Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Einstakur faðir

Einstakur faðir

Nálægðu þig Guði

Einstakur faðir

Matteus 3:16, 17

„FAÐIR.“ Það eru ekki mörg orð sem vekja eins djúpar tilfinningar hjá okkur og þetta orð. Faðir, sem elskar börnin sín, hjálpar þeim að vaxa og dafna. Það er ekki að ástæðulausu að Jehóva Guð er kallaður „faðir“ í Biblíunni. (Matteus 6:9) Hvers konar faðir er hann? Til að svara því skulum við skoða hvað hann sagði við Jesú þegar Jesús lét skírast. Það hvernig faðir talar við börnin sín segir nefnilega mikið til um hvers konar foreldri hann er.

Haustið 29 fór Jesús að ánni Jórdan til að láta skírast. Biblían segir frá því sem gerðist: „Þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: ‚Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.‘“ * (Matteus 3:16, 17) Þessi blíðu orð, sem komu frá Jehóva sjálfum, segja okkur margt um það hvers konar faðir hann er. Lítum á þrennt sem Jehóva tjáði syni sínum með þessum orðum.

Í fyrsta lagi sagði Jehóva: „Þessi er minn elskaði sonur.“ Hann var í rauninni að segja: ‚Ég er mjög stoltur yfir því að vera faðir þinn.‘ Góður faðir uppfyllir þörf barna sinna fyrir viðurkenningu og athygli. Börn þurfa að fá fullvissu um að þau séu hluti af fjölskyldunni. Hugsaðu þér hvað Jesú — jafnvel sem fullvaxta manni — hlýtur að hafa þótt innilega vænt um að fá slíka viðurkenningu frá föður sínum.

Í öðru lagi sagði Jehóva að sonur sinn væri ‚elskaður‘ og tjáði þannig opinberlega hve vænt honum þætti um hann. Hann var í rauninni að segja: ‚Ég elska þig.‘ Góður faðir segir börnum sínum að hann elski þau. Slík orð ásamt eðlilegri ástúð geta hjálpað börnum að vaxa og dafna. Það hlýtur að hafa snert Jesú djúpt að heyra föður sinn tjá væntumþykju sína.

Í þriðja lagi lýsti Jehóva yfir að hann hefði „velþóknun“ á syni sínum. Það var eins og Jehóva væri að segja: ‚Sonur minn, ég er ánægður með það sem þú hefur gert.‘ Umhyggjusamur faðir leitast við að láta börnin sín vita að hann sé ánægður með það góða sem þau segja eða gera. Börnum eykst styrkur og hugrekki þegar foreldrarnir tjá þeim velþóknun sína. Það hefur örugglega hvatt Jesú til dáða að heyra að hann hefði velþóknun föður síns.

Það má með sanni segja að Jehóva sé einstakur faðir. Þráir þú að eiga slíkan föður? Þá er hughreystandi fyrir þig að vita að þú getur eignast samband við Jehóva. Ef þú aflar þér þekkingar á honum og reynir í einlægni að gera vilja hans mun það bera árangur. Biblían segir: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ (Jakobsbréfið 4:8) Hvað getur veitt þér meiri öryggistilfinningu en náið samband við Jehóva Guð, besta föður sem hugsast getur?

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Samkvæmt samstofna frásögu í Lúkasarguðspjalli notaði Jehóva fornafnið „þú“ og sagði: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“ — Lúkas 3:22.