eins og raun ber vitni þrátt fyrir hatur og andstöðu Satans sem er „guð þessarar aldar“. – 2. Kor. 4:4.

SÝNUM ALLTAF NÁUNGAKÆRLEIKA

17, 18. Hvernig koma þjónar Guðs fram við þá sem eru ekki í söfnuðinum?

17 Hvernig eigum að koma fram við þá sem tilbiðja ekki Jehóva? Við fáum alls konar viðbrögð þegar við boðum fagnaðarerindið. Sumir eru jákvæðir en aðrir fjandsamlegir. En hvernig sem fólk bregst við fylgja þjónar Guðs leiðbeiningum Biblíunnar. Þar stendur: „Mál ykkar sé ætíð ljúflegt en salti kryddað til þess að þið vitið hvernig þið eigið að svara hverjum manni.“ (Kól. 4:6) Við elskum náungann þannig að þegar fólk krefst raka hjá okkur fyrir voninni sem við eigum, svörum við „með hógværð og virðingu“. – 1. Pét. 3:15, 16.

18 Við sýnum náungakærleika jafnvel þó að reiður húsráðandi hafni boðskapnum og helli sér yfir okkur. Við líkjum eftir Jesú. „Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum [Jehóva] á vald sem dæmir réttvíslega.“ (1. Pét. 2:23) Hvort sem við erum með trúsystkinum eða öðrum sýnum við hógværð og gerum eins og Pétur postuli ráðlagði: „Gjaldið ekki illt með illu eða illmæli fyrir illmæli heldur þvert á móti blessið.“ – 1. Pét. 3:8, 9.

19. Hvernig eigum við að koma fram við andstæðinga okkar samkvæmt meginreglu sem Jesús setti?

19 Með því að vera hógvær og auðmjúk fylgjum við mikilvægri meginreglu sem Jesús setti. Hann sagði í fjallræðunni: „Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“ (Matt. 5:43-45) Við sem þjónum Guði þurfum að læra að ,elska óvini okkar‘ hvernig sem þeir koma fram við okkur.

20. Hvers vegna verður kærleikur til Guðs og náungans allsráðandi í nýja heiminum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

20 Þjónar Jehóva þurfa að sýna á öllum sviðum lífsins að þeir elska Jehóva og náungann. Jafnvel þó að sumir séu ekki jákvæðir gagnvart fagnaðarerindinu sýnum við náungakærleika ef þeir eru hjálparþurfi. Páll postuli skrifaði: „Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: ,Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,‘ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.“ (Rómv. 13:8-10) Þjónar Jehóva sýna sannan kærleika í þessum sundraða, ofbeldisfulla og illa heimi sem Satan stjórnar. (1. Jóh. 5:19) Kærleikurinn verður allsráðandi á jörðinni í nýja heiminum, eftir að Satan, illu andarnir og uppreisnargjarnir menn eru horfnir af sjónarsviðinu. Hugsaðu þér hvílík blessun það verður þegar allir jarðarbúar elska Guð og náungann!