Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kennið unglingnum að þjóna Jehóva

Kennið unglingnum að þjóna Jehóva

„Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.“ – LÚK. 2:52.

SÖNGVAR: 41, 89

1, 2. (a) Af hverju hafa sumir foreldrar áhyggjur þegar börnin þeirra nálgast unglingsárin? (b) Hvernig er hægt að nýta unglingsárin sem best?

 FÁTT gleður kristna foreldra meira en að sjá börnin sín skírast. „Þetta var mjög tilfinningarík stund. Við vorum auðvitað þakklát fyrir að börnin okkar skyldu ákveða að þjóna Jehóva,“ segir Berenice, móðir fjögurra barna sem skírðust öll fyrir fjórtán ára aldur. Hún bætir við: „En við vissum líka að börnin okkar ættu eftir að mæta mörgum erfiðleikum á unglingsárunum.“ Eflaust skilurðu vel áhyggjur Berenice ef barnið þitt er á unglingsaldri eða er að nálgast hann.

2 Sérfræðingur í þroska barna viðurkennir að unglingsárin geti reynt bæði á foreldrana og unglinginn en segir jafnframt: „Að vera unglingur þýðir ekki endilega að maður sé ,brjálaður‘ og ,óþroskaður‘. Unglingsárin eru mikilvægur tími sem einkennist af miklum tilfinningum, sköpunargleði og þörf fyrir félagsskap.“ Á þessum tíma geta börnin þín myndað sterkt vináttusamband við Jehóva, sett sér markmið, orðið færari í boðuninni og ákveðið af eigin frumkvæði að vígja sig Jehóva og lifa samkvæmt því. Unglingsárin geta verið mjög ánægjulegur tími þar sem börnin vaxa andlega líkt og Jesús gerði þegar hann var ungur. (Lestu Lúkas 2:52.) Hvert er hlutverk þitt sem foreldri á þessum mikilvægu mótunarárum? Hugleiddu hvernig Jesús sýndi kærleika, auðmýkt og næman skilning sem fullorðinn maður. Hvernig geta þessir eiginleikar hjálpað þér að kenna unglingnum þínum að þjóna Jehóva?

ELSKIÐ UNGLINGINN YKKAR

3. Hvers vegna gat Jesús kallað postulana vini sína?

3 Jesús var traustur og kærleiksríkur vinur. (Lestu Jóhannes 15:15.) Húsbændur á biblíutímanum voru ekki vanir að segja þjónum sínum frá hugsunum sínum og tilfinningum. Jesús reyndist hins vegar bæði vera húsbóndi og vinur trúfastra postula sinna. Hann varði tíma með þeim, sagði þeim frá því sem honum bjó í brjósti og hlustaði vandlega þegar þeir úthelltu hjarta sínu fyrir honum. (Mark. 6:30-32) Þessi hlýju tjáskipti mynduðu sterk bönd milli Jesú og postula hans og bjuggu þá undir verkefnin sem biðu þeirra í þjónustu Guðs.

4. Hvernig getið þið foreldrar verið vinir barna ykkar? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

4 „Sem foreldrar getum við ekki verið jafningjar barna okkar en við getum verið vinir þeirra,“ segir Michael, tveggja barna faðir. Vinir verja tíma saman. Hugleiddu hvort þú getir breytt vinnutíma þínum eða öðru til að geta varið meiri tíma með börnunum, og leggðu málið fyrir Jehóva í bæn. Vinir hafa líka sameiginleg áhugamál. Leggðu þig því fram um að hafa gaman af því sem unglingurinn hefur gaman af – uppáhaldstónlistinni hans, kvikmyndum eða íþróttum. Ilaria, sem býr á Ítalíu, segir: „Foreldrar mínir sýndu áhuga á tónlistinni sem ég hlustaði á. Satt að segja var pabbi besti vinur minn og mér fannst ég geta talað við hann um hvað sem er, jafnvel viðkvæm mál.“ Þótt þú sért vinur unglingsins og hjálpir honum að eignast náið vináttusamband við Jehóva afsalarðu þér ekki valdinu sem foreldri. (Sálm. 25:14) Þvert á móti sýnirðu unglingnum að þú elskar hann og virðir og auðveldar honum að leita til þín. Fyrir vikið er líklegra að hann segi þér frá því sem hann er að hugsa.

