Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fólk um allan heim biður sömu bænar

Fólk um allan heim biður sömu bænar

Fólk um allan heim biður sömu bænar

ÍMYNDAÐU þér hundruð milljóna, jafnvel milljarða manna, sem biðja allir um það sama. Þeir biðja æðsta yfirvald í alheiminum um að verða við ákveðinni bón. Fæstir vita þó hvað þeir eru að biðja um. Gæti þetta gerst í alvörunni? Já, þetta gerist reyndar á hverjum degi. Hvað er allt þetta fólk að biðja um? Það er að biðja um að ríki Guðs komi.

Sumir áætla að til séu um 37.000 trúfélög sem kalla sig kristin og líta á Jesú Krist sem leiðtoga sinn. Meira en tveir milljarðar manna tilheyra þessum trúfélögum. Stór hluti þeirra fer með bæn sem er oft kölluð faðirvorið. Þekkirðu hana? Jesús kenndi fylgjendum sínum þessa bæn en hún hefst á orðunum: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:9, 10.

Í margar aldir hefur kristið fólk farið með þessa bæn af mikilli lotningu við guðsþjónustur í kirkjum. Fólk hefur líka farið með hana ásamt fjölskyldunni og í einrúmi, bæði þegar vel gengur og þegar á móti blæs. Þeir hafa beðið þessarar bænar í einlægni og jafnvel af mikilli tilfinningu. Aðrir hafa lært hana utanbókar og þylja hana án þess að hugsa mikið um þýðingu orðanna. En meðlimir kristinna trúfélaga eru ekki þeir einu sem hafa vonast eftir að ríki Guðs komi og beðið þess í bænum sínum.

Bæn margra trúarbragða

Gyðingar eiga sér þekkta sorgarbæn sem kölluð er Kaddish. Þótt hún fjalli ekki beinlínis um dauða eða sorg er hún oft beðin á sorgartímum. Í bæninni segir: „Megi hann [Guð] stofna ríki sitt meðan þú lifir . . . með hraði.“ * Í annarri fornri samkundubæn er talað um vonina um ríki Messíasar sem koma skuli af ætt Davíðs.

Önnur trúarbrögð, sem eru ekki kristin, hafa heillast af hugmyndinni um ríki Guðs. Á 19. öldinni hafði þekktur trúarleiðtogi á Indlandi mikinn áhuga á því að sameina trúarhugmyndir hindúa, múslima og kristinna manna. Hann sagði samkvæmt The Times of India: „Hið sanna ríki Guðs mun ekki verða að veruleika fyrr en austrið og vestrið sameinast.“ Og skólastjóri íslamsks framhaldsskóla í Strathfield í Ástralíu skrifaði nýverið bréf til fréttablaðs þar í landi: „Ég trúi því, líkt og allir múslímar, [að] Jesús eigi eftir að koma aftur og stofna hið eina sanna ríki Guðs.“

Það er ljóst að milljarðar manna vona á ríki Guðs og biðja um það. En lítum á athyglisverða hlið málsins.

Þú veist líklega að við Vottar Jehóva, sem gefum út þetta blað, förum hús úr húsi í hverfinu þínu til að tala við fólk um Biblíuna. Þegar þetta er skrifað störfum við í 236 löndum á yfir 400 tungumálum. Aðalumræðuefni okkar við fólk er ríki Guðs. Þetta blað heitir meira að segja fullu nafni Varðturninn kunngerir ríki Jehóva. Við spyrjum fólk oft hvort það biðji um þetta ríki. Margir svara því játandi. En þegar spurt er hvað þetta ríki sé gefa svör flestra til kynna að þeir viti það ekki eða svörin eru óljós og óskýr.

Hvers vegna biðja svona margir um að ríki Guðs komi fyrst þeir vita ekki hvað það er? Er það vegna þess að ríki Guðs sé flókið og óljóst fyrirbæri? Nei, í Biblíunni er útskýrt á mjög skýran og nákvæman hátt hvað ríki Guðs er. Og það sem meira er, boðskapur Biblíunnar um þetta ríki getur gefið þér örugga framtíðarvon á þessum myrku tímum sem við lifum á. Í næstu grein verður fjallað um hvað Biblían segir um þessa von. Síðan verður rætt um hvenær bæn Jesú verði svarað og ríki Guðs komi.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Í Kaddish-bæninni er beðið um að nafn Guðs sé helgað líkt og í faðirvorinu sem Jesús kenndi. Þótt deilt sé um hvort Kaddish sé frá dögum Krists eða jafnvel eldri ætti það ekki að koma okkur á óvart að eitthvað sé líkt með þessum bænum. Bæn Jesú átti ekki að vera byltingarkennd eða koma einhverjum nýjum sannleik á framfæri. Hver liður í bæninni átti sér sterkar rætur í ritningunum sem allir gyðingar höfðu aðgang að. Jesús var að hvetja samlanda sína til að biðja um hluti sem þeir hefðu átt að biðja um frá fornu fari.