Byggðu upp fjölskylduna með fögrum orðum
Byggðu upp fjölskylduna með fögrum orðum
DAVÍÐ varð pirraðri með hverri mínútunni sem leið. Hann leit aftur og aftur á úrið þar sem hann beið í bílnum eftir Díönu, eiginkonu sinni. Þegar hún kom loksins út úr húsinu gat hann ekki haldið aftur af reiðinni lengur.
„Hvernig gastu látið mig bíða svona lengi?“ hreytti hann út úr sér. „Þú ert alltaf sein! Af hverju geturðu aldrei verið tilbúin á réttum tíma?“
Díana varð miður sín og hljóp grátandi inn aftur. Davíð vissi samstundis að honum hafði orðið á í messunni. Hann hafði bara gert illt verra með því að æsa sig. Hvað var nú til ráða? Hann drap á bílnum, andvarpaði djúpt og gekk hægt inn á eftir Díönu.
Dæmi sem þetta gæti alveg átt sér stað í veruleikanum. Hefur þig einhvern tíma langað til að taka orð þín aftur? Þegar við tölum án þess að hugsa segjum við oft eitthvað sem við sjáum svo eftir. Það er ekki að ástæðulausu sem Biblían segir: „Hjarta hins réttláta íhugar, hverju svara skuli.“ — Orðskviðirnir 15:28.
En það getur verið erfitt að hugsa skýrt áður en við tölum, sérstaklega ef við erum reið, hrædd eða særð. Og þegar nánir ættingjar eiga í hlut geta allar tilraunir til að tjá tilfinningar sínar hæglega breyst í ásakanir eða gagnrýni. Þá gætum við auðveldlega sagt eitthvað sem særir eða komið af stað rifrildi.
Hvað er hægt að gera til að ná betri árangri? Hvernig getum við komið í veg fyrir að tilfinningarnar nái yfirhöndinni? Það má finna góð ráð hjá biblíuritaranum Salómon.
Hvað áttu að segja og hvernig?
Í biblíubók, sem nefnist Prédikarinn, er að finna athyglisverða umfjöllun um tilgangsleysi lífsins. Ljóst er að Salómon, ritari bókarinnar, hafði sterkar skoðanir á málinu. Hann sagði að sér væri „illa við lífið“ og kallaði það meira að segja ‚aumasta hégóma‘. (Prédikarinn 2:17; 12:8) En bókin er samt ekki upptalning á vonbrigðum Salómons. Hann taldi ekki viðeigandi að segja bara frá því neikvæða í lífinu. Í niðurlagi bókarinnar segist hann hafa reynt að finna „fögur orð, og . . . sannleiksorð“. (Prédikarinn 12:10) Í annarri biblíuþýðingu segir að hann hafi „reynt að skýra þetta sem best og nákvæmast“. — Contemporary English Version.
Salómon gerði sér greinilega ljóst að hann varð að hafa stjórn á tilfinningunum. Það má segja að hann hafi spurt sig í sífellu: „Er það sem ég ætla að segja satt og rétt? Myndu þessi
orð hljóma fögur og viðeigandi í eyrum annarra?“ Með því að leita að fögrum sannleiksorðum gat hann komið í veg fyrir að tilfinningarnar villtu honum sýn.Árangurinn er ekki aðeins bókmenntalegt meistaraverk heldur einnig uppspretta guðlegrar visku um tilgang lífsins. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Gæti aðferð Salómons við að nálgast tilfinningalega viðkvæm mál komið okkur að gagni í samskiptum við ástvini okkar? Tökum dæmi.
Lærðu að hafa hemil á tilfinningunum
Hugsum okkur að ungur strákur komi niðurlútur heim úr skólanum með einkunnirnar sínar. Faðir hans rennir augunum yfir þær og sér að strákurinn hefur fallið í einu fagi. Hann snöggreiðist og hugsar til þess hve oft strákurinn hefur frestað heimavinnunni. Honum er skapi næst að hreyta út úr sér: „Þú ert bara latur! Með þessu áframhaldi verður ekkert úr þér.“
Áður en faðirinn lætur reiði hafa áhrif á viðbrögð sín ætti hann að spyrja sig: „Er það sem ég hugsa satt og rétt?“ Þessi spurning getur hjálpað honum að gera greinarmun á tilfinningum og staðreyndum. (Orðskviðirnir 17:27) Verður virkilega ekkert úr syninum vegna þess að hann á erfitt með eitt fag? Er hann latur að eðlisfari eða frestar hann ef til vill heimavinnunni af því að þetta fag vefst fyrir honum? Biblían leggur margoft áherslu á mikilvægi þess að vera sanngjarn og raunsær. (Títusarbréfið 3:2; Jakobsbréfið 3:17) Til að byggja barn upp verða foreldrar að tala „sannleiksorð“.
Leitaðu að réttu orðunum
Þegar faðirinn hefur ákveðið hvað hann ætlar að segja gæti hann spurt sig: „Hvernig get ég valið orð sem syni mínum þykja fögur og viðeigandi?“ Það er að vísu ekki auðvelt að finna réttu orðin. En foreldrar verða að muna að unglingar hafa tilhneigingu til að hugsa í svörtu og hvítu. Unglingar geta miklað fyrir sér ákveðinn veikleika eða mistök þannig að það stjórni því hvaða augum þeir líta sjálfa sig. Ef viðbrögð foreldranna eru of harkaleg getur það ýtt undir neikvæðar hugsanir hjá barninu. Í Kólossubréfinu 3:21 segir: „Feður, verið ekki höstugir við börn ykkar, það gerir þau ístöðulaus.“ — Biblían 2007.