5. Hvernig hjálpaði Jesús lærisveinum sínum að upplifa gleðina sem hlýst af því að vera upptekinn í þjónustu Jehóva?

5 Jesús vildi að lærisveinar sínir og vinir fengju að upplifa gleðina sem hlýst af því að vera upptekinn í þjónustu Jehóva. Hann hvatti þá því til að leggja hart að sér. Jesús vildi að þeir yrðu ötulir við boðunina og fullvissaði þá hlýlega um að hann myndi hjálpa þeim í þessu starfi. – Matt. 28:19, 20.

6, 7. Hvers vegna er kærleiksríkt af foreldrum að sjá til þess að börnin hafi góða andlega dagskrá?

6 Þú vilt að unglingurinn þinn eigi náið samband við Jehóva. Og Jehóva vill að þú alir börnin þín upp „með aga og fræðslu um Drottin“. (Ef. 6:4) Þú þarft því að sjá til þess að börnin fái þessa fræðslu reglulega. Tökum dæmi: Þú vilt tryggja að börnin þín fái menntun af því að það er mikilvægt og þú vonast til að glæða með þeim löngun til að læra. Á svipaðan hátt vilja kærleiksríkir foreldrar tryggja að börnin þeirra fái „fræðslu um Drottin“ á samkomum, mótum og tilbeiðslustund fjölskyldunnar. Menntunin, sem þau fá frá Jehóva, er lífsnauðsynleg. Þess vegna reynirðu að vekja hjá þeim andlegan þorsta og hjálpa þeim að kunna að meta sanna visku. (Orðskv. 24:14) Þú getur hjálpað unglingnum í boðuninni rétt eins og Jesús hjálpaði lærisveinum sínum. Þú gerir það með því að vekja hjá honum löngun til að segja öðrum frá orði Guðs og hjálpa honum að halda góðri dagskrá í boðuninni.

7 Hvaða gagn hafa unglingar af því að hafa góða reglu á þjónustunni við Jehóva? Erin, sem býr í Suður-Afríku, viðurkennir: „Við börnin vældum oft og kvörtuðum yfir biblíunáminu, samkomum og boðuninni. Stundum gerðum við í því að trufla fjölskyldunámið til að komast undan því. En foreldrar okkar létu aldrei undan.“ Hún bætir við: „Þannig byggði ég upp gott úthald. Ef eitthvað truflar andlegu dagskrána núna langar mig að koma henni aftur í réttar skorður sem fyrst. Ég held að þessi löngun væri ekki til staðar ef foreldrar okkar hefðu ekki verið svona ákveðnir í að láta ekkert raska andlegu dagskránni. Ég er viss um að ef þau hefðu látið undan þætti mér mun auðveldara núna að sleppa samkomum eða öðru sem snýr að þjónustunni við Jehóva.“

KENNDU UNGLINGNUM AUÐMÝKT MEÐ FORDÆMI ÞÍNU

8. (a) Hvernig sýndi Jesús að hann viðurkenndi takmörk sín? (b) Hvaða áhrif hafði auðmýkt Jesú á lærisveina hans?

8 Þrátt fyrir að Jesús hafi verið fullkominn viðurkenndi hann auðmjúklega takmörk sín og að hann þyrfti á hjálp Jehóva að halda. (Lestu Jóhannes 5:19.) Lækkaði Jesús í áliti hjá lærisveinum sínum af því að hann sýndi auðmýkt? Alls ekki. Því meira sem hann reiddi sig á Jehóva þeim mun betur treystu lærisveinarnir honum. Síðar meir líktu þeir eftir auðmýkt Jesú. – Post. 3:12, 13, 16.

9. Hvaða áhrif getur það haft á unglinginn þegar þú biðst afsökunar og viðurkennir takmörk þín?

9 Við erum öll takmörkum háð og ólíkt Jesú erum við ófullkomin og okkur verður margt á. Þú þarft því að sýna auðmýkt og viðurkenna takmörk þín og mistök. (1. Jóh. 1:8) Hverjum myndirðu bera meiri virðingu fyrir, yfirmanni sem viðurkennir að hann hafi á röngu að standa þegar svo ber undir eða yfirmanni sem biðst ekki afsökunar? Unglingurinn ber örugglega virðingu fyrir þér ef hann heyrir þig biðjast afsökunar á mistökum þínum. Hann gæti líka lært að viðurkenna sín eigin mistök. „Við viðurkenndum mistök okkar þegar okkur varð eitthvað á og það auðveldaði börnunum að vera opinská við okkur þegar eitthvað bjátaði á,“ segir Rosemary sem á þrjú uppkomin börn. „Við gerðum okkur grein fyrir takmörkum okkar og kenndum því börnunum hvar bestu lausnirnar væri að finna. Þegar þau þurftu á hjálp að halda bentum við þeim alltaf á biblíutengdu ritin okkar og báðum með þeim.“

10. Hvernig sýndi Jesús auðmýkt þegar hann sagði fylgjendum sínum fyrir verkum?

10 Jesús hafði fullan rétt til að segja fylgjendum sínum fyrir verkum. En þar sem hann var auðmjúkur útskýrði hann oft hvers vegna hann gaf ákveðin fyrirmæli. Til dæmis sagði hann fylgjendum sínum ekki bara að leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis heldur bætti hann við: „Þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ Eftir að hafa sagt: „Dæmið ekki,“ gaf Jesús þessa ástæðu: „Svo að þér verðið ekki dæmd. Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmd verða.“ – Matt. 6:31 – 7:2.

11. Hvers vegna ættu foreldrar að rökstyðja reglur og ákvarðanir þegar það á við?

11 Gefðu ástæðu fyrir reglum eða ákvörðunum sem þú tekur ef það á við. Ef unglingurinn skilur hvernig þú hugsar er líklegra að hann sé fús til að hlýða. „Unglingar eiga auðveldara með að treysta foreldrum sínum ef þeir gefa ástæður fyrir ákvörðunum sínum. Þannig sjá unglingarnir að ákvarðanirnar eru ekki tilviljunarkenndar eða geðþóttalegar heldur sanngjarnar,“ segir Barry sem ól upp fjögur börn. Á unglingsárunum þroska börnin líka með sér hæfileikann til að rökhugsa. Barry segir: „Unglingar þurfa að læra að taka skynsamar ákvarðanir byggðar á rökum frekar en tilfinningum.“ (Sálm. 119:34) Þegar þú sýnir auðmýkt og rökstyður ákvarðanir þínar finnur unglingurinn að þú gerir þér grein fyrir að hann sé að þroskast. Hann lærir að rökhugsa og taka skynsamar ákvarðanir.

VERTU NÆMUR OG REYNDU AÐ SKILJA UNGLINGINN

12. Hvernig sýndi Jesús næman skilning þegar hann hjálpaði Pétri?

12 Jesús var næmur og skildi á hvaða sviðum lærisveinarnir þurftu á hjálp að halda. Pétri postula gekk gott eitt til þegar hann sagði Jesú að hlífa sjálfum sér til að komast hjá því að vera líflátinn. En Jesús skildi að orð Péturs vitnuðu um rangt hugarfar. Hvernig hjálpaði hann Pétri og hinum lærisveinunum? Fyrst leiðrétti hann Pétur. Síðan útskýrði hann hvernig færi fyrir þeim sem væru sérhlífnir en sagði líka hvaða blessun þeir hlytu sem sýndu fórnfýsi. (Matt. 16:21-27) Pétur lærði sína lexíu. – 1. Pét. 2:20, 21.

13, 14. (a) Hvað gæti gefið til kynna að unglingurinn þinn hafi ekki eins sterka trú og áður? (b) Hvernig geturðu verið næmur á þarfir sonar þíns eða dóttur og veitt þeim þá aðstoð sem þau þurfa?

13 Biddu Jehóva að gefa þér skilning svo að þú getir komið auga á svið þar sem unglingurinn þinn þarfnast aðstoðar. (Sálm. 32:8) Hvað gæti til dæmis gefið til kynna að barnið þitt hafi ekki jafn sterka trú og áður? Kannski er það ekki eins ánægt og það var, er gagnrýnið á trúsystkini eða virðist leyna einhverju fyrir þér. Ekki vera fljótur að álykta að það sé merki um að það lifi tvöföldu lífi og sé að gera eitthvað alvarlegt af sér. * Hins vegar ættirðu ekki heldur að hunsa slík merki eða hugsa að barnið sé bara að ganga í gegnum erfitt skeið.

Skapaðu tækifæri fyrir börnin þín til að eignast vini í söfnuðinum. (Sjá 14. grein.)