Orð eins og „alltaf“ og „aldrei“ eru til þess fallin að alhæfa eða ýkja staðreyndir. Hvernig getur barn haldið sjálfsvirðingunni ef foreldri segir: „Það á aldrei eftir að verða neitt úr þér“? Ef barnið fær oft að heyra eitthvað þessu líkt gæti það farið að trúa því að það sé algerlega misheppnað. Og það er ekki bara niðurdrepandi heldur líka ósatt.
Það er yfirleitt betra að leggja áherslu á jákvæðu hliðarnar. Faðirinn í dæminu gæti sagt eitthvað á þessa leið: „Ég sé að þú ert miður þín vegna þess að þú féllst í einu fagi. Ég veit að þú ert yfirleitt duglegur að læra. Eigum við að ræða um þetta fag og finna leið til að ná tökum á þessu?“ Til að kanna hvernig best sé að hjálpa syninum gæti faðirinn líka spurt ýmissa spurninga til að sjá hvort einhver önnur vandamál búi að baki.
Það er miklu vænlegra til árangurs að vera vingjarnlegur í viðmóti og íhuga fyrir fram hvað maður eigi að segja en að bregðast harkalega við. „Vingjarnleg orð eru . . . sæt fyrir sálina, lækning fyrir beinin,“ segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 16:24) Börnin dafna best í friðsælu og ástríku umhverfi og það sama má reyndar segja um alla í fjölskyldunni.
„Af gnægð hjartans“
Hugsaðu aftur um eiginmanninn í byrjun greinarinnar. Hefði ekki verið betra ef hann hefði gefið sér tíma til að finna „fögur . . . sannleiksorð“ frekar en að hella sér yfir konuna sína? Eiginmaður í þessari stöðu ætti að spyrja sjálfan sig: „Er rétt að segja að konan mín sé alltaf sein þótt hún mætti vissulega Orðskviðirnir 29:11.
vera stundvísari? Er þetta besti tíminn til að ræða málið? Hvet ég hana til að bæta sig með því að rífast og skammast?“ Ef við stöldrum við og veltum svona spurningum fyrir okkur getum við komið í veg fyrir að særa óviljandi þá sem okkur þykir vænt um. —En segjum að umræður í fjölskyldunni endi aftur og aftur í rifrildi. Þá þurfum við ef til vill að skyggnast undir yfirborðið og kanna hvaða tilfinningar liggi að baki orðavali okkar. Það sem við segjum, sérstaklega þegar við erum áhyggjufull eða undir álagi, gefur ýmislegt til kynna um okkar innri mann. Jesús sagði: „Af gnægð hjartans mælir munnurinn.“ (Matteus 12:34) Með öðrum orðum endurspeglar orðavalið oft innstu hugsanir okkar, langanir og viðhorf.
Erum við raunsæ, jákvæð og bjartsýn að eðlisfari? Þá endurspeglast það líklega í orðum okkar og umræðum. Eða hættir okkur til að vera stíf, svartsýn eða dómhörð? Þá gætum við virkað letjandi á aðra með því sem við segjum eða hvernig við segjum það. Við gerum okkur ef til vill ekki grein fyrir hvað við erum orðin neikvæð í hugsun og tali. Við gætum jafnvel ímyndað okkur að sjónarmið okkar sé það rétta. En við verðum að varast að blekkja sjálf okkur. — Orðskviðirnir 14:12.
Sem betur fer höfum við orð Guðs, Biblíuna. Hún getur hjálpað okkur að rannsaka hugsanir okkar og meta hverjar séu réttar og hverjar þurfi að leiðrétta. (Hebreabréfið 4:12; Jakobsbréfið 1:25) Óháð því hvaða einkenni við höfum fengið í vöggugjöf eða hvernig við höfum verið alin upp getum við öll breytt hegðun okkar og hugsunarhætti ef við viljum það í raun og veru. — Efesusbréfið 4:23, 24.
Auk þess að nota Biblíuna getum við gert fleira til að leggja mat á hvernig við tjáum okkur. Við getum einfaldlega spurt aðra. Þú gætir til dæmis beðið eiginkonu þína eða barn að segja þér hreinskilnislega hvernig þú standir þig á þessu sviði. Og þú gætir talað við þroskaðan vin sem þekkir þig vel. Það kostar auðmýkt að kyngja því sem þau hafa að segja og gera þær breytingar sem þarf.
Hugsaðu áður en þú talar
Ef við viljum forðast að særa aðra með orðum okkar verðum við í stuttu máli að gera eins og segir í Orðskviðunum 16:23: „Hinir vitru hugsa áður en þeir tala, þá eru orð þeirra meira sannfærandi.“ (Today’s English Version) Það er ekki alltaf auðvelt að hafa stjórn á tilfinningunum. En ef við reynum að skilja aðra frekar en að ásaka þá eða gera lítið úr þeim er auðveldara að finna réttu orðin þegar við tjáum okkur.
En auðvitað erum við öll ófullkomin. (Jakobsbréfið 3:2) Og stundum segjum við eitthvað í hugsunarleysi. (Orðskviðirnir 12:18) En með hjálp Biblíunnar getum við lært að hugsa áður en við tölum og að setja tilfinningar og hagsmuni annarra framar okkar eigin. (Filippíbréfið 2:4) Við skulum vera staðráðin í að finna „fögur . . . sannleiksorð“ og þá sérstaklega þegar við tölum við fjölskylduna. Þá særum við ekki þá sem við elskum eða brjótum þá niður með tali okkar heldur græðum og byggjum upp. — Rómverjabréfið 14:19.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Hvernig geturðu forðast að segja eitthvað sem þú sérð svo eftir?