14 Spyrðu spurninga vingjarnlega og af virðingu líkt og Jesús gerði. Ef þú dregur vatnsfötu of hratt upp úr brunni missirðu hluta af vatninu á leiðinni. Ef þú ert of ágengur við unglinginn gætirðu sömuleiðis farið á mis við dýrmætt tækifæri til að skilja hvatir hans og hugsanir. (Lestu Orðskviðina 20:5.) Ilaria, sem vitnað var í fyrr í greininni, minnist þess að þegar hún var unglingur vildi hún verja meiri tíma með bekkjarfélögunum, en hún vissi að það var rangt. Hún segir: „Þessi innri barátta hafði áhrif á skapið, og foreldrar mínir skynjuðu það. Eitt kvöld sögðu þau einfaldlega að þau hefðu tekið eftir að ég virtist svolítið niðurdregin og spurðu mig hvað væri að. Ég brast í grát, sagði þeim hvernig mér liði og bað þau um hjálp. Þau föðmuðu mig, sögðust skilja mig og lofuðu að hjálpa mér.“ Foreldrar Ilariu byrjuðu strax að hjálpa henni að eignast nýja og góða vini í söfnuðinum.

15. Nefndu dæmi sem sýnir að Jesús var næmur í samskiptum við aðra.

15 Þótt Jesús sæi hvar lærisveinarnir þurftu að bæta sig var hann líka næmur á kosti þeirra. Þegar maður að nafni Natanael heyrði að Jesús væri frá Nasaret sagði hann: „Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?“ (Jóh. 1:46) Hvað hefði þér fundist um Natanael miðað við þessa athugasemd? Að hann væri gagnrýninn? Fordómafullur? Trúlaus? Jesús var næmur, sá hið góða í fari Natanaels og sagði um hann: „Hér er sannur Ísraelíti sem engin svik eru í.“ (Jóh. 1:47) Jesús gat lesið hjörtu og nýtti sér það til að sjá hið góða í fari annarra.

16. Hvernig geturðu hjálpað unglingnum þínum að þroska með sér góða eiginleika?

16 Þú getur ekki lesið hjörtu annarra en með hjálp Guðs geturðu sýnt skilning. Notarðu þennan hæfileika til að sjá hið góða í fari unglingsins? Enginn vill fá á sig þann stimpil að vera „vandræðagemlingur“. Segðu aldrei að sonur þinn eða dóttir sé „uppreisnarseggur“ eða „vandræðaunglingur“. Þú skalt ekki einu sinni hugsa það. Jafnvel þótt unglingnum gangi ekki svo vel skaltu láta hann vita að þú sjáir hvað í honum býr og sjáir að hann vilji gera það sem er rétt. Taktu eftir öllum framförum og þroskamerkjum, og hrósaðu honum. Hjálpaðu honum að vinna í góðum eiginleikum með því að gefa honum aukna ábyrgð þegar þú getur. Jesús hjálpaði lærisveinunum með þessum hætti. Um einu og hálfu ári eftir að Jesús hitti Natanael (einnig kallaður Bartólómeus) valdi hann hann sem postula sinn og hann reyndist verða ákafur fylgjandi hans. (Lúk. 6:13, 14; Post. 1:13, 14) Það er vont ef unglingnum finnst hann aldrei geta staðist væntingar annarra. Vertu því duglegur að hrósa honum og hvetja. Þannig stuðlarðu að því að honum finnist hann vera hæfur kristinn einstaklingur sem Jehóva getur notað.

KENNSLA SEM VEITIR ÓMÆLDA ÁNÆGJU

17, 18. Hverju máttu búast við ef þú leggur hart að þér við að kenna unglingnum þínum að þjóna Jehóva?

17 Sem foreldri líður þér kannski stundum eins og Páli postula sem var andlegur faðir margra. Hann upplifði „þrengingu og hjartans trega“ vegna ,þess mikla kærleiks‘ sem hann bar til andlegra barna sinna í Korintu. (2. Kor. 2:4; 1. Kor. 4:15) Victor, sem ól upp tvo syni og eina dóttur, segir: „Unglingsárin voru ekki auðveld. En góðu stundirnar yfirgnæfðu erfiðleikana. Með hjálp Jehóva gátum við verið nánir vinir barna okkar.“

18 Leggðu hart að þér við að kenna börnunum að þjóna Jehóva og haltu áfram að sýna þeim hve heitt þú elskar þau. Hugsaðu þér hve ánægjulegt það verður að sjá þau taka afstöðu með sannleikanum og halda sér trúfastlega við hann. – 3. Jóh. 4